mánudagur, maí 09, 2005

Skemmtilegur sunnudagur

Í gær fór ég í sunnudagaskóla. Mamma segir reyndar að það heiti bara messa, það var nefnilega bara prestur en enginn kennari, kennarinn er sennilega farinn í sumarfrí. En það var samt svolítið gaman. Ég nennti reyndar lítið að hlusta á prestinn svo ég fór bara að syngja. Mamma var eitthvað að reyna að sussa á mig en þá fór ég að syngja hærra og þá fórum við fram í smástund. En svo fannst mér nú skemmtilegra þegar var verið að syngja, ég reyndi alltaf að syngja með og í eitt skiptið hélt ég aldeilis að ég þekkti lagið, þá var nefnilega sungið Aaaaaaa-men, en ég náttúrulega hélt bara áfram Aaaaaa, b, c, d :-)

Eftir messuna fór ég í bíltúr með pabba og Sigurði Pétri að kaupa blóm og nammi handa mömmu. Ég valdi nammið og tók fram að það mættu allir fá sér, ég vildi sko líka fá að smakka á namminu hennar mömmu. Svo steinsofnaði ég í bílnum og vaknaði við það að ég var að fara með mömmu og Sigurði Pétri á hátíð í Kópavogi. Það var mjög gaman, við fórum í brjálað tæki (pínulítið parísarhjól) þrisvar sinnum, sáum Ávaxtakörfuna og fengum okkur köku.

Engin ummæli:

Skrifa ummæli