þriðjudagur, desember 23, 2003

Gleðileg jól


Elsku fólk, vinir og fjölskylda, mömmukonur og mjónubörn.

Ég óska þess að þið eigið gleðileg jól og njótið ljúfra daga með fjölskyldum ykkar. Takk fyrir samfylgdina á árinu og hlakka til að hitta ykkur á því næsta. Mamma, pabbi og Sigurður Pétur biðja líka að heilsa kæra jólakveðju.

þriðjudagur, desember 16, 2003

Nokkrar nýjar myndir

Ekki mjög margar, en bara svona rétt til að þið sjáið hvað við erum ennþá sæt systkinin, og hvað mamma var flink að föndra aðventukrans, þær eru hérna. Annars er það er nú helst í merkilegum fréttum af mér að ég er búin að vera ótrúlega dugleg að taka meðalið mitt, ég bað meira að segja um meira hjá Katrínu í gær. Enda er ég búin að fá mjög fínt í skóinn frá jólasveinunum, lítinn hest og kú til að leika við svínið, bleika sokka með blómum og nýja snuddu. Mér líður líka miklu betur, mamma þarf að vekja mig á morgnana því ég bara steinsef fram eftir öllu. En ég missti því miður af jólaballinu sem ég ætlaði að fara á á laugardaginn. Í staðinn fékk ég að fara með ömmu í jólablómabúð á sunnudaginn, þar voru syngjandi páfagaukar og alls kyns fínt.

föstudagur, desember 12, 2003

Ertu komin aftur...

eyrnabólga, landsins forni þú veist hvað. Og svo er nú það, ég er komin með bullandi eyrnabólgu í vinstra eyrað. Það útskýrir alla vega hvað ég er búin að sofa illa síðustu nætur. Nú þarf ég bara að vera dugleg að taka meðalið mitt, ég var nú mjög dugleg áðan og við mamma klöppuðum mikið fyrir mér. Ef ég verð dugleg og mér batnar vel, þá þarf ég bara að taka meðalið í fimm daga. Heyrðu og svo verð ég nú að segja ykkur annað, haldið þið að mamma hafi ekki sett stígvélið mitt út í glugga þegar ég fór að sofa í gær. Þetta fannst mér nú alveg út í hött og gat engan veginn farið að sofa fyrr en mamma var búin að taka stígvélið. Svo þegar ég vaknaði í morgun, þá var stígvélið aftur komið út í glugga, og í því var svín! Mamma segir að einhver Stekkjastaur hafi gefið mér það, ég skildi nú lítið í þessu öllu saman en var samt mjög ánægð með svínið. Ég er líka svo flink að gera svínahljóð.

mánudagur, desember 08, 2003

Alltaf nóg að gera

Já, það má nú segja að það er alltaf nóg að gera hjá okkur mömmu. Mamma er nú svo dugleg þessa dagana að ég veit ekki hvað er eiginlega í gangi með hana, hún er alltaf að sparsla og baka og taka til í bílskúrnum og ég veit bara ekki hvað og hvað. Á föstudaginn ætluðu þau pabbi í búðarferð og Linda ætlaði að koma að passa okkur, en svo var hún bara lasin greyið. Svo við Sigurður Pétur fengum að fara til ömmu og afa í smástund, ég var nú ánægð með það og fór strax að tygja mig þegar mamma sagði að ég ætti að fara til afa og ömmu.

Á laugardaginn fórum við á Garðatorg að sjá þegar það var kveikt á jólatrénu, þar var voða fín tónlist sem ég var heldur betur hrifin af, ég var eiginlega bara alveg dáleidd. Svo komu jólasveinar og ég var ekki alveg jafn hrifin af þeim.

Linda greyið var ennþá veik á laugardaginn og mamma og pabbi voru að fara í jólahlaðborð svo Sunna frænka kom og passaði okkur í smástund. Hún ætlaði nú bara ekki að trúa því hvað ég er góð að fara að sofa, ég leggst nefnilega oftast bara niður með snuddurnar mínar tvær og ligg svo stillt og góð þangað til ég sofna. Hún meira að segja kom og kíkti á mig af því hún var svo hissa á þessu, ég veit það vegna þess að ég var ekki sofnuð þá. En ég var nú ekki að láta það trufla mig og hélt bara áfram að kúra mig þangað til ég sofnaði. Svo var ég voða góð við mömmu og leyfði henni að sofa alveg til sjö í gærmorgun. Þegar ég var svo búin að leggja mig fórum við í afmælisveislu til ömmu Ingu Rósu, ég fékk margt gott þar, til dæmis jarðarber, heitan rétt og kókosmakkarónur. Svo var ég með atriði, mamma söng og ég dansaði og dillaði mér eins og ég er búin að læra hjá dagmömmunni. Ég sýndi Höfuð, herðar, hné og tær, Við erum söngvasveinar og Í skóginum stóð kofi einn. Þetta vakti mikla lukku, allir klöppuðu fyrir mér og ég hrópaði meira meira eftir hvert lag. Nú þarf ég bara að vera dugleg að æfa mig fyrir jólaballið sem ég ætla að fara á um næstu helgi.

föstudagur, desember 05, 2003

Súkkulaðiskotta

Í gær fékk ég sojasúkkulaðiköku í kaffitímanum hjá Katrínu. Hún var svo ótrúlega góð (kakan sko, en Katrín er líka voða góð) að ég borðaði þrjár sneiðar og svo þegar ég var hætt þá samt eiginlega gat ég það ekki og kom aftur að borðinu til að biðja um aðeins meira. Og ekki var nú kvöldmaturinn amalegur heldur, lifrarpylsa og blóðmör, namm hvað það var gott! Sigurður Pétur var rosalega duglegur í gær, hann var að leika Bjúgnakræki í jólasveinaleikriti í skólanum sínum. Pabbi og mamma fóru að horfa á hann og tóku myndir svo að mamma hans gæti séð leikritið, hún er nefnilega í útlöndum. Svo þegar þau komu út eftir leikritið, þá var víst eitt dekkið á bílnum bara alveg loftlaust. Þá voru þau nú heppin að vera með kolsýrukútinn í bílnum. En það fannst ekki neitt að dekkinu, sennilega hefur bara einhver jólasveinn verið að hrekkja þau.

þriðjudagur, desember 02, 2003

Til hamingju með daginn amma mín

Jújú, amma Inga Rósa á afmæli í dag, til hamingju með það elsku amma. Ég fékk að fara með þeim ömmu og afa í annan ævintýraleiðangur á laugardaginn á meðan pabbi og mamma fóru með Sigurð Pétur að kaupa Línu langsokk dúkku handa mér. Það er alltaf svo gaman í ævintýrum með afa og ömmu, ég fékk að fara í rúllustiga og það var ótrúlega spennandi. Og ég fór labbandi í búðina með ömmu, rosalega dugleg. Ég var ekkert alveg tilbúin að fara þegar mamma og pabbi komu að ná í mig en það var nú samt gott að koma heim og leggjast í rúmið sitt og steinsofna á stundinni. Á sunnudaginn komu svo amma og afi á Akureyri í heimsókn, það var líka afskaplega gaman. Ég fékk fíl frá þeim sem ég knúsaði og kreisti. Svo fór ég með mömmu í bílinn að keyra þau á hótelið sitt og ég var frekar svekkt þegar ég fékk ekki að fara með þeim út úr bílnum heldur þurfti bara að fara heim aftur með mömmu. Í gær kom svo hún Linda að heimsækja okkur, hún ætlar að vera barnapían mín. Okkur mömmu leist bara mjög vel á hana og vonandi leist henni vel á mig. Ég var náttúrulega pínu feimin við hana en ég held samt að hún sé skemmtileg.

miðvikudagur, nóvember 26, 2003

Svo dugleg að baka

Ég var svo rosalega dugleg að hjálpa mömmu að baka í gær. Fyrst fór ég inn í búrskápinn, náði þar í sykur og dreifði dágóðum slatta á gólfið. Og svo bakaði ég rosalega fínt á gólfið, alveg sjálf. Mamma var reyndar ekkert rosalega glöð með það, en hún getur sjálfri sér um kennt því hún leyfði mér að vera bleyjulaus.

mánudagur, nóvember 24, 2003

Ævintýraleiðangur

Í gær fór ég í rosalega flottan ævintýraleiðangur með ömmu og afa í Hjallabrekku og Þórði frænda. Fyrst fórum við að gefa öndunum í Kópavogi brauð. Þær voru mjög svangar og glaðar að fá brauð. Fyrst skildi ég nú ekki alveg hvað var um að vera, prófaði að bíta sjálf í brauðið og svona. En svo fattaði ég hvað átti að gera og reyndi eins og ég gat að henda til þeirra brauðinu. Svo þegar við vorum búin að gefa þeim brauðið, þá fórum við að skoða marga marga hunda. Það var sko flott. Og svo fórum við í Hjallabrekkuna að leika og ég fékk kleinu og allt. Sunna frænka kom líka þangað að knúsa mig. Svo fór hún og þá var ég líka farin að verða pínu lúin, svo ég náði í skóna mína og sagði jæja, þá vissu amma og afi að nú vildi ég fara heim.

sunnudagur, nóvember 23, 2003

Duglegasta stelpan

Takk fyrir kveðjuna amma Gisela, ég er sko komin með hvorki meira né minna en 12 tennur. Og ekki nóg með það, því sú 13. er á leiðinni og það er meira að segja augntönn. Enda er hún búin að vera að pirra mig eitthvað held ég, alla vega hef ég verið óróleg á nóttunni undanfarið. Mamma og pabbi voru pínu hrædd um að ég væri kannski enn og aftur komin með eyrnabólgu, og líka bara af því að ég er búin að fá eyrnabólgu svo oft, þá ákváðu þau að fara með mig til eyrnalæknisins. Hann var nú skemmtilegur kall og mér fannst bara gaman hjá honum. Ég brosti bara til aðstoðarkonunnar hans á meðan hann var að skoða í eyrun mín og þau voru alveg hissa hvað ég var dugleg og góð. Eyrun mín voru líka alveg fín og engin eyrnabólga í þeim, við vorum nú ánægð að fá að vita það.

Í gær átti Sunna frænka mín afmæli og ég fór í veislu til hennar. Það var sko ekki ónýtt, ég fékk gulrótarköku og ís! Svo eru nú fleiri afmæli framundan, Anna-Lind frænka á afmæli eftir nokkra daga (en ég fer nú varla í veislu til hennar því hún er í Ameríku núna), og svo á amma Inga Rósa afmæli. Svo nokkru eftir það, þá á mamma mín afmæli og þá verður nú fjör, þá fá nefnilega allir pakka og borða góðan mat.

miðvikudagur, nóvember 19, 2003

Stórt knús

Þið getið hnýtt í Stubbana eins og þið viljið, en ég er nú samt búin að læra af þeim að segja "stórt knús" (dah-da) og knúsa svo mömmuna mína. Ég er á fullu að bæta við orðum núna, mamma og pabbi skilja þau reyndar ekki öll, en þau eru að læra. Eitt af nýju orðunum mínum er til dæmis heitt (ahh) og svo blæs ég á hitann. Það getur verið maturinn minn, eða ofn, eða bara eitthvað sem er heitt. Svo finnst mér líka stundum eins og maturinn sé heitur þegar hann er bara eitthað skrýtinn, með nýrri áferð eða bragði eða eitthvað þannig. Þá blæs ég og blæs, en samt breytist maturinn ekkert. Svo kann ég líka að blása eins og vindurinn úti, hann blæs sko með stút á munninum og stórum kinnum.

sunnudagur, nóvember 16, 2003

Ég elska pabba minn

Já pabbi er sko bestur, hann leyfði mér að borða smjör með puttunum beint upp úr dósinni. Sigurður Pétur stóri bróðir minn missti tönn í gær. Eða kannski er réttara að segja að hann hafi dregið úr sér tönn í gær, alla vega var tönnin öll í blóði og hann þorði ekki að taka hana til að setja hana undir koddann svo hann skildi hana bara eftir á vaskinum. En tannálfurinn tók samt tönnina og lét hann fá pening í staðinn, aldeilis heppinn var hann.

laugardagur, nóvember 15, 2003

Amma veit hvað hún syngur

Já, þetta er sko alveg satt sem hún amma mín segir, ég er hreinn og beinn snillingur sem kann að setja saman tvo kubba! Ég var ekkert smá montin, ég er búin að vera að reyna þetta svo rosalega lengi og í fyrrdag tókst mér það loksins. Ég klappaði sko og fagnaði og setti kubbana saman aftur og aftur og var bara afskaplega ánægð með mig. Og þetta er nú ekki allt, því ég er líka orðin mjög flink að borða sjálf, hjá dagmömmunni þá er ég rosalega pen og það má ekki koma neitt sull eða klístur á puttana mína, þá bara sit ég alveg kyrr með hendurnar út í loftið og bíð eftir að Katrín þurrki af mér. En ég er nú ekki alveg svona pjöttuð heima, til dæmis þegar ég fæ sojabúðing, sem mér finnst mjög góður, þá borða ég fyrst voða pen og fín með skeiðinni, en svo finnst mér voða gott að klára hann bara með puttunum. Eða öllu heldur allri hendinni, ég bara dýfi henni á bólakaf ofan í búðinginn og sting svo hendinni upp í mig. Og fleira kann ég, ég er búin að læra að herma eftir svínum og fuglum, það eru nú ekki mörg dýr eftir í dýrabókunum mínum sem ég kann ekki að herma eftir. Meira að segja kalkúnahljóð kann ég að gera.

