föstudagur, desember 23, 2005

Gleðileg jól


Þá eru þau loksins að koma, blessuð björtu jólin. Kertasníkir er kominn til byggða, jólatréð skreytt og bara eftir að klára að horfa á barnatímann og svo koma jólin.

Kæra fólk, ég vona að þið eigið gleðileg jól og smá frí. Bestu jólakveðjur frá okkur öllum.

þriðjudagur, desember 20, 2005

Gestir

Anna-Lind frænka mín er í heimsókn hjá okkur í smá skreppi frá Ameríku. Það er rosa gaman að fá að hafa hana hjá okkur. Svo kemur amma Gisela á morgun og afi Jón hinn daginn, svo það er gaman hjá okkur þessa dagana. Og svo eru bara átta dagar til jóla...

laugardagur, desember 17, 2005

Myndir

Loksins eru netmálin á heimilinu komin í samt lag og myndasafnið þar með komið í gang aftur. Og það eru meira að segja komnar nýjar myndir:
- Apríl og maí
- Júní
- Brúðkaupið
- Brúðkaupsferðin

föstudagur, desember 16, 2005

Máttur auglýsinga

Áðan var ég að horfa á auglýsingatímann. Þar var verið að auglýsa nokkuð sem mér fannst mjög spennandi og ég sagði við mömmu, "ég hlakka svo til að fá svona öðru vísi litinn hár, kannski fæ ég fjólublátt!"

Aðeins of flókið

Nú held ég að ég sé komin aðeins fram úr sjálfri mér. Í gær fékk ég að fara í Smáralind að leika á meðan mamma fór í búðirnar og á leiðinni heim keyptum við barnabox og hamborgara. Á meðan við biðum var ég að skoða stafina og þar stóð meðal annars barnabox. Mamma bentir mér á það og ég horfði á stafina og sagði baaaaarrrrnaaaaboxssssss, af hverju er ekkert s? Mamma reyndi að útskýra fyrir mér af hverju er ekkert s í barnabox en ég skildi það nú eiginlega ekki alveg, það á greinilega að vera s!

þriðjudagur, desember 13, 2005

Þetta er allt að koma

Nú kann ég að skrifa R og O og einhvers konar S líka svo ég er alveg að verða búin að læra að skrifa nafnið mitt. A er bara svolítið erfitt, en ég legg mig alla fram.

Ég er ótrúlega spennt fyrir auglýsingum þessa dagana, sérstaklega finnst mér Baby born auglýsingin heillandi og mig langar ótrúlega mikið í svoleiðis. Mamma var eitthvað að tala um að þetta væri eiginlega bara fyrir fjögurra ára og eitthvað, en mér finnst þetta sko alveg vera fyrir þriggja ára. Svo sagði ég, "mamma ég veit, við getum kaupið svona Baby born í Hagkaup!".

Og svo Giljagaur

Hann gaf mér ótrúlega flotta Bangsímon-sokka, þeir eru appelsínugulir og fjólubláir, og fjólublár er einmitt uppáhaldsliturinn minn. En ég þori ekki að kíkja ein í skóinn, ég fer alltaf upp í til pabba og mömmu þegar ég rumska einhvern tímann undir morgun. Svo held ég áfram að sofa þar, og síðan þegar ég vakna þá verður einhver að koma með mér að kíkja í skóinn. Ég er eitthvað hálfsmeyk við þetta allt saman.

mánudagur, desember 12, 2005

Stekkjastaur var fyrstur

Og hann gaf mér límmiða í skóinn, það fannst mér aldeilis ekki slæmt. En ég heyrði eitthvað skrýtið hljóð í morgun þegar ég var að fara á fætur og spurði mömmu hvað þetta hefði verið. Mamma sagði kannski jólasveinninn. Þá varð ég voða skrýtin í framan og stökk upp í fangið á mömmu þangað til ég var orðin viss um að það væri enginn jólasveinn á sveimi, mér stóð ekki alveg á sama.

laugardagur, desember 10, 2005

Jólin jólin

Jólin eru alveg að koma, ég tel reglulega á puttunum og það eru átta dagar til jóla (alltaf). Gabríel engill kemur á hverjum degi í leikskólann og segir okkur smá jólasögu, það er mjög skemmtilegt. Ég er búin að baka piparkökur og súkkulaðikökur og setja jólaljós í herbergið mitt. Ég veit ekki hvað mig langar í í jólagjöf, en mig langar í góða kartöflu í skóinn, óþekk börn fá nefnilega vonda kartöflu en góð börn fá góða kartöflu. Mamma er með einhverjar efasemdir, en ég veit sko alveg hvernig þetta virkar.

föstudagur, desember 02, 2005

Tunglið barasta úr bréfi er...

Engillinn var bara úr blaði og gat ekkert talað, það var Hjördís (kennari) sem talaði og sagði okkur englasögu. Mér fannst þetta mjög fyndið og skemmtilegt, og hlakka til að fá engilinn aftur í heimsókn í dag.

fimmtudagur, desember 01, 2005

Engill

Í dag kemur engill sem kann að tala í leikskólann minn. Hann ætlar að segja okkur sögu. Við fengum að vita þetta í gær og ég er sko búin að vera ótrúlega spennt að hitta alvöru talandi engil!

fimmtudagur, nóvember 24, 2005

Þetta var nú lítið mál

Ég fór til læknisins í morgun, andaði í smástund og það var vond lykt, og svo var ég allt í einu komin í annað rúm og við fórum heim. Ég skil ekkert í því að ég skyldi ekki sofna og læknirinn skyldi ekki taka rörið eins og mamma var búin að segja. Hún segir reyndar að ég hafi víst sofnað, en ég kannast ekkert við það. Ég var bara eldhress og viss um að ekkert hefði gerst og vildi bara labba sjálf þó ég væri eitthvað hálf óstöðug á fótunum. En ég jafnaði mig fljótt á því, svo fórum við bara heim og bökuðum og höfðum það gott heima.

föstudagur, nóvember 18, 2005

Meiri læknisheimsóknir

Í dag fór ég aftur til læknis. Ég er samt ekkert meira lasin, við vorum bara að láta eyrnalækninn kíkja á rörin mín. Og þá kom í ljós að annað rörið er ennþá í eyranu, sem það á ekki að vera, það er orðið svo gamalt að það á að vera dottið úr. Og þess vegna fékk ég víst svona illt í eyrað um daginn, það var ekki venjuleg eyrnabólga heldur sýking undan rörinu. Svo að í næstu viku fer ég aftur til hans og anda smá og sofna og svo tekur hann rörið.

Hvar er andinn?

Í gær fékk ég að fara til læknis, ég er búin að vera með svo vondan hósta undanfarið. Það var víst eitthvað flaut í lungunum mínum svo ég mátti fá svona til að anda, læknirinn útskýrði þetta allt saman og ég fylgdist náttúrulega vel með, var alveg með á hreinu hvernig þetta væri á litinn og hvað ég ætti að fá oft og allt saman. Svo fórum við mamma í apótekið til að kaupa þetta til að anda (pústið) og þá spurði ég mömmu, hvar er andinn? Svo keyptum við andann og ég fór heim og var mjög dugleg að anda.

miðvikudagur, nóvember 02, 2005

Litla rósin

Hún Nicole í Kanada sem heimsótti okkur í sumar sagði svo fallegt um nafnið hennar Júlíu Jökulrósar að okkur langar að segja ykkur frá því. Það var nokkurn veginn svona:
Í nafninu sér maður aftur tákn kvennanna í fjölskyldunni ykkar, rósina. Falleg leið til að halda áfram hefðinni og leyfa konunum í ætt ykkar að vera þetta fallega blóm sem minnir okkur á ástina :-)

þriðjudagur, nóvember 01, 2005

Takk fyrir mig

Takk allir sem voru svo góðir að passa mig um helgina á meðan pabbi og mamma og afi og amma voru í útlöndum. Það vildi nú svo óheppilega til að kvöldið áður en þau fóru fékk ég hræðilegan verk í eyrað. Svo það var brunað á læknavaktina og ég var komin með eyrnabólgu og fékk meðal. Mér var hræðilega illt og gat ekki sofnað fyrr en mamma var búin að pína í mig verkjalyf. En svo um nóttina sprakk eyrað mitt og þá leið mér miklu betur, svo þegar ég vaknaði klukkan fimm þegar mamma og pabbi voru að fara þá var ég bara hress og glöð að fá Þórð frænda minn til að passa mig.

