sunnudagur, janúar 26, 2003
Ég gleymdi að segja að mamma er búin að fatta að það þarf bara að hafa grautinn nógu þunnan fyrir mig, þá fer hann alveg ofan í magann minn. Og svo gaf hún mér maltextrakt í grautinn og mér finnst það algjört æði! Húrra, nú þarf ég ekkert að borða meira af þessu ógeðslega sveskjumauki.
Þetta er nú meira hvað er alltaf mikið að gera hjá henni mömmu minni, hún má bara ekkert vera að því að skrifa fyrir mig. Í dag verður haldin afmælisveisla stóra bróður míns, hann verður 6 ára á morgun. Mamma og pabbi eru búin að vera alveg á fullu að sparsla og mála og setja upp ofna og eitthvað svona bull og vitleysu. Og svo auðvitað baka köku og gera salöt og ég veit ekki hvað. Svo fóru þau í þrítugsafmæli í gær og ætluðu að láta afa og ömmu passa mig, hah! Þegar ég fattaði að þau væru farin og ég fengi ekkert að drekka af brjóstinu, þá bara brjálaðist ég og orgaði eins hátt og ég gat á ömmu mína, ég alveg titraði sko. Ég vildi ekki graut og ekki pela og ekki einu sinni sjúga puttann á ömmu. Svo ætlaði hún að gefa mér mandarínu, en hún var ekki til svo hún prófaði að gefa mér appelsínu í staðinn. En hún var svo súr að ég alveg gretti mig og orgaði ennþá meira. Svo mamma og pabbi þurftu að koma úr afmælinu og hugga mig. Svo þegar ég var búin að jafna mig þá alveg brosti ég og hló og var hin kátasta. Ég er hins vegar búin að vera voða óþekk síðustu tvær nætur, vakna um miðja nótt og sparka í mömmu og svona. Hehe, hún er orðin svo þreytt að hún er alveg búin að vera en ég ætla sko ekkert að leyfa henni að sofa. Í gær fórum við aftur í sund, ég kafaði smá og það var mjög gaman. En mamma ætlar að fara að kaupa almennilegan bleikan sundbol handa mér, sundkennararnir halda alltaf að ég sé strákur. Svo sungu þau fullt af lögum, hjólin í strætó og litlu andarungana og allir krakkar, þetta var mjög skemmtilegt. Á fimmtudaginn fór ég í strætó með mömmu, við fórum að hitta mömmuklúbbinn. Mömmu finnst það voða gaman. Annars er hún farin að vera voða dugleg að vinna á meðan ég sef í vagninum, ég er nú alltaf svo góð að sofa í marga klukkutíma svo það er ekkert mál fyrir hana. Þá getur hún líka verið lengur heima að hugsa um mig og það finnst okkur alveg frábært. Á morgun förum við að skoða dagmömmuna sem ég fer sennilega til í júlí. Þá verð ég nú orðin alveg næstum 10 mánaða svo það verður bara fínt. Jæja, nú þarf mamma að klára að skreyta sjóræningjakökuna.
mánudagur, janúar 20, 2003
Ég er ekkert búin að velta mér aftur síðan um daginn, fyrst ég er búin að sýna hinum börnunum að ég kann það þá nenni ég því ekkert aftur. En ég fór hins vegar í sund á laugardaginn og það var sko frábært. Fyrst þegar ég kom ofan í leist mér ekki alveg á, en svo lagaðist það nú mjög fljótt og ég fékk bara hláturskast, mér fannst svo gaman. Ég svamlaði á fullu og skvetti stundum framan í mig óvart, mamma og pabbi létu mig fljóta á bakinu og maganum og það var rosalega gaman. Næst á ég svo að kafa, nú eiga mamma og pabbi að telja einn tveir þrír og skvetta svo framan í mig þegar ég er í baði. Mér finnst það nú ekkert spes, en jæja, maður lætur sig hafa það. Svo fór ég í afmæli hjá Elíasi í gær, það var ósköp fínt, fullt af strákum sem dáðust að mér því ég var eina stelpan. Og ég fór líka í matarboð á laugardagskvöldið, þetta er nú búin að vera meiri helgin. Nokkrar frænkur mínar og frændur komu í boðið til að hitta hann Jeff sem er í heimsókn frá Noregi hjá afa og ömmu í Hjallabrekku. Það var náttúrulega voða gaman og allir dáðust mikið að mér. Ég fæ alltaf núna smá sveskjumauk og svo graut á kvöldin. Mér finnst samt sveskjumaukið frekar ógeðslegt, mamma ætlar kannski bara frekar að prófa að setja maltextrakt í grautinn. En grauturinn finnst mér fínn, þó ég kunni ekki alveg ennþá að kyngja því sem fer upp í mig svo það lendir dálítið mikið út úr munninum aftur.
fimmtudagur, janúar 16, 2003
Ég kann að velta mér! Ég fór með mömmu að hitta internetmömmurnar og þegar ég sá öll þessi stóru og duglegu börn þá bara sá ég að ég mátti ekki vera minni manneskja og rúllaði mér tvisvar sinnum af maganum á bakið. Og mamma sem hélt að ég væri miklu frekar á leiðinni af bakinu á magann. Ég er ekkert smá montin sko! Eða kannski aðallega mamma... Jæja, hún fór sem sagt með mig í hitting, við fórum labbandi, eða mamma alla vega, ég lá náttúrulega bara í vagninum. Það er svolítill snjór sem kom í nótt en þetta var nú samt ekkert svo mikið mál, alla vega fannst mér það ekki. En þetta var voða gaman, gaman að sjá sig í samhengi við önnur lítil börn.
