miðvikudagur, maí 28, 2008

VatnaskógurVatnaskógur var geggjaður! Við fórum í sveitaferð og sáum lömb fæðast, og ég fékk meira að segja að halda á lambi. Og við fórum í fjöruferð, að sigla á vatninu, í kassabíla, fjör í íþróttahúsinu, náttfatapartý, fengum pylsur og ís, og skemmtum okkur ótrúlega vel saman. Það var ekkert erfitt að fara svona að heiman, enda var ég með vinkonum mínum og kennurunum sem ég þekki svo vel. En það var samt líka voða gott að koma heim. Ég var líka ansi þreytt eftir ferðina, meira að segja nógu þreytt til að viðurkenna það :-)

laugardagur, maí 17, 2008

Hvítasunnan

Um síðustu helgi var hvítasunnuhelgin, og þá var heldur betur nóg um að vera hjá okkur. Á laugardeginum komu amma Gisela og afi Jón í heimsókn, borðuðu hjá okkur og amma æfði sig aðeins í að passa Guðmund Stein því hún ætlar að hugsa um hann hérna heima í Skrúðási á meðan við hin förum að sigla í Frakklandi í byrjun júní. Afi Jón gerði líka heilmiklar æfingar með fótunum, Guðmundi Steini finnst nefnilega svo gaman að sitja hjá honum á sköflungnum og hossast.

Á sunnudaginn fórum við svo í svolítið langt ferðalag, til Ólafsvíkur. Þar var veisla sem ég skemmti mér svoleiðis ótrúlega vel í, ég horfði á vídeó og borðaði kjúklingaleggi, hitti Emil frænda minn og spjallaði dálítið við hann, og ég kynntist stelpum sem voru með mér að leika með lestarteina og lest sem gat meira að segja keyrt á teinunum. Þetta var bara með skemmtilegri veislum sem ég hef farið í!

Og á mánudeginum var síðan afmælisveisla fyrir þá frændur mína Teit Helga og Berg Mána. Það er nú alltaf mikið fjör þegar við frændsystkinin hittumst, og í þetta sinn passaði ég mig að klæða mig þannig að ég gæti leikið úti, í síðasta afmæli var ég nefnilega í fínum kjól og gat ekki leikið úti eins og mig langaði svo mikið til.

Nú, vikan er líka búin að vera viðburðarík, bæði fimleikarnir og tónskólinn eru að klárast, ég er búin að vera á stífum fimleikaæfingum fyrir lokasýninguna í dag, og svo var sellóæfing fyrir skólaslitin þar sem ég átti að spila, en mamma reyndar misskildi póstinn frá skólanum og hélt að skólaslitin væru daginn eftir æfinguna, en ekki beint eftir hana sama dag, svo ég mætti á æfinguna en missti af að spila á sjálfum skólaslitunum.

Á mánudaginn rennur svo upp dagur sem er lengi búið að bíða eftir, þá fer ég með hinum börnunum í fimm ára skólanum í útskriftarferð í Vatnaskóg og við gistum þar í tvær nætur! Ég er búin að pakka niður í útskriftarpokann minn sem ég bjó til í skólanum, í honum eru náttfötin, tannbursti, svefnfélagi og bók.

mánudagur, maí 05, 2008

Stundum fer maður á kostum

Í gær var ég að leika við tvær vinkonur, við vorum í skólaleik og skólinn var í ferðalagi þar sem átti að fara að gista. Ég var kennarinn og þegar var kominn háttatími í leiknum þá sagði ég, "jæja farið nú að sofa krakkar mínir, þið megið reikna uppi í rúmi". Ég var sko ótrúlega góður kennari að leyfa þeim það.

En á föstudaginn, þá var Guðmundur Steinn kominn með eyrnabólgu og það lak ógeð út úr eyranu á honum. Ég var við hliðina á honum í bílnum og var eitthvað að fárast yfir þessu, svo mamma fór að segja mér frá því þegar ég var lítil og fékk eyrnabólgur. Svo spjölluðum við eitthvað um það, svo langaði mig að heyra fleiri sögur og sagði við mömmu, "segðu mér meira frá því ég var lítil, samt ekki um eyrnabólgu, ég fæ taugaáfall ef ég heyri meira um eyrnabólgu!"

sunnudagur, maí 04, 2008

Mánuður liðinn

Það verða komin jól aftur áður en maður veit af! Á þessum mánuði síðan ég skrifaði síðast er margt skemmtilegt búið að gerast. Við fórum til Akureyrar að heimsækja ömmu og afa, þar fór ég í skíðaskóla og varð algjör skíðasnillingur. Skólinn var frá tíu til tvö bæði laugardag og sunnudag, og við fengum pizzu í hádeginu. Ég eignaðist margar vinkonur og skemmti mér konunglega. Helst vildi ég ekkert hætta að renna mér þó ég væri orðin alveg dauðþreytt og stæði varla í lappirnar.

Mamma og pabbi fóru til Marokkó og það var víst mjög gaman og mikil upplifun. Þau fóru meira að segja í loftbelg og allt. Við Guðmundur Steinn vorum fyrst hjá ömmu og afa í tvo daga og svo fengum við að fara til Silju og gista þar eina nótt. Ég keppti á fyrsta fimleikamótinu á meðan mamma og pabbi voru í Marokkó, á Ponsumóti þar sem ég stóð mig auðvitað mjög vel þó við ynnum nú ekki. Afi fór með mér og tók fullt af vídeómyndum svo mamma og pabbi gætu séð hvað ég var flink.

Ég er mikið búin að vera úti í góða veðrinu, á trampólíni og í heita pottinum og svo er ég búin að vera mjög dugleg að æfa mig á línuskautum. Það er svo gaman þegar vorið er komið og hægt að vera úti að leika.