Ég kann að velta mér! Ég fór með mömmu að hitta internetmömmurnar og þegar ég sá öll þessi stóru og duglegu börn þá bara sá ég að ég mátti ekki vera minni manneskja og rúllaði mér tvisvar sinnum af maganum á bakið. Og mamma sem hélt að ég væri miklu frekar á leiðinni af bakinu á magann. Ég er ekkert smá montin sko! Eða kannski aðallega mamma... Jæja, hún fór sem sagt með mig í hitting, við fórum labbandi, eða mamma alla vega, ég lá náttúrulega bara í vagninum. Það er svolítill snjór sem kom í nótt en þetta var nú samt ekkert svo mikið mál, alla vega fannst mér það ekki. En þetta var voða gaman, gaman að sjá sig í samhengi við önnur lítil börn.
Annars fékk ég loksins sveskjumauk í gær. Mér fannst það alveg allt í lagi, en grauturinn er nú samt betri. Svo var ég með óttalegt vesen í gærkvöldi, en sofnaði svo um hálftólf í staðinn fyrir að ganga eitt eins og ég hef verið að gera undanfarið. Kannski þarf ég bara að fara fyrr í rúmið. Og talandi um það, mamma og pabba eru að hugsa um að fara að setja mig í barnarúmið, ég er eiginlega alveg vaxin upp úr vöggunni. Eða svona þannig, ég kemst alveg fyrir en það er svona orðið pínu þröngt, og svo fyrst ég er farin að velta mér líka þá er nú eiginlega kominn tími á alvöru rúm. Jæja, pabbi er kominn, við þurfum að drífa okkur að kaupa sundföt handa mér fyrir sundið á laugardaginn.
Engin ummæli:
Skrifa ummæli