sunnudagur, ágúst 29, 2004

Endalausar veislur

Þessi helgi var eiginlega bara ein samfelld veisla. Á föstudagskvöldið var afmælisveislan hans pabba, ég fékk köku og snakk og fékk að vaka langt fram á kvöld og leika við Silju frænku mína og frændur mína Hauk og Pétur. Á laugardaginn fékk ég að borða meiri köku og snakk og í dag fór ég í Heiðmörk þar sem var fullt af frændum mínum og frænkum og við fengum pylsur og kökur og snúða og alls kyns góðgæti. Það var alveg frábært veður og mjög skemmtilegt, ég söng og dansaði og lék mér og hljóp um allt. Það var sko alveg brjálað.

þriðjudagur, ágúst 24, 2004

Menningarpæja

Ég fór út í bæ með mömmu um helgina. Ég var reyndar pínu hissa að hún skyldi koma með, yfirleitt eru þau pabbi heima að smíða þegar ég fer í bæinn. En í þetta sinn fékk mamma að koma með mér (pabbi var í útlöndum í flugvélinni hátt í loft), Þórður kom líka með okkur og svo hittum við ömmu og afa í bænum. Ég skemmti mér hið besta, fékk að fara í hoppukastala og bolla sem snerust, fékk popp og blöðru, sá línudansara og dansaði með þeim og fór svo á rokktónleika þar sem ég dansaði og klappaði af mikilli innlifun með blöðru í annarri og snuddu í hinni. Við mamma vorum síðan fastar í bænum og aumingja maðurinn á hjólinu hjálpaði okkur, þetta var mikið ævintýri og mikið fjör.

laugardagur, ágúst 21, 2004

Í leikskóla er gaman


Svona er ég mikil pæja á leiðinni í leikskólann. Mér finnst "losa gaman" þar, reyndar öskra ég alltaf og hangi í mömmu þegar hún skilur mig eftir, en það er nú bara af því að ég er svolítið mikið að reyna að stjórna henni þessa dagana. En svo bara borða ég morgunmatinn með bestu lyst, svo syng ég með vinkonum mínum, hnoða leir og lita, leik mér úti og inni og allir eru með. Ég fæ líka hádegismat og nónhressingu og eftir hádegismatinn fæ ég að leggja mig með vinkonum mínum, það er svo notalegt. Þegar mamma og pabbi koma að sækja mig þarf ég að sýna þeim allt og vil helst ekki fara heim.

fimmtudagur, ágúst 12, 2004

Indjánasumar


Það vita náttúrulega allir hvernig veðrið er þessa dagana, og það þýðir að við mamma megum ekkert vera að því að láta í okkur heyra hérna. Ég er upptekin að aðlagast á leikskólanum (sem gengur mjög vel) og leika úti við Tönju og Telmu, og mamma og pabbi eru upptekin við að smíða pall í garðinn svo það er mikið um að vera hjá okkur. Þeir sem vilja meiri fréttir verða bara að koma í heimsókn :-)

miðvikudagur, ágúst 04, 2004

Detta meirrrra bljáða

Já þetta var nú meira brjálaða sumarfríið, ég er búin að fara á Vestfirði, Suðurland og til Danmerkur, kaupa nýtt tjald og ný dekk, fá eyrnabólgu, fara í skip, flugvél, rússíbana, vatnsrennibraut og dýragarð og lenda í miklum ævintýrum. Við mamma ætlum nú að reyna að setja saman ferðasögu en það á örugglega eftir að taka sinn tíma, svo þið verðið bara að bíða róleg gott fólk. Svo er nú mikið fjör hjá mér núna, mamma er í vinnunni en við pabbi erum heima og svo koma Tanja og Telma og leika við mig og fara með mér á róló. Það er sko "losa gaman". Við ætlum að vera heima þessa viku, og svo á mánudaginn byrja ég á leikskólanum! Vá hvað við mamma hlökkum til. Ég er nú orðin svotil altalandi, flinkari en mamma að segja err, og kann að syngja Í leikskóla er gaman (eða reyndar "gokkóla") svo ég er bara eiginlega orðin stór og alveg tilbúin að byrja í leikskólanum.