Úpsí, ég held að mamma ætli að setja mig aftur í bumbuna og geyma mig þar :-( Ég er bara ekkert þreytt (finnst mér alla vega...), vildi alls ekki fara að sofa í gærkvöldi og öskraði bara eins og stunginn grís. Fyrst var ég ekkert svöng, svo setti mamma mig í rúmið og ég lék mér að tánum mínum í smá stund, svo var ég orðin svöng og öskraði þangað til mamma gaf mér að drekka, þá drakk ég þangað til ég var orðin södd, lagðist aftur í rúmið, fattaði að ég var ennþá svöng, öskraði, drakk, öskraði, drakk, o.s.frv. þangað til pabbi kom og svæfði mig. Hehe í stóra rúminu og lá við hliðina á mér á meðan, ég sem sagt vann! Svo vakti ég mömmu klukkan hálfátta, hún setti mig í vagninn klukkan hálftíu sem mér fannst alveg hundleiðinlegt og öskraði eins og stunginn grís, en svo sofnaði ég aðeins og svaf í svona hálftíma. Núna er ég í bílnum með pabba að ná í ömmu á Akureyri, það er nú gaman að hitta hana. Hún er sko miklu skemmtilegri en þessi hundleiðinlega mömmukona sem er bara þreytt og pirruð og vond við mig, lætur mig fara að sofa og eitthvað ömurlegt.
Annars voru mamma og pabbi voða dugleg í gær, héldu áfram að flísaleggja eldhúsvegginn. Þetta er að verða mjög fínt hjá þeim. Já og við mamma fórum í ótrúlega svaðilför á föstudaginn, við fórum til Brynjars Loga að hitta öll litlu börnin vini mína , rosalega gaman, það komu 18 börn held ég í allt. Nema við fórum labbandi og í strætó, en mamma fattaði ekki að það var ausandi rigning og rok og slabb og ógeðslegt veður. Það fór náttúrulega bara fínt um mig í vagninum, en mamma var rennandi blaut inn að beini. Sem betur fer var gott þvottahús niðri hjá Brynjari Loga svo mamma gat sett vagninn inn og hengt upp rennandi blautu úlpuna sína. Svo kom nú bara pabbi og náði í okkur svo við þyrftum ekki að labba heim.
Engin ummæli:
Skrifa ummæli