sunnudagur, desember 31, 2006

Árið

Mamma mín vill útnefna sjálfa sig mann ársins fyrir að eignast svona ótrúlega flottan litla bróður handa mér. Hún er nefnilega mjög montin af því hvað hún var flink í að koma honum í heiminn, sérstaklega af því það gekk nú ekkert svo vel með mig á sínum tíma. Og hann er náttúrulega flottasti litli bróðir í heimi. Pabbi kemur síðan sterkur inn í annað sæti fyrir að vera svo skemmtilegur og góður og fara með okkur í ævintýraferðir í fjörunni. Og líka fyrir að smíða frábært baðherbergi handa okkur og íbúð á neðri hæðinni.

Í gærkvöldi var ég að dunda mér við að skrifa á meðan mamma og pabbi spiluðu við Sigurð Pétur. Ég skrifaði:
Þíaþ jólin eru indiseg jólin eu bstu jól í hmi (ég ruglast stundum pínu hvert ég er komin og gleymi stöku stöfum)
Svo skrifaði ég líka allt sem var í Ronju, ég fékk nefnilega að fara aftur að sjá Ronju í leikhúsinu í gær. Og það var:
Rasálvar, hultufólk, Ronja go Birkir, grátverkar (grádvergar), Matías, Sgalapétur (Skalla-Pétur), ridar (riddarar), Lovía (Lovísa), Borki, skóarorir (skógarnornir), Valdís og síðast en ekki síst, Hevedsskáin. Það er dálítið erfitt að skrifa Helvítisgjáin :-)

sunnudagur, desember 24, 2006

Jólin

Þá eru jólin loksins komin! Þessu lýsti ég nokkrum sinnum yfir á meðan við vorum að opna pakkana. Aðfangadagur var nú dálítið strembinn og mikið að gerast, afmælið hennar mömmu, möndlugrautur, jólabað, biðin eftir hátíðinni, spenningurinn yfir pökkunum og svo spennan yfir öllum fallegu og skemmtilegu gjöfunum. En þetta gekk nú stóráfallalaust og ég var afskaplega ánægð og glöð í lok dagsins, eins og við öll.

Á jóladag fórum við í jólaveislu til Önnu-Lindar frænku og hittum þar öll stóru frændsystkinin mín. Það var auðvitað brjálað fjör og við skemmtum okkur öll mjög vel. Guðmundur Steinn var ekki síst ánægður, hann fékk frostpinna í plasti að naga og fannst það æði, hann klæjar greinilega mikið í gómana litla greyið.

Á annan í jólum elduðu svo mamma og pabbi kalkún, það er hvorki meira né minna en níundi jólakalkúnninn sem þau elda saman! Þeim finnst það alveg ótrúlegt. Og þá kom Júlía sætaskott frænka mín og auðvitað afi og amma, Þórður og Sunna og Maggi. Mér fannst rosa gaman, sérstaklega þegar við horfðum á vídeómyndir af mér. Ég nennti sko ekkert að horfa á myndir af Guðmundi Steini, ég vildi bara hafa þær af mér.

Í gær fórum við svo á stóra fína jólaballið, ég var ekkert hrædd við jólasveinana og leiddi meira að segja einn þeirra! Og á morgun fer ég á Ronju ræningjadóttur og svo kemur gamlársdagur. Meira hvað það er margt skemmtilegt að gerast núna!

föstudagur, desember 22, 2006

Jibbí

Pabbi er kominn heim og mikið er ég glöð. Ég hélt næstum því að hann kæmist ekki heim fyrir jólin.

Æsispennandi...

Pabbi minn er í Glasgow, hann þurfti að fara á fund í gær og átti að vera að fara í flugvélina núna, en það er búið að seinka fluginu um fjóra klukkutíma. Nú verður spennandi að sjá, kemst hann heim áður en næsta óveður kemur!

þriðjudagur, desember 12, 2006

Jólasveinar

Hér er allt í fullu fjöri svona rétt fyrir jólin. Um síðustu helgi fórum við á jólaball í vinnunni hjá pabba og mömmu. Við systkinin vorum rosa fín í jólafötunum okkar og skemmtum okkur mjög vel. Kertasníkir kom og ætlaði að borða seríuna af jólatrénu. Hann var aldeilis fyndinn. Ég var ekkert hrædd við hann, mamma þurfti bara að halda á mér svo ég sæi betur.

Við fórum líka á jólahlaðborð í Húsdýragarðinum. Amma Inga Rósa og afi Guðmundur komu með og það var rosa gaman hjá okkur. Ég var dálítið smeyk við Grýlu, en vinur minn sem ég kynntist þarna passaði mig fyrir henni. Svo var líka jólasveinn og ég var eiginlega ekkert hrædd við hann. Eftir á löbbuðum við um og skoðuðum dýrin, og vorum svo heppin að hitta á bæði þegar hreindýrunum var gefið og selunum.

Stekkjarstaur kom svo í nótt og gaf mér skopparabolta í skóinn. Mér fannst ótrúlega spennandi að hann væri að koma, og átti pínu erfitt með að fara að sofa. Ég var líka búin að heyra í honum þegar ég var að fara að hleypa Gabríel út, þá heyrði ég svona eins og einhver væri að labba með staf. Þá varð ég nú frekar skelkuð. En ég þorði alveg að kíkja ein í skóinn, mamma og pabbi þurftu ekkert að koma með mér eins og þegar ég var lítil.

föstudagur, desember 08, 2006

Pínu lasin

Í dag er ég pínu lasin og er heima með mömmu og Guðmundi Steini. Ég var með dálítinn hita í morgun, en ég er samt ágætlega hress og áðan sagði ég mömmu að ég ætlaði bara að hoppa úr mér hitann. Svo gormaðist ég um allt eins og lítil kengúra. Ég þurfti auðvitað ekki að fara í skólaföt svo ég notaði tækifærið og klæddi mig upp á, fór í kjól og sokkabuxur, setti blýant á augabrúnirnar, fékk mér kinnalit og gloss, og perlufesti um hálsinn. Algjör pæja. Svo bökuðum við mamma smákökur með rúsínum í, okkur pabba finnast þær ótrúlega góðar en ekki mömmu því hún borðar ekki rúsínur nema það sé súkkulaði utan um þær.

Áðan spurði ég mömmu, hvað er beita? Mamma reyndi að útskýra það, það er eitthvað sem maður setur á öngulinn þegar maður er að veiða, eins og til dæmis orm. Já, sagði ég, eða fugl!

laugardagur, desember 02, 2006

Desember

Jæja, þá er loksins kominn desember. Í gærmorgun sagði pabbi, nú er kominn desember, þá koma jólin. Nei, sagði ég, það eru ekki að koma jól, það er enginn snjór. Svo hugsaði ég mig aðeins um og sagði svo, það verða rauð jól! En svo er nú allt hvítt núna, svo það er aldrei að vita nema verði hvít jól. Ég fékk loksins súkkulaðidagatal, í fyrsta skipti. Maður á að finna töluna sem er og svo fær maður súkkulaði með engu inni í. Það er nú eitthvað fyrir mig!

Í dag á hún amma Inga Rósa afmæli. Til hamingju með daginn amma mín, ég hlakka mikið til að koma til þín á eftir. Og það er nóg að gera í afmælum þessa dagana því Anna-Lind frænka mín og Darri eru bæði nýbúin að eiga afmæli. Hamingjuóskir til ykkar og við hlökkum líka mikið til að koma loksins í heimsókn á morgun. Það er nóg um að vera hjá okkur um helgina, því fyrir utan tvær afmælisveislur þá er Guðmundur Steinn að fara á sundnámskeið, mamma í jóga, Sigurður Pétur í fótbolta og karate og ég í fimleika. Það er síðasta skiptið í fimleikunum og foreldrarnir eiga að koma í íþróttafötum og gera æfingarnar með okkur. Ég bíð sko spennt eftir því að láta mömmu fara í kollhnísa og alls konar og kenna henni allt sem á að gera. Pabbi ætlar líka að koma með og taka myndir af okkur mömmu.