Annað sem ég þarf að segja ykkur frá er hvað mamma mín er rosalega dugleg því hún er sko byrjuð að baka fyrir jólin! Mér finnst það voða spennandi og gaman að smakka kökurnar, en ég er samt ekkert voða hrifin af að borða þær. Þá finnst mér nú sviðasulta betri.

mánudagur, nóvember 10, 2003

Nú er stubbastund

Ég þarf víst að hanga heima einn dag í viðbót, búin að vera heima með mömmu síðan á föstudaginn. Svo ég er bara búin að koma mér fyrir í stólnum mínum og er að horfa á stubbana einu sinni enn. Þetta er sko uppáhaldsspólan mín og ég veit alveg hvenær ég vil horfa á hana. Áðan kveikti mamma á einhverjum öðrum barnatíma, ég horfði á hann í smástund en svo var hann bara ekkert skemmtilegur, svo ég kom til mömmu og sagði "e-ee-ehe", sem þýðir augljóslega "mamma þetta er ekki skemmtilegt, viltu setja stubbana".

sunnudagur, nóvember 09, 2003

Namminamm

Ég fór í afmælisveislu í dag hjá honum Hannesi vini mínum sem verður tveggja ára á morgun. Þar fékk ég að smakka eitthvað það allra frábærasta sem ég hef nokkurn tímann vitað, nefnilega súkkulaðiköku með súkkulaðikremi og nammi. Þetta var svo rosalega gott að ég átti nú bara dálítið bágt með mig. Jæja eða kannski mjög bágt með mig, en það var nú bara af því mamma var eitthvað að reyna að skipta sér af hvernig ég fór að því að borða kökuna. Ég var dauðhrædd um að hún ætlaði kannski bara að taka kökuna af mér eða eitthvað, svo mér þótti vissara að öskra dálítið á hana mömmu mína. Ég var líka eina stelpan í afmælinu, svo ég þurfti nú aðeins að láta til mín taka. Þegar við síðan komum heim fékk ég annað sem mér þykir alveg rosalega gott, sem er steikt ýsa. Alveg finnst mér það sérlega góður matur, ég hámaði helling í mig og borðaði alveg sjálf með gafflinum mínum og allt.

laugardagur, nóvember 08, 2003

Alltaf sama sagan

Dagarnir feykjast út í buskann og heil vika liðin áður en við verður litið. Ég fór tvisvar til læknis í vikunni, fyrst var ég eitthvað vansæl og mamma lét athuga eyrun mín, þá var bara smá vökvi í eyrunum en ég átti að koma aftur ef ég yrði eitthvað meira lasin. Svo á fimmtudaginn var ég komin með 40 stiga hita, og þó mömmu grunaði að þetta væri bara pest, þá ákváðum við að láta samt skoða eyrun aftur til öryggis. Þau litu bara ágætlega út, en sama var ekki að segja um augað hennar mömmu, hún fékk einhverja sýkingu í það svo læknirinn lét hana fá augndropa. Við mamma vorum svo heima í gær, horfðum á Stubbana og sungum alls kyns lög. mér finnst til dæmis höfuð, herðar, hné og tær sérstaklega skemmtilegt þessa dagana. Ég var samt dálítið pirruð að hanga bara inni með mömmu allan daginn, sérstaklega af því ég gat eiginlega ekkert sofið. Við vorum báðar voða glaðar þegar pabbi kom heim.

sunnudagur, nóvember 02, 2003

Pabbastelpa

Mamma var víst í afmæli í gær og kom heim einhvern tímann seint, svo hún nennti ekki á fætur með okkur pabba klukkan korter yfir sex. En pabbi fór bara með mér upp og eldaði handa mér hafragraut. Ég var nú ekkert sérlega ánægð þegar hann ætlaði að fara að mata mig, ég vildi bara borða sjálf og öskraði á hann í dágóða stund. En svo sættist ég nú alveg við hann pabba minn og hann meira að segja kenndi mér að kyssa með smelli, mamma var alveg hissa þegar hún sá að ég var búin að læra það.

miðvikudagur, október 29, 2003

Fleiri kúnstir

Það er alltaf að bætast við dýrahljóðin hjá mér, nú kann ég að herma eftir hænum og refum. Svo er ég orðin mjög flink að drekka úr venjulegu glasi, alla vega ef ég er þyrst þá gengur það mjög vel. Svo þegar ég er ekkert þyrst lengur, þá finnst mér svolítið gaman að prófa mig áfram og sulla og svona, þá fer nú svolítið mikið út um allt. Ég var líka ótrúlega dugleg hjá dagmömmunni í gær, þá lét ég nefnilega vita þegar ég var komin með kúkableyju, benti á bleyjuna mína og svo á skiptiborðið og kvartaði hástöfum. Ég er líka svo hræðilega brunnin þessa dagana að mér finnst alveg voðalega vont að vera með pjæ í bleyjunni.

Afmælisdagur

Jájá, Þórður frændi á afmæli í dag, hann er 21 og má núna vera rútubílstjóri, til hamingju með þetta allt saman Þórður.

laugardagur, október 25, 2003

Jæja...

Ég biðst afsökunar gott fólk, mamma er búin að vera svo voða upptekin eitthvað að hún hefur ekkert komist í að skrifa fyrir mig. En nú er ég búin að snúa upp á hendurnar á henni og toga í hárið á henni og hún ætlar að reyna að vera duglegri að skrifa.

Ég er laus við meðalið í bili, það gekk nú betur en oft áður að koma því niður, ég held ég hafi bara alveg náð að kyngja meira en helmingnum af því. Vonandi losna ég þá bara við þessa eyrnabólgu í eitt skipti fyrir öll. Ég var áfram með hita þarna föstudaginn eftir að við skrifuðum síðast, en á laugardaginn var ég orðinn hitalaus, sem betur fer því það var síðasti sundtíminn og myndataka ofan í vatninu. Svo við drifum okkur og vorum bara snögg, fengum að fara fram fyrir í röðinni þannig að það var búið að taka þrjár myndir af mér áður en var búið að klára að taka fyrstu myndina af hinum börnunum, og svo bara fórum við upp úr. Þetta gekk bara mjög vel, okkur var hent út í og svo var kafari ofan í sundlauginni sem tók myndir. Mamma fór svo á þriðjudaginn og fékk myndirnar og þær heppnuðust bara mjög vel.

Látum okkur sjá, hvað er ég búin að gera fleira... Á sunnudaginn fór ég til afa og ömmu og fékk pönnukökur, það var nú aldeilis ekki ónýtt. Best fannst mér að fá smjör á pönnukökurnar, það var sko gómsætt. Ég er líka mjög dugleg að borða sjálf þessa dagana. Stundum leyfi ég mömmu að hjálpa mér að setja matinn á skeiðina eða gaffalinn, en stundum vil ég bara borða alveg sjálf. Ég er orðinn bara nokkuð flink, ég get til dæmis alveg borðað hafragraut og hrísmjólk með skeið, en stundum finnst mér samt best að nota bara puttana. Mér finnst líka voða gaman að gefa pabba og mömmu að borða með skeiðinni minni en stundum eru þau óþekk og vilja ekki borða matinn sem ég gef þeim, þá verð ég nú ekki ánægð. Ég er líka ekkert feimin við að láta vita af því þegar ég er óánægð, mér finnst engin ástæða til að fara neitt hljóðlega með það.

Ég er orðin ótrúlega flink í dýrahljóðum, alltaf á leiðinni heim frá dagmömmunni skoða ég dýrabókina mína og hermi eftir dýrunum. Ég er mjög flink að jarma og hneggja, svo kann ég að segja mmmmmm eins og kýrnar og gera indjánastríðsöskur eins og hundar gera. Það finnst pabba og mömmu voða fyndið. Kannski ég reyni að fá þau til að fara með mig í húsdýragarðinn um helgina, mér finnst svo gaman að skoða dýr. En jæja, þetta er nú orðið ágætt í bili, best að ég drífi mig út í kerru að leggja mig.

fimmtudagur, október 16, 2003

Eyrnabólgan mætt

Þá er ég komin með eyrnabólgu, alla vega í annað eyrað. Læknirinn hélt samt ekki að það væri þess vegna sem ég hefði fengið svona háan hita, ég er ábyggilega bara líka með pest eða eitthvað. En nú þarf ég enn og aftur að taka þetta ófétis meðal, ég fékk reyndar aðra tegund í þetta sinn. Mamma og pabbi segja að ég verði að vera voða dugleg að taka meðalið svo ég geti nú losnað einu sinni almennilega við þetta. Ég var líka voða dugleg áðan, galopnaði munninn svo pabbi gat sett skeiðina upp í mig, og svo hafði ég bara munninn opinn svo meðalið datt út úr mér aftur. Mér fannst ég voða dugleg og klappaði fyrir mér, en mamma og pabbi voru eitthvað ekki eins ánægð með þetta hjá mér.

Eitthvað að batna

Já, mér líður talsvert betur í dag. Ég var óskaplega veik í gær, þegar stílarnir hættu að virka þá bara fékk ég yfir 40 stiga hita og grét og átti virkilega bágt. Núna er ég bara með 38 stig og er miklu hressari. Ég er samt ennþá svolítið lasin og það er svolítið erfitt, mig langar að vera bara að leika mér og helst að fara út og svona, en samt er ég frekar slöpp og pirruð og veit ekki alveg hvernig ég á að vera eða hvað ég vil. Mamma var held ég orðin voða þreytt á mér áðan og ég á henni. En svo tókst mér loksins að sofna í kerrunni minni og vonandi hvílist ég bara vel og vakna ennþá hressari. Mamma er samt að hugsa um að láta lækninn kíkja aðeins á mig, ég er nefnilega með svo mikla bauga og bólgin um augun. Mömmu finnst víst betra að fara of oft en of sjaldan til læknisins, þetta er nú kannski einum of en jæja, hún verður að ráða því.

miðvikudagur, október 15, 2003

Ó mig auma

Aumingja ég er svo hræðilega lasin. Ætli ég sé ekki komin með flensuna sem er víst óvenju snemma og óvenju slæm í haust. Ég vaknaði klukkan sex í morgun og mér leið bara hræðilega, mamma mældi mig og ég var með 41 stigs hita og ég bara skældi og kallaði á mömmu og leið voðalega illa. Svo fékk ég stíl og eftir smástund leið mér aðeins betur svo ég gat sofnað aftur og svaf alveg til tíu, það var nú gott. Þá var ég nú bara orðin sársvöng og borðaði fullt af graut, svo horfði ég smá á barnatíma undir sænginni minni og lék mér smá, en ég er samt voða slöpp og finnst svolítið erfitt að vera til. Áðan var síðan hitinn farinn að hækka aftur svo mamma gaf mér nýjan stíl og lagði mig í rúmið mitt, þetta er örugglega í fyrsta skipti sem ég fer ekki út að sofa síðan ég var bara 3 mánaða eða eitthvað. En mér fannst ósköp gott að leggjast í rúmið mitt, vonandi bara er þetta ekki mjög löng flensa, og vonandi verða pabbi og mamma ekki lasin líka.

mánudagur, október 13, 2003

Skemmtileg helgi

Já, þetta var sko heldur betur skemmtileg helgi. Við fórum tvisvar í sund og það var náttúrulega ótrúlega gaman eins og alltaf. Svo fór ég í afmæli til hennar Bryndísar sem er tveggja ára og þar var líka Óli stóri bróðir hennar sem er fjögurra ári og líka Bjarki sem er eins árs. Það var auðvitað mikið fjör hjá okkur og við vorum mjög góð að leika okkur saman. Og þegar við komum heim þá komu amma Gisela og afi Jón, Sigurður Pétur og amma Inga Rósa og borðuðu hjá okkur. Það fannst mér sko gaman, og mér fannst líka rosalega góður maturinn, ég hélt alveg endalaust áfram að fá mér smá ábót af kartöflum og blómkáli með sósu.

miðvikudagur, október 08, 2003

Sko mig

Ég get klifrað upp í báða sófana alveg sjálf. Þá get ég loksins komst sjálf upp í hvíta sófann og hlaupið þar fram og til baka og hent mér út í hliðarnar. Þetta finnst mér alveg rosalega gaman sko, mamma verður nú alltaf eitthvað stressuð og reynir að halda í mig svo ég geti ekki dottið niður á gólf, en þá er þetta ekkert spennandi. Annars er helst frá því að segja að mamma og pabbi eru alltaf sömu svefnpurrkurnar, núna sef ég reyndar oftast til sjö og stundum aðeins lengur, en í morgun var ég búin að sofa klukkan sex og ég ætlaði aldrei að ná að reka mömmu á lappir. Jæja en það tókst loksins klukkan hálfsjö og þá fékk ég loksins eitthvað að borða.

sunnudagur, október 05, 2003

Loksins

Já, loksins fóru pabbi og mamma með mig í húsdýragarðinn að sjá alvöru dýr. Amma og afi í Hjallabrekku komu líka með okkur, og auðvitað Sigurður Pétur, svo við vorum alveg heil hersing. Við fórum með nýju kerruna mína, en ég var svo spennt að sjá dýrin að ég nennti nú ekkert að sitja í henni. Uppáhaldið mitt voru hestarnir, enda er ég orðin svo flink að hneggja að þeir halda örugglega að ég sé bara folald. Svo sá ég líka kýr og kálfa, grísi, ref og mink, kanínur og fullt af alls kyns fuglum sem heita allir bra bra (eða bva bva). Og auðvitað seli, þeir voru rosalega skemmtilegir á fullu að velta sér og busla í vatninu. Ég vona bara að við getum farið oft að skoða dýrin í vetur, hinum var víst reyndar eitthvað kalt en ég var í góðum málum í gallanum mínum með fínu lambhúshettuna og vettlinga og allar græjur.

miðvikudagur, október 01, 2003

Orð dagsins

Nýja orðið mitt í dag er bauj (brauð), það gengur bara mjög vel hjá mér núna að læra að tala, þetta er allt að koma.

þriðjudagur, september 30, 2003

Alltaf eitthvað nýtt

Ég er alltaf að koma mömmu á óvart með einhverju nýju sem ég er búin að læra hjá dagmömmunni. Til dæmis er ég farin að kunna smá hreyfingar við lagið um hérahjónin, ég kann að hneggja eins og hestur og láta bíla keyra. Í gær lærði ég nýtt orð hjá dagmömmunni, bih-pí. Ég veit ekki alveg hvað þýðir ennþá, en á meðan ég kemst að því ætla ég bara að prófa að nota það um sem flesta hluti.

fimmtudagur, september 25, 2003

Og líka:

hæ, jæja og æjæjæj

Orðaforði

Það sem ég kann að segja núna:
mamma
babbi
dudda
datt
takk
namm
nei
dess (kex)
di (bolti)
da (mark)
ma-e-mamma (hvar er mamma/pabbi/Sigurður Pétur)
e-eh (viltu rétta mér eitthvað sem er einhvers staðar/fara með mig eitthvert/gera eitthvað)

miðvikudagur, september 24, 2003

Úbbs

Ég er nú meiri dóninn, ég steingleymdi að segja takk allir fyrir komuna í afmælið mitt og takk fyrir allar gjafirnar.

mánudagur, september 22, 2003

Þá er það búið

Jájá, þá er fyrsta afmælisveislan mín búin. Hún tókst mjög vel, við vorum öll alveg hæstánægð með daginn. Það kom fullt af fólki og margir krakkar að leika við mig. Ég var með afmæliskórónuna mína sem dagmamman bjó til handa mér og allir sungu fyrir mig og svo hámaði ég í mig gulrótarköku. Svo fékk ég fullt af pökkum, ægilega fín föt og skemmtilegar bækur. Mamma er búin að setja myndir úr afmælinu og líka fleiri myndir frá því í haust hér. Áðan komu síðan vinkonur mömmu, þær Siggadís og Ásta og hjálpuðu okkur að klára kökurnar og gáfu mér meira að segja pakka líka. Þetta er búið að vera mjög skemmtilegt allt saman og ég er bara strax farin að hlakka til að eiga aftur afmæli.

sunnudagur, september 21, 2003

Er núna kominn dagur?

