föstudagur, júní 11, 2004

Það er gott að eiga góða að

Um síðustu helgi fóru mamma og pabbi í flugvélina og ég fékk að fara til ömmu og afa í Hjallabrekku á meðan. Mamma var búin að útskýra þetta allt saman vel og vandlega fyrir mér og ég hélt ég væri með þetta alveg á hreinu á föstudagsmorguninn og ætlaði bara að drífa mig til afa og ömmu. Þá hafði ég aðeins misskilið því ég átti að fara fyrst til dagmömmunnar og svo sóttu amma og afi mig. Ég var nú pínu svekkt yfir þessu, en jafnaði mig þó nokkuð fljótt á því. Svo var auðvitað mjög gaman um helgina, ég fór til dæmis að gefa öndunum brauð og fékk afa til að skutla mér. Svo fórum við í heillangan bíltúr til að fara í veislu þar sem ég fékk heilan haug af jarðarberjum. Ég væri alveg til í að borða alltaf bara jarðarber og ekkert annað. Og margt fleira skemmtilegt gerði ég, fór á róló, í bað, sá aumingja manninn á hjólinu og ýmislegt. Amma og afi fóru svo með mig til dagmömmunnar þegar helgin var búin og sóttu mig líka, mamma og pabbi komu nefnilega ekki fyrr en ég vaknaði á miðvikudaginn. Þetta var allt saman mjög gaman og gekk vel, eini gallinn er að það hefur eittvað verið að angra mig svo að af og til finn ég eitthvað til og líður illa, ég hef líka verið að fá hita á kvöldin og ekki getað sofið á daginn en við vitum ekki nógu vel hvað þetta er sem er að trufla mig. Kannski eru það tennur, en alla vega ekki eyrun, ég er búin að láta lækninn ganga úr skugga um það.

Engin ummæli:

Skrifa ummæli