Jæja jæja. Þetta gengur nú ekki alveg nógu vel hjá henni mömmu, í fyrsta lagi er hún alls ekki nógu dugleg að skrifa, í öðru lagi var allt bilað hérna um daginn þegar hún ætlaði að skrifa, og í þriðja lagi var hún búin að skrifa helling rétt áðan sem týndist svo allt af því tölvan slökkti á sér. En hún gefst nú ekki upp.
Ég er ekkert svo dugleg að borða grautinn lengur, ég veit ekki alveg hvort mér finnst hann ekki góður eða hvort ég bara nenni ekki að borða hann, stundum vil ég nefnilega bara frekar sjúga þumalfingurinn sko. En mamma ætlar samt að halda áfram að reyna, hún er nefnilega að fara út að skemmta sér um næstu helgi og þá þarf Sunna frænka helst að geta gefið mér eitthvað að borða og ekki vil ég sjá pelann, oj barasta nei takk! Svo eru þau pabbi líka að byrja í jóga sem er um kvöldmatarleytið og þá væri nú ósköp fínt að Sunna frænka og Þórður frændi gætu gefið mér graut á meðan. Ég held samt að mamma nenni nú ekki að gefa mér graut í kvöld, afi og amma á Akureyri ætla nefnilega að koma í kvöldmat. Það verður nú skemmtilegt, þau verða örugglega alveg hissa hvað ég er búin að stækka mikið. Ég er líka orðin rosalega dugleg sko, ég kann að snúa mér á bakinu og líka að taka upp dót, mömmu finnst ég algjör snillingur! Það fór nú samt í verra í morgun, ég fór í sund og það var bara alveg ömurlegt. Og ég sem var búin að fá nýjan fínan sundbol og allt. Ég bara hágrét eins og ég væri nýfædd eða eitthvað. Mamma heldur að ég hafi kannski verið of þreytt, ég vaknaði svo snemma í morgun. Svo hún ætlar að fara með mig í baðið hjá ömmu og afa á morgun og synda pínu þar, og svo megum við fara í sundtíma á þriðjudaginn í staðinn.
Annars hefur það helst gerst að afmælið hans stóra bróður var haldið síðasta sunnudag. Það var mjög skemmtilegt, ég reyndar svaf í vagninum næstum allan tímann. Ég kom bara inn í svona klukkutíma og svo fór ég út aftur. Ég geri það eiginlega alltaf núna, nema í dag af því það rennur svo úr nefinu mínu þá setti mamma mig bara í húfu og svefnpokann í rúmið hans pabba. Það er líka svo mikil snjókoma úti. Annars er ég búin að vera rosalega dugleg að fara út í kulda og snjó og bara öll veður. Mér finnst svo rosalega gott að sofa úti nefnilega. Svo er ég orðin mjög góð að fara að sofa á kvöldin, svona oftast alla vega. Mamma bara leggur mig í rúmið með snudduna, ég prófa að kalla aðeins á hana en svo fer ég bara að sofa. En svo er ég að vakna yfirleitt núna um miðja nótt og þá er ég ekki eins dugleg að fara aftur að sofa. Mamma lætur oftast eftir mér að fá smásopa en ég fer samt að háskæla þegar ég á að fara aftur að sofa. Æ stundum er maður bara lítill og einmana og vill kúra hjá mömmu sinni. Samt sef ég miklu betur í vöggunni minni en uppí hjá pabba og mömmu. En það er ósköp gott að sofna uppí með brjóstið í seilingarfjarlægð.
Engin ummæli:
Skrifa ummæli