Þetta er nú meira óveðrið, ég vaknaði við lætin klukkan hálffimm og gat bara ómögulega sofnað aftur. Mamma var eitthvað að tala um hánótt og sofa, en ég var bara svöng og vildi fá minn morgunmat. Svo ég fékk hafragraut og svo sat ég í smástund í stólnum mínum með snuddu og teppi og horfði á Stubbana. Það var ósköp notalegt. Mamma bakaði köku á meðan en ég má ekki smakka hana fyrr en í veislunni á eftir, mér fannst það frekar fúlt. En ég fékk einn snúð í sárabætur. Já ég fæ semsagt afmælisveislu á eftir. Þá ætla ég að vera með kórónuna mína sem ég fékk hjá dagmömmunni, það verður gaman. Í gær fór ég til Silju frænku og Hauks og Péturs frænda í pössun, ég átti að vera þar allan daginn en svo komu pabbi og mamma bara og náðu í mig þegar ég var búin að leggja mig í nýju kerrunni, það var hætt við óvissuferðina sem þau ætluðu í. En svo fórum við aftur til þeirra um kvöldið og þá fékk að leika meira við frændsystkini mín. Það fannst mér sko fjör, aðallega samt að klifra í stiganum þeirra, það er nefnilega alltaf lokað fyrir stigann minn svo ég get ekki klifrað í honum. Jæja, ég ætti kannski bara að fara að leggja mig, ég er nú hálfsybbin eitthvað.

föstudagur, september 19, 2003

Takk fyrir mig

Takk fyrir allar kveðjurnar sem ég fékk í gær og takk Sigurður Pétur, pabbi og mamma, afi og amma, Sunna frænka og Þórður frændi fyrir gjafirnar, ég var rosalega ánægð með þær allar saman. Pabbi og mamma keyptu nýja kerru handa mér, hún er rosalega flott með stórum loftdekkjum og mjúk og hlý og notaleg. Svo gáfu þau og Sigurður Pétur mér ótrúlega flott sparkhjól með frábærri rokktónlist og boltum sem ég get hent um allt og öskrað maaah! (mark). Svo komu afi og amma með yndislega tuskudúkku handa mér, hún er risastór með sítt hár í fléttum og allt, algjört æði. Svo ætla þau líka að gefa mér ný föt, vá hvað ég hlakka til, ég er nefnilega vaxin upp úr öllum fötunum mínum. Og Sunna og Þórður gáfu mér xylofón til að spila á og orðabók fyrir eins árs. Við Sigurður Pétur vorum með smá tónleika á xylofóninum í morgun, það var sko fjör! Svo ætlar mamma að lesa fyrir mig bókina og kenna mér öll orðin.

fimmtudagur, september 18, 2003

Ég á afmæli í dag...

...ég á afmæli í dag, ég er afmælispæja, ég er eins árs í dag. Húrraaaaaa! Ég var svo spennt að ég vaknaði klukkan korter yfir sex, annars er ég farin að sofa alltaf til sjö og alveg hætt að súpa hjá mömmu. Ég reyndar sakna þess stundum svolítið, sérstaklega þegar ég vakna svona snemma eins og í morgun. Ég held að mamma sakni þess pínu líka en ég er nú orðin svo stór, ég get ekki haldið þessu áfram endalaust. Ég fékk ný föt í morgun til að fara í til dagmömmunnar, og ég fékk að fara með snúða með mér til að gefa hinum börnunum. Svo segir mamma að ég fái pakka á eftir, ég veit nú ekkert hvað það er, en það kemur í ljós. Hins vegar veit ég hvað mjög margt er núna, ég er rosalega dugleg að taka framförum í málþroska og skilningi þessa dagana. Ég kann að benda á auga og tungu, kann að segja ma-e-mamma (hvar er pabbi) og ef mamma segir hvar er snudda þá svara ég datt, enda er snuddan yfirleitt dottin. Svo finnst mér rosalega fyndið ef ég hristi hausinn eða rek út úr mér tunguna og einhver hermir eftir mér, það er uppáhaldsleikurinn minn núna. Af heilsufarinu er það að frétta að ég er laus við eyrnabólguna en ennþá með vökva í öðru eyranu og þarf að láta líta á það eftir einn og hálfan mánuð. Og ég er ennþá með hósta svo nú er mamma að reyna að troða í mig hóstasaft. Alveg er ég að klikkast á þessu, alltaf verið að troða einhverju ógeði í mann með þessari andstyggðar sprautu. En mamma lofar að þetta verði bara í nokkra daga og þá tekst mér vonandi að losna bara við þetta.

miðvikudagur, september 10, 2003

Pampers barnið

Jæja, þá er það komið á hreint, Pampers barnið er ég! Alltaf þegar hún Rebekka, tveggja ára gömul dóttir dagmömmunnar minnar, sér Pampers blautklútapakka þá bendir hún á myndina og segir "Þarna er Rósa".

Allt á öðrum endanum

Það er búið að ganga á ýmsu síðan ég skrifaði hérna síðast skal ég segja ykkur. Ég fór til læknisins aftur út af eyrunum mínum, mamma þurfti að sækja mig til dagmömmunnar á miðvikudaginn af því að ég var svo ómöguleg. Þá var ég komin með smá eyrnabólgu, og á föstudaginn var ég komin með meiri eyrnabólgu svo þá fékk mamma sýklalyf til að reyna að troða í mig. Það gengur nú ekkert sérlega vel hjá henni, það liggur við að ég þurfi að fara í bað eftir hvert skipti, öll útklístruð um hárið og eyrun og hálsinn og um allt. En mér tekst alla vega að komast hjá því að kyngja nema hluta, og það er nú fyrir mestu. Um helgina fórum við svo í Víðihlíð, þar var fullt af fólki að smíða og gera allt mögulegt. Það var mikið fjör og mikið um að vera, en ég var hálfómöguleg og naut mín ekki almennilega. Enda var ég lasin, bæði með í eyrunum og svo á laugardagskvöldið fór ég bara að gubba alveg endalaust. Það var nú meira, öll fötin mín orðin skítug, og mömmu föt líka. Mér tókst líka að gubba yfir afa og einhverja fleiri held ég. Og mér tókst líka að smita alla vega átta af þeim tíu sem voru þarna um kvöldið, nokkuð vel af sér vikið. Mamma greyið var voðalega lasin á mánudaginn, pabbi var heima að passa okkur því ég var líka pínu lasin ennþá. En við erum nú báðar orðnar nokkuð hressar núna, ég vona bara að Sunna frænka og afi og allir hinir sem ég smitaði séu að verða hressir líka.

miðvikudagur, september 03, 2003

þriðjudagur, september 02, 2003

Fjallageit

Þá er ég búin að fara í fyrstu almennilegu jeppaferðina mína. Við fórum fyrst í Kerlingarfjöll og gistum þar á föstudagskvöldið, keyrðum svo í Gljúfurleit á laugardaginn og gistum þar, og svo heim á sunnudaginn með viðkomu í Víðihlíð. Amma Inga Rósa og afi Guðmundur voru með okkur í ferðinni, og líka Ásta frænka og Haukur. Þetta var afskaplega hreint skemmtilegt, ég var náttúrulega mjög dugleg og góð í bílnum, svaf bara þó bíllinn hossaðist til og frá. Mér fannst samt skemmtilegra þegar við vorum ekki að keyra og ég fékk að fara út að leika mér. Ég fékk líka fullt af stórum krækiberjum, rosalega eru þau góð! Og líka hrátt hangikjöt, namminamm, þá varð ég sko grimm og öskraði á meira. En toppurinn var samt þegar ég fann upp skemmtilegasta og fyndnasta leik í heimi, nefnilega að láta plastglas skoppa. Ég fékk alveg hláturskast, henti glasinu aftur og aftur í borðið þannig að það skoppaði til og frá, og hló og hló og hló. Allt fullorðna fólkið skellihló líka, enda var þetta ótrúlega fyndinn og sniðugur leikur. Svo sá ég kindur, það fannst mér líka gaman. Og bráðfyndið fannst mér þegar mamma fór að jarma á þær (eða mela eins og Sigurður Pétur kallaði það þegar hann var yngri). Ég vona að ég eigi eftir að fara í margar svona ferðir.

föstudagur, ágúst 29, 2003

Heima með pabba

Í dag er starfsdagur hjá dagforeldrunum mínum, svo ég fæ að vera heima með pabba. Það verður örugglega mjög gaman, reyndar byrjaði ég nú bara á því að leggja mig í kerrunni og ligg þar núna að hvíla mig, enda vaknaði ég klukkan sex eins og venjulega og var bara orðin dauðþreytt. Ég skil ekki hvernig ég fer að því að vera svona hress alltaf hjá dagmömmunni alveg til hálftólf.

fimmtudagur, ágúst 28, 2003

Hor í eyrunum

Jájá, ég er víst með hor í eyrunum. Ég ákvað að skreppa til læknis í gær og láta hlusta mig og kíkja í eyrun, ég er aftur komin með svo vont kvef og hósta, og búin að vera dálítið pirruð líka. Hann skoðaði eyrun mín voða vel og mældi þau með þrýstingsmælitæki, og komst sem sagt að því að það er fullt af slími á bak við hljóðhimnurnar, þess vegna er ég svona pirruð og skrýtin í eyrunum. En ég er samt ekkert með sýkingu svo ég þarf sem betur fer ekki að fá ógeðs pensillín aftur, bara slímlosandi hóstasaft. Mér finnst hún reyndar dálítið skrýtin, en samt allt í lagi, ég get alla vega alveg kyngt henni.

mánudagur, ágúst 25, 2003

Loksins

Loksins skilur þetta fólk að ég vil bara fá að fara á fætur klukkan sex, enda er komin dagur þá. Pabbi bara fór með mig upp og gaf mér hafragraut og lék svo við mig þangað til mamma vaknaði klukkan hálfátta. Við bjuggum líka til morgunmat handa mömmu, hún var voða ánægð með það og líka að fá að sofa svona lengi, hún er nú líka algjör svefnpurrka!

sunnudagur, ágúst 24, 2003

Og eitt í viðbót

Ég gleymdi alveg einu sko, í dag nefnilega tókst mér að veiða fluguna í stofuglugganum! Ég náði henni með puttunum mínum og þá loksins hætti hún að fljúga alltaf í burtu. En þá tók mamma hana og henti henni í ruslið, mér fannst það frekar fúlt, ég ætlaði að leika mér með hana í smá stund og síðan kannski borða hana.

laugardagur, ágúst 23, 2003

Muuuuu

Svo má ég til með að segja ykkur frá uppáhaldinu mínu núna, það eru nefnilega dýrahljóð og þá aðallega muuuuu. Mér finnst rosalega skemmtilegt að láta lesa fyrir mig bókina um íslensku dýrin, ég rétti einhverjum hana og segi muuu (eða mmmmm) og þá á að lesa hana fyrir mig. Stundum fattar sá sem á að lesa ekki hvað ég er að meina, en þá þarf ég bara að öskra pínu.

Langur dagur

Ég var svo spennt að fara aftur í sundið í morgun, að ég glaðvaknaði klukkan sex og gat ómögulega sofnað aftur, þó ég fengi að kúra hjá mömmu. Svo við fórum bara á fætur um sjö og fengum okkur hafragraut og svona. En ég var ósköp þreytt, svo mamma lagði mig í kerruna og ég náði að leggja mig í klukkutíma fyrir sundið. Það var nú mjög gott, ég hefði verið ómöguleg í sundinu annars. Það var auðvitað mjög gaman í sundi, skemmtilegast finnst mér að synda á maganum og vera með bolta. Svo kom ég heim og lagði mig aðeins, en samt frekar stutt. Klukkan fimm var mamma síðan alveg búin að vera og henti mér í kerruna og sjálfri sér í sófann. Þá fattaði ég að ég var bara orðin ansi þreytt, og steinsvaf eins og rotaður selur þangað til mamma vakti mig klukkan hálfníu. Þá borðaði ég kjötsúpu (nammi namm ég vona að mamma eldi oft kjötsúpu), og klukkan tíu fékk ég loksins að fara aftur að sofa, hrjót hrjót, vonandi held ég því bara áfram sem lengst.

föstudagur, ágúst 22, 2003

Stór dagur hjá 6 ára strák

Jájá, þá er fyrsti skóladagurinn hjá Sigurði Pétri í dag. Það er reyndar bara skólasetning og foreldraviðtal í dag, kennslan byrjar svo hjá honum á þriðjudaginn. Þetta er nú aldeilis spennandi og verður gaman að fylgjast með hjá honum. Annars hefur það helst gerst merkilegt í þessari viku að pabbi minn átti afmæli á þriðjudaginn. Svo komu amma og afi á Akureyri frá útlöndum í gær og þau ætla að koma að heimsækja mig í dag. Þá get ég loksins sýnt þeim hvað ég er orðin flink að labba. Ég labba bara út um allt núna, ef ég dett þá stend ég bara upp aftur. En ég er ennþá í smá vandræðum með að labba úti hjá dagmömmunni, það er pínu erfiðara. Ég á nú samt voða fína skó og þetta kemur örugglega allt með æfingunni. Það er líka svo gott veður alltaf núna að við erum lengi úti á hverjum degi og ég get æft mig heilmikið.

þriðjudagur, ágúst 19, 2003

mánudagur, ágúst 18, 2003

11 mánaða í dag

Ótrúlegt en satt, bara einn mánuður þangað til ég verð eins árs! Það verður nú aldeilis gaman að halda afmælisveislu, það er allt orðið svo fínt í stofunni núna. Mamma og pabbi héldu voða fína veislu um helgina, eða það skilst mér alla vega, ég steinsvaf nú bara allan tímann. Ég var líka svo dauðþreytt eftir sundið. Það var alveg rosalega gaman sko, pabbi var heima lasinn en afi og amma komu með okkur mömmu, afi horfði á en amma kom með okkur ofan í laugina og hjálpaði mömmu að leyfa mér að synda og kafa. Ég var mjög dugleg auðvitað, eins og alltaf, og hin börnin voru líka ósköp dugleg. Við vorum að æfa okkur að detta ofan í laugina og fara á bólakaf. Svo fengum við líka að sitja uppi á dýnu og skoða hvert annað, og leika með dót á bakkanum. Þetta var alveg frábært og ég hlakka til að halda áfram á námskeiðinu, en ég var líka svo dauðþreytt eftir þetta allt saman að ég svaf í fimm klukkutíma í kerrunni minni.

Mömmu tókst nú ekki að setja inn fleiri myndir um helgina, en hún ætlar að reyna að gera það í kvöld. Hún ætlar alla vega ekki að smíða neitt svo hún hlýtur að hafa smá tíma.

föstudagur, ágúst 15, 2003

Fleiri myndir á leiðinni

Ég var að sjá það að mamma gleymdi tveimur möppum þegar hún var að setja myndir á myndasíðuna okkar. Ég er búin að biðja hana að búa til aðra síðu því það eru margar fínar myndir þarna og hún ætlar að reyna að gera það um helgina. Hún er annars voða upptekin eitthvað og pabbi líka, þau ætla að halda einhverja veislu hérna á morgun og eru búin að vera að taka til og sparsla og mála, ég held þetta sé að verða bara nokkuð fínt hjá þeim. Annars er það helst í fréttum að ég fékk loksins að skipta um bílstól og núna sit ég eins og manneskja og sé út um gluggann. Enda er ég örugglega orðin 10 kíló svo það var nú tímabært að útskrifast úr ungbarnabílstólnum. Í fyrramálið byrjar framhaldsnámskeið í sundinu mínu, við hlökkum öll mjög mikið til, nema kannski pabbi því hann er svolítið lasinn. Vonandi verðu honum bara batnað. Hann hefur örugglega smitast af kvefinu mínu, ég er nú sem betur fer næstum laus við það núna, bara svolítill hósti ennþá.

miðvikudagur, ágúst 13, 2003

Amma og afi komin

Jæja, loksins eru amma og afi í Hjallabrekku komin heim, búin að vera í burtu í næstum allt sumar. Ég fór í afmælisveislu hjá þeim í gær af því afi er nýbúinn að eiga afmæli. Það var mjög gaman og ég hitti líka loksins frænkur mínar Ástu og Hebu sem ég hef ekki séð lengi lengi. Ég labbaði náttúrulega út um allt, ég er farin að geta labbað alveg mörg skref og beygt og snúið við og staðið upp á miðju gólfi, rosalega dugleg. Stóri bróðir er líka rosalega duglegur, þegar hann er aðeins búinn að æfa sig getur hann lesið heila blaðsíðu í lestrarbókinni hátt og snjallt og örugglega. Hann er líka alveg að byrja í skóla. Amma og afi komu með rosa flotta skólapeysu og vesti handa honum, og ég fékk líka rosalega flott vesti og æðislega peysu, ég verð að biðja mömmu að taka mynd af mér í fötunum svo ég geti sýnt ykkur. Annars er ég ekkert sérlega myndarleg þessa dagana, alltaf með hor um allt andlit. Það er reyndar aðeins að minnka, ég held ég sé loksins að hrista þetta af mér. Ég er líka búin að vera með voða vondan hósta, ég var heima og fór til læknisins á mánudaginn en hann sagði að þetta væri allt í lagi, bara smá kvef í lungunum sem ég myndi alveg losa mig við sjálf. Svo ég fór bara til dagmömmunnar í gær og fékk að sulla í polli og kom heim með öll fötin mín í poka. Það fannst mér sko ótrúlega gaman!

laugardagur, ágúst 09, 2003

Ný myndasíða

Við mamma erum búnar að búa til síðu með myndum úr sumarfríinu okkar, hún er hérna.

fimmtudagur, ágúst 07, 2003

Hvar á maður að byrja...

