sunnudagur, maí 04, 2008

Mánuður liðinn

Það verða komin jól aftur áður en maður veit af! Á þessum mánuði síðan ég skrifaði síðast er margt skemmtilegt búið að gerast. Við fórum til Akureyrar að heimsækja ömmu og afa, þar fór ég í skíðaskóla og varð algjör skíðasnillingur. Skólinn var frá tíu til tvö bæði laugardag og sunnudag, og við fengum pizzu í hádeginu. Ég eignaðist margar vinkonur og skemmti mér konunglega. Helst vildi ég ekkert hætta að renna mér þó ég væri orðin alveg dauðþreytt og stæði varla í lappirnar.

Mamma og pabbi fóru til Marokkó og það var víst mjög gaman og mikil upplifun. Þau fóru meira að segja í loftbelg og allt. Við Guðmundur Steinn vorum fyrst hjá ömmu og afa í tvo daga og svo fengum við að fara til Silju og gista þar eina nótt. Ég keppti á fyrsta fimleikamótinu á meðan mamma og pabbi voru í Marokkó, á Ponsumóti þar sem ég stóð mig auðvitað mjög vel þó við ynnum nú ekki. Afi fór með mér og tók fullt af vídeómyndum svo mamma og pabbi gætu séð hvað ég var flink.

Ég er mikið búin að vera úti í góða veðrinu, á trampólíni og í heita pottinum og svo er ég búin að vera mjög dugleg að æfa mig á línuskautum. Það er svo gaman þegar vorið er komið og hægt að vera úti að leika.

Engin ummæli:

Skrifa ummæli