sunnudagur, september 21, 2003

Er núna kominn dagur?

Þetta er nú meira óveðrið, ég vaknaði við lætin klukkan hálffimm og gat bara ómögulega sofnað aftur. Mamma var eitthvað að tala um hánótt og sofa, en ég var bara svöng og vildi fá minn morgunmat. Svo ég fékk hafragraut og svo sat ég í smástund í stólnum mínum með snuddu og teppi og horfði á Stubbana. Það var ósköp notalegt. Mamma bakaði köku á meðan en ég má ekki smakka hana fyrr en í veislunni á eftir, mér fannst það frekar fúlt. En ég fékk einn snúð í sárabætur. Já ég fæ semsagt afmælisveislu á eftir. Þá ætla ég að vera með kórónuna mína sem ég fékk hjá dagmömmunni, það verður gaman. Í gær fór ég til Silju frænku og Hauks og Péturs frænda í pössun, ég átti að vera þar allan daginn en svo komu pabbi og mamma bara og náðu í mig þegar ég var búin að leggja mig í nýju kerrunni, það var hætt við óvissuferðina sem þau ætluðu í. En svo fórum við aftur til þeirra um kvöldið og þá fékk að leika meira við frændsystkini mín. Það fannst mér sko fjör, aðallega samt að klifra í stiganum þeirra, það er nefnilega alltaf lokað fyrir stigann minn svo ég get ekki klifrað í honum. Jæja, ég ætti kannski bara að fara að leggja mig, ég er nú hálfsybbin eitthvað.

Engin ummæli:

Skrifa ummæli