Jæja gott fólk, nú er ég búin að vera svo lengi í burtu og margt búið að gerast að ég veit bara ekkert hvar ég að byrja. Dagmamman mín fór í frí, svo ég skellti mér bara í sveitina með mömmu, pabba og Sigurði Pétri. Það var auðvitað mjög gaman, stóri bróðir var alltaf að leika við mig og knúsa mig og mér finnst það algjört æði. Við fórum líka í slatta af bíltúrum, mér finnst það ekki eins mikið æði en ágætt samt að leggja sig í bílnum. Einu sinni festum við okkur í sandi úti í á, mamma og pabbi þurftu að fara út í ána og hleypa úr dekkjunum svo þau kæmust upp úr aftur. Svo tókst pabba að bakka upp úr ánni en þá var allt loftið farið úr einu dekkinu svo þau þurftu að hringja á veiðivörðinn í Veiðivötnum og biðja hann að dæla lofti í dekkið. En svo vorum við líka ekkert alltaf í bílnum, við fórum aðeins í labbitúra og þá fékk ég að vera í burðarpoka á bakinu á mömmu, og ég fékk líka að vera í grasinu að leika mér. Og við fórum auðvitað oft í sund, mér finnst það alveg frábært. Sérstaklega í Aratungu þar sem er göngugrind í búningsklefanum, ég vildi nú helst bara vera þar! En svo er ég líka búin að vera rosalega dugleg að æfa mig að labba sjálf, ég hef alveg náð nokkrum skrefum í einu. En ég þarf helst að klappa á meðan, þá gengur miklu betur. Svo er ég líka alltaf að læra ný hljóð, nú kann ég að herma eftir hestum og kúm, mömmu finnst það rosalega fyndið og hlær og hlær. Og ég er komin með tvær nýjar tennur, nú er ég með fjórar tennur uppi og fjórar niðri og get heldur betur bitið almennilega.

Amma og afi í Hjallabrekku heimsóttu okkur í sveitina, það var nú aldeilis gaman því ég hef eiginlega ekkert séð þau í allt sumar. Svo eru þau núna í útlöndum, alltaf eitthvað flakk á þeim. Og afi sem á meira að segja afmæli í dag, ég verð bara að knúsa hann þegar hann kemur aftur heim.

Eftir fríið fór ég svo að vera allan daginn hjá dagmömmunni og ég er bara hæstánægð með það. Það er líka búið að vera svo gott veður, svo ég hef verið bara úti með krökkunum að leika mér. Mamma og pabbi gáfu mér skó til að vera í úti, fyrst ég er nú orðin svona dugleg að labba. Þeir eru rosalega þægilegir og fínir. Pabbi er farinn að vinna aðeins, honum er eitthvað að batna í bakinu sínu. Svo nú förum við öll saman út á morgnana, það er mikið fjör. Stundum fáum við stóri bróðir að sofa aðeins lengur á meðan pabbi og mamma borða morgunmatinn sinn, í morgun leyfði mamma mér að sofa lengur í bólinu hennar en svo vaknaði ég bara allt í einu alveg sjálf. Og þar sem ég var alein, þá ákvað ég bara að drífa mig sjálf fram úr og skreið svo fram á gang að leika mér. Mamma var eitthvað voða hissa og hvít í framan þegar hún sá mig, iss ég skil nú ekki í því, ég er svo flink að klifra og fara sjálf niður. Meira að segja þó rúmið sé hærra en ég.

Jæja, nú man ég ekki meira merkilegt í bili en nú er ég alveg búin með sumarfríið og lofa að vera dugleg að skrifa.

miðvikudagur, ágúst 06, 2003

Búin að breyta

Jæja, þá eru kisurnar farnar, ég var orðin pínu þreytt á þeim. Verst þetta ljóta og leiðinlega bil fyrir ofan kommentalínuna, en það verður að bíða betri tíma að laga það.

föstudagur, júlí 25, 2003

Mamma og pabbi fögnuðu síðan ekki alveg jafn mikið þegar ég glaðvaknaði klukkan hálffjögur í nótt og sofnaði ekki aftur fyrr en fimm. Það var nú eitthvað að bögga mig fannst mér, kannski tennur. Alla vega sváfum við mamma aðeins yfir okkur og komum 20 mínútum of seint til dagmömmunnar. Það var samt allt í lagi.
Jæja, nú þarf ég aldeilis að segja ykkur fréttir. Í fyrrakvöld tókst mér að taka tvö skref, alveg sjálf! Mamma er nú svo skrýtin, hún segir alltaf að það liggi ekkert á og vonandi fari ég ekki að ganga strax og eitthvað svona, en samt voru það hún og pabbi sem hvöttu mig til að prófa og hjálpuðu mér. Þau líka klöppuðu mjög mikið fyrir mér, mér fannst það eiginlega aðalfjörið. Meira að segja þegar þau voru hætt að klappa, þá klappaði ég aðeins meira til að fá meiri fagnaðarlæti frá þeim. Ég veit samt ekki hvort ég legg almennilega í þetta alveg strax, en við sjáum til.

þriðjudagur, júlí 22, 2003

Fór í skoðun í morgun, lækninum fannst ég bráðþroska og bara mjög dugleg og fín. Ég er búin að ná aftur kúrfunni minni og er núna 9.695 grömm og 74 sentimetrar. Enda er ég búin að vera mjög dugleg að borða. Og eyrun mín eru alveg laus við sýkinguna, þó mér hafi tekist að skyrpa stórum hluta af meðalinu mínu út úr mér í hvert skipti sem mamma reyndi að pína það ofan í mig.

mánudagur, júlí 21, 2003

Ég fór í sveitina um helgina. Það var rosalega gott veður á laugardaginn, ég fékk að vera bara í grasinu og leika mér. Svo fórum við í göngutúr og ég fékk að vera í poka á bakinu á mömmu. Það fannst mér voða þægilegt. Við fórum líka í bíltúr, þá bara fékk ég mér lúr og það var líka ósköp notalegt. Svo enduðum við daginn á því að fara í sund, en þá var reyndar orðið pínu kalt svo við vorum ekkert lengi. Í gær var ekki alveg eins gott veður, en ég fór bara í pollabuxurnar mínar og við fórum að skoða Hjálparfoss, sem er ósköp fallegur.

föstudagur, júlí 18, 2003

Í gær kom mamma ekki á sama tíma og venjulega að sækja mig, hún þurfti að vinna eitthvað lengur og lét dagmömmuna vita af því. En ég vissi ekki neitt, svo nákvæmlega klukkan korter yfir eitt fór ég fram í forstofu að bíða eftir mömmu. Ég var samt ekkert mjög svekkt þó hún kæmi ekki, þetta var bara pínu skrýtið. En ég veit sko alveg hvenær hún á að koma að sækja mig.

fimmtudagur, júlí 17, 2003

Eitt finnst okkur mömmu fyndið. Þegar hún kemur að sækja mig klukkan korter yfir eitt, þá eru yfirleitt sofandi unglingar eins og hráviði í grasinu á leiðinni. Stundum þegar er rigning, þá eru þau í appelsínugulum göllum, en samt sofandi í grasinu. Núna er reyndar rosalega gott veður. Ég fór aðeins í húsdýragarðinn í gær og hitti Söru Mist, Hjalta Dag, Hlyn Frey og Ísar Frey vini mína. Það var mjög gaman, ég skoðaði reyndar ekkert dýrin, var bara eitthvað að skottast um og leika mér. Svo fékk ég lánaða kerruna hennar Söru Mist til að leggja mig aðeins því ég var voða þreytt, ég var nefnilega búin að vera heilmikið úti að leika líka hjá dagmömmunni. Svo drifum við okkur heim því mamma þurfti að fara aftur að vinna. Amma Gisela og afi Jón komu að hjálpa pabba að passa mig af því hann er ennþá með bilað bak. Mamma ætlaði að láta mig bara halda áfram að sofa, en ég nennti því nú ekki strax, var í fullu fjöri með ömmu og afa og borðaði allar kartöflurnar frá afa. Svo lagði ég mig nú loksins og þegar ég vaknaði var mamma komin og líka afi Guðmundur, hann grillaði með okkur í góða veðrinu síðasta grillkjötið á höfuðborgarsvæðinu. Hann var að keyra rútu með túrista og er víst að fara aftur af stað með aðra túrista á morgun.

mánudagur, júlí 14, 2003

Mér tókst víst ekki að hrista af mér eyrnabólguna í þetta sinn. Ég finn reyndar ekki fyrir neinu held ég, en læknirinn sá eitthvað pjæ í eyrunum mínum, svo ég þarf að fá meðal. Mér finnst það svo sem allt í lagi, verra með augndropana, en vonandi losna ég við þá fljótlega. Annars fór ég til dagmömmunnar í morgun, ég var pínu óörugg fyrst en svo mundi ég betur eftir þessu og þá var bara mjög gaman. Hitt er verra að við fáum ekki kerru sem við erum sáttar við. Þegar við vorum búnar hjá lækninum fórum við mamma í báðar búðirnar sem viðgerðamaðurinn nefndi, en það var engin kerra til sem var sams konar og mín. Mamma ætlar að þvargast eitthvað meira í þessu á morgun, vita hvort við getum farið í aðra búð kannski. Svo reyndar kemur einhver svipuð kerra eftir 3-4 vikur, en okkur finnst það bara allt of langur tími til að vera kerrulaus, sérstaklega svona um hásumar!

laugardagur, júlí 12, 2003

Og nú er ég komin heim. Það gekk afskaplega vel að komast heim, ég lagði mig á flugvellinum og var svo í fullu fjöri í flugvélinni. Svo reyndar þegar við vorum komin hálfa leið steinsofnaði ég aftur. Síðustu dagarnir á Mallorca voru náttúrulega mjög skemmtilegir. Við fórum í vatnsrennibrautagarð, ég synti og buslaði smá og það var mjög gaman. En svo lagði ég mig bara með pabba mínum, þ.e.a.s. ég lagði mig í kerrunni minni og hann lagði sig á sólbekk, á meðan það var víst mjög mikið fjör hjá mömmu og Sigurði Pétri. Það voru þarna einhverjar brautir þar sem átti að fara á svona eins og slöngum úr dekkjum, bæði eins og tveggja manna. Mamma skildi ekki alveg hvernig þetta átti að virka því það voru heillangar raðir neðst í brautunum að bíða eftir að fá slöngur, en margir fóru bara alltaf aðra ferð með slönguna sína og létu ekkert annan fá hana. Svo voru þau eitthvað að þvælast þarna um og leita að einhverju skemmtilegu, þá fann stóri bróðir hvar slöngurnar voru geymdar. Aha, hugsaði mamma, svona virkar þetta, maður á bara að ná sér í slöngu og vera með hana þangað til maður er hættur að renna sér í þessum brautum, voðalega er þá eitthvað asnalegt að bíða í biðröð eftir þeim við brautirnar. Og þau tóku sér bara eina slöngu og fóru átta ferðir í röð, það var víst alveg brjálað fjör. Svo kom náttúrulega í ljós í lok dagsins að það átti að leigja þessar slöngur, svo voru aðrar í brautunum sem átti að skila og þær voru öðru vísi á litinn. Þannig að þau eiginlega stálu slöngunni. En það var nú alveg óvart, og þau skemmtu sér svo vel að mamma hafði eiginlega ekkert samviskubit yfir því. Fyrir utan að hún hefði alveg verið til í að borga sex og hálfa evru í leigu ef hún bara hefði haft hugmynd um að það ætti að gera það.

Jæja, en það var nú ósköp gott að koma heim fannst mér, ég fór strax að gramsa í öllu dótinu mínu og þeytast um stofuna og svona. Mamma hélt að mér hefði ekkert farið mikið fram í hreyfiþroskanum á meðan við vorum úti, en hún sá nú strax þegar við komum hérna heim hvað ég get margt sem ég gat ekki þegar við fórum, ég fer á fleygiferð um allt, elti mömmu ef hún fer inn í eldhús eða eitthvað, og ég get labbað með því að styðja mig við sparkbílinn minn, sem ég gat alls ekki þegar við fórum. Mér hefur líka farið mikið fram í málþroska síðustu tvær vikurnar, ég skil miklu meira og kann að gera fullt af nýjum hljóðum. Uppáhaldið mitt er að sveifla tungunni til hliðanna og gera hljóð. Og svo segi ég líka mikið mamma og stundum meira að segja babbiogmamma. Og ég kann næstum alveg að segja nafnið hans stóra bróður, það er reyndar svolítið langt og erfitt því hann heitir Sigurður Pétur, svo ég segi bara a-da.

Augnkvefið mitt batnaði ekki alveg nógu vel, og svo fékk ég líka hósta, svo ég fór beint til læknis þegar ég kom heim. Ég fékk dropa í augun (argans óþverri!) og svo er ég víst með smá roða í eyrunum svo ég þarf að fara aftur eftir helgina og láta athuga hvort það lagast af sjálfu sér eða hvort ég er að fá eyrnabólgu. Ég hef samt ekkert fengið hita og alveg sofið vel og svona. Vonandi fer þetta bara með augnkvefinu. Og vonandi fer augnkvefið bara strax, svo ég geti hætt að fá þessa ömurlegu dropa.

6. júlí á Mallorca

Haldiði að ég sé ekki bara á Mallorca! Ég er búin að vera hérna í 10 daga, en við mamma höfum verið svo uppteknar við að vera í sólinni og sundlauginni og sjónum að við höfum bara ekkert mátt vera að því að skrifa neitt. Og við erum reyndar líka búnar að gera margt fleira og ætlum að reyna að segja eitthvað frá því.

Fyrst fórum við í stóra flugvél, ég sat í fanginu á mömmu og það gekk mjög vel, ég var rosalega stillt og góð og svo ef ég var eitthvað óróleg fékk ég bara að súpa hjá mömmu. Svo fékk ég að labba aðeins um í flugvélinni og brosa og heilla hitt fólkið. Ég hitti líka fullt af krökkum og það fannst mér nú heldur betur gaman. Þegar við komum til Mallorca varð ég ekki mjög ánægð því þá kom í ljós að kerran mín hafði skemmst á leiðinni. Okkur leist nú ekki á blikuna að vera í tvær vikur á Mallorca með enga kerru. Sem betur fer átti ferðaskrifstofan eina kerru til vara sem við fengum lánaða, hún er rosalega góð, ég er búin að fara um allt í henni og sef alltaf í henni á daginn.

