sunnudagur, október 05, 2003

Loksins

Já, loksins fóru pabbi og mamma með mig í húsdýragarðinn að sjá alvöru dýr. Amma og afi í Hjallabrekku komu líka með okkur, og auðvitað Sigurður Pétur, svo við vorum alveg heil hersing. Við fórum með nýju kerruna mína, en ég var svo spennt að sjá dýrin að ég nennti nú ekkert að sitja í henni. Uppáhaldið mitt voru hestarnir, enda er ég orðin svo flink að hneggja að þeir halda örugglega að ég sé bara folald. Svo sá ég líka kýr og kálfa, grísi, ref og mink, kanínur og fullt af alls kyns fuglum sem heita allir bra bra (eða bva bva). Og auðvitað seli, þeir voru rosalega skemmtilegir á fullu að velta sér og busla í vatninu. Ég vona bara að við getum farið oft að skoða dýrin í vetur, hinum var víst reyndar eitthvað kalt en ég var í góðum málum í gallanum mínum með fínu lambhúshettuna og vettlinga og allar græjur.

Engin ummæli:

Skrifa ummæli