mánudagur, maí 02, 2005

Ýmislegt að frétta

Það mætti halda að sumarið hefði gleypt mig, það er bara búið að vera þvílíkt mikið fjör að ég hef ekkert mátt vera að því að segja ykkur fréttir. Mamma og pabbi og afi eru búin að vera úti að smíða pallinn og við Sigurður Pétur höfum verið á fullu úti að leika í grasinu og moldinni og sulla í heita pottinum. Um daginn fékk ég meira að segja að fara með Sigurði Pétri til Heiðars, og systur hans þær Tanja og Telma léku líka við okkur. Svo fórum við öll heim til okkar að leika inni í smástund, og svo fórum við út og lékum okkur í einni krónu og eltingaleik. Það var sko ótrúlega gaman, stelpurnar voru svo góðar og duglegar að hafa mig með í leiknum og þetta var bara brjálað fjör.

Svo er nú farið að styttast í fínu veisluna okkar þegar mamma og pabbi ætla að gifta sig. Um daginn fórum við að finna föt fyrir okkur bróður minn. Það fannst mér ekki amalegt, ég stóð bara og beið eftir hverjum dýrindiskjólnum á fætur öðrum, rétti hendurnar upp í loftið og konan klæddi mig í þá, alveg eins og prinsessa bara. Ég verð svo agalega fín og bróðir minn líka, mikið hlökkum við öll til!

Um helgina fékk ég að gista hjá afa og ömmu. Það er bara með því besta sem ég veit, þau eru svo góð og skemmtileg og ég sef svo vel hjá þeim. Ég get sko aldrei sofið svona lengi heima hjá mér eins og ég geri hjá þeim. Svo fæ ég svo gott að borða hjá þeim, flatbrauð og hafragraut og "hákon" (beikon). Þegar ég var búin að borða þá fórum við í leikskólann minn þar sem mamma beið eftir okkur. Það var nefnilega veisla í leikskólanum og ég fékk vöfflu. Ég var ekkert sérlega sátt við að fara heim, ég hefði alveg viljað bara vera í leikskólanum allan daginn með mömmu og afa og ömmu með mér.

Engin ummæli:

Skrifa ummæli