Það var auðvitað mjög heitt þegar við komum, við fórum og skoðuðum sundlaugina og lékum okkur smá. Svo fékk ég að fara í sund og það var svo gott, ég er líka búin að fara oft síðan og það er alveg frábært að fara í vatnið þegar manni er orðið allt of heitt. Mér finnst líka svo gaman að synda og skvetta vatni um allt. Og svo er ég auðvitað alltaf að kafa. Ég er líka búin að prófa aðeins að fara á ströndina og í sjóinn. Það finnst mér spennandi, ég hljóp alveg strax út í sjó. En það skvettist svolítið mikið á mann, svo ég fór ekki mjög langt.

Ég er búin að fara tvisvar að skoða höfuðborgina Palma, ég fór í eitt safn þar sem voru alvöru hauskúpur (stóri bróðir var nú ekki alveg rólegur), og ég skoðaði líka konungshöllina. Það fannst mér að vísu ekkert mjög skemmtilegt, mamma þurfti að hlaupa með mig út, en þá var ég bara orðin svo þyrst. Um leið og ég fékk vatn varð ég mjög hress aftur. Annars er ég eiginlega alltaf búin að vera mjög dugleg og góð. Öllum finnst ég voða mikið krútt og mamma er mest hrædd um að barþjónninn á hótelinu steli mér. Hann á víst þrjá stráka og tvo afastráka, en enga stelpu og honum finnst ég voða sæt. Ég reyni líka að vera svolítið mikil pæja, með hatt og í kjól eða einhverju fínu. En oft er ég líka bara á bleyjunni.

Ég er líka búin að fara tvisvar í bíltúr. Fyrst fór ég með pabba og mömmu, stóra bróður og ömmu. Við keyrðum víst einhvern rosalega flottan fjallveg. Ég sá náttúrulega mest lítið nema þar sem við stoppuðum uppi á fjallinu og fengum okkur að borða. Það var mjög fallegt útsýni þar. Svo stoppuðum við líka í einhverri steinafjöru þar sem sjóræningjar voru einu sinni, og í bæ sem heitir Valdemossa og er mjög fallegur. Seinni bíltúrinn fóru svo allir saman, ég var í stelpubíl með Silju frænku, mömmu og Önnu Margréti og stóri bróðir var í strákabíl með Hauki, pabba og Nonna frænda. Við skoðuðum fyrst drekahelli, það var stór og mjög flottur dropasteinshellir með stóru vatni í botninum. Þar settumst við og ég fékk að súpa hjá mömmu svo ég myndi hafa alveg hljótt á meðan hljóðfæraleikarar sigldu á vatninu og spiluðu ósköp fallega tónlist. Mér gekk ótrúlega vel að hafa hljótt, og hinum börnunum líka því þetta var í nokkuð langan tíma. Næst fórum við í dýragarð, fyrst keyrðum við í gegn og sáum dýr sem voru bara laus í garðinum, zebrahesta, apa, gnýi og alls kyns safarídýr. Svo sáum við dýr í búrum, ljón, tígrísdýr, fíl, broddgölt og fleira. Stóra bróður fannst rosalega gaman að sjá þessi dýr og vildi helst ekki fara úr dýragarðinum. Og mamma lét taka mynd af sér með hlébarðakettling í fanginu og það fannst henni ótrúlega gaman, hana hefur víst lengi langað að prófa að halda á og koma við svona stórt kattardýr. Hún var mest hissa á því hvað hann var mjúkur. Að lokum fórum við svo og skoðuðum kastala, sem ég var reyndar búin að skoða líka daginn áður þegar ég fór í leigubíl með pabba, mömmu og stóra bróður. Þetta er víst eitthvað merkilegur kastali, hann er nefnilega hringlaga.

Ég verð nú víst líka að segja ykkur frá því að þetta var ekki alveg tóm gleði og hamingja. Við lögðum svolítið snemma af stað, svo mamma vakti mig, og ég var ekkert tilbúin að borða neinn morgunmat áður en við fórum. Þegar við vorum búnar að keyra í svona klukkutíma var ég hins vegar orðin mjög svöng og vildi fá morgunsopann minn hjá mömmu. Svo ég byrjaði að skæla, en ég fékk ekkert að drekka svo ég varð bara að skæla hærra. Svo lentum við í umferðarteppu svo bíllinn var eiginlega stopp en samt fékk ég ekkert að drekka. Þá varð ég nú eiginlega mjög móðguð og skældi afskaplega hátt. Pabba fannst þetta víst eitthvað fyndið, en hann var heldur ekki í bílnum. Svo þegar við loksins komumst í næsta bæ, þá stoppuðum við almennilega og ég fékk loksins morgunsopann minn. Síðan þegar við vorum á leiðinni heim, þá var fluga í bílnum og hún settist á Silju frænku mína. Þá varð hún alveg skelfingu lostin (Silja, ekki flugan) og öskraði ótrúlega hátt. Ég vissi ekkert hvað var að gerast, hélt að það væri kannski kominn heimsendir eða eitthvað, þannig að ég öskraði bara af öllum kröftum líka. Þetta var alveg hræðilegt ástand, við misstum alla stjórn á okkur. En svo jöfnuðum við okkur nú eftir dálitla stund og mamma og Anna Margrét urðu voða fegnar.

Annars er ég bara búin að vera að liggja í kerrunni minni og hafa það gott, ég er búin að fara á fullt af veitingastöðum og fá margt gott að borða. Oftast er ég mjög stillt, en ég er reyndar búin að vera pínu þreytt og pirruð síðustu tvo daga, ég fékk eitthvað leiðinda augnkvef sem er voða mikið að pirra mig. Vonandi tekst mér að hrista það fljótt af mér.

Mamma og pabbi urðu líka lasin, þeim varð voða illt í maganum og óglatt. Þá fór amma bara með mig í kerrunni á meðan þau voru að hvíla sig, ég fékk að fara í heimsókn til Silju frænku og leika við hana. Svo fórum við stóri bróðir með þeim öllum á veitingastað. Ég sofnaði á leiðinni og varð pínu hissa þegar ég vaknaði og það var enginn pabbi og mamma. Ég var samt alveg glöð og góð og dugleg að borða pizzuna mína, en ósköp varð ég glöð þegar mamma kom loksins. Ég bara hékk á hálsinum hennar og vildi ekki einu sinni sitja í kerrunni minni. Þá var þeim sem betur fer eiginlega alveg batnað, þau halda að þau hafi kannski bara fengið smá sólsting.

Annars hefur allt bara gengið vel, það hefur verið alveg mátulega heitt finnst okkur og sólarlaust inn á milli sem er mjög fínt. Það verður voða skrýtið að fara heim aftur og þurfa að vera alltaf í fullt af fötum. En það verður örugglega líka gaman að hitta aftur dagmömmuna og vini míni hjá henni. Og ég veit að stóri bróðir hlakkar til að fara heim því hann saknar mömmu sinnar dálítið. Í dag er sunnudagur og við förum heim á fimmtudaginn, svo það er ekki mjög langt eftir.

sunnudagur, júní 22, 2003

Nú er ég búin að vera lasin, mamma þurfti að sækja mig til dagmömmunnar á fimmtudaginn því ég var komin með hita og skældi bara og var alveg ómögleg. Ég er líka búin að vera kvefuð, en ég held að þetta sé kannski aðallega út af tönnunum mínum, það er eins og það séu fleiri tennur að koma. Ég slefa nefnilega rosalega mikið og set hendurnar í munninn, og stundum fer ég allt í einu að skæla og enginn veit hvað er að. Svo ég er búin að vera frekar pirruð og ómöguleg, mamma þarf mikið að halda á mér og passa mig. En ég held að mér sé nú eitthvað að batna, ég er alla vega laus við hitann og kvefið er að minnka, svo ég fæ að fara til dagmömmunnar á morgun að leika við krakkana.

þriðjudagur, júní 17, 2003

Jæja, vörin mín skánaði nú fljótt, bólgan var eiginlega alveg farin þegar ég vaknaði úr lúrnum mínum og nú er ég bara skrámuð innan á vörinni og það sést ekkert mikið. Ég fór með afa og ömmu og mömmu á 17. júní hátíðahöld í Kópavogi. Það var rosa spennandi en ég var samt dálítið þreytt, var næstum sofnuð í kerrunni minni en hristi það nú af mér svo ég myndi ekki missa af öllu. Ég fékk að skríða um í grasinu og labba dálítið líka, og svo hélt amma á mér í labbitúr að skoða okkur aðeins um. Það var náttúrulega fullt af fólki og krökkum með blöðrur og risastórar snuddur og fána. Ég fékk líka fána og svo var ég með litla snuddu svo ég var næstum eins. Við mamma fórum síðan heim og ég lagði mig, enda orðin alveg búin að vera. Síðan komu afi og amma og Sunna og Magnús í veislukvöldmat, afi grillaði besta kjöt sem ég hef smakkað! Ég var líka orðin svo hræðilega svöng, ég borðaði held ég meira kjöt heldur en flest fullorðna fólkið. Og ég hámaði það í mig, ég vona bara að ég fái ekki í magann eftir þetta allt saman. Svo fékk ég líka smá jógúrtís í eftirmat, mér fannst hann pínu skrýtinn en samt góður. En það er eiginlega ekki hægt að borða hann með puttunum.
Greeeeeeenj! Ég veit ekki hvað er í gangi, slysin bara elta mig á röndum núna. Ég var áðan að skríða til mömmu og var svolítið að flýta mér svo lappirnar fóru aðeins hraðar en hendurnar, eins og hefur stundum komið fyrir áður. Nema í þetta sinn skall andlitið mitt hræðilega fast í gólfið og ég meiddi mig svooooo mikið. Það blæddi og blæddi úr munninum mínum, sem betur fer var ég ekki komin í 17. júní sparifötin mín því þau hefðu alveg eyðilagst. En ég grét ósköp lengi og það blæddi líka voða lengi, mömmu leist ekkert á og hringdi meira að segja í hjúkrunarkonu, en eins og mamma vissi svo sem þá er ekkert að gera nema bara setja eitthvað kalt í munninn. Tennurnar eru allar á sínum stað, en efri vörin mín er alveg þreföld held ég. Og svo er ég marin á kinninni síðan í gær og klóruð á nefinu síðan um helgina, svo það er aldeilis ekki sjón að sjá mig. Og það á þjóðhátíðardaginn! Afi og amma ætluðu með mig á hátíðahöldin í Kópavogi en ég veit ekki hvort þau þora með mig út, ég get varla látið sjá mig meðal fólks :-(

mánudagur, júní 16, 2003

Nú fór illa fyrir mér! Ég var að sofa í vagninum hjá dagmömmunni og búin að ýta mér alveg út í horn eins og ég geri alltaf. Þá bara allt í einu sporðreistist vagninn aftur fyrir sig og ég fór náttúrulega öll í klessu og krambúleraðist í framan. Aldeilis öskraði ég! En ég var nú fljót að jafna mig og mér líður alveg vel núna, borðaði vel og lék mér og skellihló þegar Katrín var að segja mömmu frá þessu. Grey Katrín, ég held að hún hafi nú kannski bara fengið meira sjokk en ég.

Þetta var annars ágætis helgi, nema ég er með kvef og var með pínu hita líka og búin að sofa hálfilla. En ég fór samt til afa og ömmu í Hjallabrekku í gær og fékk að leika mér hjá þeim á meðan mamma fór í búðina að kaupa handa mér föt fyrir Mallorca. Það var alveg frábært að vera hjá afa og ömmu, ég fékk að skoða garðinn þeirra, smakka steinana og labba í kringum tjörnina og alls konar. Og svo fékk ég að rusla allt út í sjónvarpsherberginu og dreifa dagblöðum um allt, það var sko fjör!

miðvikudagur, júní 11, 2003

Í dag var sko gaman! Ég fór að heimsækja Hlyn Frey og hitta alla hina vini mína, og við fengum að leika okkur úti í góða veðrinu. Mér fannst alveg rosalega gaman, og ég var líka ekki neitt þreytt, vakti bara allan tímann og rétt lagði mig í klukkutíma þegar við komum heim. Ég hef voða lítið þurft að sofa núna síðustu daga, ég svaf svo vel í síðustu viku og núna er ég bara að borða allan daginn endalaust en þarf ekkert mikið að hvíla mig. Og ég lærði að klappa áðan, pabbi kenndi mér það og ég næstum því sprakk úr monti yfir því hvað ég er klár. Ég var bara meira og minna að klappa frá því ég lærði það og þangað til ég fór að sofa. Stundum segi ég líka veeeeeeei til að fagna því hvað ég er flink og dugleg.

þriðjudagur, júní 10, 2003

Þetta var nú skemmtileg helgi, fullt af fólki kom að heimsækja mig og það finnst mér svo gaman. Fyrst kom Anna-Lind frænka og Skúli og litlu frændur mínir Bergur Máni og Teitur. Svo kom Silja litla frænka mín með pabba sínum og mömmu. Og svo í gær komu afi og amma og Þórður frændi. Þetta fannst mér allt saman afskaplega skemmtilegt. Annars eru augu það mest spennandi sem ég veit núna. Ég er alltaf að reyna að skoða betur augun í mömmu, verst að hún lokar þeim alltaf þegar ég ætla að fara að skoða. Ég meira að segja reyni að toga upp augnlokið með annarri hendinni og koma svo við augað með hinni en alltaf tekst mömmu að loka auganu. Eða oftast alla vega. Ég held hún sé bara að stríða mér.

laugardagur, júní 07, 2003

Það var rosalega gaman hjá Söru Mist í morgun, það eru myndir af okkur á síðunni hennar ef þið viljið sjá hvað við erum ótrúlega sætar saman. Ég lagði mig fyrst í kerrunni minni og svo fékk ég að borða og svo lékum við Sara Mist okkur saman þangað til mamma kom að sækja mig. En ég var sko ekkert farin að bíða eftir henni, mér fannst bara mjög gaman að vera í pössun.

föstudagur, júní 06, 2003

Ummmmm hvað ég elska að sofa! Eftir að mamma og amma settu loksins dökk gluggatjöld í herbergið okkar Sippa stóra bróður svo það komi nú nótt hjá okkur, þá bara sef ég og sef. Ég fer bara beint að sofa þegar mamma setur mig í rúmið og sef alla nóttina þangað til klukkan sjö. Og ég veit ekki alveg hvort ég er loksins að hvíla mig eftir allar þessar vökur undanfarið eða hvort ég var eitthvað slöpp út af bólusetningunni sem ég fékk í gær, en ég bara svaf og svaf eiginlega í allan dag. Fyrst vaknaði ég klukkan sjö og mamma fór bara að klæða mig og hafa okkur til, en ég var svo sybbin að ég steinsofnaði á skiptiborðinu á meðan hún var að klæða mig. Svo ég fékk að kúra í rúminu mínu þangað til bara tveimur mínútum áður en ég átti að vera komin til dagmömmunnar. Hjá henni borðaði ég morgunmat og fór svo beint út í vagn, svaf í tvo tíma, kom inn og drakk smá vatn og fór svo bara aftur út í vagn og hélt áfram að sofa. Mamma vakti mig svo þegar hún sótti mig klukkan eitt og ég fór heim að borða og reyndi aðeins að leika mér en svo fór ég bara út í kerru og svaf meira. Svo vaknaði ég við eitthvað held ég, alla vega var ég eiginlega þreytt ennþá en gat ekki sofnað aftur, amma keyrði mig aðeins í kerrunni og svo fórum við mamma í labbitúr og líka að leika aðeins í garðinum. Svo fékk ég kjúkling með rjómasósu, mmmmnamm! Og svo fékk ég loksins að fara að sofa klukkan hálfníu, ó hvað það var gott! Ég held ég ætli bara alltaf núna að sofa svona vel, það er svo ósköp gott.

