laugardagur, september 19, 2009

Sjö ára


Það var svo mikið að gera í afmælishaldi hjá mér í gær að ég mátti bara ekkert vera að því að segja frá því! Ég byrjaði á því að vakna við afmælissöng og fékk að opna einn pakka. Og í honum reyndist vera það sem ég óskaði mér allra mest, miðar á Söngvaseið. Og það meira að segja á sýningu sama dag og á fremsta bekk! Það var reyndar þýddi að ég þurfti að fara snemma úr afmælisveislunni sem ég var búin að bjóða öllum í bekknum í, en það var nú allt í lagi.

Ég fór svo í skólann og átti afskaplega góðan dag þar, allar vinkonur mínar kepptust um að fá að sitja hjá mér og knúsa mig og gefa mér föndraðar afmælisgjafir, það er sko ekki amalegt að eiga svona góðar vinkonur. Mamma sótti mig svo snemma og við fórum að undirbúa veisluna. Í veislunni var ratleikur, regnbogakökur og rice crispies nammiskálar, og svo horfðum við á Pétur Pan í bíóinu. Og ég fór síðan fyrst af öllum úr afmælinu til að fara í leikhúsið. Mér fannst alveg jafn skemmtilegt og þegar ég fór með ömmu síðasta vor, ég var sko alveg síðan þá búin að óska þess að fá miða á Söngvaseið í afmælisgjöf.

Þetta var semsagt alveg frábær afmælisdagur og ég var ótrúlega ánægð með hann!

mánudagur, september 07, 2009

Tannlaus


Svona er ég nú flott núna :-) Ég er byrjuð aftur í skólanum eftir aldeilis fínt sumarfrí, við rúntuðum fram og aftur um landið í Hummernum í fjórar vikur og gerðum margt margt skemmtilegt. Ég fékk líka að fara á skátanámskeið og það var algjört æði, ég fór í sund í Nauthólsvík, hjólandi að Vífilsstaðavatni og þar á kajak, og meira að segja í útilegu yfir nótt. Svo fannst mér líka mjög gaman að mæta aftur í skólann og hitta allar vinkonurnar, og heldur betur spennandi að fá heimaverkefni! Og nú styttist bara í afmælið mitt. Ég veit alveg hvað mig langar mest af öllu í í afmælisgjöf, það er nefnilega miðar á Söngvaseið. Ég fékk að fara með ömmu síðasta vor og alveg síðan þá hef ég beðið eftir því að afmælið mitt komi og óskað mér þess mest af öllu í afmælisgjöf að fá að fara aftur.