sunnudagur, september 30, 2007

Veisluhöld


Þá er heldur betur búið að halda upp á afmælið mitt. Í gær komu vinkonur mínar úr skólanum og við héldum fiðrildaveislu með fiðrildaskrauti, fiðrildatattúi og fiðrildaköku. Það var mjög gaman, nema mér fannst pínu erfitt að stelpurnar skyldu ekki gera allt eins og ég vildi. En svo jafnaði ég mig alveg og ég var mjög ánægð með veisluna.

Í dag kom svo öll fjölskyldan og hélt upp á bæði afmælið mitt og afmælið hans Nonna frænda. Mamma gerði Hello Kitty köku handa mér fyrir þá veislu, enda er ég mjög hrifin af Hello Kitty þessa dagana. Ég fékk einmitt Hello Kitty dagbók í afmælisgjöf í gær og skrifaði í hana: "Kæra dabók í dag var amæli ða komu flt af gestum" og svo á aðra blaðsíðu þetta: "Á morgun er anað afmli"

Og hérna sjáið þið mig svo brosa mínu blíðasta afmælisbrosi, á meðan Gabríel stendur vörð í stofuglugganum fyrir aftan mig. Þetta voru frábær afmæli og ég er alsæl með gjafirnar og veislurnar og alla skemmtunina.

laugardagur, september 29, 2007

Ekki snillingur

Mamma kallaði mig snilling áðan. Ég leiðrétti hana snarlega og sagði að ég væri ekkert snillingur, ég hefði til dæmis ekki fundið upp símann. Um daginn var mamma að tala við Sunnu frænku í símann og sagði mér seinna að hún hefði beðið að heilsa. Ég skildi ekki alveg hvað þýddi, en svo fattaði ég það, "já sendi hún broskall" sagði ég.

sunnudagur, september 23, 2007

Ömurlegt

Ég ætlaði að halda fínu fiðrildaveisluna mína í dag, við mamma vorum búnar að skreyta ótrúlega flotta fiðrildaköku og ég var búin að blása upp fullt af blöðrum og allt orðið svo fallegt og fínt. Og svo er ég komin með gubbupest :-( Ég var ömurlega fúl yfir að þurfa að fresta veislunni, en það eru allir í fjölskyldunni búnir að lofa að vera góðir við mig í dag og leika við mig, og við ætlum að borða fiðrildakökuna saman og svo búum við til nýja fiðrildaköku fyrir næsta laugardag því þá ætla ég að hafa veisluna sem átti að vera í dag.

þriðjudagur, september 18, 2007

Fimm ára!

Hvorki meira né minna en fimm ára er ég orðin, húrra fyrir mér! Ég byrjaði daginn á því að láta syngja fyrir mig afmælissönginn og svo föndraði ég mér afmæliskórónu. Ég fékk líka að leita að einum litlum pakka, og var afskaplega ánægð með tröllasögudiskinn sem mig var búið að langa mikið í. Svo fór ég með kórónuna mína á höfðinu í sellótíma og sellókennarinn spilaði afmælissönginn fyrir mig. Mamma brunaði síðan með mig í skólann og þar var beðið eftir mér til að fara að baka afmæliskökuna.

Eftir skóla fékk ég að leita að fleiri pökkum og svo komu amma og afi með ennþá fleiri pakka og meira að segja líka pakka frá Sunnu og fjölskyldu og Þórði. Svo ég fékk fullt af pökkum til að opna, og ég var alveg sérlega ánægð með gjafirnar, takk fyrir mig allir saman!

Næstu tvo sunnudaga ætla ég svo að halda veislur, það verður fjör. Ég er búin að vera að skipuleggja í um það bil ellefu mánuði, ég ætla nefnilega að hafa fiðrildaveislu fyrir vinkonur mínar og mamma bara vonar að veislan sú eigi eftir að standa undir væntingum.

Já svo er það nú annað í stórfréttum að ég er búin að eignast tvær litlar frænkur, eina fékk ég í afmælisgjöf sem er ömmustelpa hennar Ástu frænku og svo er hún litla krúttmús frænka mín sem fæddist í Svíþjóð síðasta miðvikudag. Svo nú er Júlía orðin stóra systir, eins og ég. Mér finnst það dálítið skrítið því hún er eiginlega bara litla barn. Sunna á eiginlega tvö litlu börn núna.

laugardagur, september 08, 2007

Speki

Á laugardögum er ekki leikskóli og skóli, þá er frí svo maður geti þvegið fötin og svoleiðis.

Maður á að taka tillit til annarra. Mér finnst mamma stundum ekki taka nógu mikið tillit til mín þegar hún leyfir mér ekki eitthvað. Mömmur eiga að taka tillit til barnanna sinna. Ég fylgist líka vel með í umferðinni hvaða bílar eru að taka tillit til annarra og hverjir ekki.

Ég er byrjuð í sellótímum og búin að fá lánað selló. Ég er mjög spennt yfir þessu og vil helst fá að spila með sprotanum (boganum). Enn sem komið er er ég þó eiginlega bara búin að læra að standa bein, hneigja mig, sitja bein og sitja með sellóið. Ég hlakka mikið til að læra meira og fara að spila fallega tónlist.