Í fyrradag fórum við mamma og Guðmundur Steinn að heimsækja dagforeldrana mína, þau Katrínu og Hilmar. Það var svo gaman og ég var búin að hlakka lengi til að fara til þeirra, ég teiknaði mynd í leikskólanum og pakkaði inn handa þeim. Okkur mömmu þykir ósköp vænt um þau, ég var alltaf svo glöð og ánægð hjá þeim. Þau eru komin í nýtt hús og eru með ótrúlega fína aðstöðu fyrir litlu börnin. En Guðmundur Steinn verður því miður ekki svo heppinn að vera hjá þeim, því hún Katrín er með lítinn strák í maganum sem á einmitt að fæðast í vor þegar Guðmundur Steinn þarf að fara í pössun. Við samgleðjumst þeim samt auðvitað, og líka litla stráknum sem fær svona góða mömmu og pabba :-)

miðvikudagur, nóvember 22, 2006

Stórafmæli

Í dag er hún Sunna frænka mín hvorki meira né minna en 30 ára! Til hamingju með daginn Sunna mín, ég vildi að ég gæti komið að heimsækja þig alein, mamma á að vera heima að passa Guðmund Stein á meðan.

Og hann afi minn Jón er nýorðinn 75 ára, til hamingju með það afi minn! Við fórum í veislu til hans á sunnudaginn. Ég var pínu ringluð með það hvar veislan ætti að vera, ég hélt að við myndum kannski fara til Akureyrar en mamma sagði mér að veislan yrði í Reykjavík. Svo ég var voða spennt að fara til Reykjavíkur í veislu og var alla leiðina í gegnum Garðabæ og Kópavog að spyrja hvort við værum núna komin til Reykjavíkur. Það var ótrúlega gaman í veislunni, ég var allan tímann að lita og spila við Silju frænku mína og líka fleiri krakka sem ég þekki ekki. Ég var ekkert feimin, ég sagði þeim hvað ég er gömul og hvað leikskólinn minn heitir.

Í gær var sundnámskeið og eftir námskeiðið átti ég nokkur gullkorn:
Mamma: Við verðum að drífa okkur svo pabbi komist á fundinn.
Rósa: Hvað gerist ef hann kemst ekki á fundinn? Missir hann vinnuna?
-
Rósa (við tvöfaldar útidyrnar í íþróttahúsinu): Þarna er önnur hurð. Er þetta aukahurð? Ef hin fýkur af?
-
Rósa: Hvað varstu að segja við manninn?
Mamma: Ég var að segja að það væru menn niðri og þar gæti hann kannski fengið að hringja.
Rósa: Hvað heldurðu að þeir segi við hann? Heldurðu að þeir segi, "þú ert svikari!"

laugardagur, nóvember 18, 2006

Allir hressir

Já, hvað gerðist. Það var nú bara þannig að ég var að hlaupa með vinkonu minni og ég var að leiða hana með báðum höndum fyrir aftan bak. Svo datt ég og þá gat ég ekkert borið fyrir mig hendurnar svo ég stakkst bara beint á ennið. En kúlan er búin að hjaðna mikið og ég er orðin eldhress aftur, sem betur fer.

Gabríel er líka eldhress, hann var voða mikið grey því hann var í "klippingu" hjá dýralækninum. En hann er alveg búinn að jafna sig á því, honum finnst bara dálítið leiðinlegt að þurfa að vera með skerm um hausinn.

fimmtudagur, nóvember 16, 2006

Lítill kiðlingur

Nú er ég alveg eins og einhyrndur kiðlingur, með stóran hnýfil út úr enninu. Mamma kom og sótti mig í leikskólann og sat með mig í fanginu, og pabbi keypti verðlaun handa mér. Ég var algjört grey, en sem betur fer er ég öll að hressast núna.

sunnudagur, nóvember 12, 2006

Brabra

Ég var að mála mynd og ætlaði að biðja mömmu að hjálpa mér, svo ég spurði hana hvort hún kynni að mála önd. Mamma heyrði eitthvað ekki nógu vel í mér og spurði til að vera viss, "önd, svona sem segir brabra?". "Neinei", sagði ég, "bara þegjandi önd".

föstudagur, nóvember 10, 2006

Meiri hundasögur

Aftur er komið óveður, og í nótt fauk stórt rusl inn í garðinn okkar. Gabríel, varðhundurinn mikli, áttaði sig strax á því að þarna var illskeytt glæparusl á ferð og gelti sem óður væri þangað til mamma gafst upp á honum og lét hann sofa inni í herbergi hjá sér. Í morgun hringdi svo síminn hennar mömmu. Hún skildi ekkert hvar síminn var, en fann hann á endanum inni í hundabúrinu! Það sást samt ekkert á honum, Gabríel hafði ekkert nagað hann og hefur örugglega bara ætlað að hringja í tíkina hinum megin við götuna sem hann er svo ægilega skotinn í þessa dagana.

sunnudagur, nóvember 05, 2006

Ekki hundi út sigandi

Nei, það er bókstaflega ekki hundi út sigandi, alla vega ekki okkar hundi. Hann er voða órólegur yfir þessu óveðri greyið en sem betur fer vaknaði hann þegar pabbi fór á flugvöllinn í nótt og fór þá út í garð. Svo hann ætti ekki að þurfa að pissa í sófann alveg strax (Gabríel þá auðvitað, ekki pabbi). Pabbi er líka grey, hann hangir úti á flugvelli og bíður eftir að það verði flogið, sem verður ábyggilega ekki fyrr en einhvern tímann seint í dag. En það er alltaf í athugun eftir klukkutíma og svo annan og annan, svo hann neyðist til að hanga þarna og bíða.

Í gær var ég í afmæli hjá vinkonu minni af leikskólanum, og Lína langsokkur kom í afmælið! Það var sko ekkert smá flott, hún söng og dansaði með okkur og svo ætlaði hún að stinga skeið beint í afmæliskökuna. En við kenndum henni hvernig maður á að borða afmælisköku og þá gerði hún alveg eins og við.

miðvikudagur, nóvember 01, 2006

Frí og fjör

Í síðustu viku var vetrarfrí í skólanum hjá Sigurði Pétri, svo ég fékk aukafrí í leikskólanum mínum og við fórum að heimsækja ömmu og afa á Akureyri. Það er náttúrulega ekki að spyrja að því, alltaf jafn notalegt að koma þangað og margt skemmtilegt að gera. Amma fór með okkur í jólahúsið og út í garð að búa til snjókarl, og afi sýndi okkur safnið sitt (Iðnaðarsafnið). Pabbi fór með okkur í bíó og svo vorum við systkinin rosa dugleg að leika saman úti og inni. Guðmundur Steinn var eins og engill, svaf báðar leiðir í bílnum og var ekki með neitt vesen eins og ég þegar ég fór í fyrsta skipti að heimsækja ömmu og afa á Akureyri. Þá var ég álíka gömul og hann er núna, og þá kúkaði ég svo agalega á Brú í Hrútafirði að ég þurfti að fá ný föt frá toppi til táar. Og það var svo kalt á klósettinu þar sem skiptiborðið var að ég orgaði hástöfum allan tímann. Það var nú meira.

Gabríel fór á hundahótel. Það gekk bara vel en hann var nú svolítið skrítinn fyrst eftir að hann kom aftur heim. Það var eins og hann væri búinn að týna gleðinni sinni, en hann fann hana nú fljótt aftur sem betur fer.

Ég er byrjuð á sundnámskeiði tvisvar í viku, rosa skemmtilegt. Svo er ég líka á dansnámskeiði í leikskólanum, ég er alveg á fullu að læra eitthvað nýtt þessa dagana. Ég er líka alltaf að æfa mig að lesa og skrifa, á Akureyri bjó ég til kort og skrifaði á það "Tyl leikskólynn Ásar". Svo skrifaði ég líka alla skólana sem ég fer í, "Barnaskólynn", "Sjálandskóly" og "Garðaskóly".

Myndirnar eru komnar í mun betra lag en áður, svo ef einhverjir ætluðu að skoða skírnarmyndirnar en höfðu ekki þolinmæði til þess, þá er það hægt núna.

þriðjudagur, október 17, 2006

Ekkert að gerast?

Jú, hér er allt búið að vera í fullum gangi að ganga frá íbúð á neðri hæðinni hjá okkur. Leigjendurnir flytja væntanlega inn um helgina. Svo er litli bróðir búinn að fá klippingu, mömmu og pabba fannst hann svo asnalegur með langar hárlufsur innan um skallablettina að þau snoðuðu hann bara. Það gekk að vísu ekkert stórkostlega vel, hann er aðeins minna asnalegur en ekki mikið.

