þriðjudagur, september 30, 2003

Alltaf eitthvað nýtt

Ég er alltaf að koma mömmu á óvart með einhverju nýju sem ég er búin að læra hjá dagmömmunni. Til dæmis er ég farin að kunna smá hreyfingar við lagið um hérahjónin, ég kann að hneggja eins og hestur og láta bíla keyra. Í gær lærði ég nýtt orð hjá dagmömmunni, bih-pí. Ég veit ekki alveg hvað þýðir ennþá, en á meðan ég kemst að því ætla ég bara að prófa að nota það um sem flesta hluti.

fimmtudagur, september 25, 2003

Og líka:

hæ, jæja og æjæjæj

Orðaforði

Það sem ég kann að segja núna:
mamma
babbi
dudda
datt
takk
namm
nei
dess (kex)
di (bolti)
da (mark)
ma-e-mamma (hvar er mamma/pabbi/Sigurður Pétur)
e-eh (viltu rétta mér eitthvað sem er einhvers staðar/fara með mig eitthvert/gera eitthvað)

miðvikudagur, september 24, 2003

Úbbs

Ég er nú meiri dóninn, ég steingleymdi að segja takk allir fyrir komuna í afmælið mitt og takk fyrir allar gjafirnar.

mánudagur, september 22, 2003

Þá er það búið

Jájá, þá er fyrsta afmælisveislan mín búin. Hún tókst mjög vel, við vorum öll alveg hæstánægð með daginn. Það kom fullt af fólki og margir krakkar að leika við mig. Ég var með afmæliskórónuna mína sem dagmamman bjó til handa mér og allir sungu fyrir mig og svo hámaði ég í mig gulrótarköku. Svo fékk ég fullt af pökkum, ægilega fín föt og skemmtilegar bækur. Mamma er búin að setja myndir úr afmælinu og líka fleiri myndir frá því í haust hér. Áðan komu síðan vinkonur mömmu, þær Siggadís og Ásta og hjálpuðu okkur að klára kökurnar og gáfu mér meira að segja pakka líka. Þetta er búið að vera mjög skemmtilegt allt saman og ég er bara strax farin að hlakka til að eiga aftur afmæli.

sunnudagur, september 21, 2003

Er núna kominn dagur?

Þetta er nú meira óveðrið, ég vaknaði við lætin klukkan hálffimm og gat bara ómögulega sofnað aftur. Mamma var eitthvað að tala um hánótt og sofa, en ég var bara svöng og vildi fá minn morgunmat. Svo ég fékk hafragraut og svo sat ég í smástund í stólnum mínum með snuddu og teppi og horfði á Stubbana. Það var ósköp notalegt. Mamma bakaði köku á meðan en ég má ekki smakka hana fyrr en í veislunni á eftir, mér fannst það frekar fúlt. En ég fékk einn snúð í sárabætur. Já ég fæ semsagt afmælisveislu á eftir. Þá ætla ég að vera með kórónuna mína sem ég fékk hjá dagmömmunni, það verður gaman. Í gær fór ég til Silju frænku og Hauks og Péturs frænda í pössun, ég átti að vera þar allan daginn en svo komu pabbi og mamma bara og náðu í mig þegar ég var búin að leggja mig í nýju kerrunni, það var hætt við óvissuferðina sem þau ætluðu í. En svo fórum við aftur til þeirra um kvöldið og þá fékk að leika meira við frændsystkini mín. Það fannst mér sko fjör, aðallega samt að klifra í stiganum þeirra, það er nefnilega alltaf lokað fyrir stigann minn svo ég get ekki klifrað í honum. Jæja, ég ætti kannski bara að fara að leggja mig, ég er nú hálfsybbin eitthvað.

föstudagur, september 19, 2003

Takk fyrir mig

Takk fyrir allar kveðjurnar sem ég fékk í gær og takk Sigurður Pétur, pabbi og mamma, afi og amma, Sunna frænka og Þórður frændi fyrir gjafirnar, ég var rosalega ánægð með þær allar saman. Pabbi og mamma keyptu nýja kerru handa mér, hún er rosalega flott með stórum loftdekkjum og mjúk og hlý og notaleg. Svo gáfu þau og Sigurður Pétur mér ótrúlega flott sparkhjól með frábærri rokktónlist og boltum sem ég get hent um allt og öskrað maaah! (mark). Svo komu afi og amma með yndislega tuskudúkku handa mér, hún er risastór með sítt hár í fléttum og allt, algjört æði. Svo ætla þau líka að gefa mér ný föt, vá hvað ég hlakka til, ég er nefnilega vaxin upp úr öllum fötunum mínum. Og Sunna og Þórður gáfu mér xylofón til að spila á og orðabók fyrir eins árs. Við Sigurður Pétur vorum með smá tónleika á xylofóninum í morgun, það var sko fjör! Svo ætlar mamma að lesa fyrir mig bókina og kenna mér öll orðin.

fimmtudagur, september 18, 2003

Ég á afmæli í dag...

