föstudagur, ágúst 29, 2003

Heima með pabba

Í dag er starfsdagur hjá dagforeldrunum mínum, svo ég fæ að vera heima með pabba. Það verður örugglega mjög gaman, reyndar byrjaði ég nú bara á því að leggja mig í kerrunni og ligg þar núna að hvíla mig, enda vaknaði ég klukkan sex eins og venjulega og var bara orðin dauðþreytt. Ég skil ekki hvernig ég fer að því að vera svona hress alltaf hjá dagmömmunni alveg til hálftólf.

fimmtudagur, ágúst 28, 2003

Hor í eyrunum

Jájá, ég er víst með hor í eyrunum. Ég ákvað að skreppa til læknis í gær og láta hlusta mig og kíkja í eyrun, ég er aftur komin með svo vont kvef og hósta, og búin að vera dálítið pirruð líka. Hann skoðaði eyrun mín voða vel og mældi þau með þrýstingsmælitæki, og komst sem sagt að því að það er fullt af slími á bak við hljóðhimnurnar, þess vegna er ég svona pirruð og skrýtin í eyrunum. En ég er samt ekkert með sýkingu svo ég þarf sem betur fer ekki að fá ógeðs pensillín aftur, bara slímlosandi hóstasaft. Mér finnst hún reyndar dálítið skrýtin, en samt allt í lagi, ég get alla vega alveg kyngt henni.

mánudagur, ágúst 25, 2003

Loksins

Loksins skilur þetta fólk að ég vil bara fá að fara á fætur klukkan sex, enda er komin dagur þá. Pabbi bara fór með mig upp og gaf mér hafragraut og lék svo við mig þangað til mamma vaknaði klukkan hálfátta. Við bjuggum líka til morgunmat handa mömmu, hún var voða ánægð með það og líka að fá að sofa svona lengi, hún er nú líka algjör svefnpurrka!

sunnudagur, ágúst 24, 2003

Og eitt í viðbót

Ég gleymdi alveg einu sko, í dag nefnilega tókst mér að veiða fluguna í stofuglugganum! Ég náði henni með puttunum mínum og þá loksins hætti hún að fljúga alltaf í burtu. En þá tók mamma hana og henti henni í ruslið, mér fannst það frekar fúlt, ég ætlaði að leika mér með hana í smá stund og síðan kannski borða hana.

laugardagur, ágúst 23, 2003

Muuuuu

Svo má ég til með að segja ykkur frá uppáhaldinu mínu núna, það eru nefnilega dýrahljóð og þá aðallega muuuuu. Mér finnst rosalega skemmtilegt að láta lesa fyrir mig bókina um íslensku dýrin, ég rétti einhverjum hana og segi muuu (eða mmmmm) og þá á að lesa hana fyrir mig. Stundum fattar sá sem á að lesa ekki hvað ég er að meina, en þá þarf ég bara að öskra pínu.

Langur dagur

Ég var svo spennt að fara aftur í sundið í morgun, að ég glaðvaknaði klukkan sex og gat ómögulega sofnað aftur, þó ég fengi að kúra hjá mömmu. Svo við fórum bara á fætur um sjö og fengum okkur hafragraut og svona. En ég var ósköp þreytt, svo mamma lagði mig í kerruna og ég náði að leggja mig í klukkutíma fyrir sundið. Það var nú mjög gott, ég hefði verið ómöguleg í sundinu annars. Það var auðvitað mjög gaman í sundi, skemmtilegast finnst mér að synda á maganum og vera með bolta. Svo kom ég heim og lagði mig aðeins, en samt frekar stutt. Klukkan fimm var mamma síðan alveg búin að vera og henti mér í kerruna og sjálfri sér í sófann. Þá fattaði ég að ég var bara orðin ansi þreytt, og steinsvaf eins og rotaður selur þangað til mamma vakti mig klukkan hálfníu. Þá borðaði ég kjötsúpu (nammi namm ég vona að mamma eldi oft kjötsúpu), og klukkan tíu fékk ég loksins að fara aftur að sofa, hrjót hrjót, vonandi held ég því bara áfram sem lengst.

föstudagur, ágúst 22, 2003

Stór dagur hjá 6 ára strák

Jájá, þá er fyrsti skóladagurinn hjá Sigurði Pétri í dag. Það er reyndar bara skólasetning og foreldraviðtal í dag, kennslan byrjar svo hjá honum á þriðjudaginn. Þetta er nú aldeilis spennandi og verður gaman að fylgjast með hjá honum. Annars hefur það helst gerst merkilegt í þessari viku að pabbi minn átti afmæli á þriðjudaginn. Svo komu amma og afi á Akureyri frá útlöndum í gær og þau ætla að koma að heimsækja mig í dag. Þá get ég loksins sýnt þeim hvað ég er orðin flink að labba. Ég labba bara út um allt núna, ef ég dett þá stend ég bara upp aftur. En ég er ennþá í smá vandræðum með að labba úti hjá dagmömmunni, það er pínu erfiðara. Ég á nú samt voða fína skó og þetta kemur örugglega allt með æfingunni. Það er líka svo gott veður alltaf núna að við erum lengi úti á hverjum degi og ég get æft mig heilmikið.