Ég er á fullu í félagslífinu þessa dagana, mesta sportið er að fá að fara saman heim af leikskólanum með vinkonum mínum. Það eru líka nokkrar vinkonur hérna stutt frá sem ég get labbað til og spurt eftir þeim. Þetta er rosalega spennandi allt saman og ég vil helst alltaf vera að heimsækja einhverja og fá einhverja í heimsókn.

En á ég að segja ykkur eitt. Risaeðlurnar voru á jörðinni fyrir hundrað árum og þær eyðilögðu allt, meira að segja bílana. En nú er búið að laga allt á jörðinni. Svona veit ég nú margt. Ég veit líka hvernig regnbogi verður til, það verður að vera rigning og sól og þá kemur regnbogi. Rigningin kemur úr skýjunum og þegar vatnið gufar upp þá koma skýin.

föstudagur, október 06, 2006

Lengi er von á einum

Haldið þið að ég sé ekki bara komin með eyrnabólgu! Það er nú orðið langt síðan síðast, ætli það hafi ekki bara verið síðasta haust þegar ég fékk sýkingu undan rörinu sem átti að vera farið. Mér finnst alveg frábært að fá eyrnabólgu, þá fæ ég að fara til læknis og taka meðal. Það er bara eitt af því skemmtilegasta sem ég veit. Að vísu fannst mér ekkert gaman í gærkvöldi að vera illt í eyranu, það var svolítið erfitt að sofna, en svo fékk ég verkjalyf og þá leið mér betur.

Ég er að fara að halda aðra afmælisveislu um helgina, um daginn var það fyrir leikskólavinkonur mínar og núna verður fyrir frænkur mínar og frændur, og vini mína eins og ömmu og afa og svoleiðis. Ég hélt að þá yrði ég fimm ára, en svo útskýrði mamma fyrir mér að ég verð víst áfram fjögurra ára.

föstudagur, september 29, 2006

Ég kann að skrifa

Daginn áður en ég varð fjögurra ára skrifaði ég "Gabríel kúkar í pabba rúm" og "Rósa pissar í móa", alveg sjálf. Síðan er ég líka búin að búa til kort handa vinkonu minni og skrifa á það "Kort tyl Ylfu Sólar frá Rósu".

Ég er líka búin að fá nýtt prinsessurúm og í nótt svaf ég 12 tíma án þess að rumska. Þetta er allt annað að eiga svona alvöru fínt rúm með góðri dýnu. Mamma og pabbi eru líka mjög ánægð með nýja rúmið, ég verð nefnilega svo úrill og önugsnúin þegar ég sef ekki nóg. Guðmundur Steinn var líka purrka í nótt, hann svaf samfellt í 7 tíma! Mamma var nú heldur en ekki kát með það.

Af honum er það annars helst að frétta að hann var í 6 vikna skoðun og er orðinn 6.360 grömm og 62 sentimetrar. Hann er semsagt búinn að stækka um einn sentimetra á viku frá því hann fæddist.

þriðjudagur, september 19, 2006

Myndirnar

Myndirnar eru orðnar svo ægilega hægvirkar af einhverjum ástæðum, það stendur vonandi til bóta á næstunni.

mánudagur, september 18, 2006

Ég á afmæli í dag!

Jibbí skibbí, í dag er ég fjögurra ára! Í gær þegar ég vaknaði var pakkaleit, mamma og pabbi földu pakkana mína og ég leitaði svo að þeim. Svo var ótrúlega fín veisla fyrir vinkonur mínar á leikskólanum, við fengum kökur og fórum í alls kyns leiki. Það var pínu erfitt að vera svona spennt, sérstaklega var svolítið erfitt að bíða í fyrradag, en þetta tókst allt saman mjög vel og ég var afskaplega ánægð með veisluna.

Pabbi fór til útlanda í nótt svo mamma og Guðmundur Steinn fóru með mig í leikskólann. Ég fékk að fara með Guðmund Stein inn og sýna stúlkunum hann, ég var nú heldur en ekki upp með mér að eiga svona fínan bróður og vera svo líka afmælissstúlka með mynd af mér uppi á töflunni. Ég fæ að baka köku í leikskólanum í dag og það verður sungið fyrir mig. Það er sko gaman að eiga afmæli.

Þar sem pabbi er í útlöndum þá verður mamma ein heima alla þessa viku með afmælisafganga inni í ísskáp, allir velkomnir í heimsókn að bjarga mömmu frá að háma þá í sig ein.

Og myndir úr skírninni hans Guðmundar Steins eru komnar hér.

þriðjudagur, september 12, 2006

Guðmundur Steinn

Þá er búið að skíra litla bróður, séra Guðjón frændi okkar kom hérna heim og það var ósköp ljúf og notaleg athöfn. Afi Guðmundur og Þórður frændi spiluðu á gítar og allir sungu skírnarsálminn og Leiddu mína litlu hendi, og Guðmundur Steinn litli bróðir brosti út að eyrum og hjalaði svo hann var greinilega ánægður. Ég er líka mjög ánægð með nafnið hans og er alltaf að nota það.

Svo fæ ég veislu um næstu helgi því ég verð fjögurra ára á mánudaginn. Ég ætla að bjóða vinkonum mínum af leikskólanum um helgina og svo ætlum við að bjóða frændum mínum og frænkum seinna. Verst að þá kemst hún Júlía Jökulrós ekki, því hún er flutt til útlanda. Mikið eigum við nú eftir að sakna hennar :-(

sunnudagur, september 03, 2006

Partý og veislur

Amma mín var svo góð að bjóða mér í grillpartý í götunni hennar. Þar var fullt af krökkum og ég fékk pylsu, litabók, liti og krítar. Ég skemmti mér ótrúlega vel, Sigurður Pétur var sko algjör kjáni að vilja ekki koma með. Svo er ég að fara í afmælisveislu hjá Júlíu litlu frænku minni sem er hvorki meira né minna en eins árs í dag, til hamingju með það Júlía Jökulrós! Það er aldeilis nóg af veislum þessa dagana, því um næstu helgi á svo að skíra litla bróður minn. Hann er búinn að fá að fara út í vagn í labbitúr og líka búinn að sofa úti, þó hann sé bara tveggja vikna. Hann er svo stór og duglegur, og það er búið að vera svo gott veður að hann má það alveg.

miðvikudagur, ágúst 30, 2006

Meistari slönguspilsins

Það er sko ég, ég mala mömmu alltaf í slönguspili. Ég er ótrúlega heppin með að lenda á stóra stiganum en mamma fer alltaf bara hring eftir hring í neðstu slönguna. Það finnst mér sko ótrúlega fyndið.

Af litla bróður er allt gott að frétta, hann er voða rólegur og góður sem er mjög gott því þá geta mamma og pabbi hugsað meira um mig. Ég er líka mjög dugleg að vera stóra systir, ég er góð að fara að sofa og dugleg að drífa mig í leikskólann á morgnana og kem svo hress og kát heim. Þá fer ég í slönguspil við mömmu eða út að labba með pabba og Gabríel, hlusta á sögur í herberginu mínu og mála eða lita, eða að lesa bók með pabba eða mömmu. Það er alltaf eitthvað skemmtilegt að gera hjá mér.

Mamma er líka hress og kát, hún getur alveg sofið fullt og er ekki næstum því eins þreytt og þegar litli bróðir var í bumbunni. Pabbi er líka heima að passa hana og litla bróður og Gabríel. Hann fer alltaf með mig í leikskólann á morgnana og sækir mig oftast líka. Stundum fer hann labbandi með Gabríel og ég fer á hlaupahjólinu, það finnst mér skemmtilegast.

