þriðjudagur, júlí 01, 2008

Útsmogin

Ég er alltaf að æfa mig í að stjórna aðstæðum mér í hag. Um helgina vorum við í útilegu og ég var að reyna að fá pabba til að fara með mig að veiða þó það væri eiginlega afleitt veiðiveður, rok og sól. Hann ætlaði samt að fara aðeins með mig eftir kvöldmatinn, en svo komu gestir í tjaldið og allir voru að spjalla. Þá hvíslaði ég að mömmu svo enginn annar heyrði, "viltu segja svona við pabba, jæja ætlið þið ekki að drífa ykkur".

Og í gær fórum við mamma og Guðmundur Steinn til ömmu að búa til rabarbarasultu (í staðinn fyrir sultuna sem ég bjó til í skólanum og mamma missti í gólfið). Þá stakk ég upp á því við ömmu hvort það væri ekki tilvalið að búa til vöfflur úr því við værum komnar með svona glænýja og fína rabarbarasultu. Svo mætti maður bara ráða hvort maður fengi sér sultu. Mér þykir hún nefnilega ekki góð. En vöfflurnar fékk ég :-)

Engin ummæli:

Skrifa ummæli