Annars er bara allt gott að frétta, ég fór í skoðun í vikunni og ég er 71 sentimetri og 8665 grömm. Og ég skældi ekki neitt þegar ég fékk sprautuna, var bara pínu hissa á lækninum sem var svona lengi að sprauta mig. Hann skoðaði líka eyrun mín voða vel, fyrst lýsti hann inn í þau með ljósi og svo setti hann hljóð inn í eyrun mín og mældi eitthvað inni í þeim um leið. Og ég er bara með voða fín og falleg eyru.

Á morgun fæ ég að heimsækja Söru Mist vinkonu mína á meðan mamma fer í nudd. Það verður örugglega rosalega gaman og ég er sko aldeilis heppin að eiga svona góðar vinkonur sem ég get heimsótt.

þriðjudagur, júní 03, 2003

Ég verð víst að viðurkenna að ég er ekki búin að vera neitt sérlega góð við mömmu á næturnar núna. Hún vill ekki taka mig upp í rúm og gefa mér að drekka lengur, nú er hún alveg hætt að láta undan mér, alveg sama hvað ég vakna oft og skæli lengi. Þannig að ég er nú eiginlega hætt að nenna að vakna mjög oft, ég er samt ennþá oft að vakna svona um sexleytið og þá finnst mér voða erfitt að sofna aftur af því ég er orðin svo svöng. En mamma gefur mér ekki neitt, ég fæ bara hafragrautinn hjá dagmömmunni. Í gær samt svaf ég alveg til átta og það fannst okkur mömmu báðum voða gott, ég ætti kannski að fara að gera það að vana mínum.

Annars má ég til með að segja ykkur frá því hvað ég fór í skemmtilegt ferðalag um daginn. Ég fór nefnilega í rútuferð með pabba og mömmu, stóra bróður, afa og ömmu og fullt af frænkum og frændum. Pabbi reyndar var með eitthvað vesen og fór á spítala og mamma og stóri bróðir með honum, en ég lét það nú ekki á mig fá og hélt bara áfram í ferðalaginu. Sunna frænka og Þórður frændi pössuðu mig, og líka afi og amma. Mér fannst svo gaman og brosti og hló við öllum. Svo fékk ég meira að segja að fara á veitingastað um kvöldið og var rosalega dugleg að borða. Reyndar fór víst meiri hlutinn af matnum á gólfið en það var allt í lagi því ég brosti svo sætt framan í þjónana.

laugardagur, maí 31, 2003

Hehemm, ég er víst að verða letibloggari, ekkert búin að skrifa í 10 daga! En ég hef nú samt smá afsökun, við mamma höfum nefnilega dálítið mikið að gera núna, við þurfum að hugsa um allt því pabbi liggur bara í rúminu, hann er víst með brotið bak. Hann er nú samt voða duglegur að leika við mig. Hann fer alltaf í rosalega skemmtilegan leik við mig, sem er að skella saman ennunum. Það finnst mér fyndið og skelli enninu eins fast og ég get við hans enni. Eða kinnina hans eða nefið, eftir því hvert ég hitti.

Tennurnar mínar tvær eru komnar í gegn, svo nú er ég komin með fjórar tennur uppi og tvær niðri. Önnur helstu afrek mín þessa dagana eru þau að ég kann að vinka og sýna hvað ég er stór, láta dót detta og segja dah, svo beygi ég mig og tek það upp aftur, og ég er orðin mjög flink að standa upp og labba með, ég get labbað um alla stofu með dótakassann minn á undan mér. Og svo kann ég líka alveg að skríða á fjórum fótum, ég er alveg hætt að ormast með magann í gólfinu. Það finnst öllum ég vera orðin voða stór, enda er ótrúlega stutt síðan ég gat bara ekki neitt.

miðvikudagur, maí 21, 2003

Æ æ og ó, aumingja ég! Ég er að fá tvær tennur í viðbót, tennurnar við hliðina á framtönnunum uppi, og það er alveg að gera mig klikk. Ég er voða slöpp og þreytt eitthvað, en vakna svo alltaf við þessar illgjörnu tennur og er alveg ómöguleg eiginlega. En þær eru alveg að koma held ég, vonandi bara gengur þetta fljótt yfir.

Ég held áfram að sjarmera alla upp úr skónum hjá dagmömmunni, hin börnin vilja bara knúsa mig endalaust og dagmamman hlakkar til að fá að hafa mig allan daginn. Ég er búin að fá að fara út að leika með hinum krökkunum og það finnst mér sko gaman. Svo er stundum tónlistarstund, þá dilla ég mér og finnst það líka voða gaman. Svo er ég auðvitað á fullu að standa upp og reyna að labba. Ég er að einbeita mér svo mikið að þessu að ég geri eiginlega ekki neitt annað á meðan, er næstum því hætt að vinka og skríða og er ekkert að læra neitt annað nýtt. Enda finnst mér þetta langmikilvægast og það verður að hafa forgang fram yfir allt annað núna að læra að ganga.

Pabbi kom heim á laugardaginn með rosalega flottan Burberry gallakjól handa mér. Ég er svooooo mikil pæja í honum. Ég fékk reyndar ekki að hitta hann mikið á laugardaginn (þ.e.a.s. pabba, ég fékk náttúrulega að fara strax í kjólinn) því þau brunuðu eiginlega strax með mig í pössun til Silju frænku minnar. Og mamma hennar og pabbi voru líka að passa mig pínu. Það var bara mjög gaman, ég fékk fullt af góðum mat að borða og fannst rosalega gaman að leika við Silju og við frændur mína þá Hauk og Pétur. Svo komu pabbi og mamma aftur um kvöldið og við fórum öll heim.

Og já, ekki má ég nú gleyma að segja frá því hvað ég er orðin forfrömuð dama, ég fór á kaffihús og fékk kleinu! Við mamma fórum og hittum vinkonurnar hennar, Siggu Láru sem var í bæjarferð frá Egilsstöðum, Svandísi sem er að fara að flytja til Frakklands og Ástu og Skottu. Mér fannst afskaplega gaman að vera á kaffihúsi með svona fínum frúm og reyndi að vera voða stillt og prúð.

laugardagur, maí 17, 2003

Jámm, best að passa sig að verða ekki letibloggari! Enda er mjög mikið að gerast þessa dagana og frá mörgu að segja. Ég er til dæmis komin með fjórar tennur, tvær uppi og tvær niðri. Og mér er að fara svo hratt fram í að standa upp og komast um að ég held að mömmu lítist ekkert á það lengur. Ég stend upp við eiginlega hvað sem er, labba meðfram og á milli þar sem ég næ. Svo fann ég upp rosalega sniðugan leik í dag, að láta snudduna detta í gólfið og teygja mig svo eftir henni án þess að detta. Þetta gerði ég aftur og aftur og aftur, alveg frábær leikur!

Í gær fórum við mamma að hitta mömmukonurnar og alla vini mína, það var náttúrulega mjög gaman eins og alltaf. Það komu næstum allir af því Hjalti Sævar og Lilja mamma hans voru í heimsókn frá Noregi, þetta voru víst 20 mömmur og 21 barn. Börnin voru sko einu fleiri af því að Edda Sólveig stóra systir hennar Fríðu Valdísar kom líka (hún er tveggja ára) og hún var sko ekkert smá góð við mig, ég sat í fanginu hennar heillengi og við vorum rosalega góðar vinkonur. Svo í gærkvöldi fór mamma aftur að hitta mömmukonurnar svo amma og Þórður frændi pössuðu mig. Ég vildi eiginlega ekki fara að sofa og var svolítið erfið við ömmu. En svo sofnaði ég og amma fór, svo vaknaði ég aftur og öskraði pínu á Þórð en hann gat alveg huggað mig og mér tókst að sofna aftur. Svo er ég alveg búin að vefja mömmu um fingur mér sko, núna vakna ég alltaf klukkan eitt og þá gefur hún mér að drekka af því hún er svo sybbin og nennir ekki að svæfa mig aftur. Pabbi er í útlöndum, hann er búinn að vera í næstum því viku, en kemur heim á morgun. Ég held hann verði nú bara alveg hissa, ég er búin að læra svo margt nýtt á meðan hann var í burtu. Já og í fyrradag kom Svandís vinkona hennar mömmu í heimsókn. Það var mjög gaman, nema hún beit mig í puttann. Ég var alveg snarbrjáluð, en þar sem þetta var nú óvart þá fyrirgaf ég henni alveg á endanum. Stóri bróðir kom líka í fyrradag og ég var aldeilis kát með það. Hann fékk að tala við pabba í símann, en svo saknaði hann pabba svo mikið að hann fór bara að skæla. Við verðum öll heldur betur glöð þegar hann kemur aftur heim.

miðvikudagur, maí 14, 2003

Ég ætla aðeins að troða mér að hérna til að skamma letibloggarana sem eru listaðir hérna til vinstri, skammskamm! Það eru að vísu örfáar undantekningar, takk þið undantekningar fyrir að sjá okkur fyrir skemmtilestrarefni. Annars er allt gott að frétta af litla skottinu, hún er hjá dagmömmunni núna frá 8 til 1 og unir sér vel. En það er víst ekkert internet þar.

fimmtudagur, maí 08, 2003

Ég gleymdi náttúrulega einu, önnur framtönnin mín uppi er komin í gegn og hin er alveg að koma líka. Híhí, ég verð örugglega algjört krútt þegar þær verða báðar komnar vel í ljós.
Eins og sjá má í kommentunum hérna fyrir neðan þá fékk ég (eða síðan öllu heldur) heimsókn frá Noregi. Það er hann Håvard, en mamma hans var einu sinni skiptinemi hjá ömmu og afa. Það kom okkur mömmu sko aldeilis skemmtilega á óvart að fá kveðju frá honum og okkur fannst líka gaman að skoða síðuna hans. Hann fæddist í sjúkrabíl, algjör töffari
Fjúff, það er búið að vera svo mikið að gera hjá mér að ég hef bara ekkert mátt vera að því að segja frá. Ég er búin að fara nokkrum sinnum til dagmömmufólksins, þeirra Katrínar og Hilmars, og mér finnst það mjög gaman. Fyrst var ég bara í smástund en svo fór ég snemma í morgun og fékk að borða morgunmat með krökkunum. Ég fékk alvöru hafragraut, namm hvað mér finnst hann góður! Svo fór ég í vagninn minn og þegar ég vaknaði kom mamma að sækja mig. Mér líst rosalega vel á að fá að vera hjá þeim og mömmu líst líka vel á að fara aftur í vinnuna sína. Hún ætlar að sækja mig klukkan eitt í sumar og svo í haust fæ ég að vera allan daginn í pössuninni.

Í gær fórum við í heimsókn til Jökuls vinar míns (það er meira að segja mynd af mér í heimsókninni á síðunni hans) og þar voru líka margir aðrir vinir mínir og mömmukonuvinkonur mömmu. Okkur finnst alltaf rosalega gaman að hitta þau. Og við hlökkum sérstaklega til að hitta þau í næstu viku því þá kemur Hjalti Sævar vinur minn sem ég hef aldrei hitt, hann á nefnilega heima í Noregi.

Ég er alltaf að æfa mig að standa upp, helst vildi ég bara labba en þá verður einhver að hjálpa mér. Ég er samt ótrúlega montin með mig ef einhver hjálpar mér að labba, þá finnst mér ég vera óskaplega stór og mikil manneskja. En þetta er allt dálítið erfitt, ég datt til dæmis tvisvar á hnakkann áðan þegar ég var að reyna að standa upp við stofuborðið og dótakassann minn. Það var sko vont og ég var alveg öskureið. En mér gengur mjög vel að standa upp við naggrísabúrið, hins vegar tekst mér ekki ennþá að komast ofan í það, en ég legg mig alla fram.

föstudagur, maí 02, 2003

Jæja, nú eru pabbi og mamma búin að ákveða að fyrst ég er orðin svona stór þá sé best að ég fari bara til dagmömmunar. Þannig að ég fer að hitta hana á mánudaginn. Það verður örugglega mjög gaman, mér finnst svo gaman að leika við aðra krakka. Í gær til dæmis komu frændur mínir og Silja frænka í heimsókn og matarboð, það var sko rosalega gaman. Og amma Gisela kom líka, hún gaf mér bók um kanínu og gulrót. Þetta var alveg rosalegt fjör og ég ætlaði aldrei að geta sofnað á eftir, ég var í svo miklu stuði og vildi bara halda áfram að vera í partýfjöri.

þriðjudagur, apríl 29, 2003

Húrra fyrir mér! Ég stóð upp, alveg sjálf. Það kom reyndar einhver skelfingarsvipur á mömmu, hún var held ég eitthvað hrædd um að plast-leiksláin sem ég stóð upp við væri ekki alveg nógu traust. En vá hvað ég er montin, nú er þetta allt að koma hjá mér sko.

mánudagur, apríl 28, 2003

Mamma sér glytta í báðar framtennurnar mínar uppi, haha, bráðum get ég sko aldeilis bitið almennilega. Og ég er alltaf að æfa mig að smella í góm, ég er rosa flink í því og ég er líka mjög montin að kunna það.

laugardagur, apríl 26, 2003

Þetta var aldeilis skemmtilegur dagur. Ég komst loksins í sund með stóra bróður. Við fórum í Árbæjarlaugina, þar var fullt fullt af fólki og við hittum tvær vinkonur mömmu, þessa hérna og líka þessa. Ég synti og kafaði og var mjög dugleg að sýna hvað ég er flink. Svo buðu amma og afi mér í kvöldmat í meiri maís og mamma og stóri bróðir fengu líka að koma með, pabbi fór nefnilega að spila körfubolta og keilu með einhverjum vinum sínum. Og ég hitti meira að segja líka Ástu frænku mína og Hauk, loksins, það er svo langt síðan ég hef séð þau að ég var ekki einu sinni með tönn þá! Svo þetta var heldur betur viðburðaríkur og skemmtilegur dagur.

föstudagur, apríl 25, 2003

Ég fór í sumardagsmat hjá ömmu og afa í Hjallabrekku í gær. Það var mjög gaman, ég fékk rosalega fín föt í sumargjöf svo ég geti verið algjör skvísa á Mallorca. Og ég fékk maísbaunir, namminamm, þvílíkt góðgæti hef ég nú bara varla smakkað fyrr. Amma var búin að kaupa fínan stól handa mér svo ég gat setið með öllum við borðið og vinkað á milli þess sem ég mokaði í mig maísbaununum. Mér finnst svo gaman að vinka, og líka að rokka, alltaf ef ég heyri skemmtilega tónlist eða takt þá rokka ég með hausnum. Verst að hann er dálítið þungur svo það er pínu erfitt.

miðvikudagur, apríl 23, 2003

Það er svo gaman að komast svona áfram sjálfur! Ég er alltaf að verða flinkari, kemst alveg á fleygiferð um stofugólfið. Ég meira að segja var að reyna að lyfta maganum áðan, ég held ég gæti komist hraðar þannig en það bara er svolítið erfitt. Áðan tókst mér að ná í fréttablað sem var á gólfinu og bíta af því smá bita áður en mamma kom stökkvandi og tók bitann af mér. Grrrrr óþolandi! Enda öskraði ég á hana og beit hana í puttann.

