þriðjudagur, september 02, 2003

Fjallageit

Þá er ég búin að fara í fyrstu almennilegu jeppaferðina mína. Við fórum fyrst í Kerlingarfjöll og gistum þar á föstudagskvöldið, keyrðum svo í Gljúfurleit á laugardaginn og gistum þar, og svo heim á sunnudaginn með viðkomu í Víðihlíð. Amma Inga Rósa og afi Guðmundur voru með okkur í ferðinni, og líka Ásta frænka og Haukur. Þetta var afskaplega hreint skemmtilegt, ég var náttúrulega mjög dugleg og góð í bílnum, svaf bara þó bíllinn hossaðist til og frá. Mér fannst samt skemmtilegra þegar við vorum ekki að keyra og ég fékk að fara út að leika mér. Ég fékk líka fullt af stórum krækiberjum, rosalega eru þau góð! Og líka hrátt hangikjöt, namminamm, þá varð ég sko grimm og öskraði á meira. En toppurinn var samt þegar ég fann upp skemmtilegasta og fyndnasta leik í heimi, nefnilega að láta plastglas skoppa. Ég fékk alveg hláturskast, henti glasinu aftur og aftur í borðið þannig að það skoppaði til og frá, og hló og hló og hló. Allt fullorðna fólkið skellihló líka, enda var þetta ótrúlega fyndinn og sniðugur leikur. Svo sá ég kindur, það fannst mér líka gaman. Og bráðfyndið fannst mér þegar mamma fór að jarma á þær (eða mela eins og Sigurður Pétur kallaði það þegar hann var yngri). Ég vona að ég eigi eftir að fara í margar svona ferðir.

Engin ummæli:

Skrifa ummæli