miðvikudagur, júní 30, 2004

Mannasiðir

Nú er ég búin að læra að biðja fallega, við matarborðið í gær sagði ég: "Pabbi, meiri bollu elskan".

fimmtudagur, júní 24, 2004

Sund sund sund og meira sund

Garðabæjarsundlaug er sko ótrúlega skemmtileg, það er nefnilega rennibraut þar og ég er örugglega búin að fara fimmtíu ferðir í henni. Á mánudaginn fór ég með pabba og mömmu og þá komst ég að því hvað rennibrautin er rosalega skemmtileg og fór endalausar ferðir í henni. Á þriðjudaginn kom svo stóri bróðir með og þá fór hann með mér aftur og aftur og aftur, þá fannst mér kominn tími til að prófa mig aðeins áfram og prófaði að renna mér nokkrum sinnum á maganum og líka að renna sitjandi á litlum korki þannig að ég fór á fleygiferð og á bólakaf í lokin. Þetta var alveg klikkað fjör skal ég segja ykkur. Vonandi kemur fljótt aftur gott veður svo ég geti haldið áfram að renna mér.

miðvikudagur, júní 23, 2004

Pottahelgin mikla í Víðihlíð


Á miðvikudaginn brunuðum við í Víðihlíð. Við brunuðum svo hratt að mamma gleymdi nokkrum hlutum, þar á meðal öllum fötunum mínum, svo pabbi og Sigurður Pétur skruppu rúnt í bæinn að sækja það sem hafði gleymst. Á meðan tókum við mamma á móti afa og ömmu og Sunnu og Magga og ég fór ekki að sofa fyrr en seint og um síðir. Ég var samt rosalega dugleg að fara að sofa, því allar snuddurnar mínar voru í bílnum hjá pabba og Sigurði Pétri svo ég sofnaði án þess að vera með eina einustu snuddu. Á fimmtudaginn var svo byrjað að koma pottinum fyrir, okkur Sigurði Pétri fannst heldur en ekki gaman að máta hann svolítið. Það var rosalega flott veður og Hekla skartaði sínu fegursta.


Það var nú einu sinni 17. júní, svo Sigurður Pétur heimtaði auðvitað hátíð. Og það var sko ekki amaleg hátíð, amma bakaði súkkulaðiköku með jarðarberjum og svo fengum við líka fullt af jarðarberjum að auki. Við fengum líka blöðrur, ég fékk hestablöðru og Sigurður Pétur uglublöðru. Mér fundust blöðrurnar mjög skrýtnar og skemmtilegar, þær gátu nefnilega flogið og svo skrjáfaði í þeim. Maggi var nú eitthvað að stríða mér og lét blöðruna mína fljúga alveg upp í loft þannig að ég náði ekki í spottann. Ég sá að ég gæti ekki látið stríða mér svona og æfði mig seinna í drykklanga stund í að hoppa, ég lagði mig alla fram en mér tókst nú ekki að láta tærnar lyftast frá gólfinu.En mér tókst alla vega að skemmta öllum mjög vel.


Kallarnir voru ótrúlega duglegir að smíða og setja upp pottinn svo að um kvöldið gátu allir farið í pottinn nema ég, klukkan var orðin of margt svo að ég þurfti að fara að sofa. En ég fékk að fara í hann daginn eftir og það var sko ekkert smá gaman, það er stökkpallur í honum og ég prílaði aftur og aftur upp á stökkpallinn og lét mig detta af honum á bólakaf. Á laugardaginn skruppum við líka í sund í Þjórsárdal, þar var reyndar ekki stökkpallur en hins vegar var brekka sem var mjög gaman að hlaupa niður.


Á sunnudaginn var svo kominn tími til að halda heim, það var reyndar svo gott veður að við ætluðum aldrei að komast af stað, en mamma og pabbi og afi og amma ákváðu samt að standa við það að fara torfærufjallveg heim. Það fannst okkur Sigurði Pétri sko gaman (þó við værum reyndar orðin pínu þreytt undir lokin, við vorum ekki komin heim fyrr en 11 um kvöldið). Mest fannst okkur gaman að hossast og keyra í vatn, Stóra Laxá var til dæmis mjög stór og djúp og skemmtileg. Það var líka gaman að stoppa og borða nesti, og skoða fjöllin og jöklana sem voru ótrúlega flott í góða veðrinu. En það var líka gott að koma heim og þó að klukkan væri orðin margt þá var ég ekkert til í að fara að sofa, ég vildi lesa allar bækurnar mínar, horfa á allar vídeóspólurnar, lita, kubba, púsla og bara gera allt sem er hægt að gera heima og ég var ekki búin að gera í marga daga. En svo var auðvitað líka gott að sofna í rúminu sínu, ég var nú orðin ansi lúin verð ég að viðurkenna.

miðvikudagur, júní 16, 2004

Mikið var þetta nú gott

Ég vaknaði bara einu sinni í nótt til að fá mér að drekka, og steinsvaf svo á báðum mínum grænu eyrum til klukkan hálfníu í morgun. Mamma trúði því varla þegar hún leit á klukkuna. Mér er greinilega eitthvað að batna af veikinni. Í fyrrinótt vaknaði ég fimm sinnum og vildi ekki neitt, ekki drekka, ekki snuddu, ekki láta halda á mér og bara ekki neitt. Það var ekkert gaman, þetta er miklu betra að sofa svona vel og vandlega alla nóttina.

