miðvikudagur, október 29, 2003

Fleiri kúnstir

Það er alltaf að bætast við dýrahljóðin hjá mér, nú kann ég að herma eftir hænum og refum. Svo er ég orðin mjög flink að drekka úr venjulegu glasi, alla vega ef ég er þyrst þá gengur það mjög vel. Svo þegar ég er ekkert þyrst lengur, þá finnst mér svolítið gaman að prófa mig áfram og sulla og svona, þá fer nú svolítið mikið út um allt. Ég var líka ótrúlega dugleg hjá dagmömmunni í gær, þá lét ég nefnilega vita þegar ég var komin með kúkableyju, benti á bleyjuna mína og svo á skiptiborðið og kvartaði hástöfum. Ég er líka svo hræðilega brunnin þessa dagana að mér finnst alveg voðalega vont að vera með pjæ í bleyjunni.

Afmælisdagur

Jájá, Þórður frændi á afmæli í dag, hann er 21 og má núna vera rútubílstjóri, til hamingju með þetta allt saman Þórður.

laugardagur, október 25, 2003

Jæja...

Ég biðst afsökunar gott fólk, mamma er búin að vera svo voða upptekin eitthvað að hún hefur ekkert komist í að skrifa fyrir mig. En nú er ég búin að snúa upp á hendurnar á henni og toga í hárið á henni og hún ætlar að reyna að vera duglegri að skrifa.

Ég er laus við meðalið í bili, það gekk nú betur en oft áður að koma því niður, ég held ég hafi bara alveg náð að kyngja meira en helmingnum af því. Vonandi losna ég þá bara við þessa eyrnabólgu í eitt skipti fyrir öll. Ég var áfram með hita þarna föstudaginn eftir að við skrifuðum síðast, en á laugardaginn var ég orðinn hitalaus, sem betur fer því það var síðasti sundtíminn og myndataka ofan í vatninu. Svo við drifum okkur og vorum bara snögg, fengum að fara fram fyrir í röðinni þannig að það var búið að taka þrjár myndir af mér áður en var búið að klára að taka fyrstu myndina af hinum börnunum, og svo bara fórum við upp úr. Þetta gekk bara mjög vel, okkur var hent út í og svo var kafari ofan í sundlauginni sem tók myndir. Mamma fór svo á þriðjudaginn og fékk myndirnar og þær heppnuðust bara mjög vel.

Látum okkur sjá, hvað er ég búin að gera fleira... Á sunnudaginn fór ég til afa og ömmu og fékk pönnukökur, það var nú aldeilis ekki ónýtt. Best fannst mér að fá smjör á pönnukökurnar, það var sko gómsætt. Ég er líka mjög dugleg að borða sjálf þessa dagana. Stundum leyfi ég mömmu að hjálpa mér að setja matinn á skeiðina eða gaffalinn, en stundum vil ég bara borða alveg sjálf. Ég er orðinn bara nokkuð flink, ég get til dæmis alveg borðað hafragraut og hrísmjólk með skeið, en stundum finnst mér samt best að nota bara puttana. Mér finnst líka voða gaman að gefa pabba og mömmu að borða með skeiðinni minni en stundum eru þau óþekk og vilja ekki borða matinn sem ég gef þeim, þá verð ég nú ekki ánægð. Ég er líka ekkert feimin við að láta vita af því þegar ég er óánægð, mér finnst engin ástæða til að fara neitt hljóðlega með það.

Ég er orðin ótrúlega flink í dýrahljóðum, alltaf á leiðinni heim frá dagmömmunni skoða ég dýrabókina mína og hermi eftir dýrunum. Ég er mjög flink að jarma og hneggja, svo kann ég að segja mmmmmm eins og kýrnar og gera indjánastríðsöskur eins og hundar gera. Það finnst pabba og mömmu voða fyndið. Kannski ég reyni að fá þau til að fara með mig í húsdýragarðinn um helgina, mér finnst svo gaman að skoða dýr. En jæja, þetta er nú orðið ágætt í bili, best að ég drífi mig út í kerru að leggja mig.

fimmtudagur, október 16, 2003

Eyrnabólgan mætt

Þá er ég komin með eyrnabólgu, alla vega í annað eyrað. Læknirinn hélt samt ekki að það væri þess vegna sem ég hefði fengið svona háan hita, ég er ábyggilega bara líka með pest eða eitthvað. En nú þarf ég enn og aftur að taka þetta ófétis meðal, ég fékk reyndar aðra tegund í þetta sinn. Mamma og pabbi segja að ég verði að vera voða dugleg að taka meðalið svo ég geti nú losnað einu sinni almennilega við þetta. Ég var líka voða dugleg áðan, galopnaði munninn svo pabbi gat sett skeiðina upp í mig, og svo hafði ég bara munninn opinn svo meðalið datt út úr mér aftur. Mér fannst ég voða dugleg og klappaði fyrir mér, en mamma og pabbi voru eitthvað ekki eins ánægð með þetta hjá mér.

