sunnudagur, desember 31, 2006

Árið

Mamma mín vill útnefna sjálfa sig mann ársins fyrir að eignast svona ótrúlega flottan litla bróður handa mér. Hún er nefnilega mjög montin af því hvað hún var flink í að koma honum í heiminn, sérstaklega af því það gekk nú ekkert svo vel með mig á sínum tíma. Og hann er náttúrulega flottasti litli bróðir í heimi. Pabbi kemur síðan sterkur inn í annað sæti fyrir að vera svo skemmtilegur og góður og fara með okkur í ævintýraferðir í fjörunni. Og líka fyrir að smíða frábært baðherbergi handa okkur og íbúð á neðri hæðinni.

Í gærkvöldi var ég að dunda mér við að skrifa á meðan mamma og pabbi spiluðu við Sigurð Pétur. Ég skrifaði:
Þíaþ jólin eru indiseg jólin eu bstu jól í hmi (ég ruglast stundum pínu hvert ég er komin og gleymi stöku stöfum)
Svo skrifaði ég líka allt sem var í Ronju, ég fékk nefnilega að fara aftur að sjá Ronju í leikhúsinu í gær. Og það var:
Rasálvar, hultufólk, Ronja go Birkir, grátverkar (grádvergar), Matías, Sgalapétur (Skalla-Pétur), ridar (riddarar), Lovía (Lovísa), Borki, skóarorir (skógarnornir), Valdís og síðast en ekki síst, Hevedsskáin. Það er dálítið erfitt að skrifa Helvítisgjáin :-)

sunnudagur, desember 24, 2006

Jólin

Þá eru jólin loksins komin! Þessu lýsti ég nokkrum sinnum yfir á meðan við vorum að opna pakkana. Aðfangadagur var nú dálítið strembinn og mikið að gerast, afmælið hennar mömmu, möndlugrautur, jólabað, biðin eftir hátíðinni, spenningurinn yfir pökkunum og svo spennan yfir öllum fallegu og skemmtilegu gjöfunum. En þetta gekk nú stóráfallalaust og ég var afskaplega ánægð og glöð í lok dagsins, eins og við öll.

Á jóladag fórum við í jólaveislu til Önnu-Lindar frænku og hittum þar öll stóru frændsystkinin mín. Það var auðvitað brjálað fjör og við skemmtum okkur öll mjög vel. Guðmundur Steinn var ekki síst ánægður, hann fékk frostpinna í plasti að naga og fannst það æði, hann klæjar greinilega mikið í gómana litla greyið.

Á annan í jólum elduðu svo mamma og pabbi kalkún, það er hvorki meira né minna en níundi jólakalkúnninn sem þau elda saman! Þeim finnst það alveg ótrúlegt. Og þá kom Júlía sætaskott frænka mín og auðvitað afi og amma, Þórður og Sunna og Maggi. Mér fannst rosa gaman, sérstaklega þegar við horfðum á vídeómyndir af mér. Ég nennti sko ekkert að horfa á myndir af Guðmundi Steini, ég vildi bara hafa þær af mér.

Í gær fórum við svo á stóra fína jólaballið, ég var ekkert hrædd við jólasveinana og leiddi meira að segja einn þeirra! Og á morgun fer ég á Ronju ræningjadóttur og svo kemur gamlársdagur. Meira hvað það er margt skemmtilegt að gerast núna!

föstudagur, desember 22, 2006

Jibbí

Pabbi er kominn heim og mikið er ég glöð. Ég hélt næstum því að hann kæmist ekki heim fyrir jólin.

Æsispennandi...

Pabbi minn er í Glasgow, hann þurfti að fara á fund í gær og átti að vera að fara í flugvélina núna, en það er búið að seinka fluginu um fjóra klukkutíma. Nú verður spennandi að sjá, kemst hann heim áður en næsta óveður kemur!

þriðjudagur, desember 12, 2006

Jólasveinar

Hér er allt í fullu fjöri svona rétt fyrir jólin. Um síðustu helgi fórum við á jólaball í vinnunni hjá pabba og mömmu. Við systkinin vorum rosa fín í jólafötunum okkar og skemmtum okkur mjög vel. Kertasníkir kom og ætlaði að borða seríuna af jólatrénu. Hann var aldeilis fyndinn. Ég var ekkert hrædd við hann, mamma þurfti bara að halda á mér svo ég sæi betur.