Nokkrar myndir eru svo komnar í viðbót af krúttapúttinu.

miðvikudagur, ágúst 23, 2006

Litli bróðir stækkar

Litli bróðir er ótrúlega duglegur að sofa, drekka og stækka. Í 5 daga skoðuninni var hann kominn vel yfir fæðingarþyngdina sína. Svo þeir sem vilja sjá hann á meðan hann er ennþá lítill eru velkomnir í heimsókn, hringið bara á undan ykkur svo mamma og pabbi verði nú örugglega komin á fætur :-) Verst finnst okkur hvað afi Guðmundur er langt í burtu, hann var nýfarin að keyra rútu þegar litli bróðir fæddist. Við söknum hans og hlökkum til að hann komist að skoða litla afastrákinn. Amma Inga Rósa sótti mig í leikskólann í gær og fór með mig í Húsdýragarðinn. Þar lentum við í brjáluðu óveðri og þurftum að flýja inn. En það var samt ótrúlega gaman, við sáum refi og meira að segja einn yrðling. Í morgun spurði ég mömmu hvort amma myndi ekki sækja mig aftur í leikskólann, hún er miklu skemmtilegri en mamma og pabbi sem eru bara alltaf í leti.

laugardagur, ágúst 19, 2006

Litli bróðirÞetta er hann litli bróðir minn. Hann er ótrúlega rólegur og góður, sefur bara og drekkur og er algjört krútt. Þegar hann var loksins rekinn af stað var hann enga stund í heiminn, bara rétt um 3 tíma frá því mamma fékk drippið. Það fannst henni nú ekki mikið mál, þó hún skildi ekkert í því rétt á meðan hvernig henni hefði dottið í hug að gera þetta aftur. Fleiri myndir eru svo hér.

fimmtudagur, ágúst 17, 2006

Örblogg

sætur, ég er búin að fara að skoða hann á sjúkrahúsinu

Örbloggfærslu sendi ég
Powered by Hexia

Örblogg

Litli bróðir fæddist í dag, hann er 17 merkur og 56 sm. og ótrúlega

Örbloggfærslu sendi ég
Powered by Hexia

þriðjudagur, ágúst 15, 2006

Allt í plati?

Það bólar ekkert á þessu litla barni, ætli mamma sé ekki bara búin að borða svona mikið nammi og þess vegna er hún svona feit og löt. Í morgun fórum við í leikskólahópnum mínum í göngutúr og hittum þá mömmu og Gabríel sem voru líka í smá morgungöngu. Það fannst mér nú sniðugt, þá gat ég gefið henni risastóra fífilinn sem ég hafði fundið. Ég vildi náttúrulega helst bara fara með þeim heim, en svo sættist ég nú alveg á að það væri ekki í boði. Enda er miklu skemmtilegra að vera í leikskólanum heldur en að hanga heima.

P.s. frá mömmu - það er í alvöru barn þarna, alveg satt! Það fær séns í einn dag í viðbót, annars verður gangsett á fimmtudagsmorguninn.

laugardagur, ágúst 12, 2006

Ekkert litla barn

Já, mamma var líka búin að átta sig á því að þessi "Loksins" fyrirsögn gæti misskilist :-) En neinei, litla barnið situr sem fastast í bumbunni og ætlar ekkert að koma út. Nema kannski helst bara beint út um naflann eða eitthvað, það er voða mikið að hnoðast og sparka og vesenast þessa dagana. Mamma mín er ekkert kát með þetta lengur, aðallega af því það eru alltaf allir að tala um gangsetningu og hún vill það ekki. Annars líður henni ljómandi vel, fyrir utan bara að hún er náttúrulega þreytt og alltaf liggjandi í leti. Ég er líka alltaf að segja henni að vera ekki svona í leti, mér finnst hún sko algjör haugur stundum. En þá er nú líka gott að vera byrjuð aftur í leikskólanum og geta verið þar í fjöri með vinkonunum.

þriðjudagur, ágúst 08, 2006

Loksins

Eins og það er gaman að fara í sumarfrí, þá er eiginlega ennþá skemmtilegra að fara aftur í leikskólann. Ég er búin að vera að vakna seinna og seinna á morgnana, í gærmorgun vaknaði ég til dæmis klukkan hálftíu, skreið þá fram í sófa og kúrði undir sæng fyrir framan teiknimyndir. En í morgun stóð ég fullklædd og tilbúin við rúmið hjá mömmu klukkan átta og sagði, eigum við ekki bara að drífa okkur! Og það var sko ekki amalegt að mæta í leikskólann og fá þvílíku knúsin og hlýju móttökurnar, ég held að ég sé með bestu leikskólakennara í heimi.

mánudagur, ágúst 07, 2006

Lestraræfingar

Mér finnst rosalega gaman að æfa mig að lesa, en ég nenni ekkert að lesa einhverjar leiðinlegar lestrarbækur um Óla og Ásu og ís og eitthvað. Skemmtilegast finnst mér þegar mamma og pabbi (aðallega pabbi, hann er miklu flinkari í því en mamma) skrifa eitthvað fyndið handa mér, eins og til dæmis "Rósa pissar í móa" og "Gabríel kúkar í rúmið hans pabba".

Engar fréttir

Það er ekkert að gerast, litla barnið hefur það bara notalegt í bumbunni og er ekkert að gera sig líklegt til að koma sér út. Ég byrja aftur í leikskólanum á morgun og hlakka mikið til, það verður svo gaman að hitta allar stúlkurnar aftur og fara aftur að hafa fasta reglu á dögunum.

Og afi Guðmundur á afmæli í dag, til hamingju með daginn afi minn!

fimmtudagur, ágúst 03, 2006

Meiri myndir

Þetta er kannski hreiðurgerðin hjá mömmu að lýsa sér svona ;-) Hún er alla vega búin að setja inn hvorki meira né minna en þrjú ný myndaalbúm! Það eru myndir úr jeppaferðinni sem við fórum í október með vinnunni þeirra pabba og mömmu, nokkrar leikskólamyndir frá því síðasta haust og fram að jólum og svo desembermyndir.

miðvikudagur, ágúst 02, 2006

Myndir

Í tilefni þess að það er loksins búið að tengja öll tækin aftur eftir framkvæmdirnar og þar með myndirnar komnar aftur á netið, þá er mamma búin að setja inn nýtt albúm. Og það er hvorki meira né minna en, tandara, myndir frá afmælinu mínu, ekki einu sinni orðnar ársgamlar. Svo er aldrei að vita nema mamma dundi við að setja inn fleiri myndir á meðan hún bíður eftir litla barninu.

miðvikudagur, júlí 26, 2006

Pomms

Í nótt skreið ég upp í til mömmu, en af því hún er með svo feita bumbu þá datt ég fram úr rúminu og meiddi mig heilmikið í vörinni. Ég grét og grét en vaknaði samt aldrei almennilega, og í morgun mundi ég ekkert eftir þessu. Þannig að þegar ég vaknaði og sá sárið þá var ég alveg viss um að þetta hefði komið þegar ég renndi mér niður tröppur á snjóþotu um páskana, þó að bróðir minn hefði sagt mér að gera það ekki. Svo ég horfði á sárið í speglinum og sagði, svona gerist þegar maður hlustar ekki á bróður sinn!

laugardagur, júlí 22, 2006

Sumar og sól

Loksins kom svolítið gott veður og ég fékk að fara í tívolíið. Ég skemmti mér alveg ótrúlega vel, fékk að fara í rússíbana og allt, alveg brjálað. Í gær fékk ég svo að fara á gæsluvöll með vinkonu minni úr leikskólanum. Það var líka rosalega gaman, ég fór með nesti og svo vorum við að leika okkur í næstum því fjóra klukkutíma. Við mamma vildum bara að við hefðum vitað af þessum gæsluvelli fyrr.

Og nú styttist í litla barnið. Mamma er orðin svolítið þreytt í bumbunni og fótunum (vægir fyrirvaraverkir og frekar slæm í grindinni) en annars líður henni bara vel. Baðherbergið er svo gott sem tilbúið og húsið að komast í samt lag aftur, svo það er allt á góðri leið með að verða tilbúið. Það er meira að segja búið að kaupa bílstól og bleyjur og gjöf frá mér handa litla barninu. Vonandi bíður það samt aðeins lengur í bumbunni, því við ætlum að reyna að skreppa í Víðihlíð í nokkra daga.

sunnudagur, júlí 16, 2006

Einasti

Þegar maður er að telja, til dæmis daga þangað til eitthvað gerist, þá kemur fyrst einasti, svo tveðji, svo þriðji og fjórði.

Í dag fór ég í Byko með mömmu og fór í leikvæmið á meðan hún keypti eitthvað smíðadót sem pabba vantaði. Ég var voða glöð að hitta krakka til að leika við, mér er búið að leiðast frekar mikið um helgina. Ég eignaðist meira að segja vin, hann gaf mér þvottaklemmu sem ég mátti eiga. Ótrúlega flott gjöf!

