Ég er ósköp mikið grey núna, og mamma líka. Ég fékk 39,5 stiga hita á aðfaranótt sunnudagsins en var reyndar fljót að losa mig við hann, var orðin hitalaus um hádegi á sunnudaginn. En núna er ég ósköp kvefuð og pirruð, og mamma líka. Svo get ég auðvitað ekki sofið úti þannig að fyrir vikið verð ég ennþá meira pirruð. En þá er nú sennilega komin skýringin á því af hverju ég vildi ekki fara í sund á laugardaginn. Ég fékk ekki heldur að fara í sundið í dag en fer í staðinn bara næsta þriðjudag í aukatíma til að missa ekki úr tíma. Núna er ég að reyna að fara að sofa, ég er eiginlega alveg sofnuð, nema svo fer ég alltaf óvart með hendina og ríf út úr mér snudduna og þá vakna ég aftur. Mamma og pabbi reyna að setja dúkkuna í höndina mína og það dugar í smá stund. En svo byrja ég aftur að skæla. Ég vil helst bara að einhver sitji hjá mér og haldi í höndina mína á meðan ég sofna.
Annars var ég mjög dugleg í dag, ég velti mér af maganum á bakið. Svo var ég heillengi að skoða höndina mína í spegli, horfði til skiptis á höndina og spegilmyndina og reyndi að snerta spegilmyndina. Svo af og til leit ég upp og sá framan í mig og þá alveg skælbrosti ég. Ég er líka voða mikið að skoða tærnar mínar núna, þær eru nú alveg það flottasta sem ég hef séð. Mér tókst meira að segja loksins að koma þeim upp í mig í dag og nagaði stóru tána mína aðeins. Mömmu fannst það fyndið.
Ég fékk að smakka banana í kvöld, oj barasta ég hef nú bara ekki vitað annað eins, ég alveg kúgaðist. Ég held þetta fólk sé eitthvað ruglað, heldur að við séum apar eða eitthvað. Ég sá pabba líka borða banana í gær og ég var þvílíkt hissa, starði bara á hann. En svo er mamma líka stundum að gefa mér vatn í pelann núna af því ég er svona kvefuð, mér finnst það voða gott, hún hristir bara túttuna aðeins uppi í mér. Þá lep ég af túttunni eins og hundur. En ég skil ekkert hvað hún er svo að reyna að troða túttunni upp í mig, og hvað svo? Hvað á ég eiginlega að gera? Ég reyni bara að naga túttuna en ég held að mamma sé ekki að meina það. Jæja, skiptir ekki máli.
Þórður frændi passaði mig í gær á meðan pabbi og mamma fóru í jóga. Fyrst var ég voða góð, svo var ég alveg brjáluð og Þórður hringdi í mömmu og allt, en svo þegar þau komu heim þá var ég aftur orðin alveg góð. Þórður er svo góður að hugga mig. Ég held honum hafi samt fundist verst að geta ekki farið í Tony Hawk. En hann ætlar alla vega að passa mig aftur á morgun. Og líka stóra bróður sem er búinn að missa tvær tennur.
Engin ummæli:
Skrifa ummæli