Við enduðum sumarfríið á því að fara í Víðihlíð í nokkra daga. Það var mjög notalegt eins og alltaf, og alltaf jafn gaman að þvælast um móana, finna krækiber og fjallagrös og lúpínufræ til að borða, gleym-mér-eiar (hvernig skrifar maður það eiginlega? ekki eyjar...) til að líma á sig, greinar, spýtur, steina og alls kyns gersemar. Eins og oft áður skoðuðum við þjóðveldisbæinn og Hjálparfoss, fórum í sund í Reykholti og borðuðum ís í Árnesi. Við stóru systkinin fengum að fara á hestbak á Hestakránni og ég fékk að fara heillangt út fyrir gerðið, þó ég sé bara fjögurra ára. Mamma sagði að ég hefði fengið að fara eins langt og átta ára! Sigurður fékk samt að fara aðeins lengra, enda er hann tíu ára og búinn að fara á tvö hestanámskeið.
Eftir allt þetta sumarfrí var síðan alveg ágætt að koma heim og slappa af. Þegar við vorum búin að vera heima í svona tvo-þrjá daga tók ég upp á því að skríða upp í rúm undir hádegið og leggja mig í svona klukkutíma. Ég var greinilega orðin dálítið þreytt eftir allt fjörið í fríinu.
Engin ummæli:
Skrifa ummæli