Tanntakan gengur bara vel hjá mér, nú er hin framtönnin í neðri góm komin líka. Mamma er samt ekki ennþá búin að kaupa handa mér tannbursta, hún er búin að fara í margar búðir og það er bara hvergi til smábarnatannbursti. Þannig að nú er amma búin að taka málin í sínar hendur og vonandi kemur hún með tannbursta handa mér á eftir. Ég var í síðasta sundtímanum í gær. Ég var sko langduglegust. Eða alla vega langmontnust, ég nefnilega hrópaði og kallaði allan tímann svo það tækju örugglega allir eftir mér. Svo er næsta námskeið í ágúst, nú verða pabbi og mamma bara að vera dugleg að fara með mig í sund þangað til, svo ég haldist í æfingu. Ég er nefnilega orðin svo flink að kafa og synda.
Við mamma fórum loksins að hitta vini mína í dag, ég hafði ekki séð þau í langan tíma, heilan mánuð held ég bara. Það var rosalega gaman, ég var mjög spennt að skoða hina krakkana og prófa að toga í eyrun þeirra og svona. Svo fékk ég lánaðan vagninn hjá Söru Mist vinkonu minni svo ég gæti lagt mig aðeins því ég var náttúrulega orðin dauðþreytt, mamma þurfti að masa svo mikið. Í næstu viku ætla þau svo að koma að heimsækja mig, loksins gat ég boðið þeim í heimsókn fyrst það er komið parket á gólfið.
Engin ummæli:
Skrifa ummæli