fimmtudagur, október 27, 2005

Um ritskoðun

Mömmu minni finnst ástæða til að vekja athygli á því að það sem er skrifað í athugasemdir hérna á síðunni verður ekki ritskoðað, ólíkt því sem gerist sums staðar. Og hafðu það, Tuðmundur! ;-)

miðvikudagur, október 26, 2005

Júlía Jökulrós

Frænka mín er búin að fá nafn í ósköp fallegri athöfn í Hjallabrekkunni hjá ömmu og afa. Og eins og ég vissi þá heitir hún Rós, að vísu ekki Svanhildur Rós, heldur Júlía Jökul Rós (eins og ég túlka það). En ég er búin að breyta nafninu í bara Jökul. Þannig að hún frænka mín heitir semsagt bara Jökul. Það finnst mér alveg ljómandi fallegt nafn.

Við mamma fórum niður í bæ í fyrradag með Sunnu og Jökul og vinkonum Sunnu. Við löbbuðum lengst lengst, ég var rosa góð í litlu kerrunni, fékk snúð og gaf öndunum restina þegar ég var búin að borða súkkulaðið. Það voru margir margir í bænum að syngja og kalla og alls konar, ég vildi auðvitað líka vera með og fór að syngja "þegar fólkið fer að búa, fer storkurinn að fljúga". Þetta var mikið fjör.

þriðjudagur, október 18, 2005

Myndir

Til að sýna smá viðleitni eru komnar nýja myndir á netið. Nú er það leikskólinn frá apríl til september. Svo eru brúðkaups- og sumarmyndirnar næstar á dagskrá, þegar mamma og pabbi eru búin að finna þær...

mánudagur, október 17, 2005

Lasin og leið

Ég er lasin, með andstyggðarhósta og kulda (35 gráður). Það er gott að mamma mín veit að maður er líka lasinn þegar maður er með kulda en ekki hita, því hún fær þannig sjálf, og líka amma mín. Mér líður ósköp illa og er búin að reyna duglega á þolinmæðina hjá pabba og mömmu, ég reyni að biðja um eitthvað sem ég veit að ég fæ ekki, bara til að fá þau til að rífast við mig svo ég geti fengið útrás fyrir pirringinn og vanlíðanina, og ég lem þau og sparka og hendi mömmu fram úr rúminu. En svo á milli er ég ósköp ljúf og góð og kalla þau bestu pabba og mömmu í heimi, sem þau auðvitað eru :-)

þriðjudagur, október 11, 2005

Lítill haugur

Í morgun var ég haugur. Ég nennti ekki á fætur og tilkynnti mömmu og pabba að ég ætlaði bara að vakna á morgun. Þetta geri ég auðvitað aldrei um helgar, þá stekk ég fram úr rúminu ekki síðar en klukkan sjö! En þar sem í dag er virkur dagur og Sigurður Pétur var að fara í skólann, þá þurfti að reka mig fram úr rúminu. Svo mamma mín ákvað að grípa til þess vinsæla og vel reynda uppeldisráðs sem heitir mútur. Hún mútaði mér með því að þegar ég kæmi heim úr leikskólanum þá myndi amma mín passa mig. Þá var ég sko alveg til í að vakna í dag.

laugardagur, október 08, 2005

fimmtudagur, október 06, 2005

Tuttugu tennur

Hvorki meira né minna, hvítar og fínar! Ég fór nefnilega í fyrstu tannlæknisheimsóknina mína í gær. Mér fannst rosalega gaman og var mjög montin af fínu tönnunum mínum. Ég spurði mömmu nokkrum sinnum hvað þær væru aftur margar, svo ég gæti sagt pabba það þegar við kæmum heim. Ég var rosalega dugleg, ég fékk að sjá hvernig stóllinn fór upp og niður og breyttist í rúm, hvernig tannlæknirinn gat búið til rok og rigningu, og hvernig hún gat látið koma vatn í glas. Svo lét hún ryksuguna drekka vatnið, það var eina sem ég var ekki alveg sátt við því ég hafði ætlað að drekka það. Svo fékk ég að setjast í stólinn og sjá mynd af mér í sjónvarpinu, tannlæknirinn taldi tennurnar og við spjölluðum dálítið um tannburstun, og að síðustu fékk ég að velja mér verðlaun. Bara frábært :-)

mánudagur, október 03, 2005

En að öðru skemmtilegra

Ég fór í ótrúlega skemmtilega jeppaferð um helgina með vinnufélögum pabba og mömmu. Við gistum í litlu húsi á Vík, fórum brjálaða jeppaslóð og dúbbuðum Grýlu, sáum Grýluhús (leikmynd úr Bjólfskviðu) og ég fékk að renna mér í snjó. Svo var grill og partýfjör, ég fékk að vaka alveg til tíu og leika við krakkana. Ég var líka búin að vera dugleg að sofa í bílnum, mér finnst afskaplega notalegt að hlusta á Birtu og Bárð og sofa í bílnum. Í gær fórum við svo smá meiri jeppaleið, fórum í fjöruna og sáum brjálaðan sjó og fundum gamla flugvél. Ég ætla að fara einhvern tímann aftur og sýna Sigurði Pétri þetta allt saman, hann gat ekki komið með því hann þurfti að fara í gítartíma. En hann fékk að vera hjá Hauki frænda í staðinn og það var víst rosa fjör hjá þeim.

Takk, en nei takk

Við höfum ekki áhuga á að láta nota kommentin á síðunni minni til að auglýsa allar þær spennandi leiðir sem eru í boði til að verða ríkur á internetinu. Svo hér með verður kveikt á spamvörninni, vonandi á ég síðan eftir að lesa þetta eftir 15 ár og hrista hausinn yfir þessu spami út um allt. Eða jafnvel ennþá betra, spyrja mömmu hvað spam sé eiginlega...