laugardagur, júlí 05, 2008

Meira sumar

"Rauða" sumarið varði ekki lengi, það er aftur komið gott veður og er víst ennþá betra á Akureyri, en þangað erum við einmitt að fara :-) Pabbi og Sigurður eru búnir að vera þar síðan á þriðjudagskvöldið (Sigurður átti að vera að keppa á fótboltamóti en úlnliðsbrotnaði, en langaði samt að fara úr því þeir áttu flugmiða) og á morgun ætlum við mamma svo að keyra með Guðmund Stein og Gabríel. Svo erum við bara komin í sumarfrí og ætlum að gera eitthvað sem okkur dettur í hug, vonandi tjalda í góðu veðri og fara í sund og eitthvað fleira. Eftir viku ætlum við að elta Sunnu og Magga uppi, þau eru að koma til Íslands í smá frí og verða þá í tjaldvagni einhvers staðar. Amma og afi ætla líka að koma í útilegu einhvers staðar, og jafnvel Þórður og Erna líka, svo það verður örugglega mikið fjör....

miðvikudagur, júlí 02, 2008

þriðjudagur, júlí 01, 2008

Útsmogin

Ég er alltaf að æfa mig í að stjórna aðstæðum mér í hag. Um helgina vorum við í útilegu og ég var að reyna að fá pabba til að fara með mig að veiða þó það væri eiginlega afleitt veiðiveður, rok og sól. Hann ætlaði samt að fara aðeins með mig eftir kvöldmatinn, en svo komu gestir í tjaldið og allir voru að spjalla. Þá hvíslaði ég að mömmu svo enginn annar heyrði, "viltu segja svona við pabba, jæja ætlið þið ekki að drífa ykkur".

Og í gær fórum við mamma og Guðmundur Steinn til ömmu að búa til rabarbarasultu (í staðinn fyrir sultuna sem ég bjó til í skólanum og mamma missti í gólfið). Þá stakk ég upp á því við ömmu hvort það væri ekki tilvalið að búa til vöfflur úr því við værum komnar með svona glænýja og fína rabarbarasultu. Svo mætti maður bara ráða hvort maður fengi sér sultu. Mér þykir hún nefnilega ekki góð. En vöfflurnar fékk ég :-)