miðvikudagur, september 10, 2003
Allt á öðrum endanum
Það er búið að ganga á ýmsu síðan ég skrifaði hérna síðast skal ég segja ykkur. Ég fór til læknisins aftur út af eyrunum mínum, mamma þurfti að sækja mig til dagmömmunnar á miðvikudaginn af því að ég var svo ómöguleg. Þá var ég komin með smá eyrnabólgu, og á föstudaginn var ég komin með meiri eyrnabólgu svo þá fékk mamma sýklalyf til að reyna að troða í mig. Það gengur nú ekkert sérlega vel hjá henni, það liggur við að ég þurfi að fara í bað eftir hvert skipti, öll útklístruð um hárið og eyrun og hálsinn og um allt. En mér tekst alla vega að komast hjá því að kyngja nema hluta, og það er nú fyrir mestu. Um helgina fórum við svo í Víðihlíð, þar var fullt af fólki að smíða og gera allt mögulegt. Það var mikið fjör og mikið um að vera, en ég var hálfómöguleg og naut mín ekki almennilega. Enda var ég lasin, bæði með í eyrunum og svo á laugardagskvöldið fór ég bara að gubba alveg endalaust. Það var nú meira, öll fötin mín orðin skítug, og mömmu föt líka. Mér tókst líka að gubba yfir afa og einhverja fleiri held ég. Og mér tókst líka að smita alla vega átta af þeim tíu sem voru þarna um kvöldið, nokkuð vel af sér vikið. Mamma greyið var voðalega lasin á mánudaginn, pabbi var heima að passa okkur því ég var líka pínu lasin ennþá. En við erum nú báðar orðnar nokkuð hressar núna, ég vona bara að Sunna frænka og afi og allir hinir sem ég smitaði séu að verða hressir líka.
Gerast áskrifandi að:
Birta ummæli (Atom)
Engin ummæli:
Skrifa ummæli