...ég á afmæli í dag, ég er afmælispæja, ég er eins árs í dag. Húrraaaaaa! Ég var svo spennt að ég vaknaði klukkan korter yfir sex, annars er ég farin að sofa alltaf til sjö og alveg hætt að súpa hjá mömmu. Ég reyndar sakna þess stundum svolítið, sérstaklega þegar ég vakna svona snemma eins og í morgun. Ég held að mamma sakni þess pínu líka en ég er nú orðin svo stór, ég get ekki haldið þessu áfram endalaust. Ég fékk ný föt í morgun til að fara í til dagmömmunnar, og ég fékk að fara með snúða með mér til að gefa hinum börnunum. Svo segir mamma að ég fái pakka á eftir, ég veit nú ekkert hvað það er, en það kemur í ljós. Hins vegar veit ég hvað mjög margt er núna, ég er rosalega dugleg að taka framförum í málþroska og skilningi þessa dagana. Ég kann að benda á auga og tungu, kann að segja ma-e-mamma (hvar er pabbi) og ef mamma segir hvar er snudda þá svara ég datt, enda er snuddan yfirleitt dottin. Svo finnst mér rosalega fyndið ef ég hristi hausinn eða rek út úr mér tunguna og einhver hermir eftir mér, það er uppáhaldsleikurinn minn núna. Af heilsufarinu er það að frétta að ég er laus við eyrnabólguna en ennþá með vökva í öðru eyranu og þarf að láta líta á það eftir einn og hálfan mánuð. Og ég er ennþá með hósta svo nú er mamma að reyna að troða í mig hóstasaft. Alveg er ég að klikkast á þessu, alltaf verið að troða einhverju ógeði í mann með þessari andstyggðar sprautu. En mamma lofar að þetta verði bara í nokkra daga og þá tekst mér vonandi að losna bara við þetta.

miðvikudagur, september 10, 2003

Pampers barnið

Jæja, þá er það komið á hreint, Pampers barnið er ég! Alltaf þegar hún Rebekka, tveggja ára gömul dóttir dagmömmunnar minnar, sér Pampers blautklútapakka þá bendir hún á myndina og segir "Þarna er Rósa".

Allt á öðrum endanum

Það er búið að ganga á ýmsu síðan ég skrifaði hérna síðast skal ég segja ykkur. Ég fór til læknisins aftur út af eyrunum mínum, mamma þurfti að sækja mig til dagmömmunnar á miðvikudaginn af því að ég var svo ómöguleg. Þá var ég komin með smá eyrnabólgu, og á föstudaginn var ég komin með meiri eyrnabólgu svo þá fékk mamma sýklalyf til að reyna að troða í mig. Það gengur nú ekkert sérlega vel hjá henni, það liggur við að ég þurfi að fara í bað eftir hvert skipti, öll útklístruð um hárið og eyrun og hálsinn og um allt. En mér tekst alla vega að komast hjá því að kyngja nema hluta, og það er nú fyrir mestu. Um helgina fórum við svo í Víðihlíð, þar var fullt af fólki að smíða og gera allt mögulegt. Það var mikið fjör og mikið um að vera, en ég var hálfómöguleg og naut mín ekki almennilega. Enda var ég lasin, bæði með í eyrunum og svo á laugardagskvöldið fór ég bara að gubba alveg endalaust. Það var nú meira, öll fötin mín orðin skítug, og mömmu föt líka. Mér tókst líka að gubba yfir afa og einhverja fleiri held ég. Og mér tókst líka að smita alla vega átta af þeim tíu sem voru þarna um kvöldið, nokkuð vel af sér vikið. Mamma greyið var voðalega lasin á mánudaginn, pabbi var heima að passa okkur því ég var líka pínu lasin ennþá. En við erum nú báðar orðnar nokkuð hressar núna, ég vona bara að Sunna frænka og afi og allir hinir sem ég smitaði séu að verða hressir líka.

miðvikudagur, september 03, 2003

þriðjudagur, september 02, 2003

Fjallageit

Þá er ég búin að fara í fyrstu almennilegu jeppaferðina mína. Við fórum fyrst í Kerlingarfjöll og gistum þar á föstudagskvöldið, keyrðum svo í Gljúfurleit á laugardaginn og gistum þar, og svo heim á sunnudaginn með viðkomu í Víðihlíð. Amma Inga Rósa og afi Guðmundur voru með okkur í ferðinni, og líka Ásta frænka og Haukur. Þetta var afskaplega hreint skemmtilegt, ég var náttúrulega mjög dugleg og góð í bílnum, svaf bara þó bíllinn hossaðist til og frá. Mér fannst samt skemmtilegra þegar við vorum ekki að keyra og ég fékk að fara út að leika mér. Ég fékk líka fullt af stórum krækiberjum, rosalega eru þau góð! Og líka hrátt hangikjöt, namminamm, þá varð ég sko grimm og öskraði á meira. En toppurinn var samt þegar ég fann upp skemmtilegasta og fyndnasta leik í heimi, nefnilega að láta plastglas skoppa. Ég fékk alveg hláturskast, henti glasinu aftur og aftur í borðið þannig að það skoppaði til og frá, og hló og hló og hló. Allt fullorðna fólkið skellihló líka, enda var þetta ótrúlega fyndinn og sniðugur leikur. Svo sá ég kindur, það fannst mér líka gaman. Og bráðfyndið fannst mér þegar mamma fór að jarma á þær (eða mela eins og Sigurður Pétur kallaði það þegar hann var yngri). Ég vona að ég eigi eftir að fara í margar svona ferðir.