Annars fór ég í heilmikinn leiðangur í dag, mamma breytti vagninum mínum í kerru og við fórum í labbitúr og strætó til Sonju Margrétar vinkonu minnar. Þar var fullt af krökkum og mömmum og mjög gaman eins og alltaf. Þar tókst mér líka að stelast í kleinu sem var rosalega góð.
Nei, þetta vill ekki koma rétt. Jæja, þá bara er klukkan vitlaus, klukkutíma á undan.
Nú, það er ekki gert ráð fyrir að fólk sé ekki með sumartíma. Jæja, þá bara erum við á Azoreyjum.
Úps, klukkan er vitlaus, hún heldur greinilega að það sé sumartími á Íslandi. Best að reyna að laga það...
Ég hef frá svo mörgu að segja núna að ég veit bara ekki hvar ég á að byrja. Ég er búin að læra fullt nýtt og fara í ferðalag og allt hvaðeina. Við fórum til Akureyrar á miðvikudaginn, það gekk bara vel nema ég svaf nú eiginlega ekki neitt í bílnum. Þannig að ég var orðin frekar pirruð á að vera í bílnum, það er nefnilega dálítið langt til Akureyrar. En það var rosalega gott veður þar, ég fékk meira að segja að fara út og skoða tré og gras. Og það var fullt af frændum og frænkum sem voru alltaf að leika við mig. Það fannst mér sko gaman og ég var alltaf að vinka þeim. Ég er nefnilega búin að læra það, ég vinkaði ömmu Ingu Rósu bless áður en við fórum, og eftir það er ég bara á fullu að vinka. Svo reyndar hreyfa þau alltaf hendina eitthvað, ég á nú eftir að læra það. En þá fattaði ég líka að þetta var alveg rétt sem ég gerði um daginn þegar ég vinkaði pabba. Mamma eiginlega trúði honum ekki en ég var alveg að vinka.

Jæja, svo er ég nú búin að læra fleira, ég kann nefnilega núna að ýta mér áfram með hnjánum. Þannig að ég get alveg komist áfram og náð í dót sem mig langar í, húrra! Og ég kann næstum því að sýna hvað ég er stór, ég er ekki alveg viss á muninum á því og vinka, en það er alveg að koma.

Ég fékk margt gott að borða á Akureyri, kæfubrauð, alls konar grænmeti og meira að segja smá lambakjöt. Ég fékk samt ekki að smakka hamborgarhrygginn og heldur ekki páskaeggið. En mér var nú alveg sama um það, mér fannst mesta fjörið að fá að leika mér að skelinni innan úr Kinder páskaegginu mínu. Og naga dúkkuna hennar Silju, það var æðislegt. Við komum svo til baka á mánudaginn og aftur gat ég eiginlega ekkert sofið. Mamma sat bara aftur í og lék við mig. Svo fórum við til ömmu og afa í Kópavogi og borðuðum kvöldmat hjá þeim, ég fékk blómkál og maís og lambakjöt, nammi namm það var sko gott. Og ég sýndi þeim hvað ég er flink að skríða og allt, en ég var samt orðin voða þreytt. Þannig að við fórum bara snemma heim og ég fór loksins að sofa í hausinn minn.

Í gær fórum við loksins í 6 mánaða skoðunina. Ég er ekki lengur með eyrnabólgu, bara vökva í eyrunum og þess vegna er ég ennþá dálítið pirruð í eyrunum þegar ég er að drekka og svona. Ég er orðin 69 sentimetrar og 8,3 kíló, rosalega fín og flott og allt eins og það á að vera. Svava sagði að mamma mætti fara að gefa mér kæfubrauð, eins gott því það er uppáhaldið mitt! Svo fékk ég andstyggilega sprautu, ég lét nú lækninn alveg heyra það hvað mér fyndist um svona meðferð.

Amma og afi í Hjallabrekku komu svo í gærkvöldi og afi hjálpaði pabba að tengja rörin í arninum á meðan mamma og amma settu mig í baðið mitt. Svo kveikti pabbi eld í arninum, það fannst honum sko gaman. Og þá held ég að ég sé búin að segja frá öllu merkilegu sem er búið að gerast síðustu viku.

miðvikudagur, apríl 16, 2003

Jæja, þá eru fyrstu páskarnir mínir alveg að koma. Við förum keyrandi til Akureyrar á eftir og verður hjá afa og ömmu þar um páskana. Það verður örugglega gaman, þó það sé víst enginn snjór. Ég kann hvort sem er ekkert á skíði. Verst bara að ég má ekki fara í sund, það hefði verið gaman að fara í sundlaugina á Akureyri með stóra bróður. En það verður bara seinna, ég verð nú fyrst að vera viss um að vera laus við eyrnabólguna.

Pabbi er búinn að kaupa eldstæði í arininn, þetta er mjög efnilegt hjá honum verð ég að segja. Síðan á þetta alltaf að vera þannig sko að við krakkarnir erum úti að búa til snjókarl og svo komum við inn og drekkum heitt kakó fyrir framan arininn. Mamma segir reyndar að það verði aldrei neinn snjór, en hún er nú bara leiðinleg

sunnudagur, apríl 13, 2003

Oh, hún Ásta frænka mín ætti bara að sjá mig núna. Ég er svo agalega smart í ítölsku fötunum sem hún gaf mér, ekkert smá mikil skvísa. Og svo er ég meira að segja með fínu húfuna sem hún prjónaði á mig líka, hún er svo rosalega flott og svo er hún tvöföld þannig að hún er mjög hlý og góð fyrir börn sem er illt í eyrunum sínum. Mér líður reyndar miklu betur í eyrunum, þetta var bara allt annað líf eftir að ég fór að fá þetta meðal. En mér er samt ennþá pínu illt, til dæmis í gærkvöldi þegar ég var að reyna að sofna þá var ég alltaf að toga í eyrun mín. Æ ég vona að þetta bara batni sem fyrst, mig er líka farið að langa svo í sund, ég er ekki ennþá búin að fara í sund með stóra bróður.

Mamma og pabbi eru annars búin að vera voða dugleg. Aðallega reyndar pabbi, mamma fór bara í bíó í gær með Sigurð Pétur og Heiðar og steinsvaf þar. En svo sparslaði hún nú líka eitthvað smá. Pabbi er að smíða arinvegginn, þetta er að verða rosa flott hjá honum, hann er með svo sniðugar hugmyndir nefnilega. Þetta verður örugglega mjög fínt allt saman hjá þeim.

fimmtudagur, apríl 10, 2003

Mikið er nú gott að sofa á nóttunni. Og mikið er gott að vera ekki illt í eyrunum. Ég er búin að vera að taka þessa óþverra hóstasaft alveg þangað til í dag, rosalega er hún vond á bragðið! En ég hef alveg getað sofið eftir að mamma fór að gefa mér stíla á kvöldin. En svo fór mér að vera svo illt að ég bara skældi og skældi, mamma og pabbi skildu ekkert í þessu. Svo kíkti læknirinn í eyrun mín áðan og þá er ég með eyrnabólgu í báðum eyrunum. Þannig að nú er ég sloppin við hóstasaftina en komin með pensillín í staðinn, sem er nú ekki mikið skárra. Hins vegar líður mér strax betur, það er ótrúlegt hvað þetta virkar fljótt. Jæja, og svo er nú mamma mín loksins búin að fatta hvað ég vil fá að borða, ég vil bara fá almennilegan mat sem ég get borðað sjálf, ekki eitthvað smábarnamauk í skeið. Til dæmis núna er ég að háma í mig kæfubrauð, loksins fær maður eitthvað almennilegt á þessu heimili. Ég var farin að halda að ég yrði bara að lifa á seríosi!

þriðjudagur, apríl 08, 2003

Æjæjæjæjæjæ þetta er nú meira vesenið. Ég er með svo vondan hósta þannig að pabbi og mamma fóru með mig til læknisins í gær sem lét mig fá hóstasaft. Hún varaði pabba og mömmu við að þetta væri dálítið örvandi, og það var sko ekkert grín, ég svaf nefnilega næstum ekki neitt í nótt. Pabbi sagði að ég væri eins og upptrekktur trúður, ég vildi bara hafa fjör og leika mér. Klukkan fimm gaf mamma mér stíl til að reyna að róa mig, og það virkaði alveg, nema þá fattaði ég hvað ég var orðin rosalega þreytt og bara brotnaði niður og grét og grét. Æ þetta var alveg hræðilegt. Svo gat ég nú loksins sofnað um sexleytið í morgun og svaf í tvo tíma en þá vaknaði ég aftur og skældi svolítið meira. Svaf svo í klukkutíma í viðbót milli níu og tíu og svo í vagninum í einn og hálfan tíma eftir hádegið. Mamma og pabbi ætluðu nú bara að hætta að gefa mér meðalið, en hringdu samt í lækninn og hún vildi að ég fengi svolítið meira meðal en þau eiga að gefa mér stíl áður en ég fer að sofa í kvöld. Æ ég vona bara að ég geti sofið, það er voða vont að vera með hósta en það er líka voða vont að geta ekki sofið.

sunnudagur, apríl 06, 2003

Ég hefði átt að monta mig aðeins meira af því hvað ég er flink að sitja, rétt áðan datt ég með hausinn beint á parketið. Ég hélt ég myndi aldrei geta hætt að skæla, ósköp átti ég nú bágt.
Jæja, þá þarf ekkert að velkjast í vafa um það lengur, ég er snillingur! Í gær var mamma að leyfa mér að drekka vatn úr fílaglasinu (það er smábarnaglas með stuttu röri), svo setti hún glasið á borðið og hélt áfram að borða matinn sinn, en ég var ennþá þyrst, svo ég bara tók glasið og fékk mér meira vatn að drekka. Alveg sjálf! Mömmu og pabba fannst ég sko rosalega klár. Svo var pabbi á fullu að hreyfa hendurnar í gær, alltaf eitthvað að segja halló, halló, og hreyfa hendurnar. Ég hreyfði líka einu sinni hendina og það fannst pabba voða merkilegt, kallaði á mömmu og hélt áfram að segja halló og hreyfa hendurnar. Ég skil þetta ekki alveg, þarf að spá aðeins betur í þetta.

föstudagur, apríl 04, 2003

Ég hef alveg gleymt að monta mig af því að ég kann að sitja sjálf núna. Ég get alveg bara setið heillengi og leikið mér á teppinu mínu. Svo kann ég líka að fara niður á magann, en svo eftir það er ég föst, óþolandi! Alveg sama hvað ég syndi fast með fótunum, ég bara kemst ekki áfram. Í gær fékk ég að smakka kjöt, soðið og maukað með soðinni kartöflu, gulrót og rófu. Þetta var bara nokkuð gott fannst mér. Ég var að vísu ekkert voðalega svöng, en borðaði samt alveg nokkrar skeiðar af þessu mauki. Og Þórður frændi kom í heimsókn í gær. Það fannst mér gaman, mér finnst svo gaman þegar einhver kemur í heimsókn til mín. Jæja, best að hleypa mömmu í tölvuna svo hún geti farið að gera skattframtalið sitt.

fimmtudagur, apríl 03, 2003

Sjúkkit, kommentin eru alveg í lagi, ég hélt þau væru öll bara týnd. Íslensku stafirnir eru reyndar í mauki en vonum bara að þeir komist í lag líka. Minnir mann hins vegar á að gæfan er fallvölt á internetinu, verð að finna gáfulega leið (eða nógan tíma) til að taka backup af þessu öllu saman handa múluskottinu til að eiga seinna. Svo verð ég að brenna backupið á geisladisk því að harði diskurinn getur hrunið hvenær sem er eins og við vitum, og svo þarf að setja það á nýjan geisladisk eða hvað sem verður komið í staðinn eftir 10 ár eða svo, því geisladiskarinn endast ekki að eilífu heldur. Kannski ætti maður bara að prenta allt dótið út og búa til svona gamaldags pappírsdagbók...

þriðjudagur, apríl 01, 2003

Mér tókst að bíta til blóðs með tönnunum mínum í dag. Verst að ég beit bara sjálfa mig. Ég var að borða mjólkurkex og einhvern veginn tókst mér að bíta í neðri vörina, það var alveg hræðilega vont og blæddi í smá stund. En ég jafnaði mig nú samt fljótt. Svo er ég alveg hræðilega pirruð í kvefinu mínu, vonandi batnar það fljótt. Ég var alveg ómöguleg í kvöld, gat gleymt mér við eitthvað nýtt í smástund en svo var ég aftur bara pirruð og vildi eitthvað annað sem ég vissi ekki hvað var. Svo er mamma hálflasin og pirruð líka, svo það var ekki sérlega mikið fjör hjá okkur í kvöld. Pabbi var heldur ekki heima, svo við vorum bara tvær að pirrast hvor í annarri. Jæja, en ég sofnaði vel og vonandi get ég bara sofið í alla nótt, og mamma líka.
Ég las það í bók að konur með barn á brjósti verða pínu vitlausar. Það er víst til þess að þær nenni að hugsa um börnin, nenni að fara með sömu vísuna aftur og aftur, hrista hringlandi tuskudýr, dansa við Stubbalagið og svo framvegis. Ég vona svo sannarlega að þetta sé satt og þá líka að þetta gangi til baka þegar börnin hætta á brjósti. Á sunnudaginn fór ég nefnilega á vídeóleiguna og þegar ég ætlaði að fara að borga myndina sagði konan "þetta er bónusspóla". "Ha" sagði ég, "bónusspóla" svaraði hún. "Nei takk" sagði þá bananinn ég. Jæja, svo tókst konunni nú að koma mér í skilning um að þessi spóla sem ég væri að taka væri bónusspóla og ég þyrfti ekkert að borga fyrir hana. Og ekki nóg með það, heldur fékk ég líka víkingalottómiða í kaupbæti (eða ókeypisbæti). Ég ekkert smá ánægð, alltaf að græða, labba út með fína víkingalottómiðann minn og skil vídeóspóluna eftir á afgreiðsluborðinu. Jamm og já, jæja, best að fara að klappa saman lófunum...

fimmtudagur, mars 27, 2003

Rosalega er ég nú klár og fljót að læra. Fyrir þremur dögum gat ég náð seríosi í lófann minn, en svo hvarf það alltaf og ég skildi ekki neitt. En núna gengur mér bara ágætlega að tína upp í mig hringina. Að vísu fara þeir stundum úr munninum aftur með hendinni, en mér tekst líka að koma mörgum alla leið ofan í maga.
Mér finnst nú bara gaman að fara niður í Skútuvog, fullt af skemmtilegu fólki sem ég get brosað til. Svo var ég áðan að horfa á nýju Stubbaspóluna mína, hún er mjög skemmtileg. Og ég fékk líka nýjan tannbursta í gær sem amma gaf mér. Ég var mjög ánægð með að láta bursta tennurnar mínar tvær.
Mömmukonunni brá nú pínu að koma niður í gærkvöldi og kíkja á þetta litla skott í rúminu sínu, hún lá á maganum og grúfði sig niður í dýnuna og hundinn sinn. En það var nú allt í lagi með hana. Dagurinn byrjaði annars ekki vel hjá okkur, þegar ég ætlaði að kveikja á tölvunni þá kom Operating System Not Found. Og við nánari athugun kom í ljós að harði diskurinn fannst bara alls ekki. Þannig að við mæðgurnar drösluðumst niður í Skútuvog, og þaðan í Nýherja með tölvuna í flýtiviðgerð. Hún kemur víst á eftir og það tókst að bjarga gögnunum. Sem betur fer, því ég var ekki búin að brenna allar stafrænu myndirnar á geisladisk.

miðvikudagur, mars 26, 2003

Tanntakan gengur bara vel hjá mér, nú er hin framtönnin í neðri góm komin líka. Mamma er samt ekki ennþá búin að kaupa handa mér tannbursta, hún er búin að fara í margar búðir og það er bara hvergi til smábarnatannbursti. Þannig að nú er amma búin að taka málin í sínar hendur og vonandi kemur hún með tannbursta handa mér á eftir. Ég var í síðasta sundtímanum í gær. Ég var sko langduglegust. Eða alla vega langmontnust, ég nefnilega hrópaði og kallaði allan tímann svo það tækju örugglega allir eftir mér. Svo er næsta námskeið í ágúst, nú verða pabbi og mamma bara að vera dugleg að fara með mig í sund þangað til, svo ég haldist í æfingu. Ég er nefnilega orðin svo flink að kafa og synda.