Hann keyrði mig svo í leikskólann og sótti mig aftur í vonda veðrinu og keyrði mig til Silju frænku. Þar fékk ég að vera alveg fram á sunnudag og ég fékk meira að segja að fara eina ferð á sleða af því að ég var alveg hress og það voru allir úti að leika á sleðum. Á sunnudaginn fór ég svo til Júlíu litlu frænku minnar og þar fékk ég að baka kanilsnúða, sjáið bara hvað ég var flott. Svo fór Þórður frændi minn með mig heim að sofa og þegar ég vaknaði voru mamma og pabbi komin heim.

fimmtudagur, október 27, 2005

Um ritskoðun

Mömmu minni finnst ástæða til að vekja athygli á því að það sem er skrifað í athugasemdir hérna á síðunni verður ekki ritskoðað, ólíkt því sem gerist sums staðar. Og hafðu það, Tuðmundur! ;-)

miðvikudagur, október 26, 2005

Júlía Jökulrós

Frænka mín er búin að fá nafn í ósköp fallegri athöfn í Hjallabrekkunni hjá ömmu og afa. Og eins og ég vissi þá heitir hún Rós, að vísu ekki Svanhildur Rós, heldur Júlía Jökul Rós (eins og ég túlka það). En ég er búin að breyta nafninu í bara Jökul. Þannig að hún frænka mín heitir semsagt bara Jökul. Það finnst mér alveg ljómandi fallegt nafn.

Við mamma fórum niður í bæ í fyrradag með Sunnu og Jökul og vinkonum Sunnu. Við löbbuðum lengst lengst, ég var rosa góð í litlu kerrunni, fékk snúð og gaf öndunum restina þegar ég var búin að borða súkkulaðið. Það voru margir margir í bænum að syngja og kalla og alls konar, ég vildi auðvitað líka vera með og fór að syngja "þegar fólkið fer að búa, fer storkurinn að fljúga". Þetta var mikið fjör.

þriðjudagur, október 18, 2005

Myndir

Til að sýna smá viðleitni eru komnar nýja myndir á netið. Nú er það leikskólinn frá apríl til september. Svo eru brúðkaups- og sumarmyndirnar næstar á dagskrá, þegar mamma og pabbi eru búin að finna þær...

mánudagur, október 17, 2005

Lasin og leið

Ég er lasin, með andstyggðarhósta og kulda (35 gráður). Það er gott að mamma mín veit að maður er líka lasinn þegar maður er með kulda en ekki hita, því hún fær þannig sjálf, og líka amma mín. Mér líður ósköp illa og er búin að reyna duglega á þolinmæðina hjá pabba og mömmu, ég reyni að biðja um eitthvað sem ég veit að ég fæ ekki, bara til að fá þau til að rífast við mig svo ég geti fengið útrás fyrir pirringinn og vanlíðanina, og ég lem þau og sparka og hendi mömmu fram úr rúminu. En svo á milli er ég ósköp ljúf og góð og kalla þau bestu pabba og mömmu í heimi, sem þau auðvitað eru :-)

þriðjudagur, október 11, 2005

Lítill haugur

Í morgun var ég haugur. Ég nennti ekki á fætur og tilkynnti mömmu og pabba að ég ætlaði bara að vakna á morgun. Þetta geri ég auðvitað aldrei um helgar, þá stekk ég fram úr rúminu ekki síðar en klukkan sjö! En þar sem í dag er virkur dagur og Sigurður Pétur var að fara í skólann, þá þurfti að reka mig fram úr rúminu. Svo mamma mín ákvað að grípa til þess vinsæla og vel reynda uppeldisráðs sem heitir mútur. Hún mútaði mér með því að þegar ég kæmi heim úr leikskólanum þá myndi amma mín passa mig. Þá var ég sko alveg til í að vakna í dag.

laugardagur, október 08, 2005

fimmtudagur, október 06, 2005

Tuttugu tennur

Hvorki meira né minna, hvítar og fínar! Ég fór nefnilega í fyrstu tannlæknisheimsóknina mína í gær. Mér fannst rosalega gaman og var mjög montin af fínu tönnunum mínum. Ég spurði mömmu nokkrum sinnum hvað þær væru aftur margar, svo ég gæti sagt pabba það þegar við kæmum heim. Ég var rosalega dugleg, ég fékk að sjá hvernig stóllinn fór upp og niður og breyttist í rúm, hvernig tannlæknirinn gat búið til rok og rigningu, og hvernig hún gat látið koma vatn í glas. Svo lét hún ryksuguna drekka vatnið, það var eina sem ég var ekki alveg sátt við því ég hafði ætlað að drekka það. Svo fékk ég að setjast í stólinn og sjá mynd af mér í sjónvarpinu, tannlæknirinn taldi tennurnar og við spjölluðum dálítið um tannburstun, og að síðustu fékk ég að velja mér verðlaun. Bara frábært :-)

mánudagur, október 03, 2005

En að öðru skemmtilegra

Ég fór í ótrúlega skemmtilega jeppaferð um helgina með vinnufélögum pabba og mömmu. Við gistum í litlu húsi á Vík, fórum brjálaða jeppaslóð og dúbbuðum Grýlu, sáum Grýluhús (leikmynd úr Bjólfskviðu) og ég fékk að renna mér í snjó. Svo var grill og partýfjör, ég fékk að vaka alveg til tíu og leika við krakkana. Ég var líka búin að vera dugleg að sofa í bílnum, mér finnst afskaplega notalegt að hlusta á Birtu og Bárð og sofa í bílnum. Í gær fórum við svo smá meiri jeppaleið, fórum í fjöruna og sáum brjálaðan sjó og fundum gamla flugvél. Ég ætla að fara einhvern tímann aftur og sýna Sigurði Pétri þetta allt saman, hann gat ekki komið með því hann þurfti að fara í gítartíma. En hann fékk að vera hjá Hauki frænda í staðinn og það var víst rosa fjör hjá þeim.

Takk, en nei takk

Við höfum ekki áhuga á að láta nota kommentin á síðunni minni til að auglýsa allar þær spennandi leiðir sem eru í boði til að verða ríkur á internetinu. Svo hér með verður kveikt á spamvörninni, vonandi á ég síðan eftir að lesa þetta eftir 15 ár og hrista hausinn yfir þessu spami út um allt. Eða jafnvel ennþá betra, spyrja mömmu hvað spam sé eiginlega...

þriðjudagur, september 27, 2005

Smá misskilningur

Ég var að reyna að útskýra fyrir mömmu að það var ekkert ég sem samdi þetta lag. Henni finnst þetta víst eitthvað undarlegur texti, en það voru sko fóstrurnar á leikskólanum sem kenndu mér þetta. Og þetta var þannig að strákurinn spurði stúlkuna hvort hún vildi koma með, hún sagðist þurfa að spyrja mömmu sína, og mamman sagði nei það máttu alls ekki.

Lítil saga

Í gærmorgun vaknaði ég með mikla andagift yfir mér og samdi lag og litla sögu sem ég söng fyrir mömmu og pabba. Sagan var nokkurn veginn svona:
Einu sinni var stúlka. Þá kom strákur og spurði hvort hún gæti komið að leika. Nei sagði mamma hennar. Stúlkan stökk þá út um gluggann. Þau fóru saman til Kína og eignuðust tvíbura. Svo komu þau aftur heim.

Afmælisveislur

Þá er búið að halda tvær afmælisveislur fyrir mig. Um síðustu helgi var smáveisla með tveimur vinkonum mínum úr leikskólanum og Hauki og Silju og Tuma tígur köku. Og svo núna um helgina komu tvær vinkonur mínar sem gátu ekki komið í hina veisluna, og amma Inga Rósa, afi Guðmundur, Sunna, Maggi, Svanhildur Pons, Þórður, Anna Margrét, Pétur, Haukur og Silja, og amma Gisela kom og var hjá okkur um helgina. Það var nú aldeilis gaman að hún skyldi geta komið í afmælið mitt. Og mamma gerði Bangsímon köku. Hún er með fegurri fyrirheit með hverjum deginum um að fara að taka sig á í myndamálum, kannski fáið þið að sjá einhverjar myndir fyrir jól alla vega...

sunnudagur, september 18, 2005

Þriggja ára!

Ég á afmæli í dag, orðin þriggja ára pæja. Silja frænka mín gisti hjá mér í nótt og við heyrðum krumma syngja afmælissönginn fyrir mig þegar við vöknuðum. Á eftir koma vinkonur mínar af leikskólanum í afmælisveislu, og svo fæ ég aðra afmælisveislu um næstu helgi fyrir afa og ömmu og frænkur og frændur.

miðvikudagur, september 14, 2005

Ein frétt í viðbót

Í gær datt ég í fyrsta skipti (og sennilega ekki síðasta) á hjólinu mínu. Ég er sko alveg brjáluð á tvíhjólinu, hjóla á fleygiferð og man yfirleitt aldrei eftir að bremsa. Við fórum öll saman í göngu/hjólatúr og mamma og pabbi voru nokkrum sinnum búin að grípa í mig og minna mig á að bremsa, en svo í eitt skiptið náði mamma mér ekki svo ég bara datt af hjólinu á fleygiferð. Sem betur fer var ég með hjálm því annars hefði ég örugglega meitt mig mjög mikið í hausnum. En ég slapp með skrekkinn, rispaðist bara á gagnauganu því ég var á svo mikilli ferð að ég rann eftir gangstéttinni eftir að ég lenti.

