miðvikudagur, nóvember 01, 2006

Frí og fjör

Í síðustu viku var vetrarfrí í skólanum hjá Sigurði Pétri, svo ég fékk aukafrí í leikskólanum mínum og við fórum að heimsækja ömmu og afa á Akureyri. Það er náttúrulega ekki að spyrja að því, alltaf jafn notalegt að koma þangað og margt skemmtilegt að gera. Amma fór með okkur í jólahúsið og út í garð að búa til snjókarl, og afi sýndi okkur safnið sitt (Iðnaðarsafnið). Pabbi fór með okkur í bíó og svo vorum við systkinin rosa dugleg að leika saman úti og inni. Guðmundur Steinn var eins og engill, svaf báðar leiðir í bílnum og var ekki með neitt vesen eins og ég þegar ég fór í fyrsta skipti að heimsækja ömmu og afa á Akureyri. Þá var ég álíka gömul og hann er núna, og þá kúkaði ég svo agalega á Brú í Hrútafirði að ég þurfti að fá ný föt frá toppi til táar. Og það var svo kalt á klósettinu þar sem skiptiborðið var að ég orgaði hástöfum allan tímann. Það var nú meira.

Gabríel fór á hundahótel. Það gekk bara vel en hann var nú svolítið skrítinn fyrst eftir að hann kom aftur heim. Það var eins og hann væri búinn að týna gleðinni sinni, en hann fann hana nú fljótt aftur sem betur fer.

Ég er byrjuð á sundnámskeiði tvisvar í viku, rosa skemmtilegt. Svo er ég líka á dansnámskeiði í leikskólanum, ég er alveg á fullu að læra eitthvað nýtt þessa dagana. Ég er líka alltaf að æfa mig að lesa og skrifa, á Akureyri bjó ég til kort og skrifaði á það "Tyl leikskólynn Ásar". Svo skrifaði ég líka alla skólana sem ég fer í, "Barnaskólynn", "Sjálandskóly" og "Garðaskóly".

Myndirnar eru komnar í mun betra lag en áður, svo ef einhverjir ætluðu að skoða skírnarmyndirnar en höfðu ekki þolinmæði til þess, þá er það hægt núna.

2 ummæli:

  1. Nafnlaus2:14 e.h.

    Ég sé að móðurbróðir þinn hefur verið að kenna þér, hann vill taka alfarið upp y í stað i.

    SvaraEyða
  2. Ég var að skoða skírnarmyndirnar með Heiðu Rachel og alltaf gelti hún þegar hún sá skírnartertuna (sem var b.t.w. ekkert smá flott). Skil ekki alveg tenginguna hjá dóttur minni samt.

    Greinilega fallegur og skemmtilegur dagur og get ekki beðið eftir að sjá Guðmund Stein og ykkur öll náttúrlega. Þór Sebastían er alveg að hamast við að stækka svo hann verði orðinn jafn stór og skáfrændi hans þegar þeir loksins hittast um jólin.

    Saknaðarkveðjur frá Englandinu.

    SvaraEyða