fimmtudagur, júlí 17, 2003
Eitt finnst okkur mömmu fyndið. Þegar hún kemur að sækja mig klukkan korter yfir eitt, þá eru yfirleitt sofandi unglingar eins og hráviði í grasinu á leiðinni. Stundum þegar er rigning, þá eru þau í appelsínugulum göllum, en samt sofandi í grasinu. Núna er reyndar rosalega gott veður. Ég fór aðeins í húsdýragarðinn í gær og hitti Söru Mist, Hjalta Dag, Hlyn Frey og Ísar Frey vini mína. Það var mjög gaman, ég skoðaði reyndar ekkert dýrin, var bara eitthvað að skottast um og leika mér. Svo fékk ég lánaða kerruna hennar Söru Mist til að leggja mig aðeins því ég var voða þreytt, ég var nefnilega búin að vera heilmikið úti að leika líka hjá dagmömmunni. Svo drifum við okkur heim því mamma þurfti að fara aftur að vinna. Amma Gisela og afi Jón komu að hjálpa pabba að passa mig af því hann er ennþá með bilað bak. Mamma ætlaði að láta mig bara halda áfram að sofa, en ég nennti því nú ekki strax, var í fullu fjöri með ömmu og afa og borðaði allar kartöflurnar frá afa. Svo lagði ég mig nú loksins og þegar ég vaknaði var mamma komin og líka afi Guðmundur, hann grillaði með okkur í góða veðrinu síðasta grillkjötið á höfuðborgarsvæðinu. Hann var að keyra rútu með túrista og er víst að fara aftur af stað með aðra túrista á morgun.
Gerast áskrifandi að:
Birta ummæli (Atom)
Engin ummæli:
Skrifa ummæli