þriðjudagur, janúar 14, 2003

Púff, eins gott að eiga góðan galla og svefnpoka, það er sko orðið ískalt úti. Mér líst ekkert á ef það verður 10 stiga frost um helgina, en ég verð samt að fá útilúrinn minn. Jæja, mamma hlýtur að finna eitthvað út úr því. Ég fékk meiri graut í gær, svona 5 teskeiðar, og bara borðaði hann með bestu lyst. Sumt fór náttúrulega út úr munninum en ekkert mjög mikið samt. Svo ætlar mamma að gefa mér sveskjumauk með grautnum í kvöld, svona til öryggis. Meira hvað ég er orðin stór. Svo fékk ég lánaðan stól hjá Silju frænku í gær sem ég fæ bráðum að sitja í, svona háan matarstól. Mamma og pabbi ætluðu að kaupa sundbol handa mér í gær, en þau voru bara ekki til í búðinni sem þau fóru í. Svo pabbi ætlar bara að fara í aðra búð, hann finnur örugglega eitthvað rosalega krúttlegt handa mér. Annars er varla á það bætandi, ég er svo mikið krútt að það er alveg að fara með fólk. Afi og amma í Hjallabrekku komu í gærkvöldi að kíkja aðeins á mig, ég var nú aldeilis kát með það. Og í fyrradag komu Ásta frænka og Heba til að fá aðeins að knúsa mig. Ég var líka mjög kát með það, mér finnst voða gaman að hitta skemmtilegt fólk og fá heimsóknir.

Engin ummæli:

Skrifa ummæli