þriðjudagur, júlí 11, 2006

Baðið


Þarna er baðið komið á sinn stað. Ég er búin að fá að fara í það og synda um í því, það er sko alveg frábært.

Og nú er ég komin í sumarfrí. Ég er bara heima með mömmu, við erum búnar að fara á kaffihús og í sund og bráðum förum við vonandi í Húsdýragarðinn. Mig langar líka ótrúlega að fara í tívolíið í Smáralind, þó mamma sé eitthvað lítið spennt fyrir því. Svo kemur Rakel og leikur við mig eftir hádegið svo mamma geti lagt sig. Hún er orðin svolítið þreytt í bumbunni, enda er litla barnið alveg að verða tilbúið. Vonandi kemst pabbi líka í frí bráðum, hann er voða mikið að vinna núna alltaf með einhverjum útlendingum og er ekkert frí búinn að fá í sumar.

mánudagur, júlí 03, 2006

Á síðustu metrunum

Svona er mamma mín orðin feit (35 vikur)og svona er baðherbergið aaaaalveg að verða tilbúið

miðvikudagur, júní 21, 2006

þriðjudagur, júní 20, 2006

Hátíðahöld og veikindi

Það er búið að vera mikið um hátíðahöld og fjör hjá mér síðustu daga. Á föstudaginn var sumarhátíð í leikskólanum mínum, mamma og pabbi komu á hátíðina sem þurfti því miður að vera inni því það var ausandi rigning. En við fengum pylsur og það kom leynigestur sem var Ronja ræningjadóttir. Ég var ekkert hrædd við hana og talaði meira að segja við hana. Ég var nefnilega dálítið hrædd við leynigestina síðast, þá komu Mikki refur og Lilli klifurmús og voru með heilmikil læti. Og þá var ég nú líka bara tveggja ára.

Á laugardaginn var svo auðvitað 17. júní og mamma fór með mig á hátíðahöldin (pabbi greyið var að smíða eins og alltaf). Ég sá töfratrúð og svo hoppaði ég endalaust í hoppuköstulum. Mamma skildi ekkert hvaðan ég fékk svona mikla orku, hún var dauðþreytt þegar við komum heim þó hún hefði ekki einu sinni hoppað neitt og fór bara að leggja sig, en ég fór með pabba í langan labbitúr og bjargaði unga sem var dottinn ofan í gjótu.

Á sunnudaginn fóru síðan mamma og pabbi á fullt að smíða og mér fannst það ekkert gaman svo ég fékk að fara í heimsókn til Kristínar Kolku vinkonu minnar. Við lékum okkur saman lengi lengi, máluðum puttamálverk og gerðum ýmislegt skemmtilegt. Ég ætlaði nú ekkert að fara heim með mömmu þegar hún kom að sækja mig, ætlaði bara að borða kvöldmat hjá vinkonu minni og helst gista líka, en ég sættist á að fara heim á endanum.

En svo var nú gamanið búið því ég vaknaði um nóttina alveg fárveik, með mjög háan hita og hræðilega illt í hálsinum. Ég er víst með einhverja víruspest sem tekur marga daga og pabbi var að fara til útlanda, svo við mamma verðum bara að hanga tvær heima alla vikuna.

sunnudagur, júní 04, 2006

Letifleti

Mamma mín er farin að vera svo þreytt út af bumbunni að hún þarf alltaf að leggja sig eftir hádegið. Í dag var ég líka eitthvað svo þreytt að ég bara skreið upp í ból til mömmu þar sem við steinsváfum báðar í langan tíma. Ég held barasta að ég hafi ekki sofið svona yfir daginn síðan ég var í vagni. Ég veit ekki hvort ég var svona þreytt út af eyrnabólgunni sem ég er komin með, eða hvort þetta voru bara smíðahljóðin sem minntu mig á þegar ég var lítil og pabbi og mamma voru alltaf að smíða á meðan ég svaf. Pabbi og Snorri voru nefnilega á fullu að smíða baðherbergið við hliðina á svefnherberginu á meðan, saga flísar og banka í veggina og svona. Við mamma sváfum mjög vært við þessi notalegu smíðahljóð.

föstudagur, júní 02, 2006

Besti pabbi í heimi

Hann pabbi minn er svo frábær! Hann leyfir mér alltaf að koma með í langan göngutúr með Gabríel lengst út í fjöru. Ég fer á hlaupahjólinu mínu niður að hrauninu og svo löbbum við lengst lengst út eftir tanganum sem liggur langt út í sjó, við löbbum alveg í klukkutíma upp og niður í þúfum og hrauni. Ég er rosa dugleg að labba enda er svo gaman, en ég er líka bæði svöng og þreytt þegar við komum aftur heim. Við finnum alltaf eitthvað skemmtilegt, fullt af hreiðrum, sum með ungum og sum með eggjum, krossfiska og ígulker, kuðunga með kröbbum í og alls kyns fjársjóði. Gabríel finnst mest gaman að synda í sjónum, hann er orðinn algjör sjóhundur. En mamma kemur ekki með því hún getur ekki labbað svona mikið út af bumbunni, bara við pabbi erum svona dugleg að labba.

mánudagur, maí 29, 2006

RóSAELÍSABTMARkúNSDIR

Svona skrifaði ég nafnið mitt alveg sjálf í mömmu tölvu. Ég er sko alveg með það á hreinu að ég er Markúnsdóttir.

Mamma mín kom frá útlöndum í gær með fullt af nýjum fötum handa mér. Enda er ég svo dugleg að stækka að ég er farin að standa alls staðar út úr fötunum mínum. Hún var að heimsækja Svandísi vinkonu sína og hafði það víst alveg ótrúlega gott. Við höfðum það líka fínt með pabba á meðan, við fórum í langa labbitúra í fjörunni, fundum egg og glænýja unga, krabba, krossfiska og allt mögulegt. Gabríel lætur sem betur fer eggin og ungana í friði, hann eltir bara gæsirnar, örugglega í trausti þess að hann eigi aldrei eftir að ná þeim.

þriðjudagur, maí 23, 2006

mánudagur, maí 22, 2006

Samkvæmislífið

Það var aldeilis nóg að gera hjá mér um helgina, ég fór nefnilega í tvö afmæli. Það var auðvitað mikið fjör og gaman, og svolítið fyndið að í báðum afmælunum stakkst stóratáin út úr sokkabuxunum mínum (sitthvorum sokkabuxunum auðvitað). Ég er greinilega að vaxa út úr öllum fötunum mínum!

Baðherbergið mjakast áfram, ég er búin að gera úttekt á því sem er eftir og það er:
- bað
- vaskur
- til að hengja klósettpappír
- meiri flísar
- hurð
Svo þið sjáið að þetta er bara næstum því tilbúið :-)

föstudagur, maí 19, 2006

Aumingja ég

Ég er búin að eiga ósköp bágt núna síðustu daga. Það byrjaði með því að ég varð lasin með hósta og hita. Hitinn er reyndar farinn núna sem betur fer, en ég er ennþá með svolítið vondan hósta. Í gær var ég svo að vesenast í tröppunum og datt á andlitið svo að ég fékk blóð á báðar varirnar og bólgnaði öll upp svo ég var eins og boxari í framan. Ég náttúrulega hágrét og átti hræðilega bágt. Svo í dag fór ég aftur að hágráta því þá gerðist sá hræðilegi atburður að tyggjóið mitt fór upp í nef og festist þar. Ég var alveg miður mín yfir þessu og grét og grét, en mamma náði sem betur fer tyggjóinu úr nefinu, svo ég þurfti ekki að fara á slysó. Bróðir minn var líka næstum því búinn að fara á slysó í dag því hann meiddi sig í fætinum þegar hann var að hoppa á trampólíni hjá vini sínum. En það slapp nú sem betur fer, hann meiddist ekkert mikið og jafnaði sig fljótt.

þriðjudagur, maí 16, 2006

Skilaboð frá mömmu til Svandísar

Var að reyna að hringja í þig í gsm símann en það var ekki að virka, sendu mér endilega númerið þitt eða hringdu.