þriðjudagur, ágúst 19, 2003

mánudagur, ágúst 18, 2003

11 mánaða í dag

Ótrúlegt en satt, bara einn mánuður þangað til ég verð eins árs! Það verður nú aldeilis gaman að halda afmælisveislu, það er allt orðið svo fínt í stofunni núna. Mamma og pabbi héldu voða fína veislu um helgina, eða það skilst mér alla vega, ég steinsvaf nú bara allan tímann. Ég var líka svo dauðþreytt eftir sundið. Það var alveg rosalega gaman sko, pabbi var heima lasinn en afi og amma komu með okkur mömmu, afi horfði á en amma kom með okkur ofan í laugina og hjálpaði mömmu að leyfa mér að synda og kafa. Ég var mjög dugleg auðvitað, eins og alltaf, og hin börnin voru líka ósköp dugleg. Við vorum að æfa okkur að detta ofan í laugina og fara á bólakaf. Svo fengum við líka að sitja uppi á dýnu og skoða hvert annað, og leika með dót á bakkanum. Þetta var alveg frábært og ég hlakka til að halda áfram á námskeiðinu, en ég var líka svo dauðþreytt eftir þetta allt saman að ég svaf í fimm klukkutíma í kerrunni minni.

Mömmu tókst nú ekki að setja inn fleiri myndir um helgina, en hún ætlar að reyna að gera það í kvöld. Hún ætlar alla vega ekki að smíða neitt svo hún hlýtur að hafa smá tíma.

föstudagur, ágúst 15, 2003

Fleiri myndir á leiðinni

Ég var að sjá það að mamma gleymdi tveimur möppum þegar hún var að setja myndir á myndasíðuna okkar. Ég er búin að biðja hana að búa til aðra síðu því það eru margar fínar myndir þarna og hún ætlar að reyna að gera það um helgina. Hún er annars voða upptekin eitthvað og pabbi líka, þau ætla að halda einhverja veislu hérna á morgun og eru búin að vera að taka til og sparsla og mála, ég held þetta sé að verða bara nokkuð fínt hjá þeim. Annars er það helst í fréttum að ég fékk loksins að skipta um bílstól og núna sit ég eins og manneskja og sé út um gluggann. Enda er ég örugglega orðin 10 kíló svo það var nú tímabært að útskrifast úr ungbarnabílstólnum. Í fyrramálið byrjar framhaldsnámskeið í sundinu mínu, við hlökkum öll mjög mikið til, nema kannski pabbi því hann er svolítið lasinn. Vonandi verðu honum bara batnað. Hann hefur örugglega smitast af kvefinu mínu, ég er nú sem betur fer næstum laus við það núna, bara svolítill hósti ennþá.

miðvikudagur, ágúst 13, 2003

Amma og afi komin

Jæja, loksins eru amma og afi í Hjallabrekku komin heim, búin að vera í burtu í næstum allt sumar. Ég fór í afmælisveislu hjá þeim í gær af því afi er nýbúinn að eiga afmæli. Það var mjög gaman og ég hitti líka loksins frænkur mínar Ástu og Hebu sem ég hef ekki séð lengi lengi. Ég labbaði náttúrulega út um allt, ég er farin að geta labbað alveg mörg skref og beygt og snúið við og staðið upp á miðju gólfi, rosalega dugleg. Stóri bróðir er líka rosalega duglegur, þegar hann er aðeins búinn að æfa sig getur hann lesið heila blaðsíðu í lestrarbókinni hátt og snjallt og örugglega. Hann er líka alveg að byrja í skóla. Amma og afi komu með rosa flotta skólapeysu og vesti handa honum, og ég fékk líka rosalega flott vesti og æðislega peysu, ég verð að biðja mömmu að taka mynd af mér í fötunum svo ég geti sýnt ykkur. Annars er ég ekkert sérlega myndarleg þessa dagana, alltaf með hor um allt andlit. Það er reyndar aðeins að minnka, ég held ég sé loksins að hrista þetta af mér. Ég er líka búin að vera með voða vondan hósta, ég var heima og fór til læknisins á mánudaginn en hann sagði að þetta væri allt í lagi, bara smá kvef í lungunum sem ég myndi alveg losa mig við sjálf. Svo ég fór bara til dagmömmunnar í gær og fékk að sulla í polli og kom heim með öll fötin mín í poka. Það fannst mér sko ótrúlega gaman!