Fréttir

Það er mikið að gerast hjá mér þessa dagana. Ég er ógurlega spennt fyrir litlu frænku minni henni Svanhildi (ég á eftir að verða ægilega svekkt þegar hún verður skírð eitthvað allt annað). Hún er óskaplega lítil og sæt og kann ekki neitt. Ég ætla að vera mjög dugleg að kenna henni að labba og tala og allt þetta sem maður þarf að kunna. Enda er ég orðin stór fimleikastúlka, ég byrjaði sko í fimleikum síðasta laugardag. Ég missti reyndar aðeins kjarkinn fyrst, en þá kom mamma hlaupandi og huggaði mig og svo hélt hún á mér og gerði allar æfingarnar fyrir mig þangað til mér fannst ein æfingin nógu spennandi til að yfirvinna kjarkleysið. Eftir það hoppaði ég um eins og herforingi, skreið eins og kónguló, rúllaði mér, fór í kollhnísa aftur á bak og áfram og var algjör snillingur. Svo fórum við mamma í húsdýragarðinn og gáfum lömbunum og kálfunum snuddurnar mínar. Það var nú ansi stórt skref, aðallega fyrir mömmu held ég. En ég er búin að standa mig alveg eins og hetja, ég hef verið pínu óörugg þegar ég fer að sofa á kvöldin en þetta hefur samt gengið ótrúlega vel. Ég er líka alveg að verða þriggja ára. Ég er ótrúlega spennt og spyr mömmu á hverjum morgni hvort ég eigi núna afmæli. Og ég er búin að læra að segja plííís og ó mæ gaaad og gvuðminngóður.

laugardagur, september 03, 2005

Lítil frænka

Ég er búin að eignast litla frænku, litla barnið kom úr bumbunni hennar Sunnu áðan og það var lítil stúlka. Mér finnst að hún eigi að heita Svanhildur eins og dúkkan mín. Það gekk mjög vel, við vitum ekki hvað hún er stór en Maggi segir að hún sé roooosalega sæt :-) Við hlökkum mikið til að sjá hana og kynnast henni.

fimmtudagur, ágúst 25, 2005

Gufuð upp?

Já, það mætti halda að ég væri bara stein-týnd og tröllum gefin. En þannig liggur nú í því að hún mamma mín á eftir að skrifa svo mikið af sögum frá sumrinu og fara í gegnum svo mikið af myndum, að hún bara kemur sér ekki í að skrifa nokkurn skapaðan hlut. En burtséð frá því er allt gott að frétta af mér, ég er alveg alsæl á leikskólanum og mér líður ósköp vel að vera komin með lífið í fastar skorður. Ég fer stillt og prúð að sofa klukkan átta á kvöldin og vakna upp úr sjö og það finnst mér gott. Ég er nefnilega ekki svona kvöldmanneskja og svefnpurrka eins og pabbi og mamma. Ég er búin að eignast bestu bestu vinkonu á leikskólanum, það er hún Kristín Kolka. Við erum eins og samanlímdar samlokur alla daga. Ég er svolítið mikil pæja þessa dagana, ég vil helst fara í kjól í leikskólann og vera með spennur og teygjur og úr og sólgleraugu og hatt. Mamma segir samt að ég verði að geyma úrið og sólgleraugun og hattinn í hólfinu, en hún leyfir mér stundum að vera í kjól. Enda er hún besta mamma í heimi, eða það segi ég henni að minnsta kosti því þá gerir hún allt fyrir mig. Ég kann sko vel á hana mömmu mína!

föstudagur, ágúst 19, 2005

Hann á afmæli í dag

Elsku besti pabbi minn á afmæli í dag, húrra fyrir honum! Við systkinin sungum hátt og snjallt fyrir hann í morgun (tvisvar meira að segja), og svo gáfum við honum pakka og ég var svo góð að opna alla pakkana fyrir hann. Ég vildi nú fá að fara í kjól í leikskólann í tilefni dagsins, en mamma vildi endilega að ég færi í skólafötin mín. Ég fæ hins vegar að fara í kjól á morgun og þá kemur Silja frænka mín í veislu, húrra húrra!!!

miðvikudagur, ágúst 03, 2005

Búið sumarfrí

Þetta er nú búið að vera meira fjör-sumarið! Ég segi ykkur betur frá því bráðlega, en nú er ég aftur komin í leikskólann minn og er ósköp glöð með það. Það er líka fullt af myndum sem bíður eftir að komast á netið, vonandi verður mamma dugleg að fara í gegnum þær. Hér er alla vega ein, svo þið getið séð hvað við systkinin vorum fín í brúðkaupinu þeirra pabba og mömmu!

þriðjudagur, júlí 12, 2005

Komin heim í bili

Það er nú aldeilis búið að vera mikið um að vera núna. Mamma og pabbi eru búin að gifta sig, það var sko heldur betur flott. Fyrst fórum við í kirkjuna, ég var ósköp stillt og prúð og fín með blómvöndinn minn. Svo fórum við í myndatöku, en ég komst ekki á myndina af því ég var svolítið "önugsnúin". Þá fórum við Sigurður Pétur heim þar sem veislan var byrjuð, en mamma og pabbi voru áfram í myndatöku. Þegar þau komu síðan í veisluna beið ég úti á svölum, og þegar ég sá þau koma sagði ég, "ég verð að fara niður að knúsa þau". Svo hljóp ég niður, stökk upp um hálsinn á mömmu og sagði, "til hamingju með afmælið!". Það var mikið fjör í veislunni, en svo þegar við Sigurður Pétur vorum orðin dálítið þreytt fórum við til mömmu hans og ég fékk að gista þar. Daginn eftir fór ég svo í Húsdýragarðinn með ömmu Giselu og afa Jóni og öllum frændum mínum og frænkum, svo fór ég heim í Skrúðás í kvöldmat með öllum og svo í Hjallabrekku til ömmu Ingu Rósu og afa Guðmundar því mamma og pabbi voru að fara til útlanda. Þetta var nú svolítið erfitt allt saman og ég var svolítið lítil og vælin stundum, þó mér fyndist líka gaman að vera hjá ömmu og afa.

Þegar mamma og pabbi komu aftur fórum við svo í útilegu með Sigurði Pétri og Nicole, skiptinemamömmu hennar mömmu minnar frá Kanada. Amma Inga Rósa var líka samferða okkur fyrstu dagana, svo þetta var fullt af fólki og mikið fjör. Við keyrðum alveg helling, fórum í Skaftafell, Atlavík, Breiðuvík, Akureyri og yfir Sprengisand í Víðihlíð. Við gerðum líka ýmislegt skemmtilegt, sigldum á Jökulsárlóni, tíndum krækiber í Suðursveit, hlupum berfætt í sandinum í Breiðuvík og stungum tánum í ískaldan sjóinn og fórum í sund á Egilsstöðum og á Akureyri. Á Akureyri vorum við auðvitað hjá ömmu Giselu og afa Jóni og það var líka mikið fjör.

En nú er Nicole á leiðinni í flugvélina til Kanada og við ætlum að vera heima í nokkra daga áður en næsti skammtur tekur við. Það er ágætt að slappa aðeins af og reyna að róa sig aðeins niður, þó það sé gaman að vera svona í sumarfríi þá er það stundum pínulítið erfitt. Við ætlum líka bara að gera eitthvað skemmtilegt hérna heima, mamma er til dæmis búin að lofa að fara með mig í strætó. Það eru líka allir velkomnir í heimsókn til okkar, okkur finnst mjög gaman að fá gesti í kaffi.

fimmtudagur, júní 16, 2005

Skilaboð frá mömmu

Mamma mín vill í fyrsta lagi þakka kærlega fyrir draumagæsun; útivera, humar, geðveik terta, bústaður, pottur, rauðvín og góður félagsskapur, það gerist bara ekki betra! Í öðru lagi vill hún minna ykkur á brúðkaupsbloggið, og sömuleiðis hvetja ykkur til að kíkja á brúðkaupssíðuna.

Annars er það helst að frétta af mér að ég er laus við lungnabólguna (eða "hitabólguna") sem betur fer, og Sigurður Pétur er orðinn góður af hlaupabólunni. Nú bara bíðum við spennt eftir veislunni! Svo förum við líka bráðum í útilegu. Ég fékk Bangsímon svefnpoka í gær, ótrúlega flott. Ég skil bara ekki af hverju við getum ekki farið núna strax í útileguna. Þegar mamma segir að við förum bráðum í sumarfrí þá segi ég bara "ókei förum þá!". Skil ekki þetta vesen í pabba og mömmu að drífa sig ekki bara af stað.

föstudagur, júní 10, 2005

Þriðji kafli kominn

Og þá er bara einn kafli eftir af ferðasögunni. Annars er það helst að frétta af mér að ég er með lungnabólgu. Ég er samt mjög hress og í miklu fjöri, en dálítið pirruð og uppstökk. Amma Gisela og afi Jón komu loksins í gær, ég er búin að vera að bíða eftir þeim í marga daga. Þau ætla að vera niðri í sínu herbergi og ég sýndi þeim oft og mörgum sinnum hvar herbergið þeirra og rúmið þeirra væri. Ég var á leiðinni að fara að sofa þegar þau komu og ég vildi helst ekkert fara í rúmið fyrr en ég var búin að sjá þau fara inn í herbergið sitt, eða að minnsta kosti úr útifötunum. Ég vildi sko vera viss um þau myndu ekkert að fara aftur.