Eitthvað að batna

Já, mér líður talsvert betur í dag. Ég var óskaplega veik í gær, þegar stílarnir hættu að virka þá bara fékk ég yfir 40 stiga hita og grét og átti virkilega bágt. Núna er ég bara með 38 stig og er miklu hressari. Ég er samt ennþá svolítið lasin og það er svolítið erfitt, mig langar að vera bara að leika mér og helst að fara út og svona, en samt er ég frekar slöpp og pirruð og veit ekki alveg hvernig ég á að vera eða hvað ég vil. Mamma var held ég orðin voða þreytt á mér áðan og ég á henni. En svo tókst mér loksins að sofna í kerrunni minni og vonandi hvílist ég bara vel og vakna ennþá hressari. Mamma er samt að hugsa um að láta lækninn kíkja aðeins á mig, ég er nefnilega með svo mikla bauga og bólgin um augun. Mömmu finnst víst betra að fara of oft en of sjaldan til læknisins, þetta er nú kannski einum of en jæja, hún verður að ráða því.

miðvikudagur, október 15, 2003

Ó mig auma

Aumingja ég er svo hræðilega lasin. Ætli ég sé ekki komin með flensuna sem er víst óvenju snemma og óvenju slæm í haust. Ég vaknaði klukkan sex í morgun og mér leið bara hræðilega, mamma mældi mig og ég var með 41 stigs hita og ég bara skældi og kallaði á mömmu og leið voðalega illa. Svo fékk ég stíl og eftir smástund leið mér aðeins betur svo ég gat sofnað aftur og svaf alveg til tíu, það var nú gott. Þá var ég nú bara orðin sársvöng og borðaði fullt af graut, svo horfði ég smá á barnatíma undir sænginni minni og lék mér smá, en ég er samt voða slöpp og finnst svolítið erfitt að vera til. Áðan var síðan hitinn farinn að hækka aftur svo mamma gaf mér nýjan stíl og lagði mig í rúmið mitt, þetta er örugglega í fyrsta skipti sem ég fer ekki út að sofa síðan ég var bara 3 mánaða eða eitthvað. En mér fannst ósköp gott að leggjast í rúmið mitt, vonandi bara er þetta ekki mjög löng flensa, og vonandi verða pabbi og mamma ekki lasin líka.

mánudagur, október 13, 2003

Skemmtileg helgi

Já, þetta var sko heldur betur skemmtileg helgi. Við fórum tvisvar í sund og það var náttúrulega ótrúlega gaman eins og alltaf. Svo fór ég í afmæli til hennar Bryndísar sem er tveggja ára og þar var líka Óli stóri bróðir hennar sem er fjögurra ári og líka Bjarki sem er eins árs. Það var auðvitað mikið fjör hjá okkur og við vorum mjög góð að leika okkur saman. Og þegar við komum heim þá komu amma Gisela og afi Jón, Sigurður Pétur og amma Inga Rósa og borðuðu hjá okkur. Það fannst mér sko gaman, og mér fannst líka rosalega góður maturinn, ég hélt alveg endalaust áfram að fá mér smá ábót af kartöflum og blómkáli með sósu.

miðvikudagur, október 08, 2003

Sko mig

Ég get klifrað upp í báða sófana alveg sjálf. Þá get ég loksins komst sjálf upp í hvíta sófann og hlaupið þar fram og til baka og hent mér út í hliðarnar. Þetta finnst mér alveg rosalega gaman sko, mamma verður nú alltaf eitthvað stressuð og reynir að halda í mig svo ég geti ekki dottið niður á gólf, en þá er þetta ekkert spennandi. Annars er helst frá því að segja að mamma og pabbi eru alltaf sömu svefnpurrkurnar, núna sef ég reyndar oftast til sjö og stundum aðeins lengur, en í morgun var ég búin að sofa klukkan sex og ég ætlaði aldrei að ná að reka mömmu á lappir. Jæja en það tókst loksins klukkan hálfsjö og þá fékk ég loksins eitthvað að borða.

sunnudagur, október 05, 2003

Loksins

Já, loksins fóru pabbi og mamma með mig í húsdýragarðinn að sjá alvöru dýr. Amma og afi í Hjallabrekku komu líka með okkur, og auðvitað Sigurður Pétur, svo við vorum alveg heil hersing. Við fórum með nýju kerruna mína, en ég var svo spennt að sjá dýrin að ég nennti nú ekkert að sitja í henni. Uppáhaldið mitt voru hestarnir, enda er ég orðin svo flink að hneggja að þeir halda örugglega að ég sé bara folald. Svo sá ég líka kýr og kálfa, grísi, ref og mink, kanínur og fullt af alls kyns fuglum sem heita allir bra bra (eða bva bva). Og auðvitað seli, þeir voru rosalega skemmtilegir á fullu að velta sér og busla í vatninu. Ég vona bara að við getum farið oft að skoða dýrin í vetur, hinum var víst reyndar eitthvað kalt en ég var í góðum málum í gallanum mínum með fínu lambhúshettuna og vettlinga og allar græjur.

miðvikudagur, október 01, 2003

Orð dagsins

Nýja orðið mitt í dag er bauj (brauð), það gengur bara mjög vel hjá mér núna að læra að tala, þetta er allt að koma.