Og nú er ég komin heim. Það gekk afskaplega vel að komast heim, ég lagði mig á flugvellinum og var svo í fullu fjöri í flugvélinni. Svo reyndar þegar við vorum komin hálfa leið steinsofnaði ég aftur. Síðustu dagarnir á Mallorca voru náttúrulega mjög skemmtilegir. Við fórum í vatnsrennibrautagarð, ég synti og buslaði smá og það var mjög gaman. En svo lagði ég mig bara með pabba mínum, þ.e.a.s. ég lagði mig í kerrunni minni og hann lagði sig á sólbekk, á meðan það var víst mjög mikið fjör hjá mömmu og Sigurði Pétri. Það voru þarna einhverjar brautir þar sem átti að fara á svona eins og slöngum úr dekkjum, bæði eins og tveggja manna. Mamma skildi ekki alveg hvernig þetta átti að virka því það voru heillangar raðir neðst í brautunum að bíða eftir að fá slöngur, en margir fóru bara alltaf aðra ferð með slönguna sína og létu ekkert annan fá hana. Svo voru þau eitthvað að þvælast þarna um og leita að einhverju skemmtilegu, þá fann stóri bróðir hvar slöngurnar voru geymdar. Aha, hugsaði mamma, svona virkar þetta, maður á bara að ná sér í slöngu og vera með hana þangað til maður er hættur að renna sér í þessum brautum, voðalega er þá eitthvað asnalegt að bíða í biðröð eftir þeim við brautirnar. Og þau tóku sér bara eina slöngu og fóru átta ferðir í röð, það var víst alveg brjálað fjör. Svo kom náttúrulega í ljós í lok dagsins að það átti að leigja þessar slöngur, svo voru aðrar í brautunum sem átti að skila og þær voru öðru vísi á litinn. Þannig að þau eiginlega stálu slöngunni. En það var nú alveg óvart, og þau skemmtu sér svo vel að mamma hafði eiginlega ekkert samviskubit yfir því. Fyrir utan að hún hefði alveg verið til í að borga sex og hálfa evru í leigu ef hún bara hefði haft hugmynd um að það ætti að gera það.
Jæja, en það var nú ósköp gott að koma heim fannst mér, ég fór strax að gramsa í öllu dótinu mínu og þeytast um stofuna og svona. Mamma hélt að mér hefði ekkert farið mikið fram í hreyfiþroskanum á meðan við vorum úti, en hún sá nú strax þegar við komum hérna heim hvað ég get margt sem ég gat ekki þegar við fórum, ég fer á fleygiferð um allt, elti mömmu ef hún fer inn í eldhús eða eitthvað, og ég get labbað með því að styðja mig við sparkbílinn minn, sem ég gat alls ekki þegar við fórum. Mér hefur líka farið mikið fram í málþroska síðustu tvær vikurnar, ég skil miklu meira og kann að gera fullt af nýjum hljóðum. Uppáhaldið mitt er að sveifla tungunni til hliðanna og gera hljóð. Og svo segi ég líka mikið mamma og stundum meira að segja babbiogmamma. Og ég kann næstum alveg að segja nafnið hans stóra bróður, það er reyndar svolítið langt og erfitt því hann heitir Sigurður Pétur, svo ég segi bara a-da.
Augnkvefið mitt batnaði ekki alveg nógu vel, og svo fékk ég líka hósta, svo ég fór beint til læknis þegar ég kom heim. Ég fékk dropa í augun (argans óþverri!) og svo er ég víst með smá roða í eyrunum svo ég þarf að fara aftur eftir helgina og láta athuga hvort það lagast af sjálfu sér eða hvort ég er að fá eyrnabólgu. Ég hef samt ekkert fengið hita og alveg sofið vel og svona. Vonandi fer þetta bara með augnkvefinu. Og vonandi fer augnkvefið bara strax, svo ég geti hætt að fá þessa ömurlegu dropa.
Engin ummæli:
Skrifa ummæli