fimmtudagur, júní 09, 2005

Sumarfrí

Nú fer hver að verða langsíðastur að skrifa niður ferðasögu síðasta sumars, sérstaklega þar sem það er alveg að bresta á með brúðkaupi og útilegu og siglingu og alls kyns skemmtilegheitum. Það er kominn annar kafli á sumarfríssíðuna, og fleiri væntanlegir miklu fyrr en síðar.

miðvikudagur, júní 08, 2005

Afmælisveisla

Í gær fór ég á veitingastað með afa og ömmu sem áttu afmæli (30 ára brúðkaupsafmæli), pabba og mömmu, Þórði, Magga, Sunnu og bumbunni. Sigurður Pétur gat ekki komið af því hann er með hlaupabólu, aumingja hann. En ljósið mitt fékk að koma með (dúkkan mín). Ég ætlaði eiginlega bara að fá afmælisköku og engan mat, en svo fékk amma þá snilldarhugmynd að fá handa mér skyr og brauð með smjöri. Það var sko góður matur, ég smakkaði líka hörpuskel og skötusel hjá mömmu en mér fannst skyrið miklu betra. Svo fékk ég köku og ís. Ég söng líka afmælissönginn nokkrum sinnum fyrir ömmu og afa og gaf þeim pakka. Þetta var svo gaman og ég var í miklu fjöri.

mánudagur, júní 06, 2005

Mamma pissurass

Í gær fékk ég að fara í heita pottinn og svo fékk ég að horfa á Leitina að Jakobi í handklæðinu. Ég steinsofnaði yfir myndinni og mamma vakti mig í kvöldmatinn. Þá var ég búin að sofa allt of lengi og var dauðþreytt og úrill og bara alveg brjáluð. Ég öskraði og öskraði og vildi ekki neitt og mamma sat með mig allsbera í fanginu að reyna að hugga mig. Þá allt í einu pissaði ég, og náttúrulega beint á mömmu mína svo að hún varð pissublaut á rassinum. Það fannst mér fyndið.

föstudagur, júní 03, 2005

Sveitaferð

Í gær fór ég í sveitina með leikskólanum mínum og mömmu og Sigurði Pétri. Pabbi ætlaði líka að koma með, en svo þurfti hann að fara til útlanda, aumingja hann. Ég fór í rútu með litla kjarna, mér fannst ægilega gaman að vera aðeins litlakjarnastúlka aftur, annars er ég bara alveg komin á bláa kjarna og er alveg hæstánægð þar. Ég var mjög spennt að fara í sveitina og ætlaði sko að skoða öll dýrin og klappa hestunum og allt. En svo voru þeir svo stórir og hræðilegir að ég þorði ekki að klappa þeim. Og reyndar ekki heldur folöldunum eða hundunum eða kettlingunum eða lömbunum. En mér fannst nú samt voða gaman að skoða dýrin. Svo voru líka rólur og alls kyns leiktæki, og við fengum pylsur. Þetta var mjög skemmtilegt og ævintýralegt allt saman. Stóri bróðir fékk að taka fullt af myndum af dýrunum og við leyfum ykkur að sjá þær um leið og mamma er búin að fá tölvuna sína til að tala við myndavélina, þær eru eitthvað súrar hvor við aðra núna.

miðvikudagur, júní 01, 2005

Snillingafjölskylda

Það eru sko fleiri en ég sem eru snillingar í fjölskyldunni. Í gær sagði ég nýju kennurunum mínum á Bláa kjarna frá því hvað pabbi minn er mikill snillingur, hann getur meira að segja tengt vídeótækið niðri! :-) Þetta sagði ég þeim alveg í óspurðum fréttum, rétt eins og eitt af því síðasta sem ég ræddi við kennarana mína á Litla kjarna, sem var að útskýra fyrir þeim hvernig hvítu blóðkornin virka. Ég er með þetta allt saman alveg á hreinu, enda ætla ég að verða læknir þegar ég verð stór. Ekki tannlæknir, bara svona venjulegur læknir.

þriðjudagur, maí 31, 2005

Alltaf að stækka

Nú er ég orðin svo stór stúlka að ég er að fara að hætta á Litla kjarna. Ég fór í heimsókn á Bláa kjarna í gær og mér líst rosalega vel á hann, ég alveg nýt mín með öllum stóru stúlkunum, enda er ég svo mikill snillingur. Að vísu leist mér ekkert á þegar mamma fór að tala um að það væri ekki snuddubox á Bláa kjarna, þá ætlaði ég að hætta við allt saman. En þá dró mamma bara í land með þetta með snudduboxið, ég fæ alveg að hafa áfram snuddu í lúrnum.

fimmtudagur, maí 26, 2005

Nú má ég fara í leikskólann

Loksins! Ég er að vísu ennþá með einhverjar bólur, en þær eru ekki smitandi lengur og ég er ekkert lasin. Það verður örugglega fjör, það er líka svo gott veður og gaman að leika úti. Reyndar var ég dálítill haugur í morgun, vildi helst bara horfa á múmínálfana og fá saltstangir... En það var nú samt ágætt að drífa sig bara á fætur og í leikskólann.

mánudagur, maí 23, 2005

Bólabóla

Mamma var voða bjartsýn og hélt að ég myndi bara sleppa vel við hlaupabóluna. En það var víst ekki svo gott, ég er með bólur algjörlega alls staðar, á augnlokunum, í augnkrókunum, á tungunni og vörunum, í eyrunum, lófunum og barasta út um allt. Einu líkamspartarnir sem eru bólulausir enn sem komið er eru nefið og tásurnar. Þetta er búið að vera dálítið erfitt og ég er búin að sofa ósköp illa, en ég er ósköp dugleg að klóra mér ekki og uni mér ágætlega á daginn. Pabbi keypti DVD diska með Múmínálfunum og Línu Langsokk handa mér, og líka dúkku sem skælir. Ég var nú aldeilis alsæl með það skal ég segja ykkur.

föstudagur, maí 20, 2005

Ég má ekki fara í leikskólann í dag

Ég er nefnilega með hlaupabólur. Ég er samt ekkert mikið lasin, mér finnst þetta bara svolítið fyndið og spennandi að vera með svona bólur. Við vonum bara að þetta verði ekkert verra, þá sleppum við nú vel.

Í gær var einhver keppni í sjónvarpinu. Ég nennti nú ekkert að horfa á hana og var reyndar svo þreytt að ég fór bara að sofa. En stóri bróðir minn hins vegar horfði og var ósköp miður sín að Ísland skyldi ekki vinna. En við ætlum nú samt að hafa veislu og snakk á laugardagskvöldið þó Ísland fái ekki að vera með.

föstudagur, maí 13, 2005

Nýtt útlit

Maður þarf stundum að breyta til :-) Annars er allt gott að frétta af mér, ég er reyndar með hor og ljótan hósta en vonandi verður ekkert meira úr því. Amma Gisela og Haukur og Pétur og Silja ætla að heimsækja mig um helgina. Ég get alveg næstum ekki beðið. Og annað í fréttum er að ég kann eiginlega alla stafina og líka að greina í sundur hljóð og finna út hvaða staf orð eiga. Ég er ótrúlegur snillingur. Ef ég gæti nú bara hætt með snuddu, þá væri ég eiginlega bara orðin fullorðin, eða a.m.k. unglingur.

mánudagur, maí 09, 2005

Marsmyndir

Myndir frá leikskólanum hér og frá pabba og mömmu hér, meðal annars ótrúlega flottar skíðamyndir af mér.

Skemmtilegur sunnudagur

Í gær fór ég í sunnudagaskóla. Mamma segir reyndar að það heiti bara messa, það var nefnilega bara prestur en enginn kennari, kennarinn er sennilega farinn í sumarfrí. En það var samt svolítið gaman. Ég nennti reyndar lítið að hlusta á prestinn svo ég fór bara að syngja. Mamma var eitthvað að reyna að sussa á mig en þá fór ég að syngja hærra og þá fórum við fram í smástund. En svo fannst mér nú skemmtilegra þegar var verið að syngja, ég reyndi alltaf að syngja með og í eitt skiptið hélt ég aldeilis að ég þekkti lagið, þá var nefnilega sungið Aaaaaaa-men, en ég náttúrulega hélt bara áfram Aaaaaa, b, c, d :-)

Eftir messuna fór ég í bíltúr með pabba og Sigurði Pétri að kaupa blóm og nammi handa mömmu. Ég valdi nammið og tók fram að það mættu allir fá sér, ég vildi sko líka fá að smakka á namminu hennar mömmu. Svo steinsofnaði ég í bílnum og vaknaði við það að ég var að fara með mömmu og Sigurði Pétri á hátíð í Kópavogi. Það var mjög gaman, við fórum í brjálað tæki (pínulítið parísarhjól) þrisvar sinnum, sáum Ávaxtakörfuna og fengum okkur köku.

