þriðjudagur, júlí 12, 2005

Komin heim í bili

Það er nú aldeilis búið að vera mikið um að vera núna. Mamma og pabbi eru búin að gifta sig, það var sko heldur betur flott. Fyrst fórum við í kirkjuna, ég var ósköp stillt og prúð og fín með blómvöndinn minn. Svo fórum við í myndatöku, en ég komst ekki á myndina af því ég var svolítið "önugsnúin". Þá fórum við Sigurður Pétur heim þar sem veislan var byrjuð, en mamma og pabbi voru áfram í myndatöku. Þegar þau komu síðan í veisluna beið ég úti á svölum, og þegar ég sá þau koma sagði ég, "ég verð að fara niður að knúsa þau". Svo hljóp ég niður, stökk upp um hálsinn á mömmu og sagði, "til hamingju með afmælið!". Það var mikið fjör í veislunni, en svo þegar við Sigurður Pétur vorum orðin dálítið þreytt fórum við til mömmu hans og ég fékk að gista þar. Daginn eftir fór ég svo í Húsdýragarðinn með ömmu Giselu og afa Jóni og öllum frændum mínum og frænkum, svo fór ég heim í Skrúðás í kvöldmat með öllum og svo í Hjallabrekku til ömmu Ingu Rósu og afa Guðmundar því mamma og pabbi voru að fara til útlanda. Þetta var nú svolítið erfitt allt saman og ég var svolítið lítil og vælin stundum, þó mér fyndist líka gaman að vera hjá ömmu og afa.

Þegar mamma og pabbi komu aftur fórum við svo í útilegu með Sigurði Pétri og Nicole, skiptinemamömmu hennar mömmu minnar frá Kanada. Amma Inga Rósa var líka samferða okkur fyrstu dagana, svo þetta var fullt af fólki og mikið fjör. Við keyrðum alveg helling, fórum í Skaftafell, Atlavík, Breiðuvík, Akureyri og yfir Sprengisand í Víðihlíð. Við gerðum líka ýmislegt skemmtilegt, sigldum á Jökulsárlóni, tíndum krækiber í Suðursveit, hlupum berfætt í sandinum í Breiðuvík og stungum tánum í ískaldan sjóinn og fórum í sund á Egilsstöðum og á Akureyri. Á Akureyri vorum við auðvitað hjá ömmu Giselu og afa Jóni og það var líka mikið fjör.

En nú er Nicole á leiðinni í flugvélina til Kanada og við ætlum að vera heima í nokkra daga áður en næsti skammtur tekur við. Það er ágætt að slappa aðeins af og reyna að róa sig aðeins niður, þó það sé gaman að vera svona í sumarfríi þá er það stundum pínulítið erfitt. Við ætlum líka bara að gera eitthvað skemmtilegt hérna heima, mamma er til dæmis búin að lofa að fara með mig í strætó. Það eru líka allir velkomnir í heimsókn til okkar, okkur finnst mjög gaman að fá gesti í kaffi.