sunnudagur, júní 22, 2003

Nú er ég búin að vera lasin, mamma þurfti að sækja mig til dagmömmunnar á fimmtudaginn því ég var komin með hita og skældi bara og var alveg ómögleg. Ég er líka búin að vera kvefuð, en ég held að þetta sé kannski aðallega út af tönnunum mínum, það er eins og það séu fleiri tennur að koma. Ég slefa nefnilega rosalega mikið og set hendurnar í munninn, og stundum fer ég allt í einu að skæla og enginn veit hvað er að. Svo ég er búin að vera frekar pirruð og ómöguleg, mamma þarf mikið að halda á mér og passa mig. En ég held að mér sé nú eitthvað að batna, ég er alla vega laus við hitann og kvefið er að minnka, svo ég fæ að fara til dagmömmunnar á morgun að leika við krakkana.

þriðjudagur, júní 17, 2003

Jæja, vörin mín skánaði nú fljótt, bólgan var eiginlega alveg farin þegar ég vaknaði úr lúrnum mínum og nú er ég bara skrámuð innan á vörinni og það sést ekkert mikið. Ég fór með afa og ömmu og mömmu á 17. júní hátíðahöld í Kópavogi. Það var rosa spennandi en ég var samt dálítið þreytt, var næstum sofnuð í kerrunni minni en hristi það nú af mér svo ég myndi ekki missa af öllu. Ég fékk að skríða um í grasinu og labba dálítið líka, og svo hélt amma á mér í labbitúr að skoða okkur aðeins um. Það var náttúrulega fullt af fólki og krökkum með blöðrur og risastórar snuddur og fána. Ég fékk líka fána og svo var ég með litla snuddu svo ég var næstum eins. Við mamma fórum síðan heim og ég lagði mig, enda orðin alveg búin að vera. Síðan komu afi og amma og Sunna og Magnús í veislukvöldmat, afi grillaði besta kjöt sem ég hef smakkað! Ég var líka orðin svo hræðilega svöng, ég borðaði held ég meira kjöt heldur en flest fullorðna fólkið. Og ég hámaði það í mig, ég vona bara að ég fái ekki í magann eftir þetta allt saman. Svo fékk ég líka smá jógúrtís í eftirmat, mér fannst hann pínu skrýtinn en samt góður. En það er eiginlega ekki hægt að borða hann með puttunum.
Greeeeeeenj! Ég veit ekki hvað er í gangi, slysin bara elta mig á röndum núna. Ég var áðan að skríða til mömmu og var svolítið að flýta mér svo lappirnar fóru aðeins hraðar en hendurnar, eins og hefur stundum komið fyrir áður. Nema í þetta sinn skall andlitið mitt hræðilega fast í gólfið og ég meiddi mig svooooo mikið. Það blæddi og blæddi úr munninum mínum, sem betur fer var ég ekki komin í 17. júní sparifötin mín því þau hefðu alveg eyðilagst. En ég grét ósköp lengi og það blæddi líka voða lengi, mömmu leist ekkert á og hringdi meira að segja í hjúkrunarkonu, en eins og mamma vissi svo sem þá er ekkert að gera nema bara setja eitthvað kalt í munninn. Tennurnar eru allar á sínum stað, en efri vörin mín er alveg þreföld held ég. Og svo er ég marin á kinninni síðan í gær og klóruð á nefinu síðan um helgina, svo það er aldeilis ekki sjón að sjá mig. Og það á þjóðhátíðardaginn! Afi og amma ætluðu með mig á hátíðahöldin í Kópavogi en ég veit ekki hvort þau þora með mig út, ég get varla látið sjá mig meðal fólks :-(

mánudagur, júní 16, 2003

Nú fór illa fyrir mér! Ég var að sofa í vagninum hjá dagmömmunni og búin að ýta mér alveg út í horn eins og ég geri alltaf. Þá bara allt í einu sporðreistist vagninn aftur fyrir sig og ég fór náttúrulega öll í klessu og krambúleraðist í framan. Aldeilis öskraði ég! En ég var nú fljót að jafna mig og mér líður alveg vel núna, borðaði vel og lék mér og skellihló þegar Katrín var að segja mömmu frá þessu. Grey Katrín, ég held að hún hafi nú kannski bara fengið meira sjokk en ég.

Þetta var annars ágætis helgi, nema ég er með kvef og var með pínu hita líka og búin að sofa hálfilla. En ég fór samt til afa og ömmu í Hjallabrekku í gær og fékk að leika mér hjá þeim á meðan mamma fór í búðina að kaupa handa mér föt fyrir Mallorca. Það var alveg frábært að vera hjá afa og ömmu, ég fékk að skoða garðinn þeirra, smakka steinana og labba í kringum tjörnina og alls konar. Og svo fékk ég að rusla allt út í sjónvarpsherberginu og dreifa dagblöðum um allt, það var sko fjör!

miðvikudagur, júní 11, 2003

Í dag var sko gaman! Ég fór að heimsækja Hlyn Frey og hitta alla hina vini mína, og við fengum að leika okkur úti í góða veðrinu. Mér fannst alveg rosalega gaman, og ég var líka ekki neitt þreytt, vakti bara allan tímann og rétt lagði mig í klukkutíma þegar við komum heim. Ég hef voða lítið þurft að sofa núna síðustu daga, ég svaf svo vel í síðustu viku og núna er ég bara að borða allan daginn endalaust en þarf ekkert mikið að hvíla mig. Og ég lærði að klappa áðan, pabbi kenndi mér það og ég næstum því sprakk úr monti yfir því hvað ég er klár. Ég var bara meira og minna að klappa frá því ég lærði það og þangað til ég fór að sofa. Stundum segi ég líka veeeeeeei til að fagna því hvað ég er flink og dugleg.

