mánudagur, ágúst 27, 2007

Æðislegt

Það er svo gaman í skólanum, oftast þegar pabbi og mamma spyrja hvernig dagurinn hafi verið þá svara ég, það var æðislegt! Stundum segi ég reyndar að það hafi verið hundleiðinlegt og ég hati skólann, en þá er það yfirleitt af því að ég er eitthvað pirruð út í Guðmund Stein eða Gabríel. Svo hálfri mínútu seinna er það gleymt og þá var dagurinn aftur æðislegur. Í dag ætlar mamma hennar Kristínar Kolku vinkonu minnar að sækja okkur báðar og ég fæ að fara með þeim heim. Ég hlakka mikið til, það er svo langt síðan við höfum leikið saman, hún er bara nýkomin aftur úr sumarfríi. Ég er búin að brýna það vel og vandlega fyrir mömmu að hún eigi alls ekki að sækja mig.

fimmtudagur, ágúst 16, 2007

Skólastúlka

Og þá var loksins komið að því, eftir allt þetta sumarfrí, að ég byrjaði í skóla. Ég var búin að bíða lengi eftir þessum degi og síðustu dagana hérna heima áður en skólinn byrjaði var ég orðin mjög óþreyjufull. Mamma keyrði mig í skólann fyrsta daginn, ég byrjaði á því að fá skólaföt og skipta um föt því mér fannst ekki koma til greina að vera í öðru en skólafötum í skólanum. Svo bara dreif ég mig inn og fór að borða morgunmat, mundi varla eftir því að kveðja mömmu einu sinni. Dagurinn gekk mjög vel og ég var ánægð og upp með mér að vera orðin Barnaskólastúlka. Ég var nú samt dálítið lúin þegar ég kom heim og í smástund þurfti ég að sitja í mömmufangi og gráta svolítið. Eiginlega ekki yfir neinu sérstöku, ég var bara svona aum og lítil í mér í spennufallinu. En svo jafnaði ég mig alveg og daginn eftir var ég spennt og kát að fara í skólabílinn og kom svo heim með honum aftur í lok dagsins. Mikið fannst mömmu ég vera orðin stór og dugleg stúlka.

Pabbi er í útlöndum að vinna. Í skólanum í dag skrifaði ég honum bréf og bað mömmu að fara með það á pósthúsið. Það er sko ekki hægt að senda það í tölvunni því það er búið að skrifa það á blað. Pabbi reyndar kemur heim á morgun, en bréfið á samt fyrst að fara til hans fyrst. Það er svona:
Elsku pabi ég vona að ðú komi heim frá Rósu knús go kosar

Síðasti kafli í sumarfríinu

Við enduðum sumarfríið á því að fara í Víðihlíð í nokkra daga. Það var mjög notalegt eins og alltaf, og alltaf jafn gaman að þvælast um móana, finna krækiber og fjallagrös og lúpínufræ til að borða, gleym-mér-eiar (hvernig skrifar maður það eiginlega? ekki eyjar...) til að líma á sig, greinar, spýtur, steina og alls kyns gersemar. Eins og oft áður skoðuðum við þjóðveldisbæinn og Hjálparfoss, fórum í sund í Reykholti og borðuðum ís í Árnesi. Við stóru systkinin fengum að fara á hestbak á Hestakránni og ég fékk að fara heillangt út fyrir gerðið, þó ég sé bara fjögurra ára. Mamma sagði að ég hefði fengið að fara eins langt og átta ára! Sigurður fékk samt að fara aðeins lengra, enda er hann tíu ára og búinn að fara á tvö hestanámskeið.

Eftir allt þetta sumarfrí var síðan alveg ágætt að koma heim og slappa af. Þegar við vorum búin að vera heima í svona tvo-þrjá daga tók ég upp á því að skríða upp í rúm undir hádegið og leggja mig í svona klukkutíma. Ég var greinilega orðin dálítið þreytt eftir allt fjörið í fríinu.

mánudagur, ágúst 13, 2007

Áfram um sumarfríið

Jæja, næsta verkefni í sumarfríinu var að fara til Þýskalands. Það var nú ekki lítið sem við systkinin vorum búin að bíða eftir því, og við áttum í smá vandræðum með að fara að sofa nóttina áður. Við áttum hins vegar ekkert erfitt með að vakna um miðja nótt og drífa okkur út á flugvöllinn. Þetta var allt svo ótrúlega spennandi, við sváfum ekkert í flugvélinni og heldur ekkert í bílaleigubílnum á leiðinni í húsið. Ég átti kannski smá erfitt með skapið mitt, og fékk til dæmis dálítið mikið brjálæðiskast yfir helvítis ógeðslega smábarnastólnum sem ég átti að sitja í. Svo kom í ljós að hann var hvort sem er of lítill, svo ég fékk sem betur fer sessu í staðinn. Þegar við komum síðan í húsið hittum við Silju frænku og alla frændurna og ég var aldeilis ekki á því að ég væri neitt þreytt, ónei alls ekki! Ég vildi endilega fara út að leika og var í miklu fjöri alveg fram á kvöld, þá loksins samþykkti ég að leggjast út af og ég held ég hafi verið sofnuð áður en ég var búin að loka augunum.