Annars fékk ég loksins sveskjumauk í gær. Mér fannst það alveg allt í lagi, en grauturinn er nú samt betri. Svo var ég með óttalegt vesen í gærkvöldi, en sofnaði svo um hálftólf í staðinn fyrir að ganga eitt eins og ég hef verið að gera undanfarið. Kannski þarf ég bara að fara fyrr í rúmið. Og talandi um það, mamma og pabba eru að hugsa um að fara að setja mig í barnarúmið, ég er eiginlega alveg vaxin upp úr vöggunni. Eða svona þannig, ég kemst alveg fyrir en það er svona orðið pínu þröngt, og svo fyrst ég er farin að velta mér líka þá er nú eiginlega kominn tími á alvöru rúm. Jæja, pabbi er kominn, við þurfum að drífa okkur að kaupa sundföt handa mér fyrir sundið á laugardaginn.
Annars fékk ég loksins sveskjumauk í gær. Mér fannst það alveg allt í lagi, en grauturinn er nú samt betri. Svo var ég með óttalegt vesen í gærkvöldi, en sofnaði svo um hálftólf í staðinn fyrir að ganga eitt eins og ég hef verið að gera undanfarið. Kannski þarf ég bara að fara fyrr í rúmið. Og talandi um það, mamma og pabba eru að hugsa um að fara að setja mig í barnarúmið, ég er eiginlega alveg vaxin upp úr vöggunni. Eða svona þannig, ég kemst alveg fyrir en það er svona orðið pínu þröngt, og svo fyrst ég er farin að velta mér líka þá er nú eiginlega kominn tími á alvöru rúm. Jæja, pabbi er kominn, við þurfum að drífa okkur að kaupa sundföt handa mér fyrir sundið á laugardaginn.
miðvikudagur, janúar 15, 2003
Oh, ég er svo mikil skvísa í dag að það er alveg agalegt. Ég er sko í dökkvínrauðri peysu sem fer mér svo vel að ég er bara algjör rúsína, og svo er ég sko í gallabuxum með smellu og rennilás. Og svo eru bönd um allt, rosalega smart sko. Eins gott að einhver komi í heimsókn að sjá mig. Stóri bróðir kemur alla vega á eftir, húrra það verður gaman.
Annars fékk ég ekkert sveskjumauk í gær, mamma ákvað að bíða með það einn dag í viðbót á meðan ég er að venjast grautnum. Svo hún borðaði bara súkkulaðirúsínur í staðinn, hemm hemm.
Annars fékk ég ekkert sveskjumauk í gær, mamma ákvað að bíða með það einn dag í viðbót á meðan ég er að venjast grautnum. Svo hún borðaði bara súkkulaðirúsínur í staðinn, hemm hemm.
þriðjudagur, janúar 14, 2003
Púff, eins gott að eiga góðan galla og svefnpoka, það er sko orðið ískalt úti. Mér líst ekkert á ef það verður 10 stiga frost um helgina, en ég verð samt að fá útilúrinn minn. Jæja, mamma hlýtur að finna eitthvað út úr því. Ég fékk meiri graut í gær, svona 5 teskeiðar, og bara borðaði hann með bestu lyst. Sumt fór náttúrulega út úr munninum en ekkert mjög mikið samt. Svo ætlar mamma að gefa mér sveskjumauk með grautnum í kvöld, svona til öryggis. Meira hvað ég er orðin stór. Svo fékk ég lánaðan stól hjá Silju frænku í gær sem ég fæ bráðum að sitja í, svona háan matarstól. Mamma og pabbi ætluðu að kaupa sundbol handa mér í gær, en þau voru bara ekki til í búðinni sem þau fóru í. Svo pabbi ætlar bara að fara í aðra búð, hann finnur örugglega eitthvað rosalega krúttlegt handa mér. Annars er varla á það bætandi, ég er svo mikið krútt að það er alveg að fara með fólk. Afi og amma í Hjallabrekku komu í gærkvöldi að kíkja aðeins á mig, ég var nú aldeilis kát með það. Og í fyrradag komu Ásta frænka og Heba til að fá aðeins að knúsa mig. Ég var líka mjög kát með það, mér finnst voða gaman að hitta skemmtilegt fólk og fá heimsóknir.
mánudagur, janúar 13, 2003
Halló, ég heiti Rósa Elísabet og mamma ætlar að reyna að vera dugleg að halda dagbók fyrir mig hérna. Núna er ég sofandi í vagninum mínum, mér finnst það ósköp gott og sef yfirleitt fjóra tíma í honum á daginn. Stundum fer ég meira að segja tvisvar í vagninn ef mamma er dugleg að fara snemma með mig á fætur. Ég er að verða fjögurra mánaða og smakkaði í fyrsta skipti graut í fyrradag. Mér fannst það bara fínt og var alveg dugleg að borða hann. Ég er ekki komin með tennur en er samt alltaf að slefa og naga hendurnar á pabba og mömmu. En ég er búin að gera það í tvo mánuði svo það hefur sennilega ekkert með tennur að gera. Um næstu helgi er ég að fara í sund, ég hlakka sko til, það verður örugglega gaman.
Gerast áskrifandi að:
Færslur (Atom)