þriðjudagur, maí 02, 2006

Langur dagur

Í gær var langur dagur hjá mér. Ég horfði á barnatímann og fór svo út að leika í góða veðrinu með bróður mínum. Svo komu Sunna og Maggi og Júlía, þau voru að fara í bæinn og voru svo góð að taka mig með. Ég fékk að fara í skrúðgöngu, hoppukastala, á kaffihús og ég fékk að syngja Öxar við ána með lúðrasveitinni. Ég ætlaði líka að fá ís, en þá kom haglél svo við fórum bara heim til Sunnu og Magga. Svo komu mamma og pabbi að sækja mig og við keyrðum alla leiðina í Stykkishólm til að fara með pabba á sjúkrahúsið. Í Stykkishólmi fékk ég hamborgara og franskar á veitingahúsi, namminamm hvað það var gott og hvað ég var svöng, ég kláraði næstum því allan matinn. Svo fór pabbi á sjúkrahúsið og við mamma keyrðum alla leiðina til baka. Ég sofnaði nú sem betur fer á bakaleiðinni, enda var klukkan orðin mjög margt og ég orðin mjög þreytt.

sunnudagur, apríl 30, 2006

Ekki seinna vænna

Þá er ég búin að læra að lesa. Það hlaut nú að fara að koma að því, því það er dálítið síðan ég fór að geta fundið út hvaða stafir eru í orðum, sem ætti nú eiginlega að vera erfiðara. Ég get líka skrifað nafnið mitt, en S-ið verður samt dálítið skrýtið hjá mér, það er ótrúlega erfiður stafur að skrifa.

Annað í fréttum er það að baðherbergið okkar gengur mjög vel, klósettið er komið á sinn stað og loft og veggir langleiðina komið, svo bráðum verður bara hægt að fara að flísaleggja og gera fínt. Mikið hlakka ég nú til að geta farið í bað. En þangað til er ég bara í heita pottinum, það er svo gaman þegar veðrið er svona gott. Gabríel finnst líka svo gaman að vera úti þegar við Sigurður Pétur erum úti. Við erum öll þrjú búin að vera úti í næstum allan dag, að grafa í moldinni og sulla í sandkassanum og leika með bíla og auðvitað í heita pottinum, en Gabríel fær ekki að fara með í pottinn. Honum er samt alveg sama um það, þá fer hann bara að grafa djúpar holur í moldinni.

Bumban hennar mömmu stækkar og stækkar og ég er búin að finna litla barnið sparka. Í gær sagði ég við mömmu að hún væri með tvá maga, matarmaga og litlubarnamaga. Þá sagði mamma mér að litlubarnamaginn héti leg. Ég skildi það nú strax, það er auðvitað þar sem litla barnið liggur!

mánudagur, apríl 24, 2006

Nú eru þrír dagar búnir

Þetta var það fyrsta sem ég sagði við pabba og mömmu í morgun. Og svo spurði ég, "þá er bara einn dagur eftir, er það ekki? Á morgun fer ég til tannlæknis?". Jújú, ég fékk að vita fyrir þremur dögum síðan að ég væri að fara til tannlæknis eftir fjóra daga og ég er búin að telja niður dagana síðan. Ég hlakka ótrúlega mikið til, það er svo gaman að fara til tannlæknis. Og mér finnst líka ótrúlega gaman að fara til læknis, mér finnst bara verst hvað ég fæ sjaldan að fara núorðið. Um daginn keyrðum við mamma framhjá Læknavaktinni og þá sagði ég, "mamma þarna er læknisstofan, *hósthóst*, ég er svolítið veik!".

föstudagur, apríl 21, 2006

Gleðilegt sumar

Í gær var sumardagurinn fyrsti. Mamma og pabbi voru bara að smíða baðherbergið, svo ég fékk að heimsækja Júlíu frænku mína og Sunna góða frænka labbaði með okkur í húsdýragarðinn. Það var sko gaman, svo fórum við aftur heim til þeirra að leika og ég vildi bara ekkert fara heim með mömmu þegar hún kom aftur að sækja mig.

Um páskana fórum við í sumarbústað á Skógum með afa og ömmu, Þórði, Sunnu, Magga og Júlíu. Það var alveg frábært, mér finnst svo gaman að vera með svona mörgu fólki. Við fórum í labbitúra og heita pottinn, skoðuðum flugvélina á sandinum og safn þar sem var lamb með tvö höfuð (það fannst mér fyndið). Við Sigurður Pétur fengum að finna öll páskaeggin sem afi og amma földu í skóginum og það var mjög ævintýralegt og skemmtilegt. Og einn daginn kom snjór svo við gátum rennt okkur á rassaþotunni sem var fyrir tilviljun í bílnum. Það var líka mjög skemmtilegt, alveg þangað til ég ákvað að renna mér niður tröppur. Sigurður Pétur reyndi að segja mér að það væri ekki góð hugmynd, en ég trúði honum ekki og varð að prófa sjálf. En nú veit ég að það er ekki sniðugt að renna sér niður tröppur á rassaþotu.

miðvikudagur, apríl 05, 2006

Allt á haus, allt á haus, er ég að verða vitlaus

Það er allt á hvolfi hjá okkur núna, mamma og pabbi eru að flísaleggja út um allt og smíða baðherbergi á efri hæðinni. Ég er ósköp þreytt á þessu, um daginn stakk ég upp á því að við fengjum okkur bara nýtt hús þar sem væri ekki allt í rúst. Vonandi verða þau fljótt búin með þessar framkvæmdir! Ég hlakka nú líka mikið til að geta farið í bað, ég bið sko yfirleitt um að fá að fara í bað ef ég er í heimsókn og sé baðkar.

miðvikudagur, mars 29, 2006

Gabríel aftur

Það gengur náttúrulega ekki að enginn geti séð hvað hann Gabríel er mikið krútt, gerum aðra tilraun til að koma inn mynd af honum.

mánudagur, mars 27, 2006

Skíðaferð

Um helgina fórum við í heimsókn til ömmu Giselu og afa Jóns á Akureyri og í smá skíðaferð í leiðinni. Það er nefnilega fullt af snjó á Akureyri. Pabbi þurfti að fara á fund í vinnunni svo hann var kominn á undan okkur og við Sigurður Pétur og Gabríel komum svo keyrandi með mömmu. Hún hélt að það yrði nú ekki mikið mál, en það reyndist aðeins erfiðara en hún hélt að keyra þetta með bílveikan hund í roki og ískulda. En við Sigurður Pétur vorum ósköp góð og dugleg á leiðinni, þó við værum orðin pínulítið þreytt undir lokin. Það var líka rosa gott að koma til Akureyrar og allt svo fínt og notalegt hjá afa og ömmu.

Á laugardaginn skelltum við okkur svo á skíðin, bróðir minn fór með brettakennara lengst upp í fjall og kom dauðuppgefinn niður einum og hálfum tíma síðar. Hann stóð sig bara mjög vel, þetta var sko í fyrsta skipti sem hann fór í svona alvöru brekkur á brettinu. Ég fór í barnabrekkuna og stóð mig líka mjög vel, ég var fljót að læra að fara sjálf í "lestina" (lyfta sem er eins og færiband) og svo bara skellti ég mér niður alveg sjálf, nennti ekkert að vera að bíða eftir mömmu og pabba. Það endaði náttúrulega með því að ég datt og lenti í einni hrúgu, enda get ég bara beygt í eina átt og kann ekkert að stoppa. En áður tókst mér samt að fara eina ferð niður alveg sjálf og stoppa á jafnsléttunni neðst án þess að detta. Verst hvað er sjaldan hægt að fara á skíði, annars væri ég örugglega orðin ótrúlega flink. Amma og afi komu svo upp í fjall með snúða og við Gabríel settumst inn í bíl hjá þeim og hlýjuðum okkur og ég borðaði nokkra snúða. Gabríel greyinu var nefnilega svo ískalt, hann var alveg orðinn skjálfandi og var mjög feginn að komast í teppi í fanginu á ömmu.

Pabbi kom svo með okkur í bílnum til baka og það fannst okkur voða gott. Hann sat með Gabríel í fanginu og þá leið grey hvolpinum miklu betur, hann gubbaði bara einu sinni á kuldagallann minn.