þriðjudagur, júní 15, 2004

Smá skýringar

Svo enginn fari nú að hafa áhyggjur, þá er þetta ekkert hættulegur sjúkdómur, það geta allir fengið hann en hann er algengastur hjá litlum börnum og virðist vera nokkuð algengur. Meiri upplýsingar er líka að finna hér.

mánudagur, júní 14, 2004

Muuuuuu

Loksins fattaði mamma að ég er með gin- og klaufaveiki, sem heitir víst í fólki handa-, fóta- og munnsjúkdómur og er ekki sama veiki og kusurnar fá. En þess vegna er allt skinnið að detta af iljunum mínum, þess vegna vil ég bara borða banana, þess vegna er svona vont að hósta og þess vegna hef ég sofið svona illa og verið pirruð. Það er nú gott að vita hvers vegna þetta er, nú bara grær þetta vonandi fljótt.

laugardagur, júní 12, 2004

Nýjar myndir

Mamma þurfti að telja sér trú um að hún væri að gera eitthvað mikilvægara en að smíða, svo hún er búin að setja inn myndir frá því í mars og apríl, og sömuleiðis breyta myndasíðunni þannig að tenglar í nýjustu myndirnar eru núna efst í staðinn fyrir neðst.

föstudagur, júní 11, 2004

Það er gott að eiga góða að

Um síðustu helgi fóru mamma og pabbi í flugvélina og ég fékk að fara til ömmu og afa í Hjallabrekku á meðan. Mamma var búin að útskýra þetta allt saman vel og vandlega fyrir mér og ég hélt ég væri með þetta alveg á hreinu á föstudagsmorguninn og ætlaði bara að drífa mig til afa og ömmu. Þá hafði ég aðeins misskilið því ég átti að fara fyrst til dagmömmunnar og svo sóttu amma og afi mig. Ég var nú pínu svekkt yfir þessu, en jafnaði mig þó nokkuð fljótt á því. Svo var auðvitað mjög gaman um helgina, ég fór til dæmis að gefa öndunum brauð og fékk afa til að skutla mér. Svo fórum við í heillangan bíltúr til að fara í veislu þar sem ég fékk heilan haug af jarðarberjum. Ég væri alveg til í að borða alltaf bara jarðarber og ekkert annað. Og margt fleira skemmtilegt gerði ég, fór á róló, í bað, sá aumingja manninn á hjólinu og ýmislegt. Amma og afi fóru svo með mig til dagmömmunnar þegar helgin var búin og sóttu mig líka, mamma og pabbi komu nefnilega ekki fyrr en ég vaknaði á miðvikudaginn. Þetta var allt saman mjög gaman og gekk vel, eini gallinn er að það hefur eittvað verið að angra mig svo að af og til finn ég eitthvað til og líður illa, ég hef líka verið að fá hita á kvöldin og ekki getað sofið á daginn en við vitum ekki nógu vel hvað þetta er sem er að trufla mig. Kannski eru það tennur, en alla vega ekki eyrun, ég er búin að láta lækninn ganga úr skugga um það.

fimmtudagur, júní 03, 2004

Húrra fyrir rörunum

Og húrra fyrir nefkirtlunum sem eru farnir. Ég er laus við kvefið mitt, alveg án þess að fá í eyrun, og það er í fyrsta skipti sem það gerist. Aldeilis er það ánægjulegt. Og svo er bara komið sumar með sól úti, sól inni, sól í hjarta og sól í sinni, og við leikum úti allan daginn hjá dagmömmunni. Alveg er ég hæstánægð með það, það er svo gaman að leika úti og sofna dauðþreyttur á kvöldin.

þriðjudagur, júní 01, 2004


Við Sunna frænka

Hér sjáið þið mig og nýja bílinn

Svona er ég dugleg að moka

Allt að gerast

Pabbi var í útlöndum í síðustu viku, á meðan keyptum við mamma og Sigurður Pétur handa honum bíl. Hann er stór, svartur og mjög flottur, við krakkarnir erum mjög ánægð með hann og sem betur fer pabbi líka. Um helgina fórum við svo í Víðihlíð og byrjuðum að undirbúa að koma þar fyrir heitum potti. Ég var mjög dugleg að hjálpa við að moka og mamma og pabbi og Sigurður Pétur voru nokkuð dugleg líka. Svo voru þarna afi og amma, Þórður, Sunna og Maggi. Mér fannst sko ekki amalegt að hafa allt þetta fólk í kringum mig og hafði reglulega nafnakall.