laugardagur, ágúst 11, 2007

Sumarfríið

Þá er þessu sumarfríi um það bil að ljúka, og loksins loksins fæ ég að fara í Barnaskólann. Ég byrja á mánudaginn, ekki á morgun heldur hinn, og hlakka mikið til að byrja í skólanum og hitta allar vinkonur mínar aftur.


Við erum búin að þvælast ýmislegt í fríinu. Við byrjuðum á því að skella okkur í útilegu vestur á Skarðsströnd. Það var dálítið langt að keyra og tók langan tíma að finna stað til að tjalda á. Ég var orðin dauðþreytt á þessu þegar við loksins komumst í tjaldið seint um kvöld, og um nóttina hélt mig áfram að dreyma um þetta vesen svo ég kvartaði upp úr svefni, "ég nenni ekki að bíða svona lengi!". Við höfðum það annars mjög fínt í tjaldinu, skoðuðum okkur um á svæðinu, fórum í sund og svona þetta hefðbundna. Við fórum líka í siglingu og gönguferð um Skáleyjar með leiðsögn, það var mjög skemmtilegt. Við enduðum svo útileguna á að koma við á víkingabænum að Eiríksstöðum og það fannst okkur systkinunum alveg frábært. Við fengum meira að segja að kaupa víkingadót, sem var nú eiginlega toppurinn.


Og þetta var fyrsta vers, meira síðar þar sem við Guðmundur Steinn nennum ekki að leyfa mömmu að vera í tölvunni lengur.

Engin ummæli:

Skrifa ummæli