laugardagur, ágúst 09, 2003

Ný myndasíða

Við mamma erum búnar að búa til síðu með myndum úr sumarfríinu okkar, hún er hérna.

fimmtudagur, ágúst 07, 2003

Hvar á maður að byrja...

Jæja gott fólk, nú er ég búin að vera svo lengi í burtu og margt búið að gerast að ég veit bara ekkert hvar ég að byrja. Dagmamman mín fór í frí, svo ég skellti mér bara í sveitina með mömmu, pabba og Sigurði Pétri. Það var auðvitað mjög gaman, stóri bróðir var alltaf að leika við mig og knúsa mig og mér finnst það algjört æði. Við fórum líka í slatta af bíltúrum, mér finnst það ekki eins mikið æði en ágætt samt að leggja sig í bílnum. Einu sinni festum við okkur í sandi úti í á, mamma og pabbi þurftu að fara út í ána og hleypa úr dekkjunum svo þau kæmust upp úr aftur. Svo tókst pabba að bakka upp úr ánni en þá var allt loftið farið úr einu dekkinu svo þau þurftu að hringja á veiðivörðinn í Veiðivötnum og biðja hann að dæla lofti í dekkið. En svo vorum við líka ekkert alltaf í bílnum, við fórum aðeins í labbitúra og þá fékk ég að vera í burðarpoka á bakinu á mömmu, og ég fékk líka að vera í grasinu að leika mér. Og við fórum auðvitað oft í sund, mér finnst það alveg frábært. Sérstaklega í Aratungu þar sem er göngugrind í búningsklefanum, ég vildi nú helst bara vera þar! En svo er ég líka búin að vera rosalega dugleg að æfa mig að labba sjálf, ég hef alveg náð nokkrum skrefum í einu. En ég þarf helst að klappa á meðan, þá gengur miklu betur. Svo er ég líka alltaf að læra ný hljóð, nú kann ég að herma eftir hestum og kúm, mömmu finnst það rosalega fyndið og hlær og hlær. Og ég er komin með tvær nýjar tennur, nú er ég með fjórar tennur uppi og fjórar niðri og get heldur betur bitið almennilega.

Amma og afi í Hjallabrekku heimsóttu okkur í sveitina, það var nú aldeilis gaman því ég hef eiginlega ekkert séð þau í allt sumar. Svo eru þau núna í útlöndum, alltaf eitthvað flakk á þeim. Og afi sem á meira að segja afmæli í dag, ég verð bara að knúsa hann þegar hann kemur aftur heim.

Eftir fríið fór ég svo að vera allan daginn hjá dagmömmunni og ég er bara hæstánægð með það. Það er líka búið að vera svo gott veður, svo ég hef verið bara úti með krökkunum að leika mér. Mamma og pabbi gáfu mér skó til að vera í úti, fyrst ég er nú orðin svona dugleg að labba. Þeir eru rosalega þægilegir og fínir. Pabbi er farinn að vinna aðeins, honum er eitthvað að batna í bakinu sínu. Svo nú förum við öll saman út á morgnana, það er mikið fjör. Stundum fáum við stóri bróðir að sofa aðeins lengur á meðan pabbi og mamma borða morgunmatinn sinn, í morgun leyfði mamma mér að sofa lengur í bólinu hennar en svo vaknaði ég bara allt í einu alveg sjálf. Og þar sem ég var alein, þá ákvað ég bara að drífa mig sjálf fram úr og skreið svo fram á gang að leika mér. Mamma var eitthvað voða hissa og hvít í framan þegar hún sá mig, iss ég skil nú ekki í því, ég er svo flink að klifra og fara sjálf niður. Meira að segja þó rúmið sé hærra en ég.

Jæja, nú man ég ekki meira merkilegt í bili en nú er ég alveg búin með sumarfríið og lofa að vera dugleg að skrifa.

miðvikudagur, ágúst 06, 2003

Búin að breyta

Jæja, þá eru kisurnar farnar, ég var orðin pínu þreytt á þeim. Verst þetta ljóta og leiðinlega bil fyrir ofan kommentalínuna, en það verður að bíða betri tíma að laga það.