Ummmmm hvað ég elska að sofa! Eftir að mamma og amma settu loksins dökk gluggatjöld í herbergið okkar Sippa stóra bróður svo það komi nú nótt hjá okkur, þá bara sef ég og sef. Ég fer bara beint að sofa þegar mamma setur mig í rúmið og sef alla nóttina þangað til klukkan sjö. Og ég veit ekki alveg hvort ég er loksins að hvíla mig eftir allar þessar vökur undanfarið eða hvort ég var eitthvað slöpp út af bólusetningunni sem ég fékk í gær, en ég bara svaf og svaf eiginlega í allan dag. Fyrst vaknaði ég klukkan sjö og mamma fór bara að klæða mig og hafa okkur til, en ég var svo sybbin að ég steinsofnaði á skiptiborðinu á meðan hún var að klæða mig. Svo ég fékk að kúra í rúminu mínu þangað til bara tveimur mínútum áður en ég átti að vera komin til dagmömmunnar. Hjá henni borðaði ég morgunmat og fór svo beint út í vagn, svaf í tvo tíma, kom inn og drakk smá vatn og fór svo bara aftur út í vagn og hélt áfram að sofa. Mamma vakti mig svo þegar hún sótti mig klukkan eitt og ég fór heim að borða og reyndi aðeins að leika mér en svo fór ég bara út í kerru og svaf meira. Svo vaknaði ég við eitthvað held ég, alla vega var ég eiginlega þreytt ennþá en gat ekki sofnað aftur, amma keyrði mig aðeins í kerrunni og svo fórum við mamma í labbitúr og líka að leika aðeins í garðinum. Svo fékk ég kjúkling með rjómasósu, mmmmnamm! Og svo fékk ég loksins að fara að sofa klukkan hálfníu, ó hvað það var gott! Ég held ég ætli bara alltaf núna að sofa svona vel, það er svo ósköp gott.
Annars er bara allt gott að frétta, ég fór í skoðun í vikunni og ég er 71 sentimetri og 8665 grömm. Og ég skældi ekki neitt þegar ég fékk sprautuna, var bara pínu hissa á lækninum sem var svona lengi að sprauta mig. Hann skoðaði líka eyrun mín voða vel, fyrst lýsti hann inn í þau með ljósi og svo setti hann hljóð inn í eyrun mín og mældi eitthvað inni í þeim um leið. Og ég er bara með voða fín og falleg eyru.
Á morgun fæ ég að heimsækja Söru Mist vinkonu mína á meðan mamma fer í nudd. Það verður örugglega rosalega gaman og ég er sko aldeilis heppin að eiga svona góðar vinkonur sem ég get heimsótt.
Engin ummæli:
Skrifa ummæli