þriðjudagur, mars 21, 2006

Rassálfar, svertingjar og hundafólk

Á sunnudaginn fékk ég loksins að fara í leikhúsið að sjá Ronju ræningjadóttur. Ég er búin að bíða lengi lengi eftir þessum degi, Silja frænka mín kom líka með bræðrum sínum og mömmu sinni. Mamma hennar þekkir mig sko vel því hún kom með nammi í poka handa öllum og handa mér kom hún með suðusúkkulaði. Einmitt það sem mér finnst best! En mamma mín þurfti nú samt að standa við það að kaupa handa mér súkkulaði í hléinu, ég þarf að fá að hafa svona hluti eins og er búið að ákveða. Mér fannst leikritið mjög skemmtilegt og ég var ekkert mjög hrædd þó svertingjarnir (grádvergarnir) og hundafólkið (huldufólkið) væri dálítið hræðilegt. Rassálfarnir voru svo fyndnir, þeir sögðu alltaf akkuru akkuru. Verst var bara að við Silja hittumst svo lítið og gátum ekkert leikið saman. Við náðum ekki einu sinni að segja henni og öllum hinum frá Gabríel. Ég veit samt ekki alveg af hverju mamma gerði það ekki, kannski var hún ennþá að jafna sig á því að þau skyldu hafa gert þetta... ;-)

Gabríel er mjög hress og kátur, pissar og kúkar um allt og vill ekki fara út af því að það er svo kalt, hann er sko algjör kuldaskræfa. Hann er nú samt duglegur að læra, hann kann að setjast og sækja bolta og hann er ósköp góður að fara inn í búrið sitt og að labba við hliðina á manni í göngutúr (ef það er ekki of kalt).

sunnudagur, mars 19, 2006

Gabríel


Þetta er hann Gabríel okkar. Hann er tveggja og hálfs mánaða gamall, hálfur hreinræktaður Boxer og hálfur hreinræktaður Border Collie. Við keyrðum austur á Kirkjubæjarklaustur í gær til að sækja hann! Já, mamma og pabbi er pínu klikkuð. Og við vissum ekki fyrr en við vorum komin alla leið að við ættum að fá hund, við urðum sko ótrúlega glöð og Sigurður Pétur fór meira að segja að skæla smá, hann var svo glaður. Gabríel gubbaði og kúkaði í bílinn á leiðinni heim, en það er allt í lagi því hann er svo sætur.

fimmtudagur, mars 16, 2006

Frískur snillingur

Jæja eða næstum því frísk, ég er ennþá með kvef og hósta og vökva í eyrunum, svo ég þarf áfram að fá púst og nefsprey, en ég er orðin hitalaus og fékk í gær að fara í leikskólann. Svo kom það skemmtilega á óvart að ég fékk að fara heim með Kristínu Kolku vinkonu minni eftir leikskóla.

Ég byrjaði reyndar daginn á því að fara til læknisins að sýna hvað ég kann (þriggja og hálfs árs þroskapróf). Mér fannst þetta nú dálítið létt, endaði með því að ég sagði "ég kann alveg gulur, rauður, grænn og blár!", ég var orðin dálítið leið á þessum kjánalega einföldu spurningum. Þetta var líka ansi langt svo ég ætlaði ekki að nenna að klára sjónprófið í lokin, en mamma samdi við mig um að segja fjóra stafi í viðbót og svo var þetta loksins búið. Og ég fékk einkunnina fín og flott stelpa, nema hvað! :-)

þriðjudagur, mars 14, 2006

Leiðinleeeeegt

Ég er ennþá lasin. Samt bara smá, nóg til þess að mega ekki fara út og ekki fara í leikskólann, en ekki nógu mikið til að nenna að hanga inni í marga daga, sérstaklega ekki þegar sólin skín á snjóinn úti! En ég er nú loksins að verða laus við hitann svo ég fæ vonandi að fara í leikskólann á morgun. Ég er samt búin að gera margt skemmtilegt með pabba og mömmu síðustu viku, baka lummur og súkkulaðikökur, búa til leir og leira fullt af afmæliskökum, búa til geimskip og fljúga á því til Kína og Afríku og fara í útilegu þar, fara í eltingaleik og fótbolta, púsla og lesa, og horfa á myndir og fara í tölvuleiki. En það verður nú gott að hitta vinkonur mínar aftur, ég sakna Kristínar svo mikið.

Mamma er búin að vera að fara í gegnum myndir á kvöldin (ég leyfi henni sko ekki að hanga í tölvunni á daginn!) og það eru komin þrjú ný albúm:

miðvikudagur, mars 08, 2006

Lasið grey

Ég er ósköp lasin, búin að vera með vondan hósta og fékk 40 stiga hita í nótt. Mamma og pabbi píndu í mig eitthvað ógeðslegt meðal með nammibragði, oj barasta og ég sem borða ekki nammi! En mér leið nú aðeins betur af því og gat sofnað aftur á endanum. Í dag er ég svo hás að mamma og pabbi hafa bara aldrei vitað annað eins, ég get næstum því ekki talað en legg mig nú samt alla fram. Mamma er líka lasin, svo við erum bara haugar undir teppi.

Um helgina fengum við Júlía báðar að gista hjá ömmu og afa í Hjallabrekku, það var mjög gaman og við vorum ótrúlega góðar. Þetta er líka þriðja helgin í röð sem við gistum saman svo við erum bara orðnar vanar að vera stilltar og góðar saman. Það er gott að eiga svona góða frænku og ömmu og afa. Þegar mamma kom að sækja mig vorum við á leiðinni að gefa öndunum brauð, svo hún kom bara með okkur í labbitúr í Fossvogsdalinn í góða veðrinu. Þegar við vorum búnar að gefa öndunum fórum við á grímuball með vinkonum mömmu og krökkunum þeirra, svo það var nóg um að vera hjá mér.

föstudagur, mars 03, 2006

miðvikudagur, mars 01, 2006

Öskudagur

Í dag er ég Lína Langsokkur með prinsessukórónu og máluð eins og trúður í framan. Ég fékk að fara þannig í leikskólann og var aldeilis hress með það þangað til ég kom inn og sá alla í skrítnum fötum, meira að segja kennarana líka. Þá fór ég nú bara alveg í kleinu. En ég jafnaði mig nú fljótlega. Það er líka svo langt síðan ég hef farið í leikskólann, á föstudaginn var ég lasin og líka pabbi og mamma, við lágum bara öll veik í hrúgu. Svo á sunnudaginn vorum við orðin frísk og skruppum í Víðihlíð af því að Sigurður Pétur var í vetrarfríi í skólanum. Við komum síðan heim í gærkvöldi, svo ég var ekki búin að fara í leikskólann í næstum því viku.

Það var rosa gaman í Víðihlíð eins og alltaf, við Sigurður Pétur fórum í leiðangra með nesti, svo fórum við í langan labbitúr upp á fjall með pabba og mömmu, við fórum í heita pottinn, hoppuðum í rúmunum, lituðum myndir af sjóræningjaskipum og lékum okkur alls konar. Og við fengum líka bollur með súkkulaði og saltkjötogbaunirtúkall.

Já og á laugardaginn fóru pabbi og mamma á agalega fínan fund og Sunna frænka og Júlía frænka komu að passa mig. Við fórum í mat til Alla afa og Hilku, svo fórum við heim og Sunna og Júlía gistu hjá okkur og líka Maggi. Þau voru líka lengi hjá okkur daginn eftir, það fannst okkur gaman.

fimmtudagur, febrúar 23, 2006

Skilaboð til Svandísar

Mamma mín vill endilega heyra í þér sem fyrst, t.d. í msn ef þú hefur tök á að kíkja þar inn.

þriðjudagur, febrúar 21, 2006

Prúður næturgestur

Hún Júlía Jökulrós var aldeilis ljúf og góð hjá okkur. Hún borðaði fullt af graut og drakk úr pelanum og fór svo bara að sofa. Klukkan sjö vaknaði hún og drakk meira úr pelanum (þá var ég sko vöknuð, ég var svo spennt eitthvað) og svo sofnaði hún aftur og ég þurfti að vekja hana klukkan tíu!