Við mamma fórum loksins að hitta vini mína í dag, ég hafði ekki séð þau í langan tíma, heilan mánuð held ég bara. Það var rosalega gaman, ég var mjög spennt að skoða hina krakkana og prófa að toga í eyrun þeirra og svona. Svo fékk ég lánaðan vagninn hjá Söru Mist vinkonu minni svo ég gæti lagt mig aðeins því ég var náttúrulega orðin dauðþreytt, mamma þurfti að masa svo mikið. Í næstu viku ætla þau svo að koma að heimsækja mig, loksins gat ég boðið þeim í heimsókn fyrst það er komið parket á gólfið.

mánudagur, mars 24, 2003

Vegna fjölda áskorana :) er hérna bollahöldusagan:

Caller: "Hello, is this Tech Support?"

Tech Rep: "Yes, it is. How may I help you?"

Caller: "The cup holder on my PC is broken and I am within my warranty period. How do I go about getting that fixed?"

Tech Rep: "I'm sorry, but did you say a cup holder?"

Caller: "Yes, it's attached to the front of my computer."

Tech Rep: "Please excuse me if I seem a bit stumped, it's because I am. Did you receive this as part of a promotional, at a trade show? How did you get this cup holder? Does it have any trademark on it?"

Caller: "It came with my computer, I don't know anything about a promotional. It just has '4X' on it."

At this point the Tech Rep had to mute the caller, because he couldn't stand it. The caller had been using the load drawer of the CD-ROM drive as a cup holder, and snapped it off the drive. Previously, CD-ROM makers used to label the front of the CD-ROM drive with its speed (e.g. 2X, 4X, 8X). As drives became faster, this practice faded away.


According to the lore, this came from a technical representative from Australia, where they have a beer called "4X".

sunnudagur, mars 23, 2003

Pabbi var líka rosalega góður við mömmu í morgun, hann fór með mig upp að leika og leyfði henni að sofa. En rosalega var ég orðin svöng þegar mamma loksins vaknaði! Núna er ég að fá mér lúr í vagninum og svo er ég að fara í afmæli hjá frændum mínum og frænku í Bollagörðum, það verður örugglega mikið fjör.Tönnin mín smá mjakast upp, en hin er ekki komin í gegn ennþá. Þetta pirrar mig stundum dálítið, en samt ekkert til að kvarta yfir, ég virðist ætla að sleppa nokkuð vel frá þessu.
En pabbi minn er kóróna!

What Sort of Hat Are You? I am a Crown.I am a Crown.


I'm regal and proud. People instinctively follow my lead, so I don't even have to try. Sometimes it's a drag. What Sort of Hat Are You?
Og rauður hattur, úps, hún er svo mikill nörd...

What Sort of Hat Are You? I am a Redhat.I am a Redhat.


I'm too much of a geek to be a genuine hat of any sort. I was hoping my result would be 'white-hat' or 'black-hat', and am disappointed that those results weren't even available. I probably think the cup-holder story is funny. What Sort of Hat Are You?
Mamma mín er te!

What Flavour Are You? Cor blimey, I taste like Tea.Cor blimey, I taste like Tea.


I am a subtle flavour, quiet and polite, gentle, almost ambient. My presence in crowds will often go unnoticed. Best not to spill me on your clothes though, I can leave a nasty stain. What Flavour Are You?

fimmtudagur, mars 20, 2003

Pabbi var nú aðeins að gera athugasemd við þetta orðalag hjá mér, það er náttúrulega ekki rétt að öll tönnin sé komin upp, heldur er bara öll brúnin á henni komin í gegn. Svo er hin framtönnin niðri alveg að koma líka.

miðvikudagur, mars 19, 2003

Ég er komin með tönn! Við mamma vorum ekki alveg vissar um daginn, en svo sýndi ég henni áðan og þá sá hún alveg tönnina, hún er komin öll upp úr gómnum. Svo nú verður hún að drífa sig að kaupa tannbursta. Og ég hef bara ekkert fundið fyrir þessu, aldeilis sem ég er nú heppin. Vonandi verður þetta bara svona auðvelt með hinar tennurnar líka. Aldeilis verður nú fyndið að sjá mig bráðum, með eina litla framtönn í neðri góm.

þriðjudagur, mars 18, 2003

Já, og ég er 6 mánaða í dag, ekkert smá stór! Pabbi gaf mér parkettið á stofuna í afmælisgjöf svo ég gæti farið að æfa mig að skríða.
Jæja, þá er ég flutt. Ég er núna komin í herbergi með stóra bróður, svaf þar í fyrsta skipti í nótt. Það gekk bara vel, reyndar vaknaði ég klukkan tvö og mamma gaf mér bara að drekka af því hún nennti ekki að hlusta á mig skæla og pabbi er lasinn og svona. En svo fór ég aftur í rúmið mitt og svaf þar til sjö í morgun. Það var bara mjög fínt og notalegt. Svo var ég að koma úr sundi, afi og amma komu og tóku fullt af myndum, verst að pabbi komst ekki með af því að hann er lasinn. En ég var alveg rosalega dugleg allan tímann, kafaði og synti um allt.

mánudagur, mars 17, 2003

Ó nei! Allt sem ég var búin að skrifa bara horfið! Jæja, þá er bara að reyna aftur. Ég passaði fínt í sparikjólinn minn og var rosalega fín í veislunni hennar Giselu ömmu. Það var annars mjög gaman, fullt af krökkum, litlum frænkum sem ég hef aldrei hitt og svona. Mér fannst bara verst að geta ekki hlaupið um með þeim. En ég fékk enga köku. Samt er ég næstum komin með tönn. Ég beit mömmu í puttann með henni í veislunni, en við erum ekki alveg vissar hvort hún er komin í gegn eða hvort hún er bara alveg að koma. Í gær fór ég svo aftur að hitta ömmu og afa á Akureyri, við fórum og borðuðum með þeim og frændum mínum og Silju frænku. Og í gærkvöldi fór ég til ömmu og afa í Hjallabrekku, amma var að reyna að kenna mér að skríða. Ég skil ekki hvað ég er að gera vitlaust, ég sparka með fótunum eins og ég get en samt gerist ekki neitt. En ég er búin að læra að tala fullt, lærði helling af nýjum "orðum" í gær. Verst að enginn skilur það sem ég er að segja. Til dæmis kann ég að segja ædædædæ, það þýðir nei mamma, ég vil ekki fara að sofa þó ég sé þreytt, ég gæti misst af einhverju. Ég er búin að fá að smakka soðna gulrót og seríos og ferskjumauk, mér finnst þetta allt saman voða gott og er að fá heilmikinn áhuga núna á að borða.

fimmtudagur, mars 13, 2003

Ég er nú bara alveg hætt að liggja á bakinu núna, velti mér alltaf yfir á magann. Það er bara pínu til vandræða þegar ég er að reyna að fara að sofa, ég get nefnilega ekki sofnað á maganum. Svo þá þurfa pabbi og mamma að koma og leggja mig aftur á bakið svo ég geti sofnað.Mamma gaf mér brokkolí áðan. Mér fannst það nú bara nokkuð gott. En svo eftir smá stund gubbaði ég dálítið, svo mamma ætlar alla vega að fara rólega í að gefa mér meira. Á sunnudaginn verður afmælisveislan hennar ömmu Giselu. Húrra ég hlakka til, það verður örugglega gaman. Kannski fæ ég köku. Skyldi ég ennþá komast í sparikjólinn minn? Já og mamma, ekki gleyma að þvo sokkabuxurnar mínar sem eru neðst í þvottakörfunni.

þriðjudagur, mars 11, 2003

Merkilegt fyrirbæri þessi munnur. Og skrýtin og skemmtileg hljóð sem er hægt að gera með honum. Ég var að fatta eitt rosalega sniðugt, það er að vera með eitthvað uppi í munninum, t.d. putta eða tá, og gera svo hljóð með vörunum og tungunni. Afskaplega skemmtilegt finnst mér. Svo brá mér reyndar pínu í gær, þá var ég með skeið með graut uppi í munninum og ákvað að prófa að gera svona hljóð, en þá allt í einu fékk ég bara graut í andlitið! Mömmu fannst þetta voða fyndið, en ég var nú frekar hissa. Í gær fór ég í sturtu með mömmu og ég gat eiginlega alveg setið sjálf á gólfinu, studdi mig meira að segja með hendinni og allt. Mamma passaði mig samt mjög vel því það er svo hart að detta á flísarnar. En það er ekki langt þangað til ég get farið að sitja alveg sjálf. Og ég held ég sé alveg að ná þessu með að skríða, ég er alla vega alltaf að reyna, alveg á fullu. Eins gott að mamma og pabbi drífi sig að setja parkettið á stofuna. Og ég er orðin rosalega klár að velta mér af bakinu á magann, til dæmis velti ég mér þrisvar sinnum í rúminu mínu í gærkvöldi. Ég skil ekkert í því að mamma skyldi ekki hrósa mér meira, eins og ég var dugleg.

sunnudagur, mars 09, 2003

Jibbí, nammi namm. Mamma gaf mér rófu í gær og mér fannst hún rosalega góð, reyndi eins og ég gat að hjálpa mömmu að koma skeiðinni upp í mig. Ég er samt ennþá að læra að koma matnum úr munninum og ofan í maga, en það þýðir ekkert annað en bara að æfa sig. Svo gaf amma mér líka smá banana í gær og mér fannst það líka bara nokkuð gott. Þannig að ég vona að ég sé bara búin að koma því til skila að ég vil fá mat! Mamma. Er það skilið? Ég fór í sund í gærmorgun, það var rosalega gaman fyrst, en svo var ég orðin svo þreytt að mamma og pabbi fóru á endanum bara með mig upp úr. Þá var ég samt búin að kafa fullt og vera rosalega dugleg, busla og skemmta mér helling. En mér finnst miklu betra að fara klukkan fimm á daginn heldur en á morgnana. Mikið var líka gott að sofna í vagninum eftir sundið. Í gærkvöldi kúkaði ég í klósettið, híhí, það var nú skrýtið. Ég var sko búin að kúka í bleyjuna og mamma var að skipta á mér en ég var ekki alveg búin. Sem betur fer tókst mér að koma mömmu í skilning um það og þá setti hún mig bara á klósettið til að klára. Mér fannst nú dálítið skrýtið að sitja þarna. Eitt finnst mér rosalega skemmtilegt að gera. Ég næ taki á mömmu, annað hvort læsi ég nöglunum í andlitið á henni eða gríp í hárin aftan í hnakkanum, og toga hana svo til mín og bít eins fast og ég get í hökuna hennar. Þetta finnst mér alveg frábært. Svo stundum ef mömmu tekst að losa sig þá setur hún upp einhvern kjánalegan svip og þykist vera reið. Hahaha það finnst mér fyndið.

föstudagur, mars 07, 2003

Ég veit ekki hvað er að gerast eiginlega. Ég vaknaði bara um þrjúleytið í nótt og fannst vera kominn dagur. Lék mér í dágóða stund með dúkkurnar mínar, og svo var ég orðin svo hræðilega svöng að ég fór alveg að háskæla. Á endanum leyfðu mamma og pabbi mér að koma upp í og fá súp. Ég held að mamma ætti að fara að gefa mér mat aftur, sama hvað hjúkkan í ungbarnaeftirlitinu segir.

fimmtudagur, mars 06, 2003

Ég er svo flink! Ég var loksins að læra að velta mér af bakinu á magann. Og mamma sá mig ekki einu sinni þegar ég velti mér, ég vará teppinu mínu og svo kom hún og þá var ég bara komin á magann. Ekkert smá dugleg. Svo er ég í nýjum fötum í dag, ég var næstum búin að vaxa upp úr þeim án þess að fara nokkurn tíma í þau. Þetta er nefnilega samfella og smekkbuxur og samfellan rétt svo passar, en buxurnar eru dálítið síðar ennþá og mamma var alltaf bara að horfa á þær þegar hún var að athuga hvort ég myndi passa í þessi föt. Ætli ég sé með eitthvað stuttar lappir? Annars svaf ég ekki vel í nótt. Kannski út af kvefinu mínu. Alla vega fékk ég loksins að koma upp í til mömmu klukkan hálffjögur, ég held hún hafi ekki nennt þessu lengur. Samt fékk ég ekki að drekka neitt, bara sjúga puttann hennar. En þá gat ég alveg sofnað, loksins. Pabbi fattaði líka að setja saltvatn í nefið mitt og þá leið mér betur. Svo klukkan sex vaknaði ég og fannst bara vera komin dagur, en það var ekki almenn stemmning fyrir því. Svo þá fékk ég að drekka og lék mér svo bara að tánum mínum og svona í smá stund og sofnaði svo aftur. Þannig að mamma og pabbi voru dauðþreytt í morgun og sváfu yfir sig og stóri bróðir var næstum orðinn of seinn til tannlæknis. En það slapp og hann var rosalega duglegur og ekki með neinar holur.

miðvikudagur, mars 05, 2003

Ó þetta, var ekki ég heldur Rósa Elísabet... Getur maður ekki séð einhvers staðar í hvaða nafni maður er loggaður inn? Annars er ég að reyna að uppfæra template-ið og það bara gengur ekki, bara komið eitthvað gamalt template, meira að segja breytingar sem ég gerði í gær og voru komnar inn eru farnar aftur. Þannig að Fúlhildur mín, ég vona að þú sért ekki fúl, ég er að reyna að setja link á þitt blogg líka.
Vei, ég fékk umslag til að leika mér með, það er sko langskemmtilegasta dót sem ég veit! Annars ætlaði ég bara að segja að ég svaf mjög vel í alla nótt, frá sirka hálftíu til sjö í morgun, þó hjúkrunarkonan í skoðuninni í gær segi að ég sé allt of lítil til þess. Svo var hún ekkert ánægð með að mamma væri að gefa mér mat. Humm, humm, ég er nú næstum sex mánaða og allt sem mamma hefur lesið segir að þá eigi ég að fá graut. Annars finnst mér nú best að borða umslag, nammnamm. Og mjólkurkex, og líka mandarínu.