Jæja, þá er loksins kominn desember. Í gærmorgun sagði pabbi, nú er kominn desember, þá koma jólin. Nei, sagði ég, það eru ekki að koma jól, það er enginn snjór. Svo hugsaði ég mig aðeins um og sagði svo, það verða rauð jól! En svo er nú allt hvítt núna, svo það er aldrei að vita nema verði hvít jól. Ég fékk loksins súkkulaðidagatal, í fyrsta skipti. Maður á að finna töluna sem er og svo fær maður súkkulaði með engu inni í. Það er nú eitthvað fyrir mig!
Í dag á hún amma Inga Rósa afmæli. Til hamingju með daginn amma mín, ég hlakka mikið til að koma til þín á eftir. Og það er nóg að gera í afmælum þessa dagana því Anna-Lind frænka mín og Darri eru bæði nýbúin að eiga afmæli. Hamingjuóskir til ykkar og við hlökkum líka mikið til að koma loksins í heimsókn á morgun. Það er nóg um að vera hjá okkur um helgina, því fyrir utan tvær afmælisveislur þá er Guðmundur Steinn að fara á sundnámskeið, mamma í jóga, Sigurður Pétur í fótbolta og karate og ég í fimleika. Það er síðasta skiptið í fimleikunum og foreldrarnir eiga að koma í íþróttafötum og gera æfingarnar með okkur. Ég bíð sko spennt eftir því að láta mömmu fara í kollhnísa og alls konar og kenna henni allt sem á að gera. Pabbi ætlar líka að koma með og taka myndir af okkur mömmu.
Í fyrradag fórum við mamma og Guðmundur Steinn að heimsækja dagforeldrana mína, þau Katrínu og Hilmar. Það var svo gaman og ég var búin að hlakka lengi til að fara til þeirra, ég teiknaði mynd í leikskólanum og pakkaði inn handa þeim. Okkur mömmu þykir ósköp vænt um þau, ég var alltaf svo glöð og ánægð hjá þeim. Þau eru komin í nýtt hús og eru með ótrúlega fína aðstöðu fyrir litlu börnin. En Guðmundur Steinn verður því miður ekki svo heppinn að vera hjá þeim, því hún Katrín er með lítinn strák í maganum sem á einmitt að fæðast í vor þegar Guðmundur Steinn þarf að fara í pössun. Við samgleðjumst þeim samt auðvitað, og líka litla stráknum sem fær svona góða mömmu og pabba :-)
Engin ummæli:
Skrifa ummæli