föstudagur, maí 28, 2004

Í leikskóla er gaman

Í gær fékk ég póst frá leikskólanum mínum tilvonandi. Hann heitir Ásar og ég byrja þar 9. ágúst. Ég fékk bók með myndum frá leikskólanum og þar er líka sagt hvað er gert og svona. Við mamma erum rosalega spenntar. Ég veit að vísu voða lítið hvað leikskóli (eða gokkóli) er, en mig grunar að það sé eitthvað mjög skemmtilegt, að minnsta kosti er fullt af krökkum að gera eitthvað skemmtilegt á myndunum í bókinni.

þriðjudagur, maí 25, 2004

Meira mas

Ég tala svo mikið þessa dagana, ég læri ný orð á hverjum degi og æfi mig stíft frá morgni til kvölds. Mér finnst afskaplega gaman að tala um fólkið sem ég þekki, segja hvað fjölskyldan mín heitir og hvað ég er gömul. Ef mamma gleymir að spyrja hvað ég sé gömul þegar hún er búin að spyrja hvað ég heiti, þá spyr ég bara sjálf "ha bommu". Ég er líka rosa flink að telja, eidd, dei, bimm, gess, hjö, átta, svo kemur eitthvað meira sem ég man ekki nema mamma hjálpi mér. En uppáhaldstalan mín er bimm og ég enda yfirleitt á henni. Hins vegar finnast mér þrír og fjórir ekkert skemmtilegar tölur og hef þær aldrei með.

Viðburðarík helgi

Það var svo mikið að gera hjá mér um helgina að það var bara eiginlega hver stund frátekin. Á föstudaginn komu amma Dissinna og afi Ón til okkar í heimsókn. Mikið var það nú gaman, vonandi geta þau komið oftar og lengur í heimsókn þegar mamma og pabbi verða búin að smíða herbergin okkar. Á laugardaginn fórum við Gissu boððiðinn með Dunnu og Doððu í ævintýraferð. Það var fjölskyldudagur í vinnunni hennar Sunnu og við fórum á Úlfljótsvatn, fengum pylsur og blöðrur og fórum í leiki. Það rigndi reyndar alveg endalaust, en sem betur fer gátum við borðað inni svo það gerði ekkert til. Svo bara vorum við úti í pollagöllunum að leika. Á sunnudaginn fór ég síðan í sund, keyrði pabba í flugvélina og fór svo til afa Bumubu og ömmu Igga Ósa að leika í garðinum í góða veðrinu. Ég hljóp um allt, gramsaði í moldinni og klappaði ormunum og reyndi að detta í tjörnina en það tókst nú ekki. Í gær fór ég svo til eyrnalæknisins míns, rörin eru víst bara glansandi fín og allt í besta lagi. En svo er ég reyndar að kvefast, svo við mamma erum ekki alveg rólegar. Vonandi slepp ég samt bara vel frá því.

þriðjudagur, maí 18, 2004

Algjört partýdýr

Já fjörið var sko aldeilis ekki búið, því aðalpartýið var eftir. Ég fékk semsagt að fara í Júróvisjón partý! Það var hjá afa og ömmu, við grilluðum góðan mat og svo fékk ég fullt af jarðaberjum. Ég dansaði náttúrulega og dillaði mér og var í miklu fjöri. Svo fékk ég aldeilis skemmtilega heimsókn á sunnudaginn því þá komu Haukur og Pétur og Silja. Þetta var semsagt mjög skemmtileg helgi. Ég er líka miklu hressari en um síðustu helgi, hinn jaxlinn er komin í gegn svo mér líður miklu betur. Svo eiga reyndar eftir að koma tveir í viðbót en það verður ekki alveg strax held ég.

fimmtudagur, maí 13, 2004

Partífjör

Í gær var sko gaman! Við fengum að borða fyrir framan sjónvarpið og horfa á frábæra tónlist á meðan, ég svoleiðis rokkaði og klappaði og söng með, þetta var algjört æði. Enda var ég í svo miklu fjöri að ég gat ekki sofnað fyrr en hálfellefu! Ég er annars ekkert sérlega hress þessa dagana, jaxlarnir eru alveg að gera mig klikkaða og alla í kringum mig líka. Vonandi fer það að verða búið.

fimmtudagur, maí 06, 2004

Nýjar myndir

Ótrúlegt en satt, mamma er búin að setja nýjar myndir frá því í janúar og febrúar á myndasíðuna mína.

miðvikudagur, maí 05, 2004

Sjúkkitt

Þetta var víst ekkert eyrnabólga, bæði eyrun mín eru bara hrein og fín. Sennilegast var ég bara svona lasin út af jöxlunum sem ég er að fá, annar er meira að segja komin í gegn. Mamma er nú algjör að taka ekki eftir neinu! Jæja, en ósköp vorum við fegnar að það skyldi vera allt í lagi með eyrun.

Rör skrör

Hrrrmpf er það nú! Ég var búin að vera með rörin í viku þegar ég fékk kvef, og viku seinna kom svo í ljós að ég var komin með eyrnabólgu, þrátt fyrir rörin og að nefkirtlarnir væru farnir. Svo ég fór til læknis og fékk meðal, tók síðasta skammtinn af því í gær og núna er ég aftur komin með hita. Ábyggilega bara sama eyrnabólgan ennþá, ég fékk annað meðal en venjulega og það hefur kannski bara ekkert dugað. Alla vega fer ég til læknis á eftir og læt athuga málið.

Jæja, en svo ég segi nú frá einhverju skemmtilegu þá er ég nýkomin frá Akureyri, við pabbi og mamma voru í viku hjá afa og ömmu Dissennu (Giselu). Það var alveg ótrúlega skemmtilegt og ég lenti í mörgum ævintýrum. Ég fór að andapollinum og borðaði brauð (ég var miklu svengri en endurnar) og í sund (áður en ég fékk eyrnabólguna). Við fórum líka í bíltúr í Mývatnssveit og skoðuðum dýrin. Ég þóttist heldur betur ætla að klappa þeim, en ég var svo heppin að kindurnar og hestarnir vildu ekki láta klappa sér svo ég þurfti ekki að standa við það. Hins vegar vildu kýrnar og kálfarnir það alveg, en þá reyndist hjartað mitt aðeins of lítið, ég stökk bara um hálsinn á mömmu og sagðist vera búin að klappa þeim. Þetta var nú samt mjög gaman og mikið ævintýri. Svo fórum við líka í Námaskarð, mamma var nú alveg hissa hvað mér fannst það skemmtilegt. Það var alls staðar muuu eitt (mjög heitt) og skrýtin jörðin. Ég vildi sko skoða hvern einasta smápoll á svæðinu, mér fannst þetta svo spennandi.

Svo var náttúrulega aðaltilefni ferðarinnar, nefnilega ittla afa (veislan hans afa). Það var ótrúlega spennandi, ég fékk að fara í kjól og spariskó og fara í nýja safnið hans og borða margar kleinur og dansa í marga hringi. Það var troðfullt af fólki og sumt af því var víst meira að segja voða merkilegt. Þetta var sérdeilis ánægjulegt allt saman.

Jæja, þá þarf ég að drífa mig til læknisins. Meira síðar...