þriðjudagur, júní 10, 2003

Þetta var nú skemmtileg helgi, fullt af fólki kom að heimsækja mig og það finnst mér svo gaman. Fyrst kom Anna-Lind frænka og Skúli og litlu frændur mínir Bergur Máni og Teitur. Svo kom Silja litla frænka mín með pabba sínum og mömmu. Og svo í gær komu afi og amma og Þórður frændi. Þetta fannst mér allt saman afskaplega skemmtilegt. Annars eru augu það mest spennandi sem ég veit núna. Ég er alltaf að reyna að skoða betur augun í mömmu, verst að hún lokar þeim alltaf þegar ég ætla að fara að skoða. Ég meira að segja reyni að toga upp augnlokið með annarri hendinni og koma svo við augað með hinni en alltaf tekst mömmu að loka auganu. Eða oftast alla vega. Ég held hún sé bara að stríða mér.

laugardagur, júní 07, 2003

Það var rosalega gaman hjá Söru Mist í morgun, það eru myndir af okkur á síðunni hennar ef þið viljið sjá hvað við erum ótrúlega sætar saman. Ég lagði mig fyrst í kerrunni minni og svo fékk ég að borða og svo lékum við Sara Mist okkur saman þangað til mamma kom að sækja mig. En ég var sko ekkert farin að bíða eftir henni, mér fannst bara mjög gaman að vera í pössun.

föstudagur, júní 06, 2003

Ummmmm hvað ég elska að sofa! Eftir að mamma og amma settu loksins dökk gluggatjöld í herbergið okkar Sippa stóra bróður svo það komi nú nótt hjá okkur, þá bara sef ég og sef. Ég fer bara beint að sofa þegar mamma setur mig í rúmið og sef alla nóttina þangað til klukkan sjö. Og ég veit ekki alveg hvort ég er loksins að hvíla mig eftir allar þessar vökur undanfarið eða hvort ég var eitthvað slöpp út af bólusetningunni sem ég fékk í gær, en ég bara svaf og svaf eiginlega í allan dag. Fyrst vaknaði ég klukkan sjö og mamma fór bara að klæða mig og hafa okkur til, en ég var svo sybbin að ég steinsofnaði á skiptiborðinu á meðan hún var að klæða mig. Svo ég fékk að kúra í rúminu mínu þangað til bara tveimur mínútum áður en ég átti að vera komin til dagmömmunnar. Hjá henni borðaði ég morgunmat og fór svo beint út í vagn, svaf í tvo tíma, kom inn og drakk smá vatn og fór svo bara aftur út í vagn og hélt áfram að sofa. Mamma vakti mig svo þegar hún sótti mig klukkan eitt og ég fór heim að borða og reyndi aðeins að leika mér en svo fór ég bara út í kerru og svaf meira. Svo vaknaði ég við eitthvað held ég, alla vega var ég eiginlega þreytt ennþá en gat ekki sofnað aftur, amma keyrði mig aðeins í kerrunni og svo fórum við mamma í labbitúr og líka að leika aðeins í garðinum. Svo fékk ég kjúkling með rjómasósu, mmmmnamm! Og svo fékk ég loksins að fara að sofa klukkan hálfníu, ó hvað það var gott! Ég held ég ætli bara alltaf núna að sofa svona vel, það er svo ósköp gott.

Annars er bara allt gott að frétta, ég fór í skoðun í vikunni og ég er 71 sentimetri og 8665 grömm. Og ég skældi ekki neitt þegar ég fékk sprautuna, var bara pínu hissa á lækninum sem var svona lengi að sprauta mig. Hann skoðaði líka eyrun mín voða vel, fyrst lýsti hann inn í þau með ljósi og svo setti hann hljóð inn í eyrun mín og mældi eitthvað inni í þeim um leið. Og ég er bara með voða fín og falleg eyru.

Á morgun fæ ég að heimsækja Söru Mist vinkonu mína á meðan mamma fer í nudd. Það verður örugglega rosalega gaman og ég er sko aldeilis heppin að eiga svona góðar vinkonur sem ég get heimsótt.

þriðjudagur, júní 03, 2003

Ég verð víst að viðurkenna að ég er ekki búin að vera neitt sérlega góð við mömmu á næturnar núna. Hún vill ekki taka mig upp í rúm og gefa mér að drekka lengur, nú er hún alveg hætt að láta undan mér, alveg sama hvað ég vakna oft og skæli lengi. Þannig að ég er nú eiginlega hætt að nenna að vakna mjög oft, ég er samt ennþá oft að vakna svona um sexleytið og þá finnst mér voða erfitt að sofna aftur af því ég er orðin svo svöng. En mamma gefur mér ekki neitt, ég fæ bara hafragrautinn hjá dagmömmunni. Í gær samt svaf ég alveg til átta og það fannst okkur mömmu báðum voða gott, ég ætti kannski að fara að gera það að vana mínum.

Annars má ég til með að segja ykkur frá því hvað ég fór í skemmtilegt ferðalag um daginn. Ég fór nefnilega í rútuferð með pabba og mömmu, stóra bróður, afa og ömmu og fullt af frænkum og frændum. Pabbi reyndar var með eitthvað vesen og fór á spítala og mamma og stóri bróðir með honum, en ég lét það nú ekki á mig fá og hélt bara áfram í ferðalaginu. Sunna frænka og Þórður frændi pössuðu mig, og líka afi og amma. Mér fannst svo gaman og brosti og hló við öllum. Svo fékk ég meira að segja að fara á veitingastað um kvöldið og var rosalega dugleg að borða. Reyndar fór víst meiri hlutinn af matnum á gólfið en það var allt í lagi því ég brosti svo sætt framan í þjónana.