föstudagur, maí 06, 2005

Enn fleiri myndir

Afi er svo duglegur að setja inn brúðkaupsmyndir, nú eru komnar fleiri. Þetta eru allt myndir frá pabba og þið getið meðal annars séð mig á þeim, hvað ég var fín og sæt, rétt varla skriðin á lappir eftir streptókokkasýkingu. Og svo getið þið líka séð hvað ég tók mig vel út við háborðið, þar sem mér fannst ég náttúrulega algjörlega eiga heima!

miðvikudagur, maí 04, 2005

Myndir

Febrúarmyndirnar komnar

Brúðkaupsmyndir

Afi minn er kominn með myndir úr brúðkaupinu þeirra Sunnu og Magga, þetta eru bæði myndir sem amma og afi tóku, og pabbi minn. Kíkið endilega og sjáið hvað brúðhjónin voru sæt og fín. Og líka hvað afi og amma voru fín, afi var eins og snjókall!

mánudagur, maí 02, 2005

Ýmislegt að frétta

Það mætti halda að sumarið hefði gleypt mig, það er bara búið að vera þvílíkt mikið fjör að ég hef ekkert mátt vera að því að segja ykkur fréttir. Mamma og pabbi og afi eru búin að vera úti að smíða pallinn og við Sigurður Pétur höfum verið á fullu úti að leika í grasinu og moldinni og sulla í heita pottinum. Um daginn fékk ég meira að segja að fara með Sigurði Pétri til Heiðars, og systur hans þær Tanja og Telma léku líka við okkur. Svo fórum við öll heim til okkar að leika inni í smástund, og svo fórum við út og lékum okkur í einni krónu og eltingaleik. Það var sko ótrúlega gaman, stelpurnar voru svo góðar og duglegar að hafa mig með í leiknum og þetta var bara brjálað fjör.

Svo er nú farið að styttast í fínu veisluna okkar þegar mamma og pabbi ætla að gifta sig. Um daginn fórum við að finna föt fyrir okkur bróður minn. Það fannst mér ekki amalegt, ég stóð bara og beið eftir hverjum dýrindiskjólnum á fætur öðrum, rétti hendurnar upp í loftið og konan klæddi mig í þá, alveg eins og prinsessa bara. Ég verð svo agalega fín og bróðir minn líka, mikið hlökkum við öll til!

Um helgina fékk ég að gista hjá afa og ömmu. Það er bara með því besta sem ég veit, þau eru svo góð og skemmtileg og ég sef svo vel hjá þeim. Ég get sko aldrei sofið svona lengi heima hjá mér eins og ég geri hjá þeim. Svo fæ ég svo gott að borða hjá þeim, flatbrauð og hafragraut og "hákon" (beikon). Þegar ég var búin að borða þá fórum við í leikskólann minn þar sem mamma beið eftir okkur. Það var nefnilega veisla í leikskólanum og ég fékk vöfflu. Ég var ekkert sérlega sátt við að fara heim, ég hefði alveg viljað bara vera í leikskólanum allan daginn með mömmu og afa og ömmu með mér.

föstudagur, apríl 22, 2005

Gleðilegt sumar

Þá er sumarið komið og það er nú aldeilis ekki amalegt, ég er bara eiginlega alltaf úti. Það er svo margt skemmtilegt hægt að gera úti, blása sápukúlur, moka mold, hjóla á þríhjólinu og svo fékk ég meira að segja nýtt bleikt tvíhjól með körfu framan á og skrauti á handföngunum. Mér finnst samt svolítið erfitt að hjóla á því, þá er ágætt að hvíla sig aðeins og fara bara aftur á þríhjólið. Svo langaði mig líka að renna mér á skíðum, mömmu fannst það eitthvað fyndið og sagði að það væri ekki hægt af því það væri enginn snjór. Mér fannst nú alveg augljóst að ég gæti bara rennt mér á grasinu, skil ekki alveg hvað er að því.

mánudagur, apríl 18, 2005

Það kom að því

Í gær fór ég á sjúkrahúsið. Ég datt á hökuna mína í sturtunni og fékk svo vont sár að mamma og pabbi brunuðu með mig á sjúkrahúsið, þar sem ég fékk að leika mér við aðra krakka sem voru búnir að meiða sig. Ég fékk að leika lengi lengi, púsla, kubba, lesa og meira að segja blása sápukálur. Þegar ég var búin að leika mér í tvo klukkutíma kom læknirinn. Hann þvoði hökuna mína, setti lím á hana og plástur. Þetta var ósköp vont en ég var samt mikil hetja. Svo fékk ég að fara heim og sofna í pabba bóli.

fimmtudagur, apríl 14, 2005

Foreldrakaffi

Í dag buðum við stúlkurnar foreldrum okkar í kaffi á leikskólanum. Mér finnst alveg ótrúlega gaman að fá pabba og mömmu með í leikskólann, en það er svolítið erfitt fyrir litlar stúlkur að skilja að þau geti ekki verið allan daginn. En svo ætlar mamma að sækja mig eftir smá stund og fara með mig til læknis, það finnst mér gaman. Hann ætlar svolítið að laga mig af því ég datt svo illa aftur fyrir mig um daginn.

(Skýring frá mömmu: Rósalís er að fara í höfuðbeina- og spjaldhryggsjöfnun, það verður spennandi að sjá hvernig það gengur)

mánudagur, apríl 04, 2005

Pabbi í útlöndum

Aumingja pabbi þurfti að fara einu sinni enn til útlanda. Mamma fór sem betur fer ekki, ég er mjög glöð að hafa hana heima og er mikið búin að knúsa hana og segja henni að hún sé besti vinur minn. En ég sakna samt pabba og finn líka mikið til með honum að þurfa að vera í útlöndum. Ég er búin að tala dálítið við hann í síma, ég er orðin afskaplega mannaleg og ræðin í símann, ég sagði pabba til dæmis að það væri kominn snjór hjá okkur. Svo næst þegar ég talaði við hann þá var eiginlega allur snjórinn farinn, þá sagði ég honum að nú væri ekki svo mikill snjór hjá okkur því sólin væri búin að bræða hann. Pabbi spurði þá hvert snjórinn hefði farið, ég hugsaði mig aðeins um og sagði svo, út í sjó! Augljóslega, hvert annað ætti hann svosem að fara. Mamma þurfti að vinna um helgina, svo Tanja og Telma komu og fóru með mér út að leika í snjónum. Ég hjálpaði þeim að búa til snjókall í garðinum okkar. Það var ótrúlega gaman og nú bíð ég bara eftir að þær komi aftur, þær eru svo skemmtilegar.

fimmtudagur, mars 31, 2005

Ég er svo mikill snillingur

Í dag teiknaði ég hausfætlu fyrir mömmu, meira að segja margar. Ég segi punktur, punktur, komma, strik, þetta er hann Óli prik, hálsinn mjór, fætur stór, nú er Óli klár! Og útkoman er tveir punktar einhvers staðar til hliðar og svo haus með tvær lappir. Ótrúlegt hvað ég er flink, mamma á bara ekki orð :-)

þriðjudagur, mars 29, 2005

Páskafrí

Ég dreif mig í páskafríið á fimmtudaginn þó ég væri nú ennþá lasin. Ég var líka ennþá lasin á föstudaginn en á laugardaginn var andstyggilega vonda pensillínið loksins farið að vinna á ljótu bakteríunum svo ég komst í kirkjuna og veisluna hennar Sunnu. Það var sko flott, Sunna var svo fín og Maggi líka, og afi var eins og snjókall (með pípuhatt). Ég var líka algjör pæja með snuddur í tösku og fannst ég vera aðalmanneskjan í veislunni, settist bara hjá ömmu og afa við háborðið og lét fara vel um mig. En við pabbi fórum samt snemma heim því við vorum ósköp þreytt eftir öll veikindin. Á sunnudaginn fékk ég svo að fara í meiri veislu og það var eiginlega ennþá skemmtilegra, ég hljóp um allt, hjálpaði Hilke (mömmu Magga) að sópa og skúra, borðaði jarðarber og skemmti mér hið besta. Ég var mjög svekkt að þurfa að fara heim í páskahúsið okkar og alveg brjáluð að eiga að fara að leggja mig, öskraði á mömmu að ég væri ekki þreytt og vildi fara út á róló og hitta hestana. En svo loksins sofnaði ég samt og svaf í þrjá tíma, svo ég var víst orðin dálítið þreytt. Í gærmorgun fékk ég svo að kíkja á hestana og við pabbi fórum svo út á róló og í langan göngutúr og vorum lengi lengi úti, það var sko gaman. Svo fórum við heim og ég svaf alla leiðina í bílnum, en ég gleymdi að skoða hestana aftur og gefa þeim eitthvað að borða.