Við mamma fórum svo í húsdýragarðinn eftir hádegið og vorum þar lengi lengi, skoðuðum dýrin oft og mörgum sinnum og fórum þrisvar sinnum í fjölleikahúsið (vísindatjaldið). Ég fékk líka að fara einn hring á hestbaki, það er alltaf jafn gaman og ég er ótrúlega flink að sitja á hestinum.

laugardagur, febrúar 18, 2006

Ljúfur laugardagur

Eftir sundið og fimleikana förum við mamma í bakarí og kaupum rúnnstykki í hádegismatinn og ég fæ að velja mér eitthvað gott í eftirmat. Í dag valdi ég mér amerískan kleinuhring með súkkulaðikremi. Þegar ég var svo búin með allt súkkulaðið ofan af honum rétti ég mömmu hálfnagaðan kleinuhringinn og sagði, "ég vil ekki meira bein".

Ég var líka að skoða myndir síðan ég var lítil og sagði þá, "ég var svo sæt þegar ég var lítil, ég sakna mín þegar ég var lítil!".

Á eftir kemur Júlía frænka mín í pössun til okkar og hún ætlar meira að segja að gista, svo þá fáum við nú að æfa okkur að hugsa um litla barn. Hún er líka ósköp sæt og rosa dugleg, hún er alltaf að reyna að skríða. Ég hlakka mikið til að fá hana og er búin að sitja úti í glugga að bíða eftir henni. Ég notaði tímann og þvoði gluggann með tungunni og höndunum, mamma var nú með einhverjar efasemdir en ég var alveg sannfærð um að glugginn væri glansandi hreinn og fínn hjá mér.

fimmtudagur, febrúar 16, 2006

Nokkrar sögur

Einu sinni langaði mig í ís í brauði, en vissi ekki hvað það hét. En til að útskýra það sagði ég, mig langar ekki í íspinna, heldur svona ís í horni sem getur lekið.

Ein stúlkan á leikskólanum mínum átti afmæli, þá fengum við köku með bleiku kremi, en kakabrauðið var brúnt.

Stundum heyrir maður pínu skakkt, en finnst það alveg rökrétt. Til dæmis syng ég alltaf "Daginn í dag, daginn í dag, gef mér drottningu, gef mér drottningu!" (í staðinn fyrir "gjörði drottinn guð"). Og í Bangsímon-myndinni minni finnst mér rosalega fyndið þegar Kaninka segir við gulrótina "skiptir ekki máli þó þú þykist vera froskur" (í staðinn fyrir þroskuð).

Mamma kom í leikskólann í leigubíl til að sækja mig (pabbi var með einhverja útlendinga í bíltúr) og svo löbbuðum við heim. Þegar við komum út og ég sá hvergi bílinn okkar spurði ég mömmu, týndirðu bílnum þínum eða hvað?

Við mamma vorum í sundi að klæða okkur, ég var komin í öll fötin og mamma átti eftir að fara í sokkana sína. Þá spurði ég mömmu hvort ég mætti finna lyktina af sokkunum hennar. Mamma hló og sagði neinei. Þá spurði ég (hátt og snjallt), af hverju ekki? Er táfýla af þeim?

þriðjudagur, febrúar 07, 2006

Nú varð ég hissa

Þegar ég leit út um gluggann í morgun varð ég steinhissa og sagði: "Snjór á þriðjudegi? Ég hélt að það væri bara snjór á jólunum!"

fimmtudagur, febrúar 02, 2006

Svona er lýsi búið til

Maður tekur klaka, svona ísklaka, og setur í munninn. Geymir hann þar í nokkra daga og þá breytist hann í vatn. Svo setur maður í svona dropa og hrærir og þá breytist það í lýsi.

mánudagur, janúar 30, 2006

Merkikerti

Í gær rættist langþráður draumur hjá mér, ég fékk að bera kertið úr kirkjunni yfir í herbergið þar sem sunnudagaskólinn er. Ég fann ægilega mikið til mín og vandaði mig mikið að halda fallega á kertinu. Silja frænka mín fékk að gista og kom með mér í sunnudagaskólann og mér fannst það nú ekki verra að hún skyldi verða vitni að þessum merkisatburði.

laugardagur, janúar 28, 2006

Fjör fjör fjör

Það var svo gaman í veislunni í gær, ég var bara að springa úr spenningi. Ég fékk að sitja með strákunum og borða pizzu og spjalla. Ég hafði sko margt að segja við þá og fann mikið til mín að spjalla við svona stóra stráka.

Í dag er ég svo búin að fara í fimleika og sund, heimsækja Ylfu Sól vinkonu mína af leikskólanum og nú er Silja frænka komin í heimsókn og ætlar að gista. Ekkert smá mikill fjördagur. Og ekki allt búið enn, því á morgun verður aftur veisla og þá fáum við köku.

föstudagur, janúar 27, 2006

Afmælisstrákur

Hann elsku besti bróðir minn á afmæli í dag, til hamingju með það Sigurður Pétur minn. Ég fékk að gefa honum pakka í rúmið, það fannst okkur báðum mjög skemmtilegt. Ég ætlaði reyndar að fá að opna pakkann, hann var svo lítill að mér fannst að þá ætti ég að opna hann, af því ég er líka lítil. En svo leyfði ég bróður mínum að opna hann. Hann var mjög glaður og sagði að þetta væri besti afmælisdagur sem hann hefði átt, það væri bara byrjuð veisla áður en hann væri vaknaður!

mánudagur, janúar 16, 2006

Rrrrrrrr

Eiginlega síðan ég byrjaði að tala hef ég verið mjög flink að segja R. Ég rúlla því duglega og leiðrétti stundum aðra ef mér finnst R-ið ekki heyrast nógu vel hjá þeim. Og nú hef ég verið að taka eftir því að í sumum orðum vantar mjög oft R, til dæmis kall á að vera karl og badn á að vera barn. Svo ég hef verið að vanda mig við að setja R-in inn í þessi orð þar sem þau vantar, tíkall á augljóslega að vera tíkarl, fallega á að vera farlega, fjall á að vera fjarl og meira að segja á pabbi að vera parbi. Eins gott að leiðrétta þetta allt saman!

föstudagur, janúar 13, 2006

Meiri snjó, meiri snjó, meiri snjó

Vá hvað er gaman að hafa svona mikinn snjó! Ég ætla að búa til snjókall um helgina og líka fara á skíði og rassaþotu. Eins gott að nýta snjóinn á meðan hann er, það er aldrei að vita hvað þetta endist og hvenær byrjar aftur að rigna.

fimmtudagur, janúar 12, 2006

Spennandi

Í dag fæ ég að fara til Kristínar Kolku vinkonu minnar eftir leikskólann. Mamma hennar ætlar að sækja mig líka og svo förum við báðar heim til hennar. Þetta verður örugglega rosalega gaman. Eða "losa baman" eins og ég hefði sagt fyrir einu og hálfu ári.

þriðjudagur, janúar 03, 2006

Svo sybbin

Þó ég hafi ekki verið að sofa lengi frameftir í jólafríinu þá var samt ósköp erfitt að vakna í morgun. Ég var svo sybbin að ég tók með mér koddann minn í leikskólann. Mamma einnar stúlkunnar, sem kom á sama tíma og ég, sagði að hún skildi mig vel! Hún hefði örugglega líka viljað taka með sér koddann sinn í vinnuna :-)

mánudagur, janúar 02, 2006

Gleðilegt ár

Þetta er nú búið að vera skemmtilegt. Við vorum í fríi öll jólin og höfðum það afskaplega gott og notalegt heima með afa Jóni og ömmu Giselu. Við gerðum líka margt skemmtilegt, ég fékk marga fína pakka, við fórum á jólaball, ættarmót, veislu til Silju frænku og til ömmu Ingu Rósu og afa Guðmundar og héldum líka veislur. Við náðum að búa til snjókarl sem stóð reyndar ekki lengi greyið, og líka eina snjó-rjómatertu. Ég fékk líka að fara til Rakelar barnapíunnar minnar í heimsókn, og í bíó með Silju frænku. Svo var veisla á gamlárskvöld og þá sprengdum við auðvitað helling. Ég var nú reyndar frekar smeyk og þorði eiginlega ekkert að horfa upp í loftið á raketturnar, en mér fannst gaman að fá að halda á stjörnuljósi. Ég var síðan bara mjög sátt við að fara að sofa klukkan hálftíu. Í dag fór ég svo aftur í leikskólann og var mjög glöð með það, þó það sé gaman í fríi þá er alltaf ósköp gaman að fara aftur í leikskólann.