mánudagur, janúar 30, 2006

Merkikerti

Í gær rættist langþráður draumur hjá mér, ég fékk að bera kertið úr kirkjunni yfir í herbergið þar sem sunnudagaskólinn er. Ég fann ægilega mikið til mín og vandaði mig mikið að halda fallega á kertinu. Silja frænka mín fékk að gista og kom með mér í sunnudagaskólann og mér fannst það nú ekki verra að hún skyldi verða vitni að þessum merkisatburði.

laugardagur, janúar 28, 2006

Fjör fjör fjör

Það var svo gaman í veislunni í gær, ég var bara að springa úr spenningi. Ég fékk að sitja með strákunum og borða pizzu og spjalla. Ég hafði sko margt að segja við þá og fann mikið til mín að spjalla við svona stóra stráka.

Í dag er ég svo búin að fara í fimleika og sund, heimsækja Ylfu Sól vinkonu mína af leikskólanum og nú er Silja frænka komin í heimsókn og ætlar að gista. Ekkert smá mikill fjördagur. Og ekki allt búið enn, því á morgun verður aftur veisla og þá fáum við köku.

föstudagur, janúar 27, 2006

Afmælisstrákur

Hann elsku besti bróðir minn á afmæli í dag, til hamingju með það Sigurður Pétur minn. Ég fékk að gefa honum pakka í rúmið, það fannst okkur báðum mjög skemmtilegt. Ég ætlaði reyndar að fá að opna pakkann, hann var svo lítill að mér fannst að þá ætti ég að opna hann, af því ég er líka lítil. En svo leyfði ég bróður mínum að opna hann. Hann var mjög glaður og sagði að þetta væri besti afmælisdagur sem hann hefði átt, það væri bara byrjuð veisla áður en hann væri vaknaður!

mánudagur, janúar 16, 2006

Rrrrrrrr

Eiginlega síðan ég byrjaði að tala hef ég verið mjög flink að segja R. Ég rúlla því duglega og leiðrétti stundum aðra ef mér finnst R-ið ekki heyrast nógu vel hjá þeim. Og nú hef ég verið að taka eftir því að í sumum orðum vantar mjög oft R, til dæmis kall á að vera karl og badn á að vera barn. Svo ég hef verið að vanda mig við að setja R-in inn í þessi orð þar sem þau vantar, tíkall á augljóslega að vera tíkarl, fallega á að vera farlega, fjall á að vera fjarl og meira að segja á pabbi að vera parbi. Eins gott að leiðrétta þetta allt saman!

föstudagur, janúar 13, 2006

Meiri snjó, meiri snjó, meiri snjó

Vá hvað er gaman að hafa svona mikinn snjó! Ég ætla að búa til snjókall um helgina og líka fara á skíði og rassaþotu. Eins gott að nýta snjóinn á meðan hann er, það er aldrei að vita hvað þetta endist og hvenær byrjar aftur að rigna.

fimmtudagur, janúar 12, 2006

Spennandi

Í dag fæ ég að fara til Kristínar Kolku vinkonu minnar eftir leikskólann. Mamma hennar ætlar að sækja mig líka og svo förum við báðar heim til hennar. Þetta verður örugglega rosalega gaman. Eða "losa baman" eins og ég hefði sagt fyrir einu og hálfu ári.

þriðjudagur, janúar 03, 2006

Svo sybbin

Þó ég hafi ekki verið að sofa lengi frameftir í jólafríinu þá var samt ósköp erfitt að vakna í morgun. Ég var svo sybbin að ég tók með mér koddann minn í leikskólann. Mamma einnar stúlkunnar, sem kom á sama tíma og ég, sagði að hún skildi mig vel! Hún hefði örugglega líka viljað taka með sér koddann sinn í vinnuna :-)

mánudagur, janúar 02, 2006

Gleðilegt ár

Þetta er nú búið að vera skemmtilegt. Við vorum í fríi öll jólin og höfðum það afskaplega gott og notalegt heima með afa Jóni og ömmu Giselu. Við gerðum líka margt skemmtilegt, ég fékk marga fína pakka, við fórum á jólaball, ættarmót, veislu til Silju frænku og til ömmu Ingu Rósu og afa Guðmundar og héldum líka veislur. Við náðum að búa til snjókarl sem stóð reyndar ekki lengi greyið, og líka eina snjó-rjómatertu. Ég fékk líka að fara til Rakelar barnapíunnar minnar í heimsókn, og í bíó með Silju frænku. Svo var veisla á gamlárskvöld og þá sprengdum við auðvitað helling. Ég var nú reyndar frekar smeyk og þorði eiginlega ekkert að horfa upp í loftið á raketturnar, en mér fannst gaman að fá að halda á stjörnuljósi. Ég var síðan bara mjög sátt við að fara að sofa klukkan hálftíu. Í dag fór ég svo aftur í leikskólann og var mjög glöð með það, þó það sé gaman í fríi þá er alltaf ósköp gaman að fara aftur í leikskólann.