mánudagur, desember 08, 2003

Alltaf nóg að gera

Já, það má nú segja að það er alltaf nóg að gera hjá okkur mömmu. Mamma er nú svo dugleg þessa dagana að ég veit ekki hvað er eiginlega í gangi með hana, hún er alltaf að sparsla og baka og taka til í bílskúrnum og ég veit bara ekki hvað og hvað. Á föstudaginn ætluðu þau pabbi í búðarferð og Linda ætlaði að koma að passa okkur, en svo var hún bara lasin greyið. Svo við Sigurður Pétur fengum að fara til ömmu og afa í smástund, ég var nú ánægð með það og fór strax að tygja mig þegar mamma sagði að ég ætti að fara til afa og ömmu.

Á laugardaginn fórum við á Garðatorg að sjá þegar það var kveikt á jólatrénu, þar var voða fín tónlist sem ég var heldur betur hrifin af, ég var eiginlega bara alveg dáleidd. Svo komu jólasveinar og ég var ekki alveg jafn hrifin af þeim.

Linda greyið var ennþá veik á laugardaginn og mamma og pabbi voru að fara í jólahlaðborð svo Sunna frænka kom og passaði okkur í smástund. Hún ætlaði nú bara ekki að trúa því hvað ég er góð að fara að sofa, ég leggst nefnilega oftast bara niður með snuddurnar mínar tvær og ligg svo stillt og góð þangað til ég sofna. Hún meira að segja kom og kíkti á mig af því hún var svo hissa á þessu, ég veit það vegna þess að ég var ekki sofnuð þá. En ég var nú ekki að láta það trufla mig og hélt bara áfram að kúra mig þangað til ég sofnaði. Svo var ég voða góð við mömmu og leyfði henni að sofa alveg til sjö í gærmorgun. Þegar ég var svo búin að leggja mig fórum við í afmælisveislu til ömmu Ingu Rósu, ég fékk margt gott þar, til dæmis jarðarber, heitan rétt og kókosmakkarónur. Svo var ég með atriði, mamma söng og ég dansaði og dillaði mér eins og ég er búin að læra hjá dagmömmunni. Ég sýndi Höfuð, herðar, hné og tær, Við erum söngvasveinar og Í skóginum stóð kofi einn. Þetta vakti mikla lukku, allir klöppuðu fyrir mér og ég hrópaði meira meira eftir hvert lag. Nú þarf ég bara að vera dugleg að æfa mig fyrir jólaballið sem ég ætla að fara á um næstu helgi.

Engin ummæli:

Skrifa ummæli