fimmtudagur, janúar 18, 2007

Skoppandi lungnabólgusjúklingur

Ég fékk að fylgja litla bróður til læknis í dag. Og af því að ég er búin að vera með leiðinda hósta í viku, og af því að mér finnst svo gaman hjá lækni, þá fékk ég líka smá skoðun. Ég var nú samt ekki mjög lasleg, dansandi um alla biðstofuna á meðan við biðum eftir að fara inn. En það kom í ljós að ég er komin með sýkingu í lungun og fæ meðal. Ég var líka búin að segja mömmu að ég þyrfti að fara til læknis! Ég segi það reyndar dálítið oft, mér finnst frábært fjör að fara til læknis. Og ég fæ semsagt að vera heima einhverja daga í viðbót, ég er búin að vera heima núna í viku að frátöldum einum degi þegar við mamma héldum að ég væri orðin frísk. Við erum búnar að gera ýmislegt skemmtilegt, í dag til dæmis bjuggum við til handa mér hálsfesti og armband úr seríosi og perlum. Svo bjuggum við líka til kórónu því ég vildi vera prinsessa. Ég ákvað síðan að skipta um nafn og tók mér nafnið Perla Lind Prinsessa, sem ég skrifaði á kórónuna.

þriðjudagur, janúar 16, 2007

Lasin í snjónum

Haldið þið að ég hafi ekki bara farið eins og fín frú í heimsókn út í bæ til vinkonu mömmu. Það var afskaplega skemmtilegt, þar var ótrúlega flott dót sem stóra stelpan hennar á, og svo fékk ég súkkulaðisnúð og kókómjólk. Ekki amalegt það!

Ég var því miður lasin heima alla helgina og Sigurður Pétur líka. Mamma bannaði mér líka að fara í leikskólann í gær, mér fannst það ömurlegt af henni >:-( Ég ætlaði ekkert að velja útisvæði og þá fannst mér að ég gæti bara alveg farið í leikskólann. En svo var ég orðin hitalaus í gær og mátti loksins fara í leikskólann aftur í dag. Sigurður Pétur mátti heldur ekki fara í skólann í gær, en hann var nú ekki eins mikið að skammast yfir því eins og ég. En okkur þótti báðum frekar leiðinlegt að geta ekki farið út að leika í öllum snjónum. Gabríel er hins vegar búinn að vera mjög duglegur að hoppa og skoppa og leika sér í snjónum, honum finnst það alveg frábærlega skemmtilegt. Pabbi fór með hann í labbitúr í fjöruna og hann stökk út á krapann í fjörunni þar sem hann sökk, svo pabbi þurfti að stökkva út í og bjarga honum.

mánudagur, janúar 01, 2007

Ég vissi ekki að það myndi verða svona brjálað hjá okkur!

Ég sá í fyrsta skipti áramótaflugeldana í gærkvöldi og vá hvað það var flott og brjálað! Ég var í veislu hjá ömmu og afa í Hjallabrekku með fullt af skemmtilegu fólki og við systkinin vorum sko í fullu fjöri! Það er að segja við Sigurður Pétur, Guðmundur Steinn var nú frekar rólegur og svaf alveg af sér áramótin. Ég sofnaði að vísu yfir áramótaskaupinu, en sem betur fer vaknaði ég aftur fyrir miðnættið, ég hefði örugglega orðið hundfúl ef ég hefði misst af aðal sprengjufjörinu. En ég var nú orðin ansi þreytt, ég var komin í náttfötin og afi hélt á mér út í bíl og pakkaði mér inn í teppi, það var nú notalegt.

Við óskum ykkur öllum gleðilegs árs og takk fyrir allt gamalt og gott.