Jæja, þetta var nú meiri helgin. Á laugardaginn fór ég í sund og það gekk nú bara mjög vel. Mamma og pabbi voru pínu stressuð að ég myndi bara skæla en ég var voða dugleg. Ég gerði samt ekki allt sem hin börnin gerðu, af því ég var náttúrulega búin að missa einn tíma úr. Ég fæ bara aukatíma á þriðjudaginn í staðinn. Ég var nefnilega orðin voða þreytt þegar ég var búin að kafa þrisvar sinnum og synda nokkra hringi kringum pabba og mömmu. Ég skældi pínu, en svo hætti ég því alveg þegar við bara hvíldum okkur í smástund. Það verður gaman að fara á þriðjudaginn, þá kemur amma líka með. Jæja, svo eftir sundið setti mamma mig í vagninn og ég átti að sofa til klukkan þrjú eða svo. En ég hafði nú grun um að það væri eitthvað um að vera svo ég vaknaði bara eftir klukkutíma og vildi alls ekki sofa meira. Svo loksins tók mamma mig inn og ég fór bara að leika mér á teppinu og svona, voða góð. Svo leið alltaf lengri tími og ekki setti mamma mig aftur í vagninn, ég var nú orðin frekar þreytt. Svo fór mamma í einhvern rosa fínan kjól og pabbi í jakkaföt með skotti og Sunna frænka kom í heimsókn, ég skildi nú ekkert hvað var að gerast. En svo setti mamma mig loksins í vagninn og ég var dauðfegin því og steinsofnaði um leið. Svo eftir svona einn og hálfan tíma þá rumskaði ég og hugsaði að það væri nú best að athuga hvað væri að gerast, hvort ég væri nokkuð að missa af neinu. Þá kom Sunna frænka, ég var voða hissa, og hún líka að ég skyldi ekki sofa lengur. Ég var svolítið að kvarta í henni, hún gaf mér graut að borða en ég vildi nú helst bara drekka hjá mömmu minni. Hún var samt voða dugleg að leika við mig og ég gleymdi alveg að fara að háskæla, kvartaði bara pínu svona af og til. Svo loksins klukkan tíu kom mamma, ég vaknaði sko klukkan sex í vagninum. Hún gaf mér mjólk að drekka og setti mig í rúmið, ég var ósköp fegin að fara að sofa. En svo vaknaði ég aftur um þrjúleytið og ætlaði að fá sopa hjá mömmu. Þá var ég nú hissa því þá kom bara aftur Sunna frænka. Jæja, hún leyfði mér bara að fara upp með sængina og horfa á sjónvarpið og svo stuttu seinna kom mamma og við fórum öll að sofa. Daginn eftir vaknaði ég klukkan hálfníu, mamma var voða eitthvað lítið hress og setti mig í vagninn stundvíslega klukkan hálftíu þar sem ég svaf samfellt í átta tíma, ég var orðin svo hræðilega þreytt. Ég held að mamma hafi nú verið mjög ánægð með það, hún var eitthvað þreytt líka. Svo fór ég bara voða góð að sofa í gærkvöldi. Verst að ég kemst ekki út í vagninn minn í dag, það er brjálað óveður úti. En ég er bara í vagninum inni í herbergi hjá stóra bróður með opinn gluggann.
Jæja, og þar með vaknaði ég, æi ég var nú ekki búin að sofa lengi, bara klukkutíma. Annars má ég til með að monta mig hvað ég er góð að fara að sofa á kvöldin. Ég var bara í nokkra daga að venjast þessu, en nú bara setur mamma nýja bleyju, setur mig í náttföt og þvær mér í framan, svo leggur hún mig í vögguna og syngur Dvel ég í draumahöll og segir Vertu nú yfir og allt um kring, kyssir mig góða nótt og svo fer ég að sofa. Ég er eiginlega aldrei neitt að skæla eða neitt, stundum þarf hún að láta mig fá snudduna en oftast er ég bara góð og sofna eftir smástund. En mér finnst að mamma og pabbi verði nú að fara að láta mig fá almennilegt rúm, þessi vagga er eiginlega orðin alltof lítil fyrir mig, enda er ég að verða fimm mánaða gömul! Ég verð að ræða þetta alvarlega við þau. Jæja, best að fara með mömmu að ná í pabba minn, hann kemur alltaf heim í hádeginu og mamma er með bílinn. Hún fór að tala við einhverja ósköp góða konu á heilsugæslustöðinni og hún ætlaði að labba með mig í vagninum en það er bara svo vont veður að við urðum að fara á bílnum.
Engin ummæli:
Skrifa ummæli