Nú, svo var náttúrulega bara endalaust fjör hjá okkur. Við hittum ættingja okkar í Þýskalandi á veitingastað í kastala, við krakkarnir lékum okkur í kastalanum og fórum margar ferðir upp í turninn, ótrúlega spennandi og skemmtilegt. Við fórum líka í siglingu á ánni Neckar sem rann þarna um, skoðuðum húsið þar sem amma Gisela átti heima, fórum í tívolí, sundlaugagarð, dýragarð, og náttúrulega lékum okkur saman frændsystkinin.

Síðustu nóttina voru allir farnir nema við fjölskyldan og afi Jón, og þá gistum við í kastalanum sem var rétt hjá okkur. Það var mjög spennandi og ævintýralegt. Við löbbuðum niður í þorpið, sem var mjög erfitt, það voru eitthvað yfir hundrað tröppur (ég taldi þær allar en við mamma erum búnar að gleyma tölunni). Við höfðum ætlað að kíkja í búðir en þetta var pínulítið þorp og allar búðir voru lokaðar á laugardegi. Svo kom allt í einu hellidemba svo þá flýðum við inn á næsta kaffihús og fengum okkur ís. Svo þrömmuðum við upp allar tröppurnar aftur, mamma og pabbi með Guðmund Stein í kerrunni á milli sín. Það var ekki auðvelt.

Við fórum svo í flugvélina heim seint um kvöld. Þá vorum við orðin frekar lúin og alveg til í að leggja okkur, Guðmundur Steinn sofnaði áður en vélin var komin á loft en ég skoðaði litabókina sem ég fékk og borðaði matinn hans Guðmundar Steins, bað svo um teppi og steinsofnaði á stundinni. Það var síðan ósköp notalegt að koma heim og leggjast í rúmið sitt.

laugardagur, ágúst 11, 2007

Sumarfríið

Þá er þessu sumarfríi um það bil að ljúka, og loksins loksins fæ ég að fara í Barnaskólann. Ég byrja á mánudaginn, ekki á morgun heldur hinn, og hlakka mikið til að byrja í skólanum og hitta allar vinkonur mínar aftur.


Við erum búin að þvælast ýmislegt í fríinu. Við byrjuðum á því að skella okkur í útilegu vestur á Skarðsströnd. Það var dálítið langt að keyra og tók langan tíma að finna stað til að tjalda á. Ég var orðin dauðþreytt á þessu þegar við loksins komumst í tjaldið seint um kvöld, og um nóttina hélt mig áfram að dreyma um þetta vesen svo ég kvartaði upp úr svefni, "ég nenni ekki að bíða svona lengi!". Við höfðum það annars mjög fínt í tjaldinu, skoðuðum okkur um á svæðinu, fórum í sund og svona þetta hefðbundna. Við fórum líka í siglingu og gönguferð um Skáleyjar með leiðsögn, það var mjög skemmtilegt. Við enduðum svo útileguna á að koma við á víkingabænum að Eiríksstöðum og það fannst okkur systkinunum alveg frábært. Við fengum meira að segja að kaupa víkingadót, sem var nú eiginlega toppurinn.


Og þetta var fyrsta vers, meira síðar þar sem við Guðmundur Steinn nennum ekki að leyfa mömmu að vera í tölvunni lengur.

miðvikudagur, ágúst 01, 2007

Heimspekilegar umræður við kvöldmatarborðið

Sigurður Pétur: Ég veit hvað er erfið spurning. Hvernig skapaðist heimurinn.
Rósa Elísabet: Það er nú ekki erfitt. Hver skapaði heiminn, það er Guð.
Sigurður Pétur: Og hver var fyrsti maðurinn, það er líka erfið spurning.
Rósa Elísabet: Nei það er ekkert erfitt, fyrsti maðurinn var í gamla daga.

Svona er nú lífið miklu einfaldara þegar maður er fjögurra ára heldur en tíu ára.

P.s. Erum á kafi í sumarfríi, fréttir af okkur koma síðar