Við fórum líka á jólahlaðborð í Húsdýragarðinum. Amma Inga Rósa og afi Guðmundur komu með og það var rosa gaman hjá okkur. Ég var dálítið smeyk við Grýlu, en vinur minn sem ég kynntist þarna passaði mig fyrir henni. Svo var líka jólasveinn og ég var eiginlega ekkert hrædd við hann. Eftir á löbbuðum við um og skoðuðum dýrin, og vorum svo heppin að hitta á bæði þegar hreindýrunum var gefið og selunum.

Stekkjarstaur kom svo í nótt og gaf mér skopparabolta í skóinn. Mér fannst ótrúlega spennandi að hann væri að koma, og átti pínu erfitt með að fara að sofa. Ég var líka búin að heyra í honum þegar ég var að fara að hleypa Gabríel út, þá heyrði ég svona eins og einhver væri að labba með staf. Þá varð ég nú frekar skelkuð. En ég þorði alveg að kíkja ein í skóinn, mamma og pabbi þurftu ekkert að koma með mér eins og þegar ég var lítil.

föstudagur, desember 08, 2006

Pínu lasin

Í dag er ég pínu lasin og er heima með mömmu og Guðmundi Steini. Ég var með dálítinn hita í morgun, en ég er samt ágætlega hress og áðan sagði ég mömmu að ég ætlaði bara að hoppa úr mér hitann. Svo gormaðist ég um allt eins og lítil kengúra. Ég þurfti auðvitað ekki að fara í skólaföt svo ég notaði tækifærið og klæddi mig upp á, fór í kjól og sokkabuxur, setti blýant á augabrúnirnar, fékk mér kinnalit og gloss, og perlufesti um hálsinn. Algjör pæja. Svo bökuðum við mamma smákökur með rúsínum í, okkur pabba finnast þær ótrúlega góðar en ekki mömmu því hún borðar ekki rúsínur nema það sé súkkulaði utan um þær.

Áðan spurði ég mömmu, hvað er beita? Mamma reyndi að útskýra það, það er eitthvað sem maður setur á öngulinn þegar maður er að veiða, eins og til dæmis orm. Já, sagði ég, eða fugl!

laugardagur, desember 02, 2006

Desember

Jæja, þá er loksins kominn desember. Í gærmorgun sagði pabbi, nú er kominn desember, þá koma jólin. Nei, sagði ég, það eru ekki að koma jól, það er enginn snjór. Svo hugsaði ég mig aðeins um og sagði svo, það verða rauð jól! En svo er nú allt hvítt núna, svo það er aldrei að vita nema verði hvít jól. Ég fékk loksins súkkulaðidagatal, í fyrsta skipti. Maður á að finna töluna sem er og svo fær maður súkkulaði með engu inni í. Það er nú eitthvað fyrir mig!

Í dag á hún amma Inga Rósa afmæli. Til hamingju með daginn amma mín, ég hlakka mikið til að koma til þín á eftir. Og það er nóg að gera í afmælum þessa dagana því Anna-Lind frænka mín og Darri eru bæði nýbúin að eiga afmæli. Hamingjuóskir til ykkar og við hlökkum líka mikið til að koma loksins í heimsókn á morgun. Það er nóg um að vera hjá okkur um helgina, því fyrir utan tvær afmælisveislur þá er Guðmundur Steinn að fara á sundnámskeið, mamma í jóga, Sigurður Pétur í fótbolta og karate og ég í fimleika. Það er síðasta skiptið í fimleikunum og foreldrarnir eiga að koma í íþróttafötum og gera æfingarnar með okkur. Ég bíð sko spennt eftir því að láta mömmu fara í kollhnísa og alls konar og kenna henni allt sem á að gera. Pabbi ætlar líka að koma með og taka myndir af okkur mömmu.

Í fyrradag fórum við mamma og Guðmundur Steinn að heimsækja dagforeldrana mína, þau Katrínu og Hilmar. Það var svo gaman og ég var búin að hlakka lengi til að fara til þeirra, ég teiknaði mynd í leikskólanum og pakkaði inn handa þeim. Okkur mömmu þykir ósköp vænt um þau, ég var alltaf svo glöð og ánægð hjá þeim. Þau eru komin í nýtt hús og eru með ótrúlega fína aðstöðu fyrir litlu börnin. En Guðmundur Steinn verður því miður ekki svo heppinn að vera hjá þeim, því hún Katrín er með lítinn strák í maganum sem á einmitt að fæðast í vor þegar Guðmundur Steinn þarf að fara í pössun. Við samgleðjumst þeim samt auðvitað, og líka litla stráknum sem fær svona góða mömmu og pabba :-)