þriðjudagur, september 27, 2005

Smá misskilningur

Ég var að reyna að útskýra fyrir mömmu að það var ekkert ég sem samdi þetta lag. Henni finnst þetta víst eitthvað undarlegur texti, en það voru sko fóstrurnar á leikskólanum sem kenndu mér þetta. Og þetta var þannig að strákurinn spurði stúlkuna hvort hún vildi koma með, hún sagðist þurfa að spyrja mömmu sína, og mamman sagði nei það máttu alls ekki.

Lítil saga

Í gærmorgun vaknaði ég með mikla andagift yfir mér og samdi lag og litla sögu sem ég söng fyrir mömmu og pabba. Sagan var nokkurn veginn svona:
Einu sinni var stúlka. Þá kom strákur og spurði hvort hún gæti komið að leika. Nei sagði mamma hennar. Stúlkan stökk þá út um gluggann. Þau fóru saman til Kína og eignuðust tvíbura. Svo komu þau aftur heim.

Afmælisveislur

Þá er búið að halda tvær afmælisveislur fyrir mig. Um síðustu helgi var smáveisla með tveimur vinkonum mínum úr leikskólanum og Hauki og Silju og Tuma tígur köku. Og svo núna um helgina komu tvær vinkonur mínar sem gátu ekki komið í hina veisluna, og amma Inga Rósa, afi Guðmundur, Sunna, Maggi, Svanhildur Pons, Þórður, Anna Margrét, Pétur, Haukur og Silja, og amma Gisela kom og var hjá okkur um helgina. Það var nú aldeilis gaman að hún skyldi geta komið í afmælið mitt. Og mamma gerði Bangsímon köku. Hún er með fegurri fyrirheit með hverjum deginum um að fara að taka sig á í myndamálum, kannski fáið þið að sjá einhverjar myndir fyrir jól alla vega...

sunnudagur, september 18, 2005

Þriggja ára!

Ég á afmæli í dag, orðin þriggja ára pæja. Silja frænka mín gisti hjá mér í nótt og við heyrðum krumma syngja afmælissönginn fyrir mig þegar við vöknuðum. Á eftir koma vinkonur mínar af leikskólanum í afmælisveislu, og svo fæ ég aðra afmælisveislu um næstu helgi fyrir afa og ömmu og frænkur og frændur.

miðvikudagur, september 14, 2005

Ein frétt í viðbót

Í gær datt ég í fyrsta skipti (og sennilega ekki síðasta) á hjólinu mínu. Ég er sko alveg brjáluð á tvíhjólinu, hjóla á fleygiferð og man yfirleitt aldrei eftir að bremsa. Við fórum öll saman í göngu/hjólatúr og mamma og pabbi voru nokkrum sinnum búin að grípa í mig og minna mig á að bremsa, en svo í eitt skiptið náði mamma mér ekki svo ég bara datt af hjólinu á fleygiferð. Sem betur fer var ég með hjálm því annars hefði ég örugglega meitt mig mjög mikið í hausnum. En ég slapp með skrekkinn, rispaðist bara á gagnauganu því ég var á svo mikilli ferð að ég rann eftir gangstéttinni eftir að ég lenti.

Fréttir

Það er mikið að gerast hjá mér þessa dagana. Ég er ógurlega spennt fyrir litlu frænku minni henni Svanhildi (ég á eftir að verða ægilega svekkt þegar hún verður skírð eitthvað allt annað). Hún er óskaplega lítil og sæt og kann ekki neitt. Ég ætla að vera mjög dugleg að kenna henni að labba og tala og allt þetta sem maður þarf að kunna. Enda er ég orðin stór fimleikastúlka, ég byrjaði sko í fimleikum síðasta laugardag. Ég missti reyndar aðeins kjarkinn fyrst, en þá kom mamma hlaupandi og huggaði mig og svo hélt hún á mér og gerði allar æfingarnar fyrir mig þangað til mér fannst ein æfingin nógu spennandi til að yfirvinna kjarkleysið. Eftir það hoppaði ég um eins og herforingi, skreið eins og kónguló, rúllaði mér, fór í kollhnísa aftur á bak og áfram og var algjör snillingur. Svo fórum við mamma í húsdýragarðinn og gáfum lömbunum og kálfunum snuddurnar mínar. Það var nú ansi stórt skref, aðallega fyrir mömmu held ég. En ég er búin að standa mig alveg eins og hetja, ég hef verið pínu óörugg þegar ég fer að sofa á kvöldin en þetta hefur samt gengið ótrúlega vel. Ég er líka alveg að verða þriggja ára. Ég er ótrúlega spennt og spyr mömmu á hverjum morgni hvort ég eigi núna afmæli. Og ég er búin að læra að segja plííís og ó mæ gaaad og gvuðminngóður.

laugardagur, september 03, 2005

Lítil frænka

Ég er búin að eignast litla frænku, litla barnið kom úr bumbunni hennar Sunnu áðan og það var lítil stúlka. Mér finnst að hún eigi að heita Svanhildur eins og dúkkan mín. Það gekk mjög vel, við vitum ekki hvað hún er stór en Maggi segir að hún sé roooosalega sæt :-) Við hlökkum mikið til að sjá hana og kynnast henni.