miðvikudagur, mars 23, 2005

Já það er fjör

Það er heldur betur fjörið hjá okkur núna. Pabbi varð alveg fárveikur í gær greyið, með háan hita og beinverki. Ég var með pínu hósta, svo þeim mömmu datt í hug að ég væri kannski með streptókokka án þess að vera mjög veik og hefði smitað pabba. Hann verður nefnilega svo veikur af þeim, og þetta gerðist oft svona með Sigurð Pétur þegar hann var minni. Þannig að í morgun fórum við pabbi og mamma til læknis og læknirinn skoðaði í hálsana okkar pabba. Pabbi var með bullandi streptókokka og fékk meðal, en það var ekkert að sjá í hálsinum mínum. Ég var líka alveg eldhress og ekkert lasin. Svo komum við heim, ég sagði við mömmu að ég væri þreytt og vildi fara að sofa í rúminu mínu, og vaknaði rúmum tveimur tímum síðar með bólginn og rauðan háls og næstum 40 stiga hita. Þannig að við mamma fórum aftur til læknis og fengum meðal handa mér. Nú er bara að vona að meðalið láti hendur standa fram úr ermum og reki þessar ljótu bakteríur í burtu á stundinni svo við getum farið að drífa okkur í páskafríið.

mánudagur, mars 21, 2005

Mamma og pabbi komin

Ég var bæði glöð og fegin þegar mamma og pabbi og Sigurður Pétur komu að sækja mig í leikskólann á föstudaginn. Þetta var samt svolítið erfitt, þegar við komum heim þá bara missti ég alla stjórn á tilfinningunum mínum og lagðist bara í gólfið og fór að hágráta. En ég jafnaði mig nú fljótt í mömmufangi með snuddu, svo fékk ég Bangsímon liti og litaði með mömmu og lék við bróður minn og svona, bara hafði það gott í rólegheitunum. Á laugardaginn var ég mjög dugleg á sundnámskeiðinu og svo komu Haukur og Silja til okkar í pössun. Ég var rosa spennt og glöð að fá þau, við Silja erum svo góðar vinkonur og leikum alltaf svo fallega. Haukur og Sigurður Pétur eru líka ósköp góðir vinir, svo þetta er allt eins og best getur verið. Við fengum að fara í heita pottinn og hoppa og sulla. Svo fengum við snakk og horfðum á Spaugstofuna. Daginn eftir fórum við út að drullumalla, við bjuggum til kökur og búðing og urðum mjög drullugar. Svo þurftu Haukur og Silja að fara, en við Sigurður Pétur og Heiðar fengum að fara í bíó að sjá Bangsímon og frílinn. Það var ótrúlega spennandi og skemmtileg mynd, frílamamman kallaði á frílinn og Gúri var fastur og frílamamman bjargaði honum og þeir máttu leika í smástund. Svo er alveg að koma páskafrí, ég er mjög spennt og læt mömmu segja mér oft á dag nákvæmlega hvenær páskafríið komi. Ég er samt dálítið hrædd við páskana, en ég veit nú ekki alveg af hverju það er. Það verður að minnsta kosti örugglega mjög gaman í páskafríinu, þá ætla ég að fara á skíði og í veisluna hjá Sunnu og Magga.

miðvikudagur, mars 16, 2005

Nú fór í verra

Aumingja ég og aumingja Sunna og Maggi. Í nótt fékk ég gubbupest og gubbaði þrisvar sinnum. Og mamma og pabbi bara í útlöndum, haldið þið að þetta sé nú hægt! Sem betur fer virðist þetta hafi verið stutt, ég er núna heima með Sunnu að jafna mig. Vonandi fer ég ekki að smita hana og Magga, svona rétt fyrir stóru veisluna þeirra!

þriðjudagur, mars 15, 2005

Aftur í pössun

Þá eru mamma og pabbi aftur farin til Skotlands, meira flakkið á þeim. Ég er nú aldeilis heppin að hafa þau Sunnu mína og Magga minn á neðri hæðinni, þau eru svo góð að ætla að passa mig á meðan. Amma, afi og Þórður ætla líka að hjálpa þeim, því það er svo voða mikið að gera hjá þeim. Þau eru nefnilega alveg að fara að halda stóra veislu og verða hjón. Ég skil reyndar ekki alveg hver á þá afmæli, það verður kaka svo augljóslega hlýtur einhver að eiga afmæli. Kannski bara Sunna og Maggi bæði... Ég er búin að vera bara nokkuð stillt og góð held ég, að vísu var ég svolítið pirruð fyrsta kvöldið og vildi bara skæla og ekkert fara að sofa eða fá pústið mitt eða neitt. En ég var líka dálítið þreytt þá, ég fór nefnilega í afmælisfjör til Silju og Hauks og Péturs með Sigurði Pétri og mömmu hans, og það var svo gaman að við vorum alveg fram á kvöld. Ég var algjör pæja, tók með mér skó, snuddu og smekk í handtöskunni minni.

Í gærkvöldi vildi ég hins vegar endilega fara að sofa. Þá kom hann Jón hundur í heimsókn, ég var búin að hlakka voða mikið til og ætlaði að gefa honum saltstangir. En svo þegar hann var kominn þá minnkaði hjartað mitt svolítið mikið og ég vildi bara fara í rúmið mitt.

Á laugardaginn, áður en mamma og pabbi fóru, var mikið fjör, þá keyrðum við langt í burtu og upp á snjóinn og Nonni frændi, Anna Margrét og krakkarnir fóru líka. Það var frábært veður og snjórinn alveg frosinn, svo við bara brunuðum alla leið upp á Skjaldbreið. Við reyndum að renna okkur þar á skíðum og bretti en það var svo hart og hált að það gekk ekkert sérlega vel. Svo við fórum aftur niður af fjallinu og fundum góðan stað þar sem við fengum okkur nesti og svo fengum við að sitja á snjóþotu og sleða sem var fest aftan í bílana og fara í marga brjálaða hringi. Það var sko alveg rosalega gaman, við Silja fengum meira að segja að fara saman bara tvær á snjóþotunni. Ég var nú ekki alveg sátt við að hætta í þessu fjöri og fara heim, en ég var samt ekki lengi að sofna þegar við vorum komin af stað og steinsvaf alla leiðina heim.

miðvikudagur, mars 09, 2005

Svo hress

Ég er aftur komin með svolítið ljótan hósta, við mamma erum sammála um að sennilega sé kominn einhver asni í mig og þess vegna fæ ég púst núna til að sjá hvort það dugar ekki til að reka hann í burtu. Ég vil reyndar endilega fara til læknis að láta hlusta á hóstann minn, en mamma vill aðeins bíða og sjá hvort hann lagast ekki. En ég skal segja ykkur það ég er sko heldur betur eiturhress því pústið er nefnilega svo hressandi. Ég hoppa og skoppa um, ætlaði aldrei að fara að sofa í gærkvöldi, og í morgun á leiðinni út í bíl söng ég Ein ég sit og sauma hátt og snjallt fyrir allt Ásahverfið.

þriðjudagur, mars 08, 2005

Febrúar í leikskólanum

Febrúarmyndir af leikskólanum eru komnar, þar getið þið meðal annars séð hvað við vorum flottar á öskudaginn.

mánudagur, mars 07, 2005

Pissað í snjóinn

Í gær fór ég í langan bíltúr með pabba, mömmu, afa og ömmu. Við fórum langt langt þangað til við fundum fullt af snjó, ég pissaði í snjóinn og renndi mér á skíðum og snjóþotu. Pabbi keyrði langt upp í brekkuna og svo renndum við okkur niður á snjóþotu, það var mjög brjálað. Á laugardaginn fórum við mamma með ruslakerru, ég var rosa dugleg að henda öllu ruslinu og mamma hjálpaði líka aðeins til. Það var mjög gaman, mér finnst svo spennandi að fara í ruslaleiðangur.

föstudagur, mars 04, 2005

Janúarmyndir

Af leikskólanum og annað, m.a. skíðaferð í Víðihlíð og afmælið hans Sigurðar Péturs.

Gott veður

Mikið er gaman þegar veðrið er svona gott og hægt að leika úti. Þó það sé reyndar dálítið kalt ennþá, þá bara klæði ég mig vel og fer beint út að leika þegar ég kem heim úr leikskólanum. Ég er orðin afskaplega flink að hjóla á þríhjólinu og svo fer ég líka í gönguferðir með dúkkuna mína í kerrunni sinni. Ég hlakka til þegar það verður hlýrra og mamma kaupir handa mér sandalaskó, það er það sem mig langar mest af öllu í núna.

mánudagur, febrúar 28, 2005

Lína og fleira fjör

Þá eru mamma og pabbi komin heim. Ég var ósköp glöð að sjá þau og fá skemmtilegu Bangsímon-seglana sem þau gáfu mér. Ég var nú samt alveg farin að vera góð við Sunnu og Magga líka, ég þurfti bara aðeins að prófa fyrst hvað ég gæti fengið að ráða miklu. Á laugardaginn komst ég loksins aftur á sundnámskeiðið mitt, ég er búin að missa af þremur tímum í röð því ég er búin að vera lasin. Það var rosa gaman, en dálítið skrýtið að við þekktum engin börn á námskeiðinu. Kannski voru bara allir sem við munum eftir orðnir lasnir. Við mamma vorum alla vega hálfringlaðar en ég var samt mjög dugleg að synda og kafa og sækja dót. Seinnipartinn fóru svo mamma og pabbi og amma og afi í Hjallabrekku í einhverja agalega fína veislu, en amma og afi á Akureyri voru í heimsókn hjá okkur og þau pössuðu okkur systkinin. Það var sko gaman, við fengum að fara út að leika og svo borðuðum við pizzu og horfðum á Spaugstofuna. Í gær var síðan loksins loksins komið að því að ég fékk að fara og sjá Línu Langsokk. Vá hvað hún er flott! Ég var alveg dolfallinn, sat og hélt í tíkarspenana mína þegar hún söng Línu Langsokk lagið og söng með. Hún var líka svo flink að hoppa, nú hoppa ég sko út um allt eins og Lína Langsokkur! Ég var náttúrulega frekar svekkt þegar leikritið var búið og ætlaði þá bara að fá Dýrin í Hálsaskógi næst, fyrst að Lína var búin, en við þurftum því miður að fara heim.

