Hrrrmpf er það nú! Ég var búin að vera með rörin í viku þegar ég fékk kvef, og viku seinna kom svo í ljós að ég var komin með eyrnabólgu, þrátt fyrir rörin og að nefkirtlarnir væru farnir. Svo ég fór til læknis og fékk meðal, tók síðasta skammtinn af því í gær og núna er ég aftur komin með hita. Ábyggilega bara sama eyrnabólgan ennþá, ég fékk annað meðal en venjulega og það hefur kannski bara ekkert dugað. Alla vega fer ég til læknis á eftir og læt athuga málið.
Jæja, en svo ég segi nú frá einhverju skemmtilegu þá er ég nýkomin frá Akureyri, við pabbi og mamma voru í viku hjá afa og ömmu Dissennu (Giselu). Það var alveg ótrúlega skemmtilegt og ég lenti í mörgum ævintýrum. Ég fór að andapollinum og borðaði brauð (ég var miklu svengri en endurnar) og í sund (áður en ég fékk eyrnabólguna). Við fórum líka í bíltúr í Mývatnssveit og skoðuðum dýrin. Ég þóttist heldur betur ætla að klappa þeim, en ég var svo heppin að kindurnar og hestarnir vildu ekki láta klappa sér svo ég þurfti ekki að standa við það. Hins vegar vildu kýrnar og kálfarnir það alveg, en þá reyndist hjartað mitt aðeins of lítið, ég stökk bara um hálsinn á mömmu og sagðist vera búin að klappa þeim. Þetta var nú samt mjög gaman og mikið ævintýri. Svo fórum við líka í Námaskarð, mamma var nú alveg hissa hvað mér fannst það skemmtilegt. Það var alls staðar muuu eitt (mjög heitt) og skrýtin jörðin. Ég vildi sko skoða hvern einasta smápoll á svæðinu, mér fannst þetta svo spennandi.
Svo var náttúrulega aðaltilefni ferðarinnar, nefnilega ittla afa (veislan hans afa). Það var ótrúlega spennandi, ég fékk að fara í kjól og spariskó og fara í nýja safnið hans og borða margar kleinur og dansa í marga hringi. Það var troðfullt af fólki og sumt af því var víst meira að segja voða merkilegt. Þetta var sérdeilis ánægjulegt allt saman.
Jæja, þá þarf ég að drífa mig til læknisins. Meira síðar...
Engin ummæli:
Skrifa ummæli