sunnudagur, janúar 26, 2003

Þetta er nú meira hvað er alltaf mikið að gera hjá henni mömmu minni, hún má bara ekkert vera að því að skrifa fyrir mig. Í dag verður haldin afmælisveisla stóra bróður míns, hann verður 6 ára á morgun. Mamma og pabbi eru búin að vera alveg á fullu að sparsla og mála og setja upp ofna og eitthvað svona bull og vitleysu. Og svo auðvitað baka köku og gera salöt og ég veit ekki hvað. Svo fóru þau í þrítugsafmæli í gær og ætluðu að láta afa og ömmu passa mig, hah! Þegar ég fattaði að þau væru farin og ég fengi ekkert að drekka af brjóstinu, þá bara brjálaðist ég og orgaði eins hátt og ég gat á ömmu mína, ég alveg titraði sko. Ég vildi ekki graut og ekki pela og ekki einu sinni sjúga puttann á ömmu. Svo ætlaði hún að gefa mér mandarínu, en hún var ekki til svo hún prófaði að gefa mér appelsínu í staðinn. En hún var svo súr að ég alveg gretti mig og orgaði ennþá meira. Svo mamma og pabbi þurftu að koma úr afmælinu og hugga mig. Svo þegar ég var búin að jafna mig þá alveg brosti ég og hló og var hin kátasta. Ég er hins vegar búin að vera voða óþekk síðustu tvær nætur, vakna um miðja nótt og sparka í mömmu og svona. Hehe, hún er orðin svo þreytt að hún er alveg búin að vera en ég ætla sko ekkert að leyfa henni að sofa. Í gær fórum við aftur í sund, ég kafaði smá og það var mjög gaman. En mamma ætlar að fara að kaupa almennilegan bleikan sundbol handa mér, sundkennararnir halda alltaf að ég sé strákur. Svo sungu þau fullt af lögum, hjólin í strætó og litlu andarungana og allir krakkar, þetta var mjög skemmtilegt. Á fimmtudaginn fór ég í strætó með mömmu, við fórum að hitta mömmuklúbbinn. Mömmu finnst það voða gaman. Annars er hún farin að vera voða dugleg að vinna á meðan ég sef í vagninum, ég er nú alltaf svo góð að sofa í marga klukkutíma svo það er ekkert mál fyrir hana. Þá getur hún líka verið lengur heima að hugsa um mig og það finnst okkur alveg frábært. Á morgun förum við að skoða dagmömmuna sem ég fer sennilega til í júlí. Þá verð ég nú orðin alveg næstum 10 mánaða svo það verður bara fínt. Jæja, nú þarf mamma að klára að skreyta sjóræningjakökuna.

Engin ummæli:

Skrifa ummæli