fimmtudagur, febrúar 24, 2005

Í pössun

Mamma og pabbi eru búin að vera í útlöndum í marga daga, Sunna og Maggi eru að passa mig og eru voða góð við mig. Ég er kannski ekki alveg jafn góð við þau, en þau eru líka alltaf að reyna að stjórna mér, segja mér að fara að sofa á kvöldin og í leikskólann á morgnana, maður tekur því nú ekki þegjandi og hljóðalaust! Svo koma mamma og pabbi heim á morgun, þau hlakka bæði ósköp mikið til að koma og knúsa mig, og þá ætlar mamma að biðja mig að syngja lagið um Lillimann klifurmús því ég syng það svo skemmtilega. Það er nefnilega svona:

Lillimann tlifurmúsHér kemur Lillimann klifurmús
en kætinn ber inní sérker bússsem kæti ber inn í sérhvert hús
rrreddlune sönganamússíggmússregluleg söngva- og músíkmús
og meistanagítaslátturmússog meistara gítarsláttumús
tarrallalla
tarrallalla
tarrarallarallalla

föstudagur, febrúar 18, 2005

Allt á réttri leið

Læknirinn skoðaði aftur eyrað mitt áðan og það lítur bara ágætlega út. Ég þarf að fá dropana í nokkra daga í viðbót en svo er ég vonandi loksins að verða frísk. Eins gott líka að ég verði frísk í næstu viku því mamma og pabbi eru að fara til útlanda og Sunna og Maggi ætla að passa mig í húsinu okkar, þá verð ég nú að vera hress og góð stúlka.

þriðjudagur, febrúar 15, 2005

Eyrnabólgan

Annað eyrað mitt er fullt af eyrnabólgu og ég er með hita, svo ég þarf áfram að vera heima. Ég fer nú að verða svolítið leið að komast aldrei í leikskólann! Ég fékk dropa í eyrað hjá lækninum í gær, vonandi reka þeir eyrnabólguna í burtu svo ég þurfi ekki að fá sýklalyf einu sinni enn. En asninn er alla vega næstum farinn og bara nokkuð gott hljóð í lungunum mínum.

mánudagur, febrúar 14, 2005

Sumarfrísfjör

Við fórum aftur í sumarfrí í Víðihlíð um helgina, húrra gaman! Það var frí í leikskólanum mínum á föstudaginn og líka í skólanum hjá Sigurði Pétri, svo við fórum öll saman í Víðihlíð með skíðin mín, snjóþotuna og brettið hans Sigurðar Péturs. Hann var ótrúlega flinkur á brettinu þó hann væri að prófa það í fyrsta skipti, og sagði meira að segja að það væri skemmtilegra að vera á bretti heldur en að hjóla, og þá er sko mikið sagt! Ég var líka mjög dugleg á skíðunum en ég var samt ekki eins mikið úti og bróðir minn því það var dálítið kalt. Þá var nú notalegt að setjast bara inn í bíl og hlusta á tónlist. Svo lékum við bróðir minn líka á fullu inni, hoppuðum og hlupum og fórum í Gutta-leik (annað okkar var óþekkur Gutti og hitt kallaði "Gutti komdu heim"). Þetta var alveg brjálað fjör allt saman. En svo er hitt verri sagan að í gær fór ég að finna til í eyranu mínu og það kom eitthvað blautt í það, svo ég þarf að fara til læknis í dag. Eins og ég er búin að reyna að passa mig að verða ekki kalt og klæða mig vel, kannski verð ég bara að leggjast í hýði eins og múmínálfarnir og vakna aftur þegar vorið kemur. En það er þó bót í máli að amma Gisela og afi Jón eru í heimsókn svo ég get vonandi leikið svolítið við þau í dag.

miðvikudagur, febrúar 09, 2005

Þetta er ekki Bangsímon


Þetta er Rósa sem er alveg eins og Bangsímon. Á þessu er reginmunur sem mér er mikið í mun að halda til haga. En ég fékk semsagt að vera eins og Bangsímon í leikskólanum í dag þar sem það var öskudagur. Vonandi verður líka öskudagur á morgun.

Eftir leikskólann var svo ekki minna gaman, því þá fékk ég loksins að heimsækja hana Katrínu dagmömmuna mína og Hilmar sem heitir pabbi. Það angraði mig reyndar dálítið að Katrín skyldi vera með öðruvísi hár heldur en síðast þegar ég sá hana, en það var samt svo gaman að hitta þau aftur og leika að öllu dótinu. Mamma er búin að lofa að við förum aftur að heimsækja þau fljótlega.

Það er asni í mér

Á mánudaginn fór ég til læknis sem skoðaði mig vel og vandlega. Svo sagði hann að það væri asni í mér og ég skyldi vera dugleg að anda, líka nýja fjólubláa. Þetta heyrði ég allt saman þó mamma og pabbi héldu að ég væri upptekin að skoða bækur og dót, og minnti mömmu á þetta um kvöldið.

Ég er tvisvar búin að fá saltkjöt og súpu og það er sá allra langbesti matur sem ég hef fengið. Ég hámaði í mig súpuna án þess að mega vera að því að segja orð á meðan (og það gerist nú ekki oft að ég megi ekki vera að því að tala) og þegar hún var búin rétti ég fram diskinn og hrópaði MEIRA!

Loks er svo það að frétta að Sunna, Maggi og fuglinn Nemó eru flutt til okkar. Það finnst mér nú ekki amalegt, mér finnast Sunna og Maggi svo skemmtileg og ég er voða spennt fyrir Nemó þó ég sé stundum pínu hrædd við hann. Til dæmis það fyrsta sem ég sagði þegar ég vaknaði í morgun var "má ég skoða Nemó".

þriðjudagur, febrúar 08, 2005

Og svo jólin

Við vorum auðvitað öll voða lasin um jólin, svo það var ekki tekið mikið af myndum. En eitthvað þó, og það er komið hér.

mánudagur, febrúar 07, 2005

Hreindýrið

Hér koma þær loksins, sérstaklega fyrir Siggudís, myndir af hreindýrinu og fleiru úr frægðarförinni miklu í afmæli ME á Egilsstöðum.

föstudagur, febrúar 04, 2005

Fleiri myndir

Nú eru komnar myndir frá því í ágúst, mest ættarmót í Heiðmörk en líka afmælið hans pabba og eitthvað smávegis með, og svo frá því í september sem er náttúrulega aðallega afmælið mitt.

Annars er lítið af mér að frétta, ég er bara eldhress en með ljótan hósta og hryglur. Ég skil samt ekki af hverju ég má ekki heimsækja Katrínu því mér er ekkert illt í puttanum lengur og þá hlýt ég að vera orðin frísk.

fimmtudagur, febrúar 03, 2005

Má ég horfa á Emil, ég er búin að loka augunum

Þetta var það fyrsta sem ég sagði við pabba í morgun þegar ég vaknaði. Í gærkvöldi vildi ég nefnilega fá að horfa á Emil í tölvunni í pabba rúmi, það má stundum þegar maður er lasinn, en þá átti ég að loka augunum. En nú er ég búin að loka augunum og þá má ég horfa á Emil.

miðvikudagur, febrúar 02, 2005

Fjör heima

Það er nú bara gaman að vera svona heima að leika með mömmu og pabba, í gær var pabbi heima að leika við mig og í dag er mamma hjá mér. Aðalfjörið er að fara í blöðruleikinn, þá spörkum við blöðru á milli á ganginum og svo segja mamma eða pabbi, "neinei, þetta má ekki", þegar blaðran fer inn í bílskúr (þ.e. tilvonandi baðið). Svo er líka gaman að hoppa og dansa og fara í æfingu (semsagt hlaupa eftir öllum ganginum og inn í stofu). Ég er ekkert mikið að liggja lasin uppi í rúmi þó ég sé með lungnabólgu, enda finnst mér ég ekkert vera lasin. Ég átti samt voða erfitt með að sofna í gærkvöldi, það var ekki fyrr en mamma gaf mér smá meðal og leyfði mér að sofa í sófanum sem ég gat sofnað. Klukkan var orðin svo margt að mamma og pabbi voru farin að sofa í sínu rúmi en ég vildi bara samt sofa í sófanum inni í stofu.

mánudagur, janúar 31, 2005

Læknisheimsókn

Eftir að hafa suðað í mömmu í allan morgun fékk ég loksins að fara til læknis. Mér var nefnilega svo illt í puttanum. Jú og svo hafði mamma einhverjar áhyggjur af hóstanum mínum og hitanum, og því að ég skyldi öskra á hana í nótt og segja henni að fara og ekki koma við mig. Alla vega kom í ljós að ég er komin með lungnabólgu, svo ég fékk meðal og nýjar snuddur og tannbursta, svo á ég að vera dugleg að anda (pústinu) og sofa (það segir mamma) og má ekkert fara í leikskólann þessa viku.

