laugardagur, október 25, 2003

Jæja...

Ég biðst afsökunar gott fólk, mamma er búin að vera svo voða upptekin eitthvað að hún hefur ekkert komist í að skrifa fyrir mig. En nú er ég búin að snúa upp á hendurnar á henni og toga í hárið á henni og hún ætlar að reyna að vera duglegri að skrifa.

Ég er laus við meðalið í bili, það gekk nú betur en oft áður að koma því niður, ég held ég hafi bara alveg náð að kyngja meira en helmingnum af því. Vonandi losna ég þá bara við þessa eyrnabólgu í eitt skipti fyrir öll. Ég var áfram með hita þarna föstudaginn eftir að við skrifuðum síðast, en á laugardaginn var ég orðinn hitalaus, sem betur fer því það var síðasti sundtíminn og myndataka ofan í vatninu. Svo við drifum okkur og vorum bara snögg, fengum að fara fram fyrir í röðinni þannig að það var búið að taka þrjár myndir af mér áður en var búið að klára að taka fyrstu myndina af hinum börnunum, og svo bara fórum við upp úr. Þetta gekk bara mjög vel, okkur var hent út í og svo var kafari ofan í sundlauginni sem tók myndir. Mamma fór svo á þriðjudaginn og fékk myndirnar og þær heppnuðust bara mjög vel.

Látum okkur sjá, hvað er ég búin að gera fleira... Á sunnudaginn fór ég til afa og ömmu og fékk pönnukökur, það var nú aldeilis ekki ónýtt. Best fannst mér að fá smjör á pönnukökurnar, það var sko gómsætt. Ég er líka mjög dugleg að borða sjálf þessa dagana. Stundum leyfi ég mömmu að hjálpa mér að setja matinn á skeiðina eða gaffalinn, en stundum vil ég bara borða alveg sjálf. Ég er orðinn bara nokkuð flink, ég get til dæmis alveg borðað hafragraut og hrísmjólk með skeið, en stundum finnst mér samt best að nota bara puttana. Mér finnst líka voða gaman að gefa pabba og mömmu að borða með skeiðinni minni en stundum eru þau óþekk og vilja ekki borða matinn sem ég gef þeim, þá verð ég nú ekki ánægð. Ég er líka ekkert feimin við að láta vita af því þegar ég er óánægð, mér finnst engin ástæða til að fara neitt hljóðlega með það.

Ég er orðin ótrúlega flink í dýrahljóðum, alltaf á leiðinni heim frá dagmömmunni skoða ég dýrabókina mína og hermi eftir dýrunum. Ég er mjög flink að jarma og hneggja, svo kann ég að segja mmmmmm eins og kýrnar og gera indjánastríðsöskur eins og hundar gera. Það finnst pabba og mömmu voða fyndið. Kannski ég reyni að fá þau til að fara með mig í húsdýragarðinn um helgina, mér finnst svo gaman að skoða dýr. En jæja, þetta er nú orðið ágætt í bili, best að ég drífi mig út í kerru að leggja mig.

Engin ummæli:

Skrifa ummæli