miðvikudagur, nóvember 22, 2006

Stórafmæli

Í dag er hún Sunna frænka mín hvorki meira né minna en 30 ára! Til hamingju með daginn Sunna mín, ég vildi að ég gæti komið að heimsækja þig alein, mamma á að vera heima að passa Guðmund Stein á meðan.

Og hann afi minn Jón er nýorðinn 75 ára, til hamingju með það afi minn! Við fórum í veislu til hans á sunnudaginn. Ég var pínu ringluð með það hvar veislan ætti að vera, ég hélt að við myndum kannski fara til Akureyrar en mamma sagði mér að veislan yrði í Reykjavík. Svo ég var voða spennt að fara til Reykjavíkur í veislu og var alla leiðina í gegnum Garðabæ og Kópavog að spyrja hvort við værum núna komin til Reykjavíkur. Það var ótrúlega gaman í veislunni, ég var allan tímann að lita og spila við Silju frænku mína og líka fleiri krakka sem ég þekki ekki. Ég var ekkert feimin, ég sagði þeim hvað ég er gömul og hvað leikskólinn minn heitir.

Í gær var sundnámskeið og eftir námskeiðið átti ég nokkur gullkorn:
Mamma: Við verðum að drífa okkur svo pabbi komist á fundinn.
Rósa: Hvað gerist ef hann kemst ekki á fundinn? Missir hann vinnuna?
-
Rósa (við tvöfaldar útidyrnar í íþróttahúsinu): Þarna er önnur hurð. Er þetta aukahurð? Ef hin fýkur af?
-
Rósa: Hvað varstu að segja við manninn?
Mamma: Ég var að segja að það væru menn niðri og þar gæti hann kannski fengið að hringja.
Rósa: Hvað heldurðu að þeir segi við hann? Heldurðu að þeir segi, "þú ert svikari!"

laugardagur, nóvember 18, 2006

Allir hressir

Já, hvað gerðist. Það var nú bara þannig að ég var að hlaupa með vinkonu minni og ég var að leiða hana með báðum höndum fyrir aftan bak. Svo datt ég og þá gat ég ekkert borið fyrir mig hendurnar svo ég stakkst bara beint á ennið. En kúlan er búin að hjaðna mikið og ég er orðin eldhress aftur, sem betur fer.

Gabríel er líka eldhress, hann var voða mikið grey því hann var í "klippingu" hjá dýralækninum. En hann er alveg búinn að jafna sig á því, honum finnst bara dálítið leiðinlegt að þurfa að vera með skerm um hausinn.

fimmtudagur, nóvember 16, 2006

Lítill kiðlingur

Nú er ég alveg eins og einhyrndur kiðlingur, með stóran hnýfil út úr enninu. Mamma kom og sótti mig í leikskólann og sat með mig í fanginu, og pabbi keypti verðlaun handa mér. Ég var algjört grey, en sem betur fer er ég öll að hressast núna.

sunnudagur, nóvember 12, 2006

Brabra

Ég var að mála mynd og ætlaði að biðja mömmu að hjálpa mér, svo ég spurði hana hvort hún kynni að mála önd. Mamma heyrði eitthvað ekki nógu vel í mér og spurði til að vera viss, "önd, svona sem segir brabra?". "Neinei", sagði ég, "bara þegjandi önd".

föstudagur, nóvember 10, 2006

Meiri hundasögur

Aftur er komið óveður, og í nótt fauk stórt rusl inn í garðinn okkar. Gabríel, varðhundurinn mikli, áttaði sig strax á því að þarna var illskeytt glæparusl á ferð og gelti sem óður væri þangað til mamma gafst upp á honum og lét hann sofa inni í herbergi hjá sér. Í morgun hringdi svo síminn hennar mömmu. Hún skildi ekkert hvar síminn var, en fann hann á endanum inni í hundabúrinu! Það sást samt ekkert á honum, Gabríel hafði ekkert nagað hann og hefur örugglega bara ætlað að hringja í tíkina hinum megin við götuna sem hann er svo ægilega skotinn í þessa dagana.

sunnudagur, nóvember 05, 2006

Ekki hundi út sigandi

Nei, það er bókstaflega ekki hundi út sigandi, alla vega ekki okkar hundi. Hann er voða órólegur yfir þessu óveðri greyið en sem betur fer vaknaði hann þegar pabbi fór á flugvöllinn í nótt og fór þá út í garð. Svo hann ætti ekki að þurfa að pissa í sófann alveg strax (Gabríel þá auðvitað, ekki pabbi). Pabbi er líka grey, hann hangir úti á flugvelli og bíður eftir að það verði flogið, sem verður ábyggilega ekki fyrr en einhvern tímann seint í dag. En það er alltaf í athugun eftir klukkutíma og svo annan og annan, svo hann neyðist til að hanga þarna og bíða.

Í gær var ég í afmæli hjá vinkonu minni af leikskólanum, og Lína langsokkur kom í afmælið! Það var sko ekkert smá flott, hún söng og dansaði með okkur og svo ætlaði hún að stinga skeið beint í afmæliskökuna. En við kenndum henni hvernig maður á að borða afmælisköku og þá gerði hún alveg eins og við.

miðvikudagur, nóvember 01, 2006

Frí og fjör

Í síðustu viku var vetrarfrí í skólanum hjá Sigurði Pétri, svo ég fékk aukafrí í leikskólanum mínum og við fórum að heimsækja ömmu og afa á Akureyri. Það er náttúrulega ekki að spyrja að því, alltaf jafn notalegt að koma þangað og margt skemmtilegt að gera. Amma fór með okkur í jólahúsið og út í garð að búa til snjókarl, og afi sýndi okkur safnið sitt (Iðnaðarsafnið). Pabbi fór með okkur í bíó og svo vorum við systkinin rosa dugleg að leika saman úti og inni. Guðmundur Steinn var eins og engill, svaf báðar leiðir í bílnum og var ekki með neitt vesen eins og ég þegar ég fór í fyrsta skipti að heimsækja ömmu og afa á Akureyri. Þá var ég álíka gömul og hann er núna, og þá kúkaði ég svo agalega á Brú í Hrútafirði að ég þurfti að fá ný föt frá toppi til táar. Og það var svo kalt á klósettinu þar sem skiptiborðið var að ég orgaði hástöfum allan tímann. Það var nú meira.

Gabríel fór á hundahótel. Það gekk bara vel en hann var nú svolítið skrítinn fyrst eftir að hann kom aftur heim. Það var eins og hann væri búinn að týna gleðinni sinni, en hann fann hana nú fljótt aftur sem betur fer.

Ég er byrjuð á sundnámskeiði tvisvar í viku, rosa skemmtilegt. Svo er ég líka á dansnámskeiði í leikskólanum, ég er alveg á fullu að læra eitthvað nýtt þessa dagana. Ég er líka alltaf að æfa mig að lesa og skrifa, á Akureyri bjó ég til kort og skrifaði á það "Tyl leikskólynn Ásar". Svo skrifaði ég líka alla skólana sem ég fer í, "Barnaskólynn", "Sjálandskóly" og "Garðaskóly".

Myndirnar eru komnar í mun betra lag en áður, svo ef einhverjir ætluðu að skoða skírnarmyndirnar en höfðu ekki þolinmæði til þess, þá er það hægt núna.