Í gær var rosa fjör hjá okkur, þá var afmælið hans stóra bróður. Það kom fullt af strákum og svo komu Silja frænka mín og Hugrún Ósk litla systir hans Sigurðar Péturs. Ég var nú svolítið spennt að skoða hana og klappa henni smávegis, en aðalfjörið var að leika alveg brjálað með Silju. Við lékum okkur með blöðrur og í rólunni minni og hoppuðum og öskruðum. Svo horfðum við líka smá á Brúðubílinn og vorum voða góðar. Ég fékk fullt af súkkulaðiköku og snakki og sprengdi margar blöðrur.

fimmtudagur, janúar 27, 2005

Sigurður Pétur kominn heim

Loksins er bróðir minn kominn heim frá útlöndum og nú á hann afmæli! Ég er búin að sakna hans svo mikið og segja öllum sem ég hef hitt síðustu daga að hann sé að fara að koma og sé að fara að eiga afmæli og ég ætli að baka handa honum köku og gefa honum pakka og hjálpa honum að opna pakkana. Ég var svo spennt á leikskólanum í gær, af því ég vissi að hann væri að koma, að ég réði bara ekkert við mig og beit óvart vinkonur mínar nokkrum sinnum.

mánudagur, janúar 24, 2005

Sund, sumarfrí og skíði

Á laugardaginn fór ég í fyrsta tímann á nýja sundnámskeiðinu. Okkur leist bara vel á, þó það væri ekki eins mikið fjör og hjá Jóni og Helgu í ungbarnasundinu. Svo brunuðum við í sumarfríið í Víðihlíð. Þar var fullt af snjó, við vorum smá stund að reyna að komast heim að húsinu en pabbi snillingur keyrði út í móa og stökk yfir skurð og komst á endanum alla leið. Svo fór ég út að leika, á snjóþotu og rúlla mér, og svo fór ég aðeins á skíði. Ég er algjör skíðasnillingur og gat rennt mér alveg sjálf niður smá brekku. Amma og afi og Þórður voru líka í Víðihlíð, mér finnst sko langskemmtilegast að hafa svona margt fólk í kringum mig, þá er svo mikið fjör.

föstudagur, janúar 21, 2005

Og meira um sumarfrí

Nú er bara allt að gerast hjá okkur mömmu, við erum búnar að búa til nýja bloggsíðu um sumarfríið okkar og þar er kominn fyrsti hlutinn af ferðasögunni. Þar eru líka hlekkir á öll myndaalbúmin og síðasta albúmið með Danmerkurmyndunum er komið þar með. Þetta kemur allt með kalda vatninu... :-)

Sumarfrí!!!

Mamma og pabbi sögðu mér í gær að við værum að fara í Víðihlíð um helgina. Að sjálfsögðu veit ég hvað það er, það er sko sumarfrí! Svo í morgun var ég spennt og tilbúin að fara í sumarfrí og vildi alls ekki fara í leikskólann. Sem betur fer er söngfundur og fjör á föstudögum svo það bætti aðeins upp vonbrigðin.

miðvikudagur, janúar 19, 2005

Vandarínur og rínber

Ávextir og ber eru í miklu uppáhaldi hjá mér, sérstaklega eru arraber og rínber með því besta sem ég fæ. Ég er líka mjög hrifin af vandarínum, mér finnst svo gaman að taka utan af þeim og rífa þær niður í báta þó ég borði þær ekki alltaf. Nammi finnst mér hins vegar ekki gott, bara mamma borðar það.

laugardagur, janúar 15, 2005

Eitt og annað

Af mér er allt gott að frétta þessa dagana, ég er alsæl með að fá að vera á leikskólanum allan daginn marga daga í röð og vil helst bara fara strax aftur þegar ég kem heim. Ég er líka alveg hress og ekkert lasin, það er svo gott að vera frískur. En mamma var lasin í gær, greyið hún og greyið ég því hún gat eiginlega ekkert haldið á mér. Sem betur fer er hún hressari í dag og farin að snúast aftur í kringum mig. Pabbi er líka alltaf góður við mig, kitlar mig og heldur á mér og hleypur á eftir mér, það veitir sko ekki af tveimur í fullt starf við að passa mig og leika við mig. Ég er alltaf að læra eitthvað nýtt, í morgun lærði ég til dæmis að ef maður setur rúsínu upp í nefið á sér þá getur hún orðið föst. Mamma gat sem betur fer náð henni úr svo það var allt í lagi. Svo er ég búin að læra ótrúlega fyndna setningu úr Brúðubílnum (uppáhaldinu hennar mömmu), það er "bless kex, kornflex". Þetta er sko húmor í lagi!

miðvikudagur, janúar 12, 2005

Jólaball

Loksins komst ég á jólaball, ég var svo lasin allan desember að ég missti af öllum jólaböllum þá, en nú er ég orðin frísk og hress og fékk að fara á mjónujólaballið á sunnudaginn (mjónurnar eru mömmuhópurinn hennar mömmu minnar). Það var alveg ótrúlega frábærlega skemmtilegt. Fyrst var ég reyndar pínu feimin og mamma átti bara að halda á mér á meðan við dönsuðum í kringum jólatréð. En svo jafnaði ég mig á því og dansaði bara sjálf, leiddi hana Söru Mist og við vildum sko ekkert hætta að dansa í kringum tréð. Svo fengum við alls konar gott í gogginn og hlupum út um allt og skemmtum okkur hið besta. Eftir jólaballið fór ég svo til ömmu og afa í Hjallabrekku þar sem ég braut piparkökuhúsið þeirra og drakk heitt súkkulaði. Ég var nú ekkert hrifin af því að borða húsið sjálf, en vildi endilega gefa öllum öðrum risastóra bita. Sigurður Pétur fékk líka að sprengja brjálaða innisprengju og það var sko allt í rrrrrrrrúst eftir það.

Í gær fékk ég svo heldur betur skemmtilega heimsókn, þá komu Haukur og Pétur og Silja, mamma þeirra (sem er svolítið mín mamma líka finnst mér), amma Gisela og Anna-Lind frænka mín sem á heima í Ameríku. Þetta var sko gaman, við Silja erum orðnar svo góðar vinkonur að ég veit fátt skemmtilegra en annað hvort heimsækja hana eða að hún heimsæki mig.

Já og ég er hætt með bleyju, það var sko ekki mikið mál skal ég segja ykkur.

fimmtudagur, janúar 06, 2005

Stór stúlka

Í dag fór ég ekki með neina bleyju í leikskólann og æfði mig í allan dag að vera bleyjulaus. Það gekk bara nokkuð vel, ég pissaði smávegis í klósettið nokkrum sinnum og gerði eitt og annað í buxurnar nokkrum sinnum, en það gerir ekkert til, mamma verður bara dugleg að þvo fötin mín. Ég var nú svolítið efins fyrst, vildi helst bara vera lítil og fá nýja bleyju, en svo var þetta bara allt í lagi og mér finnst voða gaman að vera stór stúlka og pissa í klósett.

mánudagur, janúar 03, 2005

Loksins loksins

Loksins er ég komin í leikskólann minn, ég var mjög ánægð með að fara þangað í morgun og kvartaði ekkert þó ég væri ægilega sybbin. Ég er líka búin að vera heima meira og minna lasin í rúmar þrjár vikur, það er nú alveg nóg komið. Við vorum nú samt öll orðin nokkuð hress um helgina, á nýársdag fór ég í bíó með bróður mínum, frændsystkinum, mömmu og Jóni afa. Það var auðvitað mikið gaman, eini gallinn við bíó er bara að það skuli enda, ég vildi helst ekkert fara heim. En Haukur, Pétur og Silja komu með okkur heim úr bíóinu og Anna Margrét og Nonni komu svo líka heim til okkar í veislu, svo það var nú alveg frábært fjör.

Annars er það helst í merkisfréttum að mamma var að komast í gegnum nokkrar myndir úr sumarfríinu, nú er komin seinni hlutinn af myndum frá tjaldútilegunni á Vestfjörðum og nokkrar myndir frá því við vorum í Víðihlíð. Svo er mamma byrjuð á ferðasögunni svo hún kemur vonandi fljótlega, og sömuleiðis myndirnar frá Danmörku.

laugardagur, janúar 01, 2005

Partý

Í gær var partý, ég fékk fullt af snakki og ég fékk að sprengja og svo fékk ég að liggja í sófanum og horfa á einhvern fyndinn þátt. Þegar þátturinn var búinn var ég orðin alveg dauðþreytt og fór nú bara beint að sofa. En þetta var mikið fjör og ég skemmti mér hið besta. Á eftir ætla